Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 115/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 115/2016

Fimmtudaginn 13. október 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. mars 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 15. desember 2015 og var umsókn hennar samþykkt. Kærandi hafði áður þegið atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun með hléum frá mars 2010. Samkvæmt greiðslusögu kæranda hafði hún fullnýtt bótatímabil sitt í  febrúar 2016 og fékk því einungis greiddar atvinnuleysisbætur frá 1. til 5. febrúar 2016 þegar bætur voru greiddar út þann 1. mars 2016. Með tölvupósti þann 7. mars 2016 óskaði kærandi eftir rökstuðningi Vinnumálastofnunar fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 17. mars 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. mars 2016. Með bréfi, dags. 29. mars 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 7. apríl 2016, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. apríl 2016 Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi starfað á innlendum vinnumarkaði í 18 mánuði á bótatímabilinu. Hún hafi verið hrakin úr því starfi vegna eineltis líkt og komi fram í úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 46/2015.

Kærandi setur ekki fram sérstakar kröfur en af málatilbúnaði kæranda má ráða að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að í VI. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Í 29. gr. laganna komi fram að atvinnuleitandi geti í mesta lagi átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í samfellt 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Kæranda hafi verið birtar upplýsingar um nýttan rétt á tímabilinu í greiðsluseðlum frá Vinnumálastofnun. Samkvæmt greiðslusögu kæranda hafi hún fullnýtt bótarétt sinn í byrjun febrúar 2016. Með greiðsluseðli vegna tímabilsins 1. til 31. janúar 2016 hafi kæranda verið tilkynnt að hún væri búin að nýta 29,74 mánuði af bótatímabilinu og með greiðsluseðli, dags. 1. mars 2016, hafi henni verið tilkynnt að hún hefði nýtt 30 af 30 mánuðum bótatímabilsins.

Vinnumálastofnun tekur fram að við afgreiðslu á máli kæranda hafi stofnunin kannað á ný hvort hún hefði getað áunnið sér rétt til nýs bótatímabils frá því að hún hafi þegið greiðslur árið 2010. Í 30. og 31. gr. laga nr. 54/2006 sé fjallað um þau tilvik sem leiði til þess að bótatímabil endurnýist. Annars vegar sé um að ræða endurnýjun á tímabili eftir að atvinnuleitandi hafi fullnýtt bótarétt sinn og hins vegar endurnýjun á bótatímabili áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Þar sem kærandi hafi fyrst fullnýtt bótarétt sinn í febrúar 2016 komi ákvæði 31. gr. laganna einungis til álita í málinu. Samkvæmt ákvæðinu sé það skilyrði fyrir því að nýtt bótatímabil geti hafist að viðkomandi hafi starfað í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Frá því að kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur í júní 2010 hafi aldrei liðið 24 mánuðir á milli þess að kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta og að hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju. Þegar af þeirri ástæðu hafi kærandi ekki getað endurnýjað bótatímabil sitt á þeim tíma sem um ræði. Það sé því ljóst að kærandi hafi fullnýtt tímabil sitt í febrúar 2016.

Vinnumálastofnun bendir á að í máli nr. 46/2015 sé fjallað um ákvörðun stofnunarinnar um biðtíma vegna starfsloka á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006. Sú ákvörðun hafi verið felld úr gildi og ekki verði séð að það komi kærumáli þessu við.

Vinnumálastofnun greinir frá því að þann 7. apríl 2016 hafi verið kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-125/2015. Málið hafi varðað þá styttingu sem gerð hafi verið á bótatímabili atvinnuleysistrygginga í janúar 2015. Niðurstaða dómsins hafi verið sú að viðurkenna dómkröfu stefnanda um að óheimilt hafi verið að skerða rétt atvinnuleitenda með því að stytta bótatímabil um sex mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu verði umræddum dómi áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Ljóst sé að niðurstaða í því dómsmáli muni hafa áhrif á rétt kæranda til atvinnuleysistrygginga. Á meðan mál sé til afgreiðslu hjá dómstólum telji stofnunin sér þó ekki heimilt að endurreikna bótatímabil málsaðila eða annarra sem séu í sambærilegri stöðu.

Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að bótatímabil kæranda sé fullnýtt og að kærandi eigi því ekki rétt á frekari greiðslum atvinnuleysistrygginga.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún hafi fullnýtt bótatímabil sitt.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Í 30. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í 30 mánuði geti áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Þá kemur fram í 31. gr. laganna að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.   

Samkvæmt gögnum málsins þáði kærandi atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun með hléum frá mars 2010 til febrúar 2016 eða samtals í 30,74 mánuði. Á tímabilinu starfaði kærandi ekki á innlendum vinnumarkaði í lengri tíma en 24 mánuði og var því um eitt bótatímabil að ræða. Í febrúar 2016 hafði kærandi fullnýtt bótatímabil 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 og átti því ekki rétt á frekari greiðslum frá Vinnumálastofnun. Þar sem kærandi hafði ekki starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur hafði hún ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta