Mál nr. 125/2010
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 22. desember 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 125/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að A, sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 16. mars 2009 og voru honum greiddar atvinnuleysisbætur til 19. febrúar 2010. Kærandi hóf störf hjá X þann 17. febrúar 2010. Starfið var hluti af sumarátaksverkefni og greiddi Vinnumálastofnun sem nam fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta kæranda til X. Kærandi var við störf hjá X til 7. maí 2010. Eftir að hann lauk störfum sínum hjá skólanum fékk hann greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli almennra skilyrða laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en hann óskaði eftir afskráningu af launagreiðendaskrá þann 15. maí 2010, samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá 1. maí 2010.
Kærandi kveðst ekki hafa fengið bréf þess efnis að bótaréttur myndi falla niður að tveimur mánuðum liðnum ef rekstri yrði ekki lokað, en hann hefði að öllum líkindum lokað rekstri hefði honum borist bréfið. Kæranda hafi af þessum sökum verið synjað um greiðslu atvinnuleysisbóta.
Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. nóvember 2010, kemur fram að það liggi fyrir að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, sem og greiðslur vegna starfa hjá X, allt frá umsóknardegi til dagsins í dag. Verði því ekki séð hverjar kröfur kæranda séu og telji Vinnumálastofnun því að ekki sé nauðsynleg frekari aðkoma úrskurðarnefndarinnar að máli þessu.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. nóvember 2010, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. nóvember 2010, og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. nóvember 2010. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.
2.
Niðurstaða
Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysistryggingar frá því að hann sótti um þær þann 16. mars 2009 og til 19. febrúar 2010. Frá 17. febrúar til 7. maí 2010 var hann við störf í X og var starf hans þar hluti af sumarátaksverkefni og greiddi Vinnumálastofnun sem nam fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta kæranda til X til 7. maí 2010. Eftir að hann lauk þar störfum fékk hann greiddar atvinnuleysistryggingar á grundvelli almennra skilyrða laga um atvinnuleysistryggingar enda óskaði hann eftir afskráningu af launagreiðendaskrá 15. maí 2010. Kærandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 1. maí 2010.
Í ljósi framanritaðs er ljóst að kærandi hefur fengið greiddar fullar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn. Af þessum ástæðum er í máli þessu ekki til staðar ágreiningsefni í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Máli þessu er því vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson