Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 177/2011 - endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 177/2011 – endurupptaka

Fimmtudaginn 10. nóvember 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með tölvupósti þann 27. október 2016 óskaði B hdl., f.h. A, eftir endurupptöku máls nr. 177/2011 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. mars 2013.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. júlí 2011, voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og hann krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.

Kærandi bar ákvörðun Vinnumálastofnunar undir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sem staðfesti ákvörðun stofnunarinnar með úrskurði þann 5. mars 2013. Með tölvupósti þann 27. október 2016 fór kærandi fram á endurupptöku málsins með vísan til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-2547/2015 og krafðist þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar yrði felld úr gildi.

II. Niðurstaða

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir hefur úrskurðarnefnd velferðarmála eftir atvikum heimild til að endurupptaka mál á ólögfestum grundvelli. Í því tilviki sem hér um ræðir veltur skylda til slíkrar endurupptöku, að mati nefndarinnar, á því að rökstuddar vísbendingar séu um að á úrskurðum hennar séu verulegir annmarkar að lögum.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2016 í máli E-2547/2015 var leyst úr ágreiningi sem varðaði ákvörðun Vinnumálastofnunar um beitingu viðurlaga samkvæmt 2. málsl. 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í dóminum var fjallað ítarlega um túlkun framangreinds ákvæðis. Í niðurstöðunni segir meðal annars svo:

„Samkvæmt framangreindu verður fallist á þá efnislegu niðurstöðu umboðsmanns Alþingis, í fyrrgreindu áliti hans, að miða verði við að í verknaðarlýsingu 2. málsliðar 60. gr. laga nr. 54/2006 felist krafa um atvinnuleitandi hafi ætlað að afla sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti. Af hálfu stefndu er því ómótmælt að mál stefnanda hafi ekki verið rannsakað sérstaklega með hliðsjón af huglægri afstöðu hans, enda byggir málatilbúnaður þeirra á því að slík afstaða hafi ekki haft þýðingu um meðferð og niðurstöðu stjórnsýslumálsins. Að virtri framagreindri niðurstöðu um skýringu 2. málsliðar 60. gr. laga nr. 54/2006 liggur þannig fyrir að verulegir annmarkar voru á málsmeðferð stefnda Vinnumálastofnunar og úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga svo og rökstuðningi ákvarðana. Er jafnframt ljóst að umræddir annmarkar voru til þess fallnir að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Verður því að fallist á kröfu stefnanda um að umræddar stjórnvaldsákvarðanir stefndu Vinnumálastofnunar og úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga um sviptingu bótaréttar stefnanda verði felldar úr gildi.“

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir beitingu viðurlaga á grundvelli 2. málsl. 60. gr. laga nr. 54/2006 að atvinnuleitandi hafi aflað sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að af gögnum málsins verði ráðið að Vinnumálastofnun hafi beitt kæranda viðurlögum á grundvelli framangreinds ákvæðis þar sem hann hafi starfað á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt stofnuninni um vinnuna. Því virðist huglæg afstaða kæranda ekki hafa verið könnuð áður en ákvörðun um beitingu viðurlaga var tekin.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti áður en Vinnumálastofnun tók hina kærðu ákvörðun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að því virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að úrskurður úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli kæranda, þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar um viðurlög á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 var staðfest, sé haldinn slíkum annmörkum að skilyrði til endurupptöku sé uppfyllt.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til meðferðar á ný.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. júlí 2011, í máli A, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og að innheimta ofgreiddar bætur er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta