Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 340/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 340/2017

Fimmtudaginn 25. janúar 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 7. september 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2017, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. maí 2017, var óskað eftir skriflegum skýringum kæranda vegna höfnunar á vinnumarkaðsúrræði. Í bréfinu vakti stofnunin athygli á því að samkvæmt 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar geti sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, án gildra ástæðna, þurft að sæta biðtíma á grundvelli laganna. Skýringar bárust frá kæranda 8. maí 2017. Með bréfi, dags. 19. maí 2017, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði frá 22. maí 2017 á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. september 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. nóvember 2017, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Skýringar bárust frá kæranda 11. desember 2017 og ákvað úrskurðarnefndin að taka mál hans til meðferðar þrátt fyrir að kæra hafi borist að liðnum kærufresti með vísan til 2. tölu. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 18. desember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. janúar 2018, þar sem fram kemur að stofnunin teldi að ranglega hefði verið staðið að ákvörðun í máli kæranda með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 172/2017. Vinnumálastofnun teldi því rétt að úrskurðarnefndin myndi fella úr gildi ákvörðun í máli kæranda og fela stofnuninni að taka mál hans fyrir að nýju.

II. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2017, um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Kærandi var boðaður á fund hjá Vinnumálastofnun þar sem kynnt voru vinnumarkaðsúrræði sem stóðu honum til boða að velja úr. Kærandi skráði sig ekki í neitt úrræði og var í kjölfarið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og í því samhengi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 172/2017. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2017, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta