Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 427/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 427/2017

Fimmtudaginn 11. janúar 2018

AgegnVinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 16. nóvember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. ágúst 2017, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árunum 2015 og 2016. Á tímabilinu 7. september til 31. desember 2015 var kærandi með opna launagreiðendaskrá og var því gert að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar bætur fyrir það tímabil. Kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. febrúar 2016. Kærandi óskaði tvívegis eftir endurupptöku á máli sínu, í apríl og maí 2016, en þeim beiðnum var hafnað. Í september 2017 var skuld kæranda enn ógreidd og með bréfi, dags. 17. ágúst 2017, var farið fram á að kærandi myndi endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 16. nóvember 2017. Í kærunni greindi kærandi meðal annars frá því að hann væri búinn óska eftir leiðréttingu á launagreiðendaskrá sinni hjá Ríkisskattstjóra. Með bréfi, dags. 16. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 6. desember 2017, þar sem fram kemur meðal annars að launagreiðendaskrá kæranda hafi ekki enn verið leiðrétt og því væru ekki forsendur til að taka mál kæranda fyrir að nýju. Vinnumálastofnun tók fram að bærust ný gögn frá Ríkisskattstjóra um slíka leiðréttingu myndi stofnunin taka mál kæranda fyrir að nýju. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Með bréfi, dags. 20. desember 2017, óskaði kærandi eftir fresti til að skila inn gögnum frá Ríkisskattstjóra. Bréf kæranda var sent Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2017. Þann 5. janúar 2018 barst úrskurðarnefndinni afrit af tölvupósti frá Ríkisskattstjóra þar sem fram kemur meðal annars að launagreiðendaskrá kæranda hafi verið lokuð frá og með 1. ágúst 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, voru þær upplýsingar sendar Vinnumálastofnun til kynningar.

II. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. ágúst 2017, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Kæranda var gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 7. september til 31. desember 2015 á þeirri forsendu að hann hafi verið með opna launagreiðendaskrá og því ekki uppfyllt skilyrði laganna.

Kærandi hefur lagt fram gögn frá Ríkisskattstjóra þar sem fram kemur meðal annars að launagreiðendaskrá hans hafi verið lokuð frá og með 1. ágúst 2015. Að því virtu er óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa máli kæranda til nýrrar meðferðar hjá Vinnumálastofnun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. ágúst 2017, í máli A, er felld úr gildi og vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta