Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 434/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 434/2023

Fimmtudaginn 14. desember 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. september 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. ágúst 2023.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árunum 2020 til 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. mars 2022, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2020 vegna fjármagnstekna, að fjárhæð 152.702 kr. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júlí 2023, var kæranda synjað um endurupptöku ákvörðunar frá 16. mars 2022, þar sem ekki væri séð að ákvörðunin hefði verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. ágúst 2023, var kæranda veittur rökstuðningur vegna ákvörðunar frá 20. júlí 2023.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 8. september 2023. Með bréfi, dags. 26. september 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 18. október 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. október 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda sama dag.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi kæri Vinnumálastofnun fyrir að uppgefnar tekjur tekjuáranna 2020 og 2021 frá stofnuninni stemmi ekki við skattskýrslur. Vinnumálastofnun vilji ekkert gera í málinu eins og sjá megi af meðfylgjandi rökstuðningi stofnunarinnar frá 15. ágúst 2023. Kærandi telji að hann eigi peninga inni hjá ríkinu. Það hafi nýlega komið í ljós þar sem stofnunin hafi ekki svarað tölvupóstum sem kærandi hafi meðal annars sent á árinu 2022 og því telji hann málið ekki fyrnt. Árið 2021 hafi ekki verið gert upp fyrr en á árinu 2023 með greiðslu kæranda til stofnunarinnar vegna meintra ofgreiddra bóta. Úrskurðarnefnd velferðarmála sé nú með öll gögn undir höndum. Kærandi voni að nefndin fjalli um málið sem fyrst, enda gæti hugsanleg inneign hjá Tryggingastofnun ríkisins fyrnst ef bætur Vinnumálastofnunar hafi verið skráðar rangt á skattframtöl. Þar sem kærandi hafi ekki fengið gögn um greiðslur Vinnumálastofnunar fyrr en löngu eftir að hann hafi beðið um þau, eða fyrst sumarið 2023, hafi hann ekki getað brugðist fyrr við. Kærandi ítreki enn og aftur að málið sé ekki fyrnt. Kæranda beri einnig að hafa skattskýrslur réttar lögum samkvæmt og svoleiðis mál fyrnist ekki svo glatt.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar er vísað til fyrri röksemda í kæru til nefndarinnar. Kærandi sé ekki viss um að Vinnumálastofnun sé að fara með rétt mál miðað við þau gögn sem stofnunin hafi sent honum á fyrri stigum, og séu í fórum úrskurðarnefndarinnar, og hans útreikningi. Kærandi vilji því að sérfræðingar úrskurðarnefndarinnar kanni málið mjög rækilega og taki tillit til allra gagna í málinu. 

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fyrst sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga 20. maí 2020 og umsókn hans hafi verið samþykkt 28. júlí 2020 með niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði vegna starfsloka hans. Þeirri ákvörðun hafi verið hrundið 23. september 2020 eftir að ný gögn í máli kæranda hafi borist stofnuninni. Kærandi hafi verið afskráður þann 1. október 2021. Kærandi hafi aftur sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga 6. apríl 2022. Umsókn hans hafi verið samþykkt 4. maí 2022. Kærandi hafi verið afskráður þann 18. september 2022.

Í kjölfar eftirlits Vinnumálastofnunar hafi komið í ljós að kærandi hefði fengið greiddar fjármagnstekjur, samtals að fjárhæð 1.107.779 kr. vegna ársins 2020 og 1.511.292 kr. vegna ársins 2021. Með erindi, dags. 16. mars 2022, hafi þess verið óskað að kærandi afhenti stofnuninni skattframtal vegna tekjuskattsársins 2020 ásamt fylgigögnum. Með erindi, dags. 2. mars 2023, hafi þess verið óskað að kærandi afhenti stofnuninni skattframtal vegna tekjuskattsársins 2021 ásamt fylgigögnum. Kærandi hafi afhent gögn í báðum tilvikum.

Ákvarðanir um skerðingar og innheimtu vegna fjármagnstekna hafi verið teknar á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þær ákvarðanir hafi verið byggðar á upplýsingum frá Ríkisskattstjóra. 

Kærandi fari fram á að Vinnumálastofnun leiðrétti skattstofn áranna 2020 og 2021 samkvæmt þeim framlögðu gögnum sem hafi fylgt með kæru, sérstaklega skattframtölum viðkomandi tekjuára. Við skoðun á skráningu á tekjuskattstofni og fjármagnstekjustofni kæranda fyrir viðkomandi ár sé ljóst að leiðréttinga sé ekki þörf. Fjármagnstekjur kæranda séu réttilega skráðar á bæði ár hjá stofnuninni og í samræmi við gögn sem bæði skattframtöl kæranda beri með sér sem og gögn frá Ríkisskattstjóra sem Vinnumálastofnun hafi byggt ákvarðanir sínar á.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um frádrátt vegna tekna. Ákvæði 1. mgr. 36. gr. hljóði svo:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Af framangreindu ákvæði sé ljóst að fjármagnstekjur séu á meðal þeirra tekna sem komi til frádráttar atvinnuleysisbótum. Fyrir liggi að kærandi hafi aflað fjármagnstekna á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Tekjur kæranda komi því til frádráttar atvinnuleysisbótum hans í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 3. gr. þágildandi reglugerða nr. 1236/2019 og 1296/2020, settum með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, hafi frítekjumark verið 71.262 kr. á mánuði á árinu 2020 og 73.827 kr. á mánuði  2021. Bæði árin 2020 og 2021 hafi mánaðarlegar tekjur kæranda numið hærri fjárhæð en frítekjumark atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi ekki tilkynnt inn á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar um neinar fjármagnstekjur, hvorki söluhagnað í þeim þremur tilvikum sem um ræði, né vaxtatekjur. Því hafi kærandi myndað skuld við Vinnumálastofnun.

Í 2. mgr. 39. gr. sé kveðið á um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Í ákvæðinu sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum með 39. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé þannig fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. 

Fjármagnstekjur kæranda séu eins skráðar í kerfi Vinnumálastofnunar og þær komi fram í gögnum Ríkisskattstjóra. Árið 2020 séu skráðar fjármagnstekjur upp á 1.107.780 kr. í skattframtali, í gögnum frá Ríkisskattstjóra og hjá Vinnumálastofnun. Árið 2021 séu skráðar fjármagnstekjur upp á 1.511.292 kr. í skattframtali, í gögnum frá Ríkisskattstjóra og hjá Vinnumálastofnun. Við útreikning á skuld kæranda við Vinnumálastofnun hafi því heildar fjármagnstekjum kæranda verið deilt niður á 12 mánuði. Af þeim útreikningi leiði að kærandi hafi verið með 92.315 kr. í fjármagnstekjur á mánuði árið 2020 og 125.941 kr. í fjármagnstekjur á mánuði árið 2021.

Með vísan til þess sem að framan greini sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna skuli kröfum kæranda, enda séu þær uppfylltar. Skerðingar á grundvelli fjármagnstekna séu í fullkomnu samræmi við gögn frá Ríkisskattstjóra sem og skráðar fjármagnstekjur í framtölum kæranda.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 15. ágúst 2023, þar sem ákvörðun stofnunarinnar, dags. 20. júlí 2023, var rökstudd en með þeirri ákvörðun var kæranda synjað um endurupptöku ákvörðunar frá 16. mars 2022 um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna fjármagnstekna kæranda á árinu 2020.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Aðili máls kann einnig að eiga rétt á endurupptöku máls á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef efnislegur annmarki er á ákvörðun stjórnvalds.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekki verði ráðið af gögnum málsins að ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna fjármagnstekna kæranda á árinu 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða að íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en fyrir liggur að skráðar fjármagnstekjur hjá Vinnumálastofnun eru í samræmi við skattframtal kæranda vegna tekna þess árs. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Auk þess verður ekki ráðið af gögnum málsins að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 16. mars 2022 staðfest.   


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júlí 2023, um að synja beiðni A, um endurupptöku ákvörðunar frá 16. mars 2022, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta