Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 101/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 101/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. maí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, Reykjavík, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar hefði hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2011. Um væri að ræða skerðingu bóta vegna hlutastarfs og skuldin yrði innheimt á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún væri ekki lengur skráð sem atvinnuleitandi. Kæranda var gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 470.263 kr. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru móttekinni 7. júní 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 4. janúar 2011, samhliða 50% hlutastarfi hjá B og fékk hún greiddar atvinnuleysistryggingar.

 Í gögnum málsins kemur fram að þau mistök hafi verið gerð af hálfu Vinnumálastofnunar að hlutastarf kæranda hafi verið afmáð úr greiðslukerfi stofnunarinnar 7. febrúar 2011. Á fundi stofnunarinnar 2. febrúar 2012 var hlutastarfaskráningu kæranda breytt afturvirkt. Kærandi hafði þá fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2011, samtals 470.263 kr. sem henni bar að endurgreiða í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ekkert álag var lagt á skuld kæranda þar sem henni var ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Vinnumálastofnun skoraði á kæranda með bréfi, dags. 8. maí 2012, að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 31. júlí 2011 samtals 470.263 kr. sem henni bæri að endurgreiða á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 6. júní 2012, að hún hafi þegið atvinnuleysisbætur frá stofnuninni fyrst árið 1993 og síðar 4. janúar 2011 en þá hafi hún þegið bætur sem nemi 50% atvinnuleysi. Hún hafi þá verið í 50% starfi hjá C Kærandi hafi tilkynnt stofnuninni, afhent launaseðil sem sýndu tekjur hennar og starfshlutfall hjá vinnuveitanda sínum í viðtali hjá stofnuninni 14. janúar 2011. Kærandi hafi svo komið í viðtal hjá stofnuninni 5. ágúst 2011 og látið vita að hún væri komin í 100% starfshlutfall hjá vinnuveitanda sínum frá og með 2. ágúst 2011. Kærandi kveðst hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur sem hafi numið því að hún hafi verið atvinnulaus að fullu frá marsmánuði til júlímánaðar 2011 en ekki sem nemi raunverulegu atvinnuleysi hennar til hálfs. Kærandi greinir frá því að hún hafi verið grandlaus gagnvart því að hún hlyti greiðslur frá stofnuninni þar sem hún hafði þegar sinnt allri upplýsingaskyldu sinni, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá vísar kærandi enn fremur í traustfangskenningu samningaréttar um að móttakandi greiðslu sé í trausti þess að hún eigi rétt á henni.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. mars 2013, kemur fram að skuld kæranda við stofnunina eigi rætur sínar að rekja til þess að hlutastarfaskráning hennar hafi verið afmáð úr greiðslukerfi Vinnumálastofnunar 7. febrúar 2011. Hún hafi verið í 50% hlutastarfi samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2010 en sökum þess að skráning hennar í hlutastarf var afmáð hafi hún fengið greiddar atvinnuleysisbætur án þess að til skerðingar kæmi vegna hlutastarfs, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hefðu tekjur hennar vegna hlutastarfsins enn fremur átt að koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Vinnumálastofnun greinir frá því að sökum þess að hlutastarfaskráning og tekjuskráning kæranda hafi verið leiðrétt afturvirkt hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2011 og safnaðist því upp í skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar á sama tíma og kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá stofnuninni.

 Vinnumálastofnun vísar til þess að í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysistryggingar. Þá vísar stofnunin til þess að skuldamyndun kæranda verði ekki rakin til ástæðna er varða hana sjálfa, svo sem að upplýsingaskyldu samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar hafi ekki verið sinnt, heldur hafi verið um að ræða mistök af hálfu stofnunarinnar, þá hafi álag á skuld hennar verið fellt niður í samræmi við 3. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Vinnumálastofnun bendir sérstaklega á að í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Í því samhengi bendir Vinnumálastofnun á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 49/2010.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. apríl 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 16. apríl 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að því að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. janúar til 31. júlí 2011 að fjárhæð 470.263 kr. vegna mistaka Vinnumálastofnunar sem afmáði hlutastarfaskráningu kæranda úr greiðslukerfi stofnunarinnar 7. febrúar 2011. Mistökin verða að engu leyti rakin til ástæðna er varða kæranda.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum segir:

 ,,Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

 Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa eru engin rök til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta vegna þess að viðurkennt er af hálfu Vinnumálastofnunar að ástæða þess sé mistök stofnunarinnar.

 Í 17. og 22. gr., sbr. 32. og 34. gr., laga um atvinnuleysistryggingar er nákvæm útlistun á því hvernig reikna skuli þær hámarksbætur sem hinn tryggði getur átt rétt á úr sjóðnum. Kærandi fékk ofgreiddar bætur að fjárhæð 470.263 kr. á tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2011 og er sá útreikningur Vinnumálastofnunar ekki vefengdur.

 Ekki verður hjá því komist að staðfesta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar Vinnumálastofnunar enda er hún í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. framantalin lagaákvæði. Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 26. mars 2013, kemur fram að þar sem skuldamyndunin verði ekki rakin til ástæðna er varða kæranda sjálfa, hafi stofnunin ákveðið að fella niður 15% álag á skuld hennar í samræmi við 3. málsl. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er að mati kærunefndarinnar ekki ástæða til að gera athugasemd við þá ákvörðun.

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A sem tilkynnt var henni í bréfi, dags. 8. maí 2012, um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. janúar til 31. júlí 2011 er staðfest. Kærandi skal greiða 470.263 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta