Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 325/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 325/2023

Föstudaginn 6. október 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. maí 2023, um að ekki væri tilefni til að endurskoða greiðslur hlutabóta til hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun á tímabilinu mars 2020 til apríl 2021 samhliða minnkuðu starfshlutfalli hjá B ehf. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 3. maí 2022, var kæranda boðið að óska eftir endurútreikningi á hlutabótum með vísan til niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála í nokkrum tilgreindum málum þess efnis að orlof og orlofsuppbót skyldu ekki koma til skerðingar á atvinnuleysisbótum í þeim mánuði sem sú greiðsla var innt af hendi. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. maí 2023, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði metið innsend gögn frá honum vegna endurskoðunar á greiðslum hlutabóta. Það væri ákvörðun stofnunarinnar að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar í máli hans.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. júní 2023. Með bréfi, dags. 7. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 8. ágúst 2023. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 24. ágúst 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann vilji kæra nokkra hluti sem varði mál hans. Í fyrsta lagi svari Vinnumálastofnun ekki bréfum nema eftir ítrekanir og gefi engin málanúmer. Kærandi viðurkenni þó að þetta virðist ekki einungis eiga við hann sjálfan, enda leyfi stofnunin sér sama skeytingarleysi bæði gagnvart umboðsmanni Alþingis og félagsmálaráðuneytinu. Í öðru lagi hafi komið úrskurður frá úrskurðarnefnd velferðarmála þess efnis að Vinnumálastofnun væri óheimilt að lækka atvinnuleysisbætur vegna orlofs. Kærandi hafi fengið orlof borgað út jafnóðum, hafi skilað inn launaseðlum en hafi fengið neitun. Kærandi myndi vilja fá sitt mál leiðrétt en það sem skipti meira máli sé að hann vilji sjá að Vinnumálastofnun fari eftir úrskurði nefndarinnar er aðra varði. Ef kæranda sé neitað sé augljóslega eitthvað að framkvæmdinni. Einnig vilji kærandi sjá að stofnunin borgi dráttarvexti af þeirri fjárhæð sem hún skuldi fólki, sérstaklega þar sem stofnunin sé fyrst núna að fara eftir úrskurðinum. Í þriðja lagi hafi Vinnumálastofnun gefið fólki sex virka daga til gagnaöflunar og til að sækja rétt sinn eftir úrskurð nefndarinnar. Úrskurðarnefnd hafi sjálf tekið sér 377 daga til að vinna úr þeim gögnum. Kærandi telji að það standist ekki lög að gefa fólki svo stuttan tíma til gagnaöflunar. Einnig telji kærandi ranglæti fólgið í því að senda fólki smáskilaboð og setja það í hendur bótaþega að sækja rétt sinn. Vinnumálastofnun hafi verið dæmd til að borga þær bætur sem fólk hafi verið hlunnfarið um og ætti stofnunin að leita allra mögulegra leiða til þess að ganga frá því sjálf. Í tilviki kæranda sem dæmi hafi stofnunin verið með launaseðla sem hann hafi þurft að skila inn þegar hann hafi farið á bætur. Á þeim launaseðlum sjáist að orlof sé borgað út jafnóðum. Jafnframt ætti Vinnumálastofnun að geta bakreiknað hvort að verið sé að reikna út orlof miðað við útkomu launaseðla, í það minnsta sé bókari kæranda fær um að reikna út orlofið.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að með umsókn, dags. 18. mars 2020, hafi kærandi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta á meðan hann starfaði í minnkuðu starfshlutfalli, eða á svokallaðri hlutabótaleið, sbr. þágildandi XIII. ákvæði til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi á tímabilinu mars 2020 til júní 2020 þegið 75% atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á móti 25% launagreiðslu frá B ehf., en kærandi sé sjálfur 50% eigandi umrædds félags. Á tímabilinu júlí 2020 til apríl 2021 hafi kærandi þegið 50% atvinnuleysisbætur á móti 50% launagreiðslu frá B ehf.

Þann 3. maí 2022, í kjölfar þess að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi birt úrskurði sína í málum nr. 521, 530 og 534/2021, hafi öllum þeim sem höfðu fengið greiddar hlutabætur frá Vinnumálastofnun árin 2020 og 2021 verið sendur tölvupóstur. Þeim hafi verið tjáð að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í framangreindum málum kynni að hafa áhrif á útreikning atvinnuleysisbóta til þeirra og að þeim stæði því til boða að óska eftir endurútreikningi. Beiðni um endurútreikning skyldi þó berast Vinnumálastofnun fyrir 11. maí, ásamt launaseðlum fyrir þá mánuði sem orlof hafi verið greitt út. Kærandi hafi samdægurs sent Vinnumálastofnun tölvupóst og óskað skýringa á möguleikum sínum til endurútreiknings á hlutabótum. Kærandi hafi jafnframt gert athugasemd við það að honum væri aðeins gefinn sex virkra daga frestur til að afla umbeðinna gagna svo hann gæti sótt rétt sinn til endurútreiknings. Kærandi hafi tekið fram að hann teldi Vinnumálastofnun þegar búa yfir öllum nauðsynlegum upplýsingum. Þá hafi kærandi óskað svara við því hvort Vinnumálastofnun hygðist endurgreiða bótaþegum vangreiddar hlutabætur, auk 15% álags. Tölvupósti kæranda hafi verið svarað þann 9. maí 2022 og honum hafi meðal annars verið tjáð að umrædd gögn þyrftu að berast stofnuninni svo hægt væri að taka beiðni hans til úrlausnar.

Kærandi hafi aftur sent Vinnumálastofnun tölvupóst sama dag, þann 9. maí 2022, þar sem fram komi að hann teldi það letjandi fyrir bæði hann og aðra bótaþega að þurfa að afla umbeðinna gagna til þess að sækja rétt sinn. Kærandi hafi jafnframt ítrekaði að Vinnumálastofnun ætti að búa yfir öllum nauðsynlegum gögnum, enda hefði stofnunin fengið alla hans launaseðla senda frá upphafi. Þann 10. maí 2022 hafi kærandi sent stofnuninni umbeðna launaseðla.

Þann 25. júlí 2022 hafi kærandi sent Vinnumálastofnun tölvupóst og tekið fram að hann hefði afhent stofnuninni umbeðin gögn. Hann hafi hins vegar ekki fengið nein svör vegna möguleika hans á endurútreikningi hlutabóta. Framangreindu erindi kæranda hafi verið svarað af Vinnumálastofnun þann 15. september 2022. Í tölvupósti hafi verið greint frá því að undanfarna mánuði hefði stofnunin unnið að innleiðingu nýs tölvukerfis. Innleiðing tölvukerfisins hefði reynst töluvert flóknara og umfangsmeira verkefni en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Af þeirri ástæðu hefði myndast mikil töf á innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, greiðsludreifingum og leiðréttingum á hlutabótaskuldum. Kæranda hafi verið tjáð að allar beiðnir yrðu teknar fyrir í þeirri röð sem þær bærust um leið og innleiðing nýs tölvukerfis væri komin nægilega vel á leið.

Kærandi hafi kvartað til umboðsmanns Alþingis þann 9. nóvember 2022. Sú kvörtun hafi beint að framkvæmd Vinnumálastofnunar við endurútreikning bóta vegna þeirra sem höfðu fengið greitt uppsafnað orlof eða orlofsuppbót á meðan þeir hafi verið á hlutabótum. Umboðsmaður hafi lokið athugun sinni á kvörtun kæranda þann 7. febrúar 2023. Það hafi verið mat umboðsmanns að þær tafir sem hafi orðið á afgreiðslu máls kæranda hefðu verið af almennum orsökum en ekki varðað hans mál sérstaklega. Umboðsmaður hafi beint því til kæranda að freista þess að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála teldi hann afgreiðslu máls hans hafa dregist óhæfilega hjá stofnuninni.

Í maí 2023 hafi Vinnumálastofnun lokið við afgreiðslu þeirra beiðna er vörðuðu endurútreikning bóta vegna þeirra sem höfðu fengið greitt uppsafnað orlof eða orlofsuppbót árin 2020 til 2021 á meðan þeir hafi verið á hlutabótum. Með erindi, dags. 16. maí 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að í kjölfar mats á innsendum gögnum í máli hans væri það niðurstaða stofnunarinnar að ekki væri tilefni til að aðhafast frekar í máli hans. Fyrir mistök hafi kæranda verið sent annað erindi, dags. 16. júní 2023, en það erindi varði ekki afgreiðslu á beiðni hans um endurútreikning hlutabóta.

Lög nr. 56/2004 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistrygginga launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Ágreiningur í máli þessu snúi einkum að því hvort kærandi hafi átt rétt til endurútreiknings hlutabóta í kjölfar áðurnefndra úrskurða nefndarinnar í málum nr. 521, 530 og 534/2021. Líkt og áður segi hafi kærandi starfað í minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og XIII. ákvæði til bráðabirgða sömu laga, á tímabilinu mars 2020 til apríl 2021. Ákvæði 1. mgr. XIII. ákvæðis hafi verið svohljóðandi:

„Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Atvinnurekanda er óheimilt að krefjast vinnuframlags frá launamanni umfram það starfshlutfall sem eftir stendur þegar starfshlutfall hefur verið minnkað.“

Í 2. mgr. og 3. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða sé nánar kveðið á upphæð greiðslu atvinnuleysisbóta til þeirra sem starfi á hlutabótaleið. Ákvæðið hafi verið svohljóðandi:

„Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starfs sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skal ekki sæta skerðingu skv. 2. málsl. 2. mgr. ef meðaltal heildarlauna launamanns er undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf. Ef meðaltal heildarlauna launamanns er yfir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf má skerðing skv. 2. málsl. 2. mgr. aldrei verða til þess að samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta samkvæmt þessu ákvæði nemi samanlagt lægri fjárhæð en 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf.“

Á grundvelli 2. og 3. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða hafi greiðslur til kæranda verið skertar. Meginástæða þeirrar skerðingar hafi verið sú að rauntekjur kæranda hafi verið hærri en þær tekjur sem kærandi hafi áætlað.

Á meðal fyrirliggjandi gagna í máli þessu séu launaseðlar vegna tímabilsins september 2020 til mars 2021. Á öllum þeim launaseðlum megi sjá að kærandi hafi fengið greidd orlofslaun, að upphæð 27.202 kr., auk orlofsuppbótar, að upphæð 1.882 kr. í hverjum mánuði. Líkt og segi í síðasta málslið 2. mgr. XIII. ákvæðis til bráðabirgða teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir til launa og skuli í því samhengi horfa til laga nr. 113/1990 um tryggingagjald. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um tryggingagjald teljist til gjaldstofns tryggingagjalds hvers konar laun og þóknanir, þar með talið orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof.

Beiðni kæranda um endurútreikning hafi verið hafnað sökum þess að það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að aðstæður kæranda væru ekki sambærilegar þeim sem hafi verið uppi í áðurnefndum úrskurðum nefndarinnar. Í þeim tilvikum hafi verið um að ræða áunnin og uppsöfnuð orlofslaun og orlofsuppbót, sem ýmist hafi verið greidd út eftir að ávinnslutímabili orlofslauna hafi lokið eða við starfslok. Niðurstöður úrskurðarnefndarinnar í umræddum málum séu á þá leið að í slíkum aðstæðum geti uppsafnað orlof og orlofsuppbót ekki talist til launa fyrir þann mánuð sem þau séu greidd út þar sem um áunnin réttindi sé að ræða sem hafi verið greidd út eftir á. Aftur á móti liggi fyrir að kærandi hafi fengið orlofslaun greidd jafnóðum, mánaðarlega samhliða venjubundnum launagreiðslum. Ávinnsla orlofslauna og útborgun þeirra hafi því farið fram í sama mánuðinum. Með vísan til XIII. ákvæðis til bráðabirgða í lögum um atvinnuleysistryggingar, laga um tryggingagjald og áðurnefndra úrskurða úrskurðarnefndarinnar sé það mat Vinnumálastofnunar að þau orlofslaun og orlofsuppbót sem kærandi hafi fengið greidd samhliða venjubundnum launagreiðslum skuli telja með þegar reiknuð séu laun hans frá vinnuveitanda og því komi þau til skerðingar hlutabóta til jafns við aðrar skattskyldar tekjur.

Kærandi hafi í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar jafnframt gert athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar. Kærandi geri meðal annars athugasemdir við það hversu lengi afgreiðsla máls hans hafi dregist. Eins og rakið hafi verið megi rekja þær tafir sem hafi orðið á afgreiðslu beiðna um endurútreikning hlutabóta vegna þeirra sem höfðu fengið greitt út orlof til innleiðingar nýs tölvukerfis. Hið nýja tölvukerfi hafi tekið til nær allra þátta starfsemi stofnunarinnar og því um að ræða umfangsmiklar breytingar. Lengi hafi verið leitað lausna til að afgreiða beiðnir um endurútreikning á hagkvæman og farsælan hátt. Kæranda hafi með tölvupósti 15. september verið greint frá fyrirsjáanlegum töfum á máli hans vegna þessa.

Kærandi geri jafnframt athugasemd við það að stofnunin hvorki svari erindum hans né úthluti honum málanúmeri. Vinnumálastofnun biðji kæranda velvirðingar á því að í sumum tilfellum hafi hann þurft að bíða lengi eftir svörum stofnunarinnar. Þá hafi Vinnumálastofnun ekki haft þann hátt á að úthluta skjólstæðingum stofnunarinnar sérstöku málanúmeri.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar geri kærandi athugasemd við þann frest sem einstaklingum hafi verið veittur til að afla gagna í kjölfar þess að þeim hafi verið tilkynnt að þeir ættu mögulega rétt til endurútreiknings hlutabóta. Að mati Vinnumálastofnunar hafi kæranda verið veittur hæfilegur frestur til að afla umbeðinna gagna, enda um að ræða launaseðla sem alla jafna ættu að vera honum vel aðgengilegir. Þá hafi kærandi afhent Vinnumálastofnun umbeðin gögn innan þess frests sem honum hafi verið veittur og því óljóst að mati stofnunarinnar að hverju málatilbúnaður kæranda að þessu leyti snúi.

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar, í kjölfar þess mats sem hafi verið lagt á gögn í máli hans, að það hafi borið að hafna beiðni hans um endurútreikning hlutabóta.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. maí 2023, um að ekki væri tilefni til að endurskoða greiðslur hlutabóta til kæranda en hann þáði slíkar greiðslur á tímabilinu mars 2020 til apríl 2021. Kærandi hafði óskað eftir endurútreikningi vegna úrskurða úrskurðarnefndar velferðarmála þess efnis að orlof og orlofsuppbót skyldu ekki koma til skerðingar á atvinnuleysisbótum í þeim mánuði sem sú greiðsla var innt af hendi.

Í þágildandi 1. mgr. XIII. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kom fram að við greiðslur atvinnuleysisbóta á tímabilinu 15. mars 2020 til 1. júní 2020 samhliða minnkuðu starfshlutfalli samkvæmt 17. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skyldu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta samkvæmt 36. gr., enda hafi fyrra starfshlutfall lækkað um 20 prósentustig hið minnsta og launamaður haldið að lágmarki 25% starfshlutfalli. Samkvæmt 1. mgr. XVI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006 gilti það sama um tímabilið 1. júní 2020 til og með 30. júní 2020. Á tímabilinu 1. júlí 2020 til og með 31. maí 2021 gilti einnig það sama nema launamaður þurfti þá að hafa haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli.

Í 2. og 3. mgr. XIII. ákvæði til bráðabirgða var nánar kveðið á um upphæð greiðslu atvinnuleysisbóta. Ákvæðin voru svohljóðandi:

„Greiðslur atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. skulu nema hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta í réttu hlutfalli við hið skerta starfshlutfall. Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 700.000 kr. á mánuði og skulu ekki nema hærri fjárhæð en 90% af meðaltali heildarlauna launamanns. Til að finna út meðaltal heildarlauna skal miða við þriggja mánaða tímabil áður en launamaður missti starf sitt að hluta. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta samkvæmt ákvæði þessu skal ekki sæta skerðingu skv. 2. málsl. 2. mgr. ef meðaltal heildarlauna launamanns er undir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf. Ef meðaltal heildarlauna launamanns er yfir 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf má skerðing skv. 2. málsl. 2. mgr. aldrei verða til þess að samtala launa frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbóta samkvæmt þessu ákvæði nemi samanlagt lægri fjárhæð en 400.000 kr. á mánuði miðað við fullt starf.“

Sambærileg ákvæði voru í 5. og 7. mgr. XVI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006.

Í 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald kemur fram að til gjaldstofns samkvæmt 6. gr. sömu laga teljist hvers konar laun og þóknanir, þar með talið ákvæðislaun, biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, launauppbætur, staðaruppbætur, orlofsfé og greiðslur fyrir ónotað orlof og framlag vinnuveitanda í lífeyrissjóð. Samkvæmt framansögðu falla því orlofsgreiðslur undir laun í skilningi 2. mgr. XIII. ákvæði og 5. mgr. XVI. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 54/2006.

Fyrir liggur að kærandi fékk greidd orlofslaun og orlofsuppbót í hverjum mánuði samhliða launagreiðslum en ekki var um að ræða áunnin og uppsöfnuð orlofsréttindi greidd út eftir á. Þær greiðslur komu réttilega til skerðingar á greiðslum atvinnuleysisbóta í hverjum mánuði í samræmi við framarakin lagaákvæði. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að ekki væri tilefni til að endurskoða greiðslur hlutabóta til kæranda staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. maí 2023, um að ekki væri tilefni til að endurskoða greiðslur hlutabóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta