Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 52/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 26. mars 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 52/2014.


  1. Málsatvik og kæruefni

Í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. maí 2014 sem send var kæranda, A, með bréfi, dags. 28. maí 2014, var beiðni kæranda hafnað um að rafræn staðfesting atvinnuleitar skv. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, vegna aprílmánaðar 2014 yrði samþykkt og atvinnuleysisbætur greiddar afturvirkt. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi frá 16. maí 2014. Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hnekkt. Vinnumálastofnun telur að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir það tímabil sem hann staðfesti ekki atvinnuleit sína við stofnunina.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. júlí 2013 og var með 100% bótarétt.

Kærandi var 7. apríl 2014 boðaður með tölvupósti og skilaboðum í símanúmer hans sem er skráð í tölvukerfi Vinnumálastofnunar á fund hjá ráðgjöfum stofnunarinnar 9. apríl 2014. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. apríl 2014, sem sent var á uppgefið heimilisfang kæranda, var honum tjáð að fjarvera hans á framangreindum fundi gæfi stofnuninni tilefni til þess að ætla að hann væri ekki lengur virkur í atvinnuleit sinni. Auk þess var óskað skýringa kæranda á því af hverju hann hefði ekki mætt á fundinn.

Kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína í apríl 2014 og gaf engar skýringar á því. Samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar hafði hann ekkert samband við stofnunina frá 27. mars 2014 til 29. apríl 2014. Honum var tilkynnt 29. apríl 2014 að hann hefði verið afskráður hjá Vinnumálastofnun og að hann þyrfti að mæta til ráðgjafa til þess að komast á skrá á nýjan leik. Kærandi hafði samband samdægurs og óskaði eftir viðtali. Skýringarbréf barst frá kæranda 5. maí 2014 í tölvupósti þar sem fram kom að hann hefði ekki séð fundarbeiðnina sökum þess að síminn hans væri lokaður og tölvupósturinn hefði skolast til og að hann hafi einungis séð hann eftir fundinn.

Málið var síðan tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnun þar sem hin kærða ákvörðun var tekin eins og fram hefur komið.

Í kæru kæranda kemur fram að hann hafi reynt að koma skilaboðum til Vinnumálastofnunar um það í hvaða símanúmeri væri hægt að ná í hann en lokað hafi verið fyrir síma hans og hann hafi verið í símasambandi í öðru símanúmeri. Hann hafi ekki fengið að tala við ráðgjafa en honum hafi verið sagt að skilaboðin yrðu send áfram en það hafi ekki verið gert. Fram kemur af hálfu kæranda að Vinnumálastofnun útskýri ekki niðurstöðu sína á neinn hátt og telji kærandi það vera rétt sinn að fá greiddar atvinnuleysisbætur þar sem hann sé í atvinnuleit. Hann telji niðurstöðu Vinnumálastofnunar vera ólögmæta og fullharkalegt að taka af fólki heila mánaðargreiðslu. Fyrir því sé enginn rökstuðningur og ekkert um það að finna í lögum um Vinnumálastofnun. Hann spyr líka af hverju bæturnar séu felldar niður í heilan mánuð en ekki í einn dag eða eina viku.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. júní 2014, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði þá ákvörðun stofnunarinnar að neita kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 1. apríl til 30. apríl 2014 þar sem hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína líkt og honum sé skylt að gera skv. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum í greinargerð sem fylgt hafi frumvarpi til breytingalaga nr. 134/2009 á lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að mikilvægt sé að festa framangreinda framkvæmd stofnunarinnar enn frekar í sessi innan atvinnuleysistryggingakerfisins og undirstrika þannig að eftir að umsókn hins tryggða um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt beri honum skylda til að hafa samband við stofnunina með reglulegum hætti samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Hafi þessi lagabreyting tekið gildi 1. janúar 2010.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að það sé alfarið á ábyrgð atvinnuleitanda að staðfesting á atvinnuleit fari fram með áskildum hætti. Í þeim tilvikum sem atvinnuleitendum hafi láðst að staðfesta atvinnuleit sína hafi verið litið til þess hvort viðkomandi hafi verið í samskiptum við stofnunina á þeim tíma og metið það til ígildis staðfestingar á atvinnuleit. Af samskiptasögu Vinnumálastofnunar við kæranda megi ráða að á tímabilinu 27. mars til 29. apríl 2014 hafi hann ekki haft samband við stofnunina og liggi því ekki fyrir staðfesting á atvinnuleysi kæranda á tímabilinu.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júlí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. júlí 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.


  1. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. málsl. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sem var svohljóðandi er atvik máls áttu sér stað:

Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal eftir að umsókn hans skv. 1. mgr. hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður.“

Í athugasemdum við greinargerð sem fylgdi frumvarpi til breytingalaga nr. 134/2009 á lögum um atvinnuleysistryggingar er fjallað um mikilvægi þess að atvinnuleitandi hafi reglulegt samband við Vinnumálastofnun samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður.

Kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína í apríl 2014 og hann mætti ekki á fund hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar sem hann var boðaður á bæði með tölvupósti 7. apríl 2014 og með skilaboðum í símanúmer hans sem var skráð í tölvukerfi stofnunarinnar. Í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar 5. maí 2014 kom fram að hann hafi ekki séð fundarboðunina sökum þess að sími hans hafi verið lokaður og tölvupósturinn til hans hafi skolast til.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er það á ábyrgð atvinnuleitanda að staðfesta atvinnuleit sína með þeim hætti sem Vinnumálastofnun ákveður. Kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína í aprílmánuði 2014 og hann hafði ekki samband við stofnunina á þeim tíma með neinum þeim hætti að jafna mætti við staðfestingu fyrr en í lok mánaðarins 29. apríl 2014. Með vísan til framanskráðs ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar.


Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. maí 2014 í máli A þess efnis að hafna því að greiða honum atvinnuleysisbætur fyrir aprílmánuð 2014 afturvirkt er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta