Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 181/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 28. janúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 181/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda, A, með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, að stofnunin hefði á fundi sínum 24. ágúst 2012 tekið ákvörðun um að fella niður bótarétt hennar frá og með 24. ágúst 2012 í þrjá mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. og 61. gr., sbr. 35. gr. a, laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 26. nóvember 2012. Kærandi krefst sanngirni og leiðréttingar. Vinnumálastofnun telur að þar sem kærandi sinnti ekki þeirri skyldu sem á henni hvílir að tilkynna réttilega vinnu til stofnunarinnar skuli hún sæta viðurlögum í formi þriggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta.

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 2. janúar 2012. Með bréfi, dags. 13. ágúst 2012, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hún hafi starfað sem listmálari og kennari samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í bréfinu var óskað eftir skriflegum skýringum á ótilkynntri vinnu. Þann 16. ágúst 2012 barst stofnuninni skýringarbréf frá kæranda þar sem meðal annars kemur fram að hún hafi haldið tungumála- og listmálunarnámskeið en án þess að hafa haft af því neinar tekjur. Þá tilgreinir kærandi að hún hafi tilkynnt til Vinnumálastofnunar styrk sem hún hlaut í tengslum við Barnamenningarhátíð í apríl 2012, einnig hafi hún gefið upp tekjur vegna tilfallandi vinnu á B sumarið 2012 og tekjur vegna tilfallandi vinnu hjá C.


 

 

Af samskiptasögu kæranda við Vinnumálastofnun má ráða að kærandi tilkynnti fyrirfram um tilfallandi vinnu hjá C dagana 6. júlí, 15. júlí og 7. ágúst 2012. Þá barst stofnuninni launaseðill vegna ágústmánaðar þann 31. ágúst 2012 og launaseðill vegna júlímánaðar barst 3. september 2012. Af samskiptasögu kæranda má einnig ráða að 18. júlí 2012 tilkynnti kærandi um vinnu sína sem verktaki fyrir B dagana 14. júní og 19. júlí 2012. Þá barst stofnuninni tilkynning um tekjur 24. ágúst 2012 vegna styrkgreiðslu frá Reykjavíkurborg.

Í ljósi þess að kærandi tilkynnti ekki stofnuninni um vinnu sína sem námskeiðshaldari var á fundi Vinnumálastofnunar 24. ágúst 2012 tekin sú ákvörðun að fella niður rétt kæranda til greiðslna atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði frá ákvörðunardegi á grundvelli 1. mgr. 59. gr. og 61. gr., sbr. 35. gr. a, laga um atvinnuleysistryggingar. Var kæranda tilkynnt þessi ákvörðun stofnunarinnar með bréfi, dags. 27. ágúst 2012.

Með erindi, dags. 11. september 2012, óskaði kærandi eftir rökstuðningi, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, vegna ákvörðunar um niðurfellingu á rétti hennar til greiðslna atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði. Rökstuðningur var birtur kæranda með bréfi, dags. 24. september 2012.

Í kæru sinni bendir kærandi á að hún hafi greint rétt frá en einhver misskilningur hafi komið upp við meðferð máls hennar. Þess vegna óskar hún eftir skýringum og leiðréttingu.

Kærandi greinir frá því að í svarbréfi hennar til Vinnumálastofnunar hafi komið fram að hún hafi frá árinu 2007, þegar hún flutti til landsins eftir nám, reynt að halda nokkrar sýningar og námskeið með litlum árangri; engar myndir seldar, tveir til þrír nemendur og mjög lág greiðsla þeirra hafi alls ekki verið fyrir kostnaði sem þó hafi verið sáralítill. Kærandi hafi ávallt unnið hlutastarf þegar slíkt hafi verið í boði til að hafa einhverjar tekjur til að lifa af enda þá greinilega ómögulegt að lifa af listinni. Kærandi hafi engar tekjur haft á þeim tíma sem atvinnuleysisbætur voru greiddar út, hvorki sem listamaður né kennari. Einu tekjurnar sem hún hafi haft á því tímabili hafi verið fyrir tilfallandi störf við leiðsagnir og sem leiðsögumaður sem gefið hafi verið upp og tilkynnt til Vinnumálastofnunar.

 


 

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. febrúar 2013, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Á þeim sem fá greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þær upplýsingar sem geti ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysisbóta. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði þar sem þessi skylda er ítrekuð. Í 3. mgr. 9. gr. laganna segi mjög skýrt að sá sem teljist tryggður á grundvelli þessara laga skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um tilfallandi vinnu, hversu lengi vinnan stendur yfir og tekjur fyrir umrædda vinnu.

Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé einnig mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.


 

 

Af þessum ákvæðum sé ljóst að hinum tryggða beri að tilkynna fyrirfram um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar. Í 35. gr. a laganna sé mælt nánar fyrir um hvernig þessi tilkynning á tilfallandi vinnu skuli fara fram. Segi þar að tilkynna skuli til Vinnumálastofnunar hina tilfallandi vinnu með að minnsta kosti eins dags fyrirvara. Heimilt sé þó að tilkynna um vinnuna samdægurs enda sé um tilvik að ræða sem sé þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki hafi verið unnt að gera það fyrr. Í tilkynningunni skuli koma fram upplýsingar um hver vinnan sé, hvar hún fari fram og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu sé ætlað að vara. Af framangreindum lagaákvæðum megi ráða að ekki sé heimilt að tilkynna um tilfallandi vinnu eftir á, enda sé ákvæðið ekki hugsað til þess að koma til móts við hlutastarf hins tryggða. Sé kærandi í föstu hlutastarfi beri honum að tilkynna það starf til stofnunarinnar. Ekki sé unnt að bera fyrir sig vankunnáttu á lögunum í þessu efni. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar sé að finna greinargóðar leiðbeiningar um tilkynningu um vinnu og að auki sé farið ítarlega yfir þær reglur á kynningarfundum stofnunarinnar.

Af skýringarbréfi kæranda, dags. 16. ágúst 2012, megi ráða að kærandi hafi haldið tungumála- og listmálunarnámskeið án þess að hafa tilkynnt stofnuninni um vinnuna. Þá hafi kærandi greint frá því að hún hafi ekki notið tekna af námskeiðshöldunum. Af skýrum ákvæðum 2. mgr. 14. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar leiði að kæranda hafi borið að tilkynna stofnuninni fyrirfram um vinnu sína óháð því hvort vinnunni hafi fylgt tekjur.

Í 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um ítrekunaráhrif vegna fyrri viðurlagabrota.

Af fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda megi sjá að kærandi hafi áður fengið viðurlög í formi tveggja mánaða biðtíma þar sem hún hafði sagt upp starfi sínu hjá D. Þar sem nú sé um að ræða viðurlagaákvörðun í annað skiptið á sama bótatímabili komi hin seinni viðurlagaákvörðun til ítrekunar hinni fyrri, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.


 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. febrúar 2013, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. febrúar 2013. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 18. febrúar 2013, þar sem kærandi segir að Vinnumálastofnun hafi gefið sér að sök að hafa ekki látið vita af námskeiði og ráða megi af öðru innihaldi greinargerðar stofnunarinnar að ekki sé sett út á annað sérstaklega. Þessar upplýsingar hafi ekki borist fyrr en nú, þrátt fyrir beiðni um rökstuðning og refsing skuli vera þriggja mánaða biðtími án greiddra bóta.

Þá útskýrir kærandi nánar hvers eðlis umrætt námskeið hafi verið. Kærandi hafi útbúið hugmynd að námskeiði sem hún auglýsti á Facebook. Enginn þátttökuáhugi reyndist vera og enginn grundvöllur fyrir námskeiðshaldi. Morgunblaðið hafi sýnt þessu áhuga og birt viðtal við kæranda þar sem námskeiðið hafi verið nefnt. Þegar viðtalið hafi verið birt fékk kærandi nokkur símtöl en enginn grundvöllur fyrir að halda námskeið, of lítið af áhugasömum þátttakendum. Grundvöllur fyrir hagnaði hafi því enginn verið og því heldur ekki ástæða til að tilkynna Vinnumálastofnun um verkefnið. Kærandi hafi þó ákveðið að halda þetta þrátt fyrir að sjá ekki fram á að fá fyrir þetta laun og hafi þátttakendur verið dóttir kæranda og vinkona hennar, sem greiddu ekkert þátttökugjald, og tvær aðrar stúlkur en þeirra gjald hafi ekki einu sinni dekkað efniskostnað og annan kostnað af námskeiðinu og því hagnaður verið alls enginn. Kærandi hafi litið á þetta sem alfarið ólaunað tilraunaverkefni, kynningu og sjálfboðastarf til að geta verið með dóttur sinni og sem æfingu í því að kenna myndlist sem kærandi hafði litla sem enga reynslu af, nema sem hluta af starfsþjálfun í myndlist í MH 2008 þegar hún stundaði þar nám í kennslufræði og Barnamenningarhátíð. Þetta hafi því verið góð kynning á myndlist kæranda þar sem Morgunblaðið hafi sýnt þessu áhuga. Myndin í blaðinu sé sviðsett með dóttur kæranda og vinkonu hennar að mála myndir í risherbergi á heimili foreldra kæranda sem hún hafi fengið afnot af á þeim tíma sem vinnustofu.


 

 

Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun hafi ekki getað rökstutt mál sitt í svarbréfum fyrr en nú og sé kærandi mjög fegin að fá loksins að sjá hvað hún sé sökuð um. Þetta hafi allt farið illa í sálina og dregið úr allri löngun hjá kæranda að reyna að skapa sér atvinnu sem listmálari. Kæranda þykir komið fram við sig sem glæpamann. Kærandi hafi rætt við mann hjá skattinum sem hafi ekkert athugavert séð við mál hennar og þótt miður að heyra um þessi vinnubrögð hjá Vinnumálastofnun.

Þá greinir kærandi frá því að hún hafi sent Vinnumálastofnun tölvupóst, dags. 14. júní 2012, þar sem hún hafi látið vita af hádegisleiðsögn fyrirfram hjá B, en Vinnumálastofnun hafi ekki getið þess í greinargerð sinni né hafi borist svör við erindinu frá stofnuninni, eins og oft hafi gerst.

Jafnframt hafi kærandi sent Vinnumálastofnun og Greiðslustofu tölvupóst 8. febrúar 2013 vegna sýningar 9. og 10. febrúar. Óskað hafi verið eftir skriflegu svari en ekkert svar borist nema sjálfvirkt svar Greiðslustofu.

Kærandi fái ekki séð í lagarökum Vinnumálastofnunar að tilkynna beri sjálfboðastarf eða ólaunaða starfsemi og hafi stofnunin ekki getað svarað að svo sé, hvorki munnlega né skriflega. Vitnað sé í lög þar sem fram komi að tilkynna beri breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum. Ekki hafi orðið slíkar breytingar hjá kæranda. Útskýrt sé nánar hvernig tilkynna beri þessa vinnu. Kæranda þyki því vinnubrögð Vinnumálastofnunar ekki til fyrirmyndar.

Loks telur kærandi að Vinnumálastofnun hafi engan rétt til að dæma á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem notaðar séu í rökstuðningi hennar. Hér sé alfarið um að ræða getgátur auk þess sem ekki hafi verið getið allra tölvupósta.

 

2.
Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur síðast 2. janúar 2012. Með bréfi, dags. 13. ágúst 2012 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að kærandi hafi starfað sem listmálari og kennari samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Óskað var skriflegra upplýsinga um ótilkynntar tekjur. Stofnuninni bárust skýringar frá kæranda en sú ákvörðun var tekin að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda um þriggja mánaða skeið, sbr. 1. mgr. 59. gr., og 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs-aðgerða hefur kærandi borið því við að hún hafi hugsað sér að halda námskeið sem hún hafi auglýst á Facebook. Enginn áhugi hafi verið fyrir námskeiðinu og ekki grundvöllur fyrir því að halda það. Því hafi ekki verið ástæða til þess að tilkynna Vinnumálastofnun um námskeiðið. Kærandi hafi þó ákveðið að halda námskeiðið án þess að fá laun fyrir það og hafi þátttakendur verið dóttir hennar og vinkona dótturinnar og hafi þær ekki greitt þátttökugjald og auk þess tvær aðrar stúlkur, en þeirra gjald hafi ekki dekkað efniskostnað og annan kostnað af námskeiðinu og hafi hagnaðurinn því verið enginn. Hafi kærandi litið á þetta sem ólaunað tilraunaverkefni, kynningu og sjálfboðastarf til að geta verið með dóttur sinni og sem æfingu í því að kenna myndlist.

 

Samkvæmt gögnum málsins, svo sem útprentun af Facebook-síðu, auglýsti kærandi fimm daga sumarnámskeið í myndlist fyrir 7‒9 ára gömul börn án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um það fyrirfram. Þegar atvinnuleitandi sinnir tilfallandi vinnu, samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta, ber honum að upplýsa um slíkt fyrir fram, sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Brjóti atvinnuleitandi gegn þessu ákvæði kann hann að sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sinni atvinnuleitandi hlutastarfi, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur, kann hann einnig að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Viðurlög á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru mun meira íþyngjandi en þau sem getið er í 59. gr. laganna. Í ljósi þess að kærandi hélt námskeið í atvinnuskyni, eftir að hún hóf töku atvinnuleysisbóta, og án þess að hún upplýsti fyrir fram um það, verður að leggja til grundvallar að 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi fremur við í máli hennar en 59. gr. laganna. Leggja verður til grundvallar að hin kærða ákvörðun hafi verið reist á röngum lagagrundvelli, þ.e. beita átti fremur 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í málinu en 59. gr. laganna. Þar sem viðurlög skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru afar íþyngjandi í garð atvinnuleitenda verður að veita þeim kost á að leita endurskoðunar á ákvörðun sem reist er á ákvæðinu. Af þessari ástæðu getur úrskurðarnefndin ekki afgreitt málið á þeim lagagrundvelli. Því verður hin kærða ákvörðun ómerkt og Vinnumálastofnun falið að taka málið til löglegrar meðferðar.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 24. ágúst 2012 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hennar í þrjá mánuði er ómerkt og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta