Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 223/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. desember 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 223/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur borist kæra A, með bréfi, dags. 24. nóvember 2010. Af kærunni verður ráðið að kærandi sé ósáttur við að fá greiddar atvinnuleysisbætur inn á bankareikning en ekki beint í hendurnar með ávísun eða peningum. Úrskurðarnefndin óskaði eftir öllum gögnum málsins hjá Vinnumálastofnun og gaf stofnuninni kost á að tjá sig um málið með bréfi, dags. 1. desember 2010.

Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 30. júní 2011, kemur fram að engin formleg ákvörðun hafi verið tekin í máli kæranda. Vinnumálastofnun sé ekki kunnugt um að kærandi hafi lokað umræddum bankareikningi og hafi kærandi fengið greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt venjubundnu greiðslufyrirkomulagi með færslu á bankareikning hans allt frá umsóknardegi. Vinnumálastofnun geri þá kröfu til umsækjenda um atvinnuleysistryggingar að þeir gefi upplýsingar um innlánsreikning svo stofnuninni sé mögulegt að greiða út atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi sjálfur fært fram upplýsingar um bankareikningsnúmer sitt er hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistryggingar. Í kærunni geri kærandi þá kröfu að Vinnumálastofnun greiði honum atvinnuleysistryggingar með ávísun eða peningum þar sem hann vilji ekki eiga viðskipti við fjármálastofnanir. Með kærunni virðist hann almennt vera að mótmæla núverandi framkvæmd greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði og þeirri greiðslutilhögun að atvinnuleysistryggingar séu lagðar inn á bankareikning.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að ekki sé að finna í lögum um atvinnuleysistryggingar fastmótaðar reglur um tilhögun greiðslna atvinnuleysistrygginga, þ.e. með hvaða hætti atvinnuleysisbætur skuli greiddar til þeirra sem eru tryggðir. Sé Vinnumálastofnun því falið að útfæra greiðslutilhögun frekar. Sú aðferð að greiða atvinnuleitendum bætur með því að leggja inn á bankareikning hins tryggða sé í samræmi við það sem almennt tíðkist við greiðslur úr opinberum sjóðum og telji stofnunin að ótækt sé að greiða atvinnuleysisbætur eftir séróskum hvers og eins einstaklings. Sé ljóst að slíkt fyrirkomulag á greiðslu atvinnuleysistrygginga myndi hafa í för með sé verulega skerðingu á öryggi sem og skilvirkni greiðslna frá stofnuninni. Verði ekki fallist á að venjubundið greiðslufyrirkomulag skuli ekki eiga við í máli kæranda sökum þess að hann kærir sig ekki um samskipti við fjármálastofnanir.

Kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar allt frá umsóknardegi til dagsins í dag. Hafi greiðsla ávallt verið framkvæmd með færslu á bankareikning kæranda. Muni Vinnumálastofnun að öllu óbreyttu halda því fyrirkomulagi á greiðslum atvinnuleysistrygginga til kæranda áfram.

Kærandi kveðst hafa ákveðið að hætta öllum viðskiptum við bankastofnanir og sé það hluti af persónulegu frelsi hans að ákvarða hvort peningar hans fari í gegnum þá. Hann kveðst hafa óskað eftir að bæturnar yrðu greiddar með ávísun eða peningum út í hönd, en því hafi verið neitað og sagt að slíkt væri ekki framkvæmt og jafnvel ekki framkvæmanlegt. Kærandi kveðst telja að vegið sé að mannréttindum hans og persónufrelsi með því að þvinga/skylda hann til viðskipta við stofnanir sem hann kæri sig ekki um og hafi hann ákveðið að loka bankareikningi sínum. Þar sem hann uppfylli öll skilyrði til bóta beri honum að fá þær greiddar á umsömdum ákveðnum tíma, um mánaðamót, en finna verði leiðir til að koma þeim til hans milliliðalaust.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Kæra kæranda snýr að framkvæmd á greiðslum atvinnuleysisbóta til hans, en hann er ekki sáttur við að fá þær greiddar inn á bankareikning. Ekki kemur fram í lögum um atvinnuleysistryggingar hver tilhögun greiðslna atvinnuleysisbóta skuli vera og er sú framkvæmd því í höndum Vinnumálastofnunar. Af lögunum verður ekki ráðið að sú skylda hvíli á Vinnumálastofnun að greiða bætur út eftir séróskum hvers og eins. Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að í máli þessu er ekki til staðar ágreiningsefni í skilningi 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta