Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 535/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 535/2023

Fimmtudaginn 1. febrúar 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. október 2023, um að fella niður rétt hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 24. ágúst 2023 og var umsóknin samþykkt 14. september 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. október 2023, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna ótilkynntrar dvalar erlendis. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. október 2023. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun í kjölfar frekari skýringa hennar, dags. 17. október 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. október 2023, var fyrri ákvörðun staðfest með þeim rökum að sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn í málinu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 8. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 7. desember 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. desember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið á vinnumarkaði frá unglingsaldri og alið upp fjögur börn án þess að hafa nokkurn tímann þegið bætur frá stjórnvöldum. Hún hafi hins vegar alla tíð verið þeirrar trúar að hún ætti ákveðin réttindi á vinnumarkaði ef eitthvað kæmi upp á í lífinu. Kærandi sé mjög ósátt með þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að beita tveggja mánaða refsingu þar sem hún telji sig á engan hátt hafa verið komna á bætur fyrr en 14 september, þegar það hafi verið tilkynnt á mínum síðum, sbr. 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þegar starfsmaður stofnunarinnar hafi haft samband við kæranda nokkrum dögum eftir það hafi hún sagst vera erlendis og hún hafi ekki á nokkurn hátt verið að leyna því. Kærandi hafi talið sig langt frá því að vera brotleg, enda hljóti fulltrúinn sem hafi verið að boða hana á fund ætlað að kynna henni reglur og hvaða væntingar stofnunin gerði til hennar. Á grundvelli stjórnsýslulaga um jafnræðisreglu sé kæranda algerlega óskiljanlegt hvernig þessi refsing eigi að hafa einhvern annan tilgang en að valda henni fjárhaldslegu tjóni og svipta hana framfærslu sem hún hafi talið sig eiga þar til hún hefði fengið atvinnu að nýju. Kærandi óski eftir að úrskurðarnefnd skoði mál hennar en hún áskilji sér allan rétt til að sækja málið með öðrum hætti ef til þess komi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 24. ágúst 2023. Með erindi, dags. 14. september 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Þann 20. september 2023 hafi ráðgjafi Vinnumálastofnunar hringt í uppgefið farsímanúmer kæranda og í því símtali hafi komið fram kærandi væri stödd erlendis. Kærandi hafi ekki tilkynnt um þessa ferð sína erlendis til Vinnumálastofnunar. Þann 20. september 2023 hafi Vinnumálastofnun óskað eftir skriflegum skýringum á því hvers vegna hún hefði ekki tilkynnt fyrir fram um ferð sína erlendis ásamt afriti af flugfarseðlum þar sem brottfarar- og komutími væru tilgreindir. Þann 20. september 2023 hafi borist flugfarseðlar frá kæranda sem hafi einungis verið vegna flugferðar innanlands. Þann 2. október 2023 hafi borist flugfarseðlar frá kæranda sem staðfestu að kærandi hefði sannarlega farið til útlanda þann 12. september 2023 og komið aftur til Íslands þann 26. september 2023.

Með erindi, dags. 3. október 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði þar sem hún hefði látið hjá líða að tilkynna stofnuninni fyrir fram um dvöl sína erlendis. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt að í ljósi þess að hún hefði ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem hún hafi dvalið erlendis fengi hún ekki greiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 12. til 26. september 2023.

Þann 3. október 2023 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda ásamt beiðni um skriflegan rökstuðning á ákvörðun Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi greint frá því hún hefði farið í ferð til útlanda þann 12. september 2023 sem hún hafi pantað með löngum fyrirvara. Kærandi teldi að hún þyrfti ekki að tilkynna Vinnumálastofnun sérstaklega um þá ferð þar sem umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði þá ekki verið samþykkt. Kærandi hafi jafnframt borið fyrir sér reynsluleysi hvað varði að hafa látið hjá líða að tilkynna fyrir fram um ferð sína erlendis. Þann 16. október 2023 hafi kæranda verið birtur skriflegur rökstuðningur á ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. október 2023.

Þann 17. október 2023 hafi borist frekari skýringar frá kæranda á ótilkynntri dvöl hennar erlendis. Kæranda hafi borið fyrir sig að upplýsingaskylda Vinnumálastofnunar stofnist þegar umsókn um atvinnuleysisbætur sé samþykkt. Þá vísi kærandi jafnframt til meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, 9. gr. laga nr. 54/2006 og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 27. október 2023 hafi fyrri ákvörðun, dags. 3. október 2023, í máli kæranda verið staðfest. 

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda í tvo mánuði vegna ótilkynntrar dvalar erlendis.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virki atvinnuleit, sbr. a. liður 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Í c. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum.

Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Þar segi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“

Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitanda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á upplýsingarskyldu hins tryggða. Þar segi orðrétt:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Fyrir liggi að kærandi hafi dvalið erlendis frá 12. til 26. september 2023. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga að vera í virkri atvinnuleit. Það sé jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c. liður 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um þessa utanlandsferð sína líkt og henni hafi borið samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi því verið beitt viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna.

Í skýringum til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi kærandi greint frá því að henni hafi ekki verið kunnugt um að henni bæri að tilkynna stofnuninni um ferðir sínar erlendis. Kærandi hafi jafnframt vísað til þess að hún viti um fjölda fólks sem ferðist erlendis án þess að láta stofnunina vita.

Vinnumálastofnun tekur fram að þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað sé umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar með talið að tilkynna beri um ferðir erlendis. Umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki að þeir hafi lesið og skilið þær upplýsingar sem fram komi í umsókn um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi samþykkt framangreinda skilmála þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni þann 24. ágúst 2023. Einnig hafi kæranda verið sendur tölvupóstur þann 24. ágúst 2023 vegna umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur þar sem bent hafi verið á að ef farið væri erlendis þyrfti að tilkynna það fyrir fram og skila afriti af flugfarseðlum til stofnunarinnar því til staðfestingar. Þá séu víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda á vefsíðu Vinnumálastofnunar. Það sé ljóst að réttindi og skyldur atvinnuleitenda samkvæmt lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar stofnist frá og með umsóknardegi, enda séu atvinnuleysisbætur greiddar frá og með umsóknardegi samkvæmt 29. gr. laganna. Á því tímabili sem atvinnuleitandi fái greiddar atvinnuleysisbætur beri honum að tilkynna Vinnumálastofnun um allar breytingar á högum sínum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006, þar á meðal ferðir sínar utanlands. Atvinnuleitendum beri því að uppfylla allar sínar skyldur við Vinnumálastofnunar á  þeim tíma sem beðið sé úrskurðar um bótarétt. Stofnunin vísi til niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 13/2019 frá 7. mars 2019 er varði viðlíka álitaefni. 

Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um utanlandsferð sína líkt og henni hafi borið. Eins og að framan greini hafi kærandi fengið upplýsingar um réttindi sín og skyldur, þar með talið varðandi tilkynningar á dvölum erlendis. Að öllu framangreindu virtu sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er hafi haft bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga og að hún skuli því sæta viðurlögum í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c. liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 24. ágúst 2023 og tilgreindi að hún gæti hafið störf frá og með 1. september 2023. Óumdeilt er að kærandi var stödd erlendis á tímabilinu 12. til 26. september 2023 en tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um ferð sína. Kærandi hefur vísað til þess að hún telji sig ekki hafa verið komna á atvinnuleysisbætur fyrr en 14. september 2023 þegar henni hafi verið tilkynnt um að umsókn hefði verið samþykkt.

Réttindi og skyldur atvinnuleitenda samkvæmt lögum nr. 54/2006 stofnast almennt frá og með umsóknardegi, enda eru atvinnuleysisbætur almennt greiddar frá umsóknardegi samkvæmt 29. gr. laganna þrátt fyrir að það geti tekið einhverjar vikur að afgreiða umsóknir og ákvarða bótarétt. Þann 24. ágúst 2023 var kæranda send staðfesting á móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur og var hún upplýst um að umsóknin myndi miðast við 1. september 2023. Kæranda var bent á að staðfesta þyrfti atvinnuleit á milli 20. og 25. hvers mánaðar inn á „Mínum síðum“ jafnvel þótt að umsókn væri enn í vinnslu hjá Vinnumálastofnun. Einnig var kæranda greint frá því að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir til útlanda á „Mínum síðum“. Þá var kæranda bent á að ítarlegri upplýsingar um réttindi og skyldur væri að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita af tilkynningarskyldu vegna ferða erlendis, þrátt fyrir að umsókn hennar væri enn í ferli, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér upplýsinga um hvort slík skylda væri fyrir hendi. Verður því fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn upplýsingaskyldu sinni er hún tilkynnti ekki fyrir fram um ferð sína erlendis. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á beitingu viðurlaga við slíku broti. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. október 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta