Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 385/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 385/2022

Fimmtudaginn 6. október 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. júlí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða henni ekki atvinnuleysisbætur í 72 daga vegna ótekins orlofs hjá fyrrum vinnuveitanda og að hún eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 17. mars 2022. Með ákvörðun, dags. 19. apríl 2022, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hjá fyrrum vinnuveitanda væri bótaréttur felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hún væri skráð í orlof á tímabilinu 17. mars til 27. júní 2022 en því væri hægt að breyta. Í júní 2022 óskaði kærandi eftir upplýsingum um þær skerðingar sem hún hefði orðið fyrir vegna orlofsdaga og rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta. Kæranda var þá tjáð að hún ætti ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir það tímabil sem hún væri skráð í orlof. Hægt væri að færa orlofsdaga einu sinni en það þyrfti að vera búið að taka út orlofið fyrir 15. september 2022. Kæranda var einnig tjáð að sá sem sætti biðtíma eftir atvinnuleysisbótum ætti ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. júlí 2022. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 2. september 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. september 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa fengið úrskurðaðan 100% bótarétt. Þar sem bæturnar hafi verið skertar 100% síðan þá, þ.e. kærandi hafi ekki enn fengið neinar greiðslur frá Vinnumálastofnun og það séu augljóslega enn skerðingar í gangi, hafi hún farið að athuga hverju sætti. Þá hafi kærandi áttað sig á að hún hafi verið sett í sumarfrí í 72 daga vegna upplýsinga sem hún hafi sjálf gefið án þess að skilja til fullnustu hvað þýddi. Kærandi hafi ekki skilið almennilega setninguna „fyrir lá afstaða þín til málsins.“ Kærandi hafi bara samviskusamlega talið ótekna orlofsdaga, sem vel að merkja hafi ekki verið teknir vegna veikinda, og skráð inn í umsóknina sem hún hafi talið rétt að gera. Nú skiljist kæranda að hún hefði getað sleppt því að skrá þetta svona og þá væri hún byrjuð að fá greiðslur eftir tveggja mánaða biðtíma þar sem hún hafi sjálf sagt upp og skýringar hennar á því hvernig það hafi borið að hafi ekki verið teknar gildar. Fyrst hafi kærandi sætt skerðingu vegna svokallaðs sumarleyfis og svo hafi skerðing vegna biðtímans tekið við. Eins og að það eitt og sér sé ekki nógu slæmt og erfitt fyrir kæranda, muni hún víst ekki heldur fá greiddar launatengdar bætur vegna eigin uppsagnar.

Kærandi óski eftir að það verði farið yfir mál hennar með tilliti til hvort hún hefði nauðsynlega þurft að skrá orlofsdaga með þeim hætti sem hún hafi gert, án þess að vita raunverulega hvort hún hafi verið að gera rétt og hvort það sé útilokað að hún fái að minnsta kosti að njóta launatengingar. Kærandi bendi á að hún hafi ekki fengið neina greiðslu hingað til og júlímánuði sé að ljúka. Þá megi hún búast við að skerðingarnar haldi áfram. Það sé erfitt að hafa verið á atvinnuleysiskrá síðan í apríl og hafa ekki enn fengið neinar greiðslur. Kærandi hafi aldrei á rúmlega 40 ára ferli á vinnumarkaði fengið neinar bætur af nokkru tagi en vegna vankunnáttu og vanþekkingar hafi hún fyllt sína fyrstu og einu umsókn um bætur vitlaust út og hafi fyrir vikið verið tekjulaus í nokkra mánuði.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 17. mars 2022. Kærandi hafi síðast verið í starfi hjá B en sagt starfi sínu þar lausu. Meðal gagna í málinu sé staðfesting á starfstímabili frá fyrrum vinnuveitanda kæranda. Þar komi fram að kærandi hafi lokið störfum 28. febrúar 2022 og að hún hafi fengið 583 ótekna orlofstíma eða 73 orlofsdaga greidda út við starfslok. Sjálf hafi kærandi valið að taka út orlof sitt á tímabilinu 17. mars til 27. júní 2022. Kærandi hafi því verið skráð í orlof á umræddu tímabili.

Með erindi, dags. 19. apríl 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hennar væri bótaréttur felldur niður í tvo mánuði. Kæranda hafi sömuleiðis verið tilkynnt að hún væri skráð í orlof á tímabilinu 17. mars til 27. júní 2022. Þann 13. júní hafi svo borist tölvupóstur frá kæranda þar sem hún hafi spurst fyrir um greiðslur, orlofstíma og tekjutengingu. Henni hafi verið tjáð að hún væri skráð í orlof á framangreindu tímabili og ætti ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil. Kæranda hafi verið bent á að unnt væri að færa töku orlofs innan orlofstímabils. Þá hafi henni verið bent á að hún fengi ekki greiddar atvinnuleysistryggingar á meðan tveggja mánaða biðtími væri að líða og að sá sem sætti biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta ætti ekki rétt á tekjutengdum bótum. Í kæru til úrskurðarnefndar geri kærandi athugasemdir við að fá ekki greiddar atvinnuleysisbætur á meðan orlof hennar varir og fari fram á að fá greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Ágreiningur í málinu snúi að því hvort kærandi eigi rétt á atvinnuleysisbótum á meðan hún taki út ótekið orlof og einnig að rétti hennar til greiðslu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, sbr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kveðið sé á um upplýsingar í tengslum við umsókn um atvinnuleysisbætur, skal launamaður þegar hann sækir um atvinnuleysisbætur tilgreina hvort hann hafi tekið út orlof sitt við slit á ráðningarsamningi. Jafnframt sé Vinnumálastofnun heimilt að óska eftir vottorði frá fyrrverandi vinnuveitanda til að staðreyna slíkar upplýsingar. Samkvæmt staðfestingu á starfstímabili frá fyrrum vinnuveitanda kæranda hafi hún fengið greidda út 73 orlofsdaga við starfslok sín. Kærandi hafi sjálf óskað eftir því að taka út orlof sitt á tímabilinu 17. mars til 27. júní 2022.

Í 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um þær greiðslur sem atvinnuleitandi kunni að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum og séu ætlaðar honum til framfærslu við tilteknar aðstæður og því  ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 4. mgr. 51. gr. sé kveðið á um ótekið orlof sem greitt hafi verið út við starfslok. Þar segi orðrétt:

„,Hver sá sem hefur fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skal hinn tryggði taka fram hvenær hann ætlar að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils.“

Atvinnuleitandi teljist því ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemi þeim orlofsdögum sem hann hafi ekki nýtt sér við starfslok hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslok.

Líkt og Vinnumálastofnun hafi bent kæranda á sé henni heimilt að ráða tilhögun orlofs síns. Í samræmi við 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti kærandi tiltekið hvenær hún taki út orlof sitt á orlofstímabilinu.

Hvað varði ágreining í málinu er snúi að því hvort kærandi eigi rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum þegar biðtíma og orlofi ljúki segi í 9. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að hver sá sem sæti biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla laganna skuli ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum. Með ákvörðun, dags. 19. apríl 2022, hafi kæranda verið gert að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum þar sem hún hafi sjálf sagt upp starfi sínu. Ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt fyrrnefndu ákvæði 9. mgr. 32. gr. laganna eigi kærandi því ekki rétt á tekjutengdum bótum.  

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga á meðan hún taki út orlof sitt eða sæti biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur í 72 daga vegna ótekins orlofs hjá fyrrum vinnuveitanda og að hún eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum.

Í 51. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um greiðslur sem eru ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 4. mgr. 51. gr. kemur fram að hver sá sem fengið hefur greitt út orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eigi við um.

Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir svo:

„Lagt er til að atvinnuleitandi teljist ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemur þeim orlofsdögum sem hann hafði ekki nýtt sér þegar hann hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslokin. Þó er gert ráð fyrir að umsækjandi geti tilgreint á umsókn um atvinnuleysisbætur hvenær hann ætli að taka út orlof sitt á orlofstímanum og er miðað við að hann hafi tekið út orlofið fyrir lok næsta orlofstímabils eða 15. september ár hvert, sbr. lög nr. 30/1987, um orlof. Kemur orlofsgreiðslan þá til frádráttar fyrir þann tíma sem hinn tryggði ætlaði í orlof samkvæmt umsókninni en ekki þegar í upphafi tímabilsins.“

Samkvæmt gögnum málsins voru starfslok kæranda 28. febrúar 2022 og átti hún þá 72 ótekna orlofsdaga sem voru greiddir út við starfslok. Kærandi var því skráð í orlof frá umsóknardegi 17. mars 2022 og til 27. júní. Ljóst er að kærandi á ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir það tímabil sem orlofsgreiðslurnar áttu við um, enda eru þær greiðslur ósamrýmanlegar atvinnuleysisbótum.

Í 1. mgr. 29. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla teljist hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standi yfir. Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 54/2006 öðlast hinn tryggði rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í allt að þrjá mánuði frá þeim tíma er grunnatvinnuleysisbætur samkvæmt 33. gr. hafa verið greiddar í samtals hálfan mánuð, nema annað leiði af lögunum. Þá segir í 9. mgr. 32. gr. að hinn tryggði sem sætir biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðum X. kafla skuli ekki eiga rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæðinu. Með ákvörðun, dags. 19. apríl 2022, var kæranda gert að sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 sem er í X. kafla laganna. Samkvæmt framangreindu ákvæði 9. mgr. 32. gr. laganna á kærandi því ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleyssibótum.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur í 72 daga vegna ótekins orlofs hjá fyrrum vinnuveitanda og að hún eigi ekki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um greiðslu atvinnuleysisbóta til handa A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

ólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta