Mál nr. 489/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 489/2022
Fimmtudaginn 15. desember 2022
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 3. október 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. september 2022, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. janúar 2022 og var umsóknin samþykkt 26. janúar 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. september 2022, var kæranda tilkynnt að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 166.769 kr., vegna vinnu hjá B í janúar 2022. Í kjölfar skýringa og frekari gagna frá kæranda var mál hans tekið fyrir að nýju og með ákvörðun, dags. 22. september 2022, var honum tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest en með breytingu á skuldamyndun. Skuld vegna ótilkynntra tekna væri 123.461 kr. en greiðslur vegna orlofs kæmu ekki til skerðingar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. október 2022. Með bréfi, dags. 5. október 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 27. október 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. október 2022. Athugasemdir bárust ekki. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 6. desember 2022, var óskað eftir frekari gögnum frá Vinnumálastofnun vegna kærunnar. Umbeðin gögn bárust 12. desember 2022.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið bréf frá Vinnumálastofnun 12. september 2022 með þeim upplýsingum að hann skuldaði stofnuninni 176.628 kr. Kærandi hafi hringt í Vinnumálastofnun til að fá upplýsingar um skuldina og þá verið tjáð að hann hefði ekki tilkynnt um peninga (orlof) sem hann hafi fengið frá fyrrum vinnuveitanda í janúar 2022. Kærandi hafi þá sent Vinnumálastofnun launaseðil til að hægt væri að endurreikna. Þann 22. september 2022 hafi kærandi síðan fengið bréf frá Vinnumálastofnun þar sem gefið sé í skyn að hann hafi unnið í janúar. Það sé ekki rétt því að hann hafi verið rekinn í nóvember 2021 og uppsagnarfrestur hafi verið til 31. desember 2021 eins og meðfylgjandi gögn sýni.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dagsettri 1. janúar 2022, og reiknast með 100% bótarétt. Með bréfi, dags. 10. maí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunnar og Ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur á kæranda í janúar vegna vinnu hjá B. Í bréfinu hafi verið óskað eftir gögnum um tekjur, svo sem launaseðla, greiðsluseðla eða greiðsluáætlanir. Kærandi hafi ekki skilað umbeðnum gögnum og þá verið tilkynnt að honum bæri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar [2022] til 31. janúar [2022], samtals að fjárhæð 166.769 kr. Kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðunina með bréfi, dags. 12. september 2022.
Í framhaldi hafi borist launaseðill kæranda frá B vegna janúarmánaðar 2022. Launaseðillinn hafi borið þess merki að kærandi hafi unnið 114,36 tíma í janúarmánuði. Mál kæranda hafi verið tekið fyrir að nýju á fundi stofnunarinnar þann 22. september 2022 þar sem ákvörðun hafi verið tekin um að staðfesta ætti ákvörðun stofnunarinnar frá 12. september 2022, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir að ný gögn í máli kæranda hefðu borist. Þó hafi verið gerðar breytingar til lækkunnar frá fyrri ákvörðun. Kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðunina með bréfi, dags. 22. september 2022.
Skuld vegna ótilkynntra tekna í janúar 2022 sé 123.461 kr. Heildarskuld við Vinnumálastofnun sé 133.293 kr. Kærandi hafi skilað launaseðli sem beri þess merki að hann hafi unnið 114,36 klukkustundir í janúar 2022 sem geri samtals 452.437 kr. og sú fjárhæð sé skráð í tekjur til skerðingar á greiðslum atvinnuleysisbóta vegna janúar 2022. Greitt orlof að fjárhæð samtals 61.085 kr. og 35.000 kr. orlofsuppbót vegna áður áunninna réttinda komi ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta lúti að ákvörðunum Vinnumálastofnunar sem hafi verið tilkynntar með bréfum, dags. 12. september 2022, þar sem kæranda hafi verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að teknu tilliti til tekna hans í janúar 2022. Tekjur atvinnuleitenda komi til frádráttar á atvinnuleysisbótum í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 sem sé svohljóðandi:
„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“
Skuld kæranda sé tilkomin vegna tekna frá B í janúar 2022 og af þeim sökum hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Kæranda beri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 133.293 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, sem sé svohljóðandi:
„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“
Samkvæmt framangreindu ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. í frumvarpi til laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð. Kæranda beri að endurgreiða stofnuninni í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun bendi á niðurstöður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011, 101/2012 og 132/2012 því til stuðnings.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 123.461 kr., með vísan til þess að kærandi hefði verið með tekjur frá B í janúar 2022.
Í ákvæði 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:
„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 1. janúar 2022 vegna starfsloka hjá B 31. desember 2021. Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að launaseðill frá fyrirtækinu vegna janúarmánaðar beri þess merki að kærandi hafi unnið 114,36 tíma í þeim mánuði og því kæmu tekjur fyrir þá vinnu til skerðingar á greiðslum atvinnuleysisbóta í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var síðasti starfsdagur kæranda hjá B 31. desember 2021 og átti hann 16 daga í ótekið orlof við starfslok. Á launaseðli vegna janúarmánaðar 2022 kemur fram að kærandi eigi 114,36 tíma í uppsafnaða orlofstíma en einnig kemur fram að hann sé að fá greidda 114,36 tíma í dagvinnu. Þar sem síðasti starfsdagur kæranda hjá fyrirtækinu var eins og áður segir 31. desember 2021 telur úrskurðarnefndin líklegt að um misritun sé að ræða hvað varðar dagvinnutímana. Er því tilefni til að Vinnumálastofnun kanni nánar hjá fyrirtækinu hvort kærandi hafi í raun og veru unnið þar í janúar 2022. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu og vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. september 2022, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir