Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 82/2010

 

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. desember 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 82/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. maí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 10. maí 2010 fjallað um fjarveru kæranda á boðuðu námskeiði á vegum Vinnumálastofnunar. Vegna fjarveru kæranda var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í þrjá mánuði frá og með 10. maí 2010 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 18. maí 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 5. janúar 2009. Þann 12. mars 2009 var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar í tvo mánuði frá og með umsóknardegi þar sem hún hafi sagt upp fyrra starfi sínu án gildra ástæðna. Með bréfi dagsettu 15. mars 2010 bauðst kæranda að fara á tölvunámskeið á vegum Vinnumálastofnunar sem átti að hefjast 22. mars 2010, níu kennslustundir alls. Kærandi mætti í fyrsta tímann en mætti ekki í fleiri tíma. Tilraun var gerð til þess að ná í hana, en án árangurs. Þann 7. apríl 2010 náði fulltrúi stofnunarinnar loks sambandi við hana og þá upplýsti hún að hún hefði farið norður í land til að ferma dóttur sína þann 25. mars 2010. Í samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun kemur fram að hún hafi tilkynnt forföll til leiðbeinanda á námskeiðinu í tvö skipti af níu.

Af hálfu kæranda kemur fram að konan sem hafi haldið umrætt tölvunámskeið hafi sagt að það ætti að láta hana vita ef forföll yrðu og kveðst kærandi hafa gert það. Hún kveðst eiga fjórtán ára dóttur og spyr hvernig hún eigi að framfleyta henni í þrjá mánuði.

Vinnumálastofnun sendi kæranda bréf, dags. 27. apríl 2010, þar sem óskað var skýringa á fjarveru hennar á tölvunámskeiðinu. Hún gerði grein fyrir ástæðum fjarveru sinnar í tölvupósti, dags. 28. apríl 2010, og sagðist þar hafa verið fyrir norðan að ferma dóttur sína. Hún kveður það hastarlegt að geta ekkert farið og sérstaklega ekki til að ferma barnið sitt án þess að vera tekin af bótum.

Þar sem kærandi hafði áður hlotið viðurlög vegna brota á ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar, var hún látin sæta ítrekunaráhrifum vegna þess brots sem hér um ræðir, sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. október 2010, segir að í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Fjallað sé um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvörðunar í 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun leggi áherslu á að virk atvinnuleit sé grundvallarþáttur í sjálfu atvinnuleysistryggingakerfinu og því séu úrræði á borð við 1. mgr. 61. gr. beinlínis nauðsynleg til að lög um atvinnuleysistryggingar nái fram tilgangi sínum. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Segi þar að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsúrræða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði uppá. Þá komi einnig fram í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að atvinnuleitandi skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti skv. h-lið án ástæðulausrar tafar.

Fram kemur að ef Vinnumálastofnun berist upplýsingar um forföll á námskeið eftir að það er byrjað, vegna atvika sem kunnar voru þegar viðkomandi var boðaður í vinnumarkaðsúrræði, séu ástæður atvinnuleitanda fyrir orlofstöku í slíkum tilvikum metnar í ljósi 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þ.e.a.s. hvort atvik er um ræði geti talist til breytinga á vinnufærni eða aðstæðum sem kunni að hafa áhrif á atvinnuleit hins tryggða. Slík tilkynning þurfi að hafa borist stofnuninni án ástæðulausrar tafar enda fyrirséð hvaða afleiðingar það hefði í för með sér ef atvinnuleitandi gæti einfaldlega skráð sig í orlof hjá stofnuninni eftir að þátttöku í vinnumarkaðsúrræði væri hafnað. Verði að telja nauðsynlegt að atvinnuleitandi tilkynni það til stofnunarinnar ef hann telji sig ekki geta sótt námskeið sem hann hafi verið boðaður til. Ekki verði séð að þau atvik sem komu í veg fyrir að kærandi gæti sótt námskeið stofnunarinnar hafi komið óvænt upp. Hefði kæranda átt að vera ljóst strax þegar hún var boðuð í umrætt vinnumarkaðsúrræði að hún gæti ekki sótt námskeiðið.

Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að skýring sú er kærandi taki fram í bréfi sínu til stofnunarinnar geti ekki réttlætt fjarveru kæranda í boðaðri vinnumarkaðsaðgerð á vegum stofnunarinnar og að með fjarveru sinni hafi hún brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. nóvember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. nóvember 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.“

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, sbr. g-lið 14. gr. laganna. Ekki er gert ráð fyrir undanþágum frá þessari skyldu, en gera verður ráð fyrir því að til slíkrar þátttöku sé boðað með eðlilegum hætti og kæranda almennt gert mögulegt að taka þátt í slíkum aðgerðum.

Kærandi var boðuð á tölvunámskeið á vegum Vinnumálastofnunar, alls níu kennslustundir. Hún mætti í fyrsta tímann en mætti ekki í fleiri tíma. Í samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun kemur fram að hún hafi tilkynnt forföll til leiðbeinanda á námskeiðinu í tvö skipti af níu. Kærandi gaf þá skýringu á fjarveru sinni að hún hafi verið fyrir norðan að ferma dóttur sína.

Atvinnuleitanda ber að tilkynna Vinnumálastofnun ef hann telur sig ekki geta sótt námskeið sem hann er boðaður til og verður slík tilkynning að berast stofnuninni án ástæðulausrar tafar. Ekki verður séð að þau atvik sem komu í veg fyrir að kærandi gæti sótt umrætt námskeið hafi komið óvænt upp. Henni hefði átt að vera ljóst strax þegar hún var boðuð í umrætt vinnumarkaðsúrræði að hún gæti ekki sótt námskeiðið.

Í ljósi þess sem að framan er ritað og með vísan til rökstuðnings Vinnumálastofnunar að öðru leyti verður ekki talið að skýring kæranda fyrir fjarveru sinni á boðuðu námskeiði réttlætti fjarveru hennar á námskeiðinu. Því ber að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um tímabundna niðurfellingu á rétti hennar til atvinnuleysisbóta. Þar sem kærandi hafði áður hlotið viðurlög vegna brota á ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar sætir hún ítrekunaráhrifum, sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og er réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í þrjá mánuði.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. maí 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í þrjá mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta