Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 73/2013

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 7. febrúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 73/2013.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 9. júlí 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði fjallað um rétt hans til biðstyrks á grundvelli reglugerðar um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“, nr. 47/2013, vegna höfnunar hans á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var réttur hans til greiðslu biðstyrks felldur niður frá og með 9. júlí 2013. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 18. júlí 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi fullnýtti rétt sinn til atvinnuleysisbóta 25. mars 2013. Hann sótti um „Liðsstyrk“ hjá Vinnumálastofnun 26. mars 2013 og var umsókn kæranda samþykkt á fundi hjá stofnuninni 27. mars 2013. Með umsókn um „Liðsstyrk“ sótti kærandi jafnframt um „Biðstyrk“ sem greiddur er á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XI við lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og reglugerðar nr. 47/2013.

 


 

 

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 21. júní 2013, kemur fram að stofnuninni hafi borist upplýsingar um að kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali hjá B 31. maí 2013. Ekki hafi náðst í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Honum var bent á að þessar upplýsingar kynnu að leiða til þess að hann missti rétt sinn til greiðslu biðstyrks á grundvelli reglugerðar nr. 47/2013. Vinnumálastofnun óskaði einnig í sama bréfi eftir skriflegri afstöðu kæranda til þessa.

 

Í skýringarbréfi kæranda, dags. 27. júní 2013, sem og í kæru hans til úrskurðarnefndarinnar, kemur fram að honum hafi verið boðið starf hjá C en hann hefði ekki treyst sér í slíkt starf þar sem hann hefði enga reynslu af því sem ætlast hafi verið til af honum. Í kærunni kemur einnig fram að kærandi hefði ekki getað sinnt umræddu starfi þar sem hann væri slæmur í baki og þyldi ekki vinnuna sem honum hafi verið boðin. Þá kemur fram í fyrrgreindu skýringarbréfi kæranda að hann hafi ekki fengið svokallað „missed call“ frá atvinnuráðgjafa B og ef svo hefði verið hefði hann hringt til baka.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. ágúst 2013, bendir stofnunin á bráðabirgðaákvæði XI við lög um atvinnuleysistryggingar. Nánari skilyrði fyrir greiðslu styrks samkvæmt ákvæðinu sé að finna í reglugerð nr. 47/2013. Í 2. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu styrks og tilfelli sem leiða til þess að heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðarinnar fellur niður.

 


 

 

Vinnumálastofnun bendir á að bráðabirgðaákvæði XI við lög um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013 séu skýr um að ef atvinnuleitandi hafnar boði um starf eða starfstengdu vinnumarkaðsúrræði falli niður réttur viðkomandi til greiðslu „biðstyrks“ samkvæmt bráðabirgðaákvæði XI. Það sé mat stofnunarinnar að hafni atvinnuleitandi því að fara í atvinnuviðtal eða sinni ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi það sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst, enda sé atvinnuviðtal meginforsenda þess að viðkomandi verði boðið starf og þyki því mega leggja þá ákvörðun að jöfnu við það að hafna starfi.

 

Í máli þessu liggi fyrir að B hafi ítrekað reynt að hafa samband við kæranda til að bjóða honum starf við garðyrkju, líkt og kærandi hafi áður rætt við atvinnuráðgjafa borgarinnar og ráðgjafa Vinnumálastofnunar, sbr. færslur í samskiptasögu kæranda og skýringarbréf hans. Í skýringarbréfi kæranda hafi hann tekið fram að hann hefði aldrei séð neitt „missed call“ frá atvinnuráðgjafa B og ef svo hefði verið hefði hann hringt til baka. Hins vegar hafi kærandi tekið fram í skýringarbréfi sínu og aftur í kæru til úrskurðarnefndarinnar að honum hefði verið boðið starf hjá C en hann hefði ekki treyst sér í slíkt starf þar sem hann hefði enga reynslu af því sem ætlast væri til af honum. Í kæru sinni bæti kærandi við og taki fram að hann hefði ekki getað sinnt starfinu í C þar sem hann væri slæmur í baki og þyldi ekki þá vinnu sem verið væri að bjóða honum.

 

Fyrir liggi að B hafi reynt að bjóða kæranda starf við garðyrkju. Jafnframt hafi kæranda verið boðið starf hjá C sem hann hafi hafnað sökum reynsluleysis á þeim verkefnum sem hann hafi átt að sinna og vegna þess að hann hafi verið veikur í baki. Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að stofnunin hafi ekki haft upplýsingar um skerta starfsgetu kæranda og því fallist stofnunin ekki á að kærandi geti hafnað starfi sem honum sé boðið með vísan til þess, enda ljóst að kæranda hefði ekki verið boðið slíkt starf ef stofnunin hefði haft viðeigandi upplýsingar. Jafnframt leiði af 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013 og 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI við lög um atvinnuleysistryggingar að fá ef einhver tilvik réttlæti það að sá sem þiggur greiðslu „Biðstyrks“ geti hafnað boði um atvinnu án þess að þurfa að sæta missis réttar síns til greiðslu styrksins, enda hvergi í fyrrgreindum ákvæðum nokkuð vikið að gildum ástæðum fyrir því að hafna starfi eða starfstengdu vinnumarkaðsúrræði.

 

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að stofnunin líti einnig til þess að bráðabirgðaákvæði XI sé ætlað að vera síðasta tilraun til að koma atvinnuleitanda aftur á vinnumarkað enda hafi viðkomandi þegar fullnýtt rétt sinn til greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af þeim sökum leggi Vinnumálastofnun ríka skyldu á herðar atvinnuleitendum að þeir séu móttækilegir fyrir mögulegum atvinnutilboðum sem þeim kunni að berast.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. ágúst 2013, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. ágúst 2013. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. október 2013, var kærandi látinn vita um tafir á afgreiðslu málsins vegna mikils fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI við lög um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði á árinu 2013 geti átt rétt á sérstökum styrk sem nemi fyrri rétti hlutaðeigandi innan atvinnuleysistryggingakerfisins í allt að sex mánuði til viðbótar en þó aldrei til lengri tíma en að því tímamarki að viðkomandi býðst starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að þegar atvinnuleitanda býðst úrræði skv. 1. mgr. falli niður réttur hlutaðeigandi til styrks skv. 1. mgr. Bráðabirgðaákvæði þetta gilti til ársloka 2013, sbr. 3. mgr. ákvæðisins.

 


 

 

Í 2. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 47/2013 er að finna eftirfarandi fyrirmæli:

 

Eftirfarandi skilyrði þurfa að vera uppfyllt fyrir greiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar:

a.      Viðkomandi atvinnuleitandi sé þátttakandi í verkefninu Liðsstyrkur og sé þar með reiðubúinn að taka tilboði um starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða atvinnutengda starfsendurhæfingu í samræmi við ákvæði til bráðabirgða III og IV við reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, með síðari breytingum.

b.      Viðkomandi atvinnuleitandi hafi fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins, sbr. einnig 1. gr.

c.       Viðkomandi atvinnuleitandi hafi sótt um styrk samkvæmt reglugerð þessari áður en honum barst síðasta greiðsla atvinnuleysisbóta innan kerfisins skv. VII. kafla laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum eða áður en því tímabili lauk sem viðkomandi sætti biðtíma eða viðurlögum.

d.      Viðkomandi atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi.

e.       Viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í atvinnuleit á því tímabili sem hann hefur fengið greiddan styrk á grundvelli reglugerðar þessara í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, þar með talið staðfest atvinnuleit sína í hverjum mánuði með sama hætti og meðan hann taldist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

 

Heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar fellur niður ef skilyrði 1. mgr. fyrir greiðslu styrks eru ekki lengur uppfyllt að mati Vinnumálastofnunar. Hið sama á við hafni viðkomandi atvinnuleitandi sannanlegu tilboði um starf sem og tilboði um þátttöku í tilteknu starfstengdu vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar.“

 

Af tilvitnuðu reglugerðarákvæði leiðir meðal annars að Vinnumálastofnun hafi einungis heimild til greiðslu styrksins ef einstaklingur uppfyllir skilyrði reglugerðarinnar. Hið sama eigi við ef atvinnuleitandi hafni sannanlegu tilboði um starf sem og tilboði um þátttöku í tilteknu starfstengdu vinnumarkaðsúrræði.

 


 

 

Umsókn kæranda um „Liðsstyrk“ og „Biðstyrk“ var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar 27. mars 2013. Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 27. júní 2013, nefnir hann að honum hafi verið boðið starf þar en hann hefði ekki treyst sér í slíkt starf þar sem hann hefði enga reynslu af því sem ætlast væri til af honum. Í kæru bætir kærandi við að hann hefði ekki getað sinnt starfinu í C þar sem hann væri veikur í baki og þyldi því ekki slíka vinnu.

 

Í 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 47/2013 kemur fram að Vinnumálstofnun sé falið að meta hvort skilyrði reglugerðarinnar fyrir greiðslu styrks til viðkomandi atvinnuleitanda séu uppfyllt, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar. Í 2. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar segir, eins og rakið hefur verið, að heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðarinnar falli niður ef atvinnuleitandi hafni sannanlegu tilboði um starf. Kærandi hafnaði starfi hjá C sökum reynsluleysis annars vegar og hins vegar vegna þess að hann væri bakveikur en hann hafði ekki áður veitt Vinnumálastofnun upplýsingar um skerta starfsgetu sína.

 

Með vísan til framangreinds og skv. 2. mgr. XI. bráðabirgðaákvæðis laga um atvinnuleysisbætur og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“ er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Í gögnum málsins, eins og þau komu frá Vinnumálastofnun, er að finna nöfn og upplýsingar um sjö aðra einstaklinga sem eru þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“ og varða ekki mál þetta. Telja verður birtingu þessa yfirlitsblaðs, án þess að afmá eða hylja persónugreinanlegar upplýsingar þeirra sjö atvinnuleitenda sem voru í sömu sporum og kærandi, brot á 17. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga. Átelja verður Vinnumálastofnun fyrir þessi mistök.

 

 


 

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júlí 2013 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta