Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 191/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. desember 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 191/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 24. ágúst 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 24. ágúst 2010 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysistrygginga með tilliti til upplýsinga um starf kæranda hjá fyrirtækinu X ehf. Vinnumálastofnun frestaði afgreiðslu málsins og óskaði eftir gögnum frá kæranda til staðfestingar á þeim fjölda tíma sem hann hafi unnið í hlutastarfi hjá fyrirtækinu X ehf., á tímabilinu janúar til júlí 2010, skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þann 10. september bárust Vinnumálastofnun afrit af launaseðlum kæranda fyrir störf hans hjá fyrirtækinu X ehf. á tímabilinu 1. janúar til 31. ágúst 2010.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða barst síðan kæra frá kæranda, dags. 13. október 2010. Kærandi tilgreinir hvorki nánar þær kröfur sem hann gerir né heldur hvaða ákvarðanir Vinnumálastofnunar hann sé að kæra. Kærandi veitir í kæru sinni eingöngu þær upplýsingar að hann hafi verið í tímabundnu hlutastarfi hjá fyrirtækinu X ehf. Úrskurðarnefndin óskaði, með bréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 14. október 2010, eftir gögnum málsins og afstöðu stofnunarinnar.

Í bréfi sínu til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. apríl 2011, bendir Vinnumálastofnun á að kærandi hafi í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar ekki gert grein fyrir kæruefni, kröfum sínum eða hvaða ákvörðun Vinnumálastofnunar kærandi hyggst kæra til nefndarinnar. Vinnumálastofnun vísar til 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fjallað er um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun bendir á að ekki sé vikið að efni kæru fyrir úrskurðarnefndinni í áðurnefndu ákvæði og að ekki séu gerðar sérstakar kröfur til framsetningar á málskoti til úrskurðarnefndar. Vinnumálastofnun telur þó nauðsynlegt að aðilum máls sé kunnugt um kröfur kæranda og rök fyrir þeim eða hvaða ákvörðun stofnunarinnar eigi að sæta meðferð úrskurðarnefndarinnar. Að öðrum kosti telur Vinnumálastofnun sér ekki fært að tjá sig um kæruefni.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. apríl 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 10. maí 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, er hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Af gögnum máls þessa má ráða að ekki lá fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli þessu. Það er því ljóst að í málinu er ekki til staðar ágreiningsefni í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta