Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 429/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 429/2023

Mánudaginn 5. febrúar 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. september 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2023, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Einnig er kærð ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. ágúst 2023, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 4. mars 2022 og var umsóknin samþykkt 7. apríl 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2023, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna ótilkynntrar dvalar erlendis. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 22. apríl 2023 til 31. maí 2023, að fjárhæð 313.406 kr., að meðtöldu 15% álagi, sem yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Þá var kæranda með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. ágúst 2023, tilkynnt að greiðslur til hans hefðu verið stöðvaðar frá 1. júlí 2023 þar sem hann teldist ekki vera í virkri atvinnuleit vegna aðkomu að rekstri fyrirtækis. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. ágúst 2022 til 30. júní 2023, samtals að fjárhæð 2.116.048 kr., að meðtöldu 15% álagi, sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Í kjölfar skýringa kæranda, sem bárust Vinnumálastofnun 10. ágúst 2023, var ákvörðun frá 4. ágúst 2023 tekin fyrir að nýju. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 16. ágúst 2023, var kæranda tilkynnt að ákvörðun í máli hans frá 4. ágúst 2023 væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2023, fór lögmaður kæranda fram á rökstuðning fyrir ákvörðunum stofnunarinnar, dags. 9. júní og 4. ágúst 2023. Rökstuðningur vegna ákvörðunar frá 4. ágúst 2023 var veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. september 2023. Með sama bréfi var beiðni um rökstuðning ákvörðunar frá 9. júní 2023 hafnað þar sem 14 daga frestur til að óska eftir rökstuðningi samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri liðinn.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. september 2023. Með bréfi, dags. 11. september 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 6. október 2023 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. október 2023. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 24. október 2023 sem voru kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. október 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2024, var óskað eftir gögnum sem fylgdu umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur og upplýsingum um á hvaða forsendum umsóknin hefði verið samþykkt. Svar barst frá Vinnumálastofnun samdægurs.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er greint frá því að kærandi hafi hafið störf hjá C 8. ágúst 2023 og tilkynnt um það með samskiptaforriti Vinnumálastofnunar, líklega um mánaðamótin maí/júní 2023 en hafi þar viðurkennt misskilning og mistök varðandi tilkynningarskyldu. Ef kærandi hefði fengið starf, sbr. meðfylgjandi lista yfir atvinnuumsóknir, hefði hann getað komið heim. Kærandi hafi í rúm tvö og hálft ár verið atvinnulaus að nær öllu leyti, þ.e. frá árslokum 2020 er honum hafi verið sagt upp hjá D í kjölfar rekstrarerfiðleika atvinnurekanda sökum heimsfaraldar. Lífsstarf kæranda sem X hafi lítið gefið af sér undanfarin misseri. Fyrir leiðbeiningar og að því er virðist í samræmi við reglugerð, hafi verið ákveðið að hann fengi í fimm mánuði á árinu 2022 og þrjá mánuði á árinu 2023 brúttó 75.000 kr. í mánaðargreiðslur frá einkahlutafélagi sínu og konu sinnar á grundvelli sértekna einkahlutafélagsins við lífsstarf kæranda frá fyrri árum.

Kærandi krefst þess aðallega að úrskurðarnefndin felli úr gildi allar hinar kærðu ákvarðanir Vinnumálastofnunar og hafni alfarið endurgreiðslukröfum stofnunarinnar. Til vara sé þess krafist að úrskurðarnefndin felli úr gildi ákvörðun samkvæmt bréfum, dags. 4. og 16. ágúst 2023, um endurgreiðslu að fjárhæð 1.840.042 kr., ásamt 15% álagi, eða samtals 2.116.048 kr., eða samkvæmt bréfi, dags. 9. júní 2023 um endurgreiðslu að fjárhæð 272.527 kr., ásamt 15% álagi, samtals 313.406 kr. Til þrautavara sé þess krafist að úrskurðarnefndin felli úr gildi ákvörðun samkvæmt bréfum, dags. 4. og 16. ágúst 2023, um endurgreiðslu að fjárhæð 1.840.042 kr., ásamt 15% álagi, samtals 2.116.048 kr. Til þrautaþrautavara sé þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun frá 9. júní 2023 um 15% álag (313.406-272.527=) 40.879 kr. þannig að endurgreiðslukrafan að þessu leyti nemi aðeins 272.527 kr. í stað 313.406 kr. annars vegar og hins vegar um 15% álag (2.116.048-1.840.042=) 276.006 kr. samkvæmt bréfum, dags. 4. og 16. ágúst 2023, þannig að endurgreiðslukrafan að þessu leyti nemi aðeins 1.840.042 kr., ásamt 15% álagi, en ekki samtals 2.116.048 kr. Til þrautaþrautaþrautavara sé þess krafist að nefndin leggi fyrir Vinnumálastofnun að taka nýja ákvörðun á grundvelli þeirra atvika og sjónarmiða sem greint sé frá í kæru.

Kærandi telji ákvörðun Vinnumálastofnunar beinlínis fara gegn settum lögum og reglugerð nr. 1380/2022 um fjárhæð atvinnuleysistrygginga, að hún hafi ekki lagastoð, hvorki hvað varði form né efni, og að hún sé byggð á ómálefnalegum sjónarmiðum, sbr. lögmætisreglu ríkisréttar og meginreglur ríkisréttar um málefnalegar forsendur og lögbundna starfsemi handhafa ríkisvalds. Þá telji kærandi að með þeim réttarverkunum sem Vinnumálastofnun láti 75.000 kr. mánaðarlega greiðslu í átta mánuði, í samráði við endurskoðanda og starfsmann Vinnumálastofnunar, hafa sé brotið gegn meðalhófsreglu ríkisréttar. Sama gildi um vanrækslu kæranda á tilkynningarskyldu sem hann hafi ekki verið upplýstur um.

Í bréfi Vinnumálastofnunar frá 16. ágúst 2023 séu engin viðbótarrök að finna heldur aðeins vísað til þess mats stofnunarinnar að staðfesta beri fyrri ákvörðun þar sem sú ákvörðun hafi „að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn í máli þínu hafi borist“. Lægra stjórnvald hafi því enn ekki tekið rökstudda, birta afstöðu til viðbótargagna og sjónarmiða í bréfi kæranda, dags. 10. ágúst 2023 og ódagsettu bréfi bókhaldsþjónustu E, enda hafi rökstuðningur ekki borist er stjórnsýslukæra þessi hafi verið send, 7. september 2023, innan þriggja mánaða kærufrests frá fyrri ákvörðun hinn 9. júní 2023.

Af bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. ágúst 2023, megi ráða að ákvörðun lægra stjórnvalds sé byggð á því að kærandi sé 100% eigandi F. Þetta sé villandi þar sem kærandi eigi félagið að hálfu (50/50) ásamt eiginkonu sinni, enda sé um hjúskapareign að ræða samkvæmt meginreglu hjúskaparlaga nr. 31/1993 um helmingaskipti þar sem enginn kaupmáli hafi verið gerður um annað. Skráning hjá fyrirtækjaskrá hafi nú verið lagfærð til samræmis við þetta þannig að nú sé hvort hjóna skráð með 50%. Þetta ráði þó ekki úrslitum, heldur eftirfarandi.

Eins og fram komi í ódagsettu bréfi bókhaldsþjónustu E hafi sú ákvörðun að greiða kæranda minniháttar (75.000 kr.) laun á tímabilinu ágúst 2022 til mars 2023 verið tekin í ágúst 2022 af þeim hjónum, að fengnum ráðum endurskoðanda og „í samráði við starfsmann VMST” símleiðis í ágúst 2022 sem muni hafa tjáð eiginkonu kæranda að 75.000 kr. launatekjur á mánuði væru atvinnuleysisbótum og rétti til þeirra ekki til fyrirstöðu. Þar sé væntanlega átt við frítekjumark samkvæmt 4. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 sem samkvæmt reglugerð nr. 1480/2022 um fjárhæð atvinnuleysistrygginga sé nú 81.547 kr. á mánuði. Sé þar um að ræða misskilning verði það leiðrétt. Þessi greiðsla innan frítekjumarks geti ekki samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga um leiðbeiningarskyldu, 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsókn máls, 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf og IV. kafla sömu laga um andmælarétt haft þær lögfylgjur að svipta kæranda öllum bótarétti, enda hafi hann verið í góðri trú. Síðbúin svör kæranda eða hugsanleg vanræksla á tilkynningarskyldu geti ekki heldur haft þær réttarverkanir samkvæmt sömu lagareglum.

Skilyrði laganna sé að þessu leyti fyrst og fremst að kærandi megi samkvæmt g. lið 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar ekki eiga „rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit“. Ljóst sé að kærandi hafi ekki átt neinn slíkan rétt og hefði ekki látið/samþykkt að láta greiða sér þetta nema fyrir nefnt samráð við endurskoðanda og starfsmann Vinnumálastofnunar, enda hafi verið um að ræða tiltölulega lágar fjárhæðir ekki grundvallaðar á vinnuframlagi heldur fyrst og fremst fyrri sértekjum félagsins vegna lífsstarfs kæranda sem X eins og rakið sé í bréfi endurskoðanda. Af því bréfi megi ráða að á árinu 2022 hafi aðeins (1.056.473/18.609.149=) 5,7% tekna einkahlutafélagsins verið vegna fyrri starfa kæranda og á fyrri hluta ársins 2023 hafi um (1.399.792/10.207.592=) 13,7% tekna einkahlutafélagsins verið vegna fyrri starfa kæranda. Af þessu hafi af (1.056.473/5=) 211.295 kr. á síðustu fimm mánuðum ársins 2022 um 35,5% verið reiknað sem laun að fjárhæð 75.000 kr. til handa kæranda að undangengnu áðurnefndu samráði og af (1.399.792/3=) 466.597 kr. um 16% tekna félagsins á fyrri hluta ársins 2023.

Kærandi uppfylli sömuleiðis önnur skilyrði atvinnuleysistryggingalaga og geti sannað það frekar ef úrskurðarnefndin telji þörf á. Þar með talið c. lið 14. gr. um að sýna frumkvæði og vera reiðubúinn til allra starfa, sbr. t.d. 22 formlegar starfsumsóknir á tímabilinu apríl 2021 til apríl 2023. D. lið 14. gr. um að þurfa ekki sérstakan fyrirvara, enda hafi kærandi vegna fæðingar barnabarns, atvinnuleysis og væntanlegs starfs aðeins verið tímabundið erlendis samkvæmt tilkynningu til Vinnumálastofnunar þar um í tengslum við tilkynningu hans um að hann hefði um mánaðamótin apríl/maí 2023 verið ráðinn til starfs á C frá og með ágúst, sem hann hafi hafið störf 8. ágúst 2023. Einnig e. lið 14. gr. um að hluta- og verktakavinnustörf komi einnig til greina.

Þá sé fram komið að kærandi hafi ekki starfað á umræddu tímabili við að afla þessara tekna heldur stafi þær af 800.000 kr. Xverðlaunum sem hann hafi fengið í október 2021 í kjölfar starfa sinna árin á undan svo og tveggja námskeiða í desember 2021 og síðsumar 2022, sbr. framan tilvitnuð skilyrði atvinnuleysistryggingalaganna um réttleysi til launa og virka atvinnuleit án fyrirvara og án skilyrða. Rétt sé því að taka fram að villandi ummæli sé tvívegis að finna að þessu leyti í bréfi endurskoðanda, á blaðsíðu eitt og tvö, um að reiknuð hafi verið laun á kæranda „í samræmi við vinnuframlag kr. 75.000. – á mánuði”. Hið rétta sé, eins og að framan greini, að um hafi verið að ræða tekjusvigrúm sem fyrir leiðbeiningar og að því er virðist í samræmi við reglugerð nr. 1480/2022 hafi verið nýtt á síðari hluta árs 2022 og fyrri hluta árs 2023 til greiðslu launa en byggt á eldra vinnuframlagi kæranda.

Til vara sé byggt á því að umrædd 75.000 kr. mánaðargreiðsla, brúttó fyrir skatt, teljist aðeins um 10% eðlilegra launa og þannig í versta falli hlutastarf til hlutfallslegrar skerðingar atvinnuleysisbóta, sbr. 17. og 22. gr. laga nr. 54/2006, sem tilvitnaður stafliður 14. gr. vísi til.

Samkvæmt bréfi frá 9. júní 2023 virðist fyrri ákvörðun um að kæranda beri að endurgreiða 272.527 kr., eða 313.406 kr. að meðtöldu 15% álagi, byggð á dvöl erlendis, sem eins og fram sé komið hafi verið vegna barnsfæðingar erlendis og þar sem kærandi hafði fengið starf frá og með ágúst 2023 annars vegar og hins vegar vegna skorts á tilkynningu sem kærandi telji ekki geta haft svo íþyngjandi réttaráhrif samkvæmt tilvitnuðum réttarreglum.

Þess skuli getið að umrædd 75.000 kr. greiðsla í átta mánuði hafi, að undangengnum framangreindum leiðbeiningum samkvæmt tilvitnaðri reglugerð nr. 1480/2022, verið ákveðin til þess að auka líkur á jákvæðu greiðslumati þeirra hjóna sem hafi fengist í kjölfarið en þau hafi verið að minnka við sig íbúðarhúsnæði.

Varðandi álag vísist til framangreindra athugasemda um leiðbeiningar og til þeirra orða kæranda í bréfi frá 10. ágúst 2023 um að „andmæla því að ég hafi vísvitandi villt eða gerst sekur um að hafa reynt að svindla á kerfinu.” Einnig vísist til eftirfarandi orða í sama bréfi:

„Að sjálfsögðu skil ég að Vinnumálastofnun þarf að vera vakandi fyrir einstaklingum sem misnota kerfið en það er ekki raunin í mínu tilfelli og ef einhver mistök hafa verið af minni hálfu það eru þau ekki viljandi gerð og að sjálfsögðu verða þau leiðrétt. Eins og sjá má í fylgiskjali endurskoðanda þá höfðum við samráð með honum hvað varðar leyfileg laun með atvinnuleysisbótum og ég taldi mig vera að fara eftir lögum og reglum að þiggja þau laun vegna tekna sem komu inn fyrir mín verk frá fyrri árum.”

Sjálfsagt sé að gera frekari grein fyrir málsástæðum og lagarökum, verði þess óskað, með þeim hætti sem farið verði fram á, en kærandi áskilji sér rétt til þess að leggja fram frekari gögn á síðari stigum eftir því sem tilefni gefist til. Þá sé einnig áskilinn réttur til að koma að frekari málsástæðum og röksemdum á síðari stigum málsins eftir því sem málatilbúnaður Vinnumálastofnunar gefi tilefni til, svo sem að fengnum rökstuðningi stofnunarinnar, sbr. erindi, dags. 30. ágúst 2023, og þá eftir atvikum með tilvísun í fordæmisgefandi úrlausnir.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar er vísað til þess að af gögnum málsins megi ráða að stjórnsýsluákvörðun stofnunarinnar sé einungis byggð á eftirfarandi tvennum röksemdum. Annars vegar að kærandi hafi dvalið í nokkrar vikur erlendis í tilefni fæðingar fyrsta barnabarns án þess að tilkynna það áður. Hins vegar að kærandi hafi þá verið (til og með 16. september er það hafi verið lagfært) formlega skráður í forsvari einkahlutafélags síns og konu sinnar. Kærandi telji hvorugt atriðið feli í sér eða jafngildi því að hann hafi ekki verið í virkri atvinnuleit eins og nú skuli rakið nánar með aðskildum hætti, auk þess sem áréttuð séu málsrök í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Sannanleg virk atvinnuleit kæranda vegi að minnsta kosti að hans mati þyngra en formsatriði svo sem að neðan greini. Til öryggis skuli tekið fram að hvorugt atriðið jafngildi vanrækslu á borð við að mæta ekki í boðað viðtal eða námskeið hjá Vinnumálastofnun. Þá hafi kærandi engu starfi hafnað, sbr. t.d. úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 17. nóvember 2022 í máli nr. 467/2022 og 15. desember 2022 í máli nr. 508/2022.

Varðandi dvöl kæranda erlendis og skort á tilkynningu sé tekið fram að fyrsta barnabarn kæranda og eiginkonu hans hafi fæðst í Lundúnum X 2023. Kærandi hafi af því tilefni farið utan 22. apríl 2023 og komið til baka 13. júlí 2023. Kærandi hafi látið Vinnumálastofnun vita af þessu með tölvuskeyti 17. maí 2023 og hafi þá þegar verið kominn með vinnu hjá C eins og hann hafi upplýst um í sama tölvuskeyti. Í því ljósi skipti tímalengd dvalarinnar ekki máli nú. Áætlun kæranda hafi verið að dvelja erlendis í nokkrar vikur ef hann fengi vinnu hjá C síðsumar, eins og hafi raungerst. Sömuleiðis hafi verið áætlun kæranda að koma samstundis heim ef hann fengi loks einhverja aðra vinnu, sbr. fylgiskjal um fjölda umsókna. Kærandi hefði getað komið heim næsta dag, enda um þrjú flug á dag frá Lundúnum til Keflavíkur. Enginn fyrirvari hefði því þurft að vera á því að taka við starfi ef það hefði boðist fyrr. Vegna nútíma samskiptamiðla og hraðra samgangna nú til dags, in casu frá Lundúnum, geti ekki staðist að skýra orðin staddur hér á landi í c. lið 1. mgr. 13. gr. atvinnuleysistrygginga svo bókstaflega að tryggður einstaklingur, sem í þessu tilviki hafi sannalega staðið í virkri atvinnuleit, megi ekki bregða sér af bæ, einkum þegar verið sé að létta undir með syni vegna fyrsta barns í erlendri stórborg.

Þrátt fyrir orðin „staddur hér á landi“ í c. lið 1. mgr. 13. gr. atvinnuleysistryggingalaga hafi því að mati kæranda í ljósi meðalhófs ekki verið næg lagaheimild til fortakslausrar átthagabindingar kæranda meðan beðið væri vinnu. Frá og með atvinnutilboði í lok apríl (upphaf starfs í ágústbyrjun) hafi atvinnuleit kæranda í raun lokið, þ.e. fimm dögum eftir utanför. Jafnvel þótt svo væri væru slíkir átthagafjötrar ekki afturvirkir fyrir utanferð hinn 22. apríl og því sé þess til vara krafist að hafnað verði endurgreiðslu fyrir utanförina, sbr. einkum þrautavarakröfu í kæru til nefndarinnar.

Varðandi skort á tilkynningu sé viðurkennt að kæranda hafi láðst að tilkynna utanför sína fyrir fram. Slík vanræksla geti ekki með vísan til meðalhófs, að minnsta kosti ekki eins og á hafi staðið hjá kæranda, sbr. regluna um að leggja einstaklingsbundið mat á aðstæður hverju sinni, haft svo afdrifaríkar og afdráttarlausar afleiðingar sem algera sviptingu atvinnuleysisbóta, hvað þá með afturvirkum hætti þar sem kærandi hafi verið hérlendis til og með 21. apríl 2023. Til vara sé því haldið fram að tilgreind tilkynning kæranda hinn 17. maí 2023 hafi verið án ástæðulausrar tafar, sbr. til hliðsjónar úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 7. júlí 2022 í máli nr. 147/2022, 3. mars 2022 í máli nr. 633/2021 og 20. janúar 2022 í máli nr. 490/2021, í skilningi 2. mgr. 14. gr. atvinnuleysistryggingalaga í ljósi aðstæðna kæranda vegna barnsfæðingar og nýfenginnar vinnu hjá C.

Kærandi taki fram að frá og með 16. september 2023 sé hann hvorki framkvæmdastjóri né með prókúru fyrir hönd F. Eiginkona kæranda hafi alla tíð í raun séð um rekstur þess og til að mynda ein verið handhafi greiðslukorts fyrir félagið. F sé í þessum skilningi, sbr. tilvitnuð fylgiskjöl, ekki eiginlegt fyrirtæki kæranda heldur formleg skel í félagsformi fyrir litar aukatekjur kæranda sem hafi auk þess verið frá fyrri tíð, sbr. til hliðsjónar úrskurði nefndarinnar frá 12. janúar 2023 í máli nr. 510/2022, frá 15. desember 2022 í máli 489/2022, 24. febrúar 2022 í máli nr. 534/2021, 24. febrúar 2022 í máli nr. 530/2021 og 24. febrúar 2022 í máli nr. 521/2021. Þá hafi félagið tímabundið verið nýtt til innheimtu og greiðslu lítilsháttar aukatekna sonar kæranda. Félagið hafi hins vegar fyrst og fremst verið fyrir starf eiginkonu kæranda sem X á eigin stofu eins og fram sé komið. Í fylgiskjali merkt g megi meðal annars sjá að 86% tekna fyrri hluta ársins 2023 hafi verið vegna Xstarfs eiginkonu kæranda, sbr. til hliðsjónar úrskurð nefndarinnar frá 17. nóvember 2022 í máli nr. 412/2022.

Um hafi verið að ræða formsatriði sem fyrir mistök, sbr. til hliðsjónar úrskurði nefndarinnar frá 17. nóvember 2022 í máli nr. 371/2022 og 20. janúar 2022 í máli nr. 507/2021, hafi ekki verið í samræmi við raunveruleikann og efni máls og því til að mynda frábrugðið lögskráningu á skip, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar frá 19. desember 2022 í máli nr. 503/2022.

Aðalatriðið sé þó að engin lagastoð sé fyrir hinni kærðu, afar íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun Vinnumálastofnunar, að minnsta kosti ekki í tilviki kæranda miðað við atvik máls hans, enda sé ákvörðun stofnunarinnar ítrekað aðeins sögð byggja á markmiði atvinnuleysistryggingalaga og síðar gildissviði sömu laga. Ekki standist að slíkt formlegt fyrirsvar jafngildi því að vera ekki í virkri atvinnuleit í skilningi a. liðar 1. mgr. 13. gr. laganna þannig að til algerrar bótasviptingar komi, sjá til hliðsjónar úrskurð nefndarinnar frá 20. október 2022 í máli nr. 167/2021. Hið formlega fyrirsvar kæranda hefði ekki hindrað hann í að taka þegar í stað við starfi, ef boðist hefði, sbr. það sem áður greini um virka atvinnuleit hans og úrskurð nefndarinnar frá 12. janúar 2023 í máli nr. 504/2022.

Mál kæranda sé því mjög frábrugðið málum þar sem samhliða launuð störf leiði til sviptingar bóta, sbr. t.d. úrskurð nefndarinnar frá 25. nóvember 2014 í máli nr. 15/2014 en í því máli hafi legið fyrir sönnunargögn af samfélagsmiðlum um virka starfsemi hlutaðeigandi en því sé ekki til að dreifa í þessu máli, þvert á móti þar sem kærandi hafi fært fram sönnur fyrir raunverulegu og sáru atvinnuleysi sínu (sbr. til hliðsjónar um sönnunarstöðu úrskurð nefndarinnar frá 31. mars 2022 í máli nr. 692/2021, 17. mars 2022 í máli nr. 684/2021, 20. janúar 2022 í máli nr. 518/2022 og 16. desember 2021 í máli nr. 461/2021), þrátt fyrir lítilsháttar eftirágreiðslur vegna fyrri starfa eins og fram hafi komið. Mál kæranda sé áþekkt máli nefndarinnar frá 19. ágúst 2014 í máli nr. 137/2013 þar sem formsatriði er hafi verið leiðrétt (sbr. einnig til hliðsjónar úrskurð nefndarinnar frá 25. ágúst 2022 í máli nr. 648/2021), hafi ranglega leitt til sviptingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið felld úr gildi en í niðurlagi forsendna úrskurðarins segi: „Samkvæmt því var kærandi í virkri atvinnuleit á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysisbóta og sótti námskeið í gerð ferilskráa.” Sama gildi um kæranda í máli þessu og það efnisatriði ætti að mati kæranda að ráða úrslitum.

Varðandi rannsóknarregluna vísi kærandi máli sínu til stuðnings til úrskurða nefndarinnar frá 17. nóvember 2022 í máli nr. 427/2022, 5. júlí 2013 í máli nr. 67/2011, 24. febrúar 2022 í máli nr. 599/2021 og 20. janúar 2022 í máli nr. 541/2021, svo og til hliðsjónar úrskurð nefndarinnar frá 20. janúar 2022 í máli nr. 507/2021.

Varðandi andmælarétt bendi kærandi á að sjö daga frestur á hásumarleyfistíma, sbr. bréf Vinnumálastofnunar, dags. 25. júlí 2023, sé frekar snautlegur fyrirvari til lögvarinna andmæla, svo vægt sé til orða tekið. Einkum um svo afdrifaríka ákvörðun Vinnumálastofnunar eins og raunin hafi orðið og svo mikla hagsmuni kæranda sem um ræði og það hafi verið ástæða þess að kærandi hafi ekki getað neytt andmælaréttar þá. Með hliðsjón af úrskurði nefndarinnar frá 25. ágúst 2022 í máli nr. 225/2022 telji kærandi að fallast hefði átt á skýringar hans, eins og fram sé komið, þótt síðbúnar hafi verið.

Kærandi taki fram að skylda stjórnvalda samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar sé að leggja einstaklingsbundið mat á aðstæður hverju sinni þegar um mat sé að ræða. Máli sínu til stuðnings vísi kærandi til úrskurða nefndarinnar frá 6. október 2022 í máli nr. 324/2022 og 15. desember 2022 í máli nr. 489/2022.

Með hliðsjón af úrskurði nefndarinnar frá 28. apríl 2022 í máli nr. 71/2022 og þeirri reglu að inngreiðslur í atvinnuleysiskerfið þurfi að ná ákveðnu lágmarki telji kærandi, eins og nánar sé rakið í kæru, að 75.000 kr. mánaðargreiðslur í átta mánuði geti ekki svipt hann bótum alfarið á sama tíma.

Með hliðsjón af úrskurði nefndarinnar frá 29. júní 2023 um að vanræksla við upplýsingaveitu  um minniháttar atriði komi ekki að sök verði ekki talið að minniháttar vanræksla kæranda á veitingu tímanlegra upplýsinga geti leitt til algerrar sviptingar bóta, hvað þá afturvirkt, sbr. það sem áður sé fram komið, sbr. einnig úrskurð nefndarinnar frá 15. desember 2022 í máli nr. 482/2022.

Varðandi álag vísi kærandi máli sínu til stuðnings til úrskurðar nefndarinnar frá 28. apríl 2022 í máli nr. 27/2022.

Að lokum taki kærandi fram að honum þyki sárt að hafa misserum saman (líklega vegna aldurs, sbr. til hliðsjónar úrskurð nefndarinnar frá 31. mars 2022 í máli nr. 686/2021) ekki fengið atvinnuviðtal, hvað þá vinnu, í sinni grein þótt toppmaður sé í […]. Ofan á það bætist kostnaður, óvissa og þunglyndi kæranda vegna þessa málarekstrar, að ósekju. Þá árétti kærandi það sem fram komi í kæru til nefndarinnar að bein afleiðing atvinnuleysis kæranda og þar af leiðandi tekjusamdrætti hafi verið að þau hjónin hafi þurft að selja dýrari íbúð sína fyrir ódýrari húsnæði.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 4. mars 2022. Með erindi, dags. 7. apríl 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Þann 16. maí 2023 hafi Vinnumálastofnun boðað kæranda í viðtal á þjónustuskrifstofu þann 17. maí 2023. Kærandi hafi þann 17. maí 2023 boðað forföll í gegnum vefsíðu stofnunarinnar og jafnframt upplýst um dvöl erlendis. Frekari gögn hafi borist frá kæranda þann 6. júní 2023 sem hafi sýnt að dvöl erlendis varði frá 22. apríl 2023 til 13. júlí 2023. Þann 9. júní 2023 hafi Vinnumálastofnun tekið ákvörðun um beitingu viðurlaga vegna brots gegn 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Við reglulega samkeyrslu gagna hjá Skattinum hafi einnig komið í ljós tekjuskráningar frá fyrirtæki í eigu kæranda, F, en í ljós hafi komið að hann væri skráður stofnandi, prókúruhafi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Þá hafi einnig legið fyrir að kærandi væri einn skráður með 100% eignarhlut á félaginu. Vinnumálastofnun hafi jafnframt óskað upplýsinga úr launagreiðandaskrá F frá embætti Skattsins. Samkvæmt þeim upplýsingum hafi einn til þrír starfsmenn verið á launagreiðandaskrá fyrirtækisins á tímabilinu mars til desember 2022 og einnig frá janúar til júní 2023. Kærandi hafi sjálfur verið á launagreiðandaskrá og þegið laun í mars 2022, ágúst til desember 2022 auk janúar til mars 2023.

Með bréfi, dags. 25. júlí 2023, hafi kærandi verið inntur eftir skriflegri ástæðu þess að hafa ekki upplýst um reksturs fyrirtækis í hans eigu samhliða töku atvinnuleysistrygginga. Þess hafi verið óskað að kærandi veitti Vinnumálastofnun frekari skýringar og sundurliðun á umfangi vinnu hans. Sömuleiðis hafi verið óskað eftir því að kærandi skilaði inn skýringum á ástæðum þess að hafa ekki upplýst stofnunina um starf sitt. Kæranda hafi verið veittur sjö daga frestur til að svara erindinu. Engin svör hafi borist frá kæranda innan gefinna tímamarka.

Með bréfi Vinnumálastofnunar þann 4. ágúst 2023 hafi kæranda verið tjáð að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar þar sem hann teldist ekki vera í virkri atvinnuleit. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi verið greint frá því að í ljósi þess að hann væri skráður 100% eigandi F samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins og verið með launamenn í vinnu frá ágúst 2022 væri það mat Vinnumálastofnunar að hann uppfyllti ekki skilyrði 14. gr. laganna. Kæranda hafi jafnframt verið greint frá því að ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hans, að fjárhæð 1.840.042 kr., auk álags að fjárhæð 276.006 kr., yrðu innheimtar í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi einnig verið upplýstur um eftirstöðvar eldri kröfu að fjárhæð 313.406 kr. vegna ákvörðunar frá 9. júní 2023.

Andmælabréf, skýringar og beiðni um endurupptöku hafi borist stofnuninni þann 10. ágúst 2023 með bréfi kæranda og í erindi frá skoðunarmanni F. Það hafi verið mat stofnunarinnar að ekki væri verið að óska eftir endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar frá 9. júní 2023 heldur einvörðungu á ákvörðun frá 25. júlí 2023. Í skýringarbréfi kæranda segi að hann hafi ekki séð erindi stofnunarinnar frá 25. júlí 2023 þar sem hann hafi verið staddur erlendis. Með bréfi Vinnumálastofnunar frá 16. ágúst 2023 hafi fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 4. ágúst verið staðfest, þrátt fyrir síðar tilkomnar skýringar kæranda.

Með bréfi lögmanns, mótteknu 31. ágúst 2023 en dagsettu 30. ágúst 2023, hafi verið farið fram á rökstuðning fyrir ákvörðunum stofnunarinnar frá 9. júní 2023 og 4. ágúst 2023. Kæranda hafi verið sendur rökstuðningur þann 15. september 2023.

Mál þetta lúti annars vegar að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda vegna ótilkynntrar dvalar erlendis og þeirri ákvörðun stofnunarinnar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem kærandi hafi fengið greiddar á tímabilinu 22. apríl til 13. júlí 2023, en hins vegar að ákvörðun stofnunarinnar um stöðvun greiðslna fyrir tímabilið 1. ágúst 2022 til 30. júní 2023 á grundvelli þess að eigandi fyrirtækis í rekstri geti ekki talist uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að vera í virki atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Í c. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum.

Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Þar segi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Í athugasemdum með frumvarpi því er hafi orðið að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“ Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitanda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti.

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á þessari upplýsingarskyldu hins tryggða:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Fyrir liggi að kærandi hafi dvalið erlendis frá 22. apríl 2023 til 13. júlí 2023. Í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjanda um greiðslur atvinnuleysistrygginga að vera í virkri atvinnuleit. Það sé jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c. lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um þessa utanlandsferð sína, líkt og honum hafi borið að gera samkvæmt 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi því verið beittur viðurlögum samkvæmt 59. gr. laganna.

Í skýringum til Vinnumálastofnunar og í kæru til úrskurðarnefndar greini kærandi frá því að honum hafi ekki verið kunnugt um að honum bæri að tilkynna stofnuninni um ferðir sínar erlendis. Í þessu samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að við móttöku umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur hafi kæranda verið greint frá því að ítarlegar upplýsingar um réttindi hans og skyldur væri að finna á heimasíðu stofnunarinnar, auk þess að honum hafi verið sendur tölvupóstur 10. mars 2022 með ágripi yfir þá þætti sem geti haft áhrif á rétt manna til atvinnuleysisbóta við vinnslu umsóknar hans. Þá hafi kæranda jafnframt verið bent á að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um allar ferðir erlendis. Kæranda hljóti því að hafa verið ljóst að honum bæri að tilkynna stofnuninni um ferð sína erlendis. Með vísan til framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda séu ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að hann hafi ekki uppfyllt upplýsinga- og trúnaðarskyldu sína gagnvart stofnuninni, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú skylda atvinnuleitanda sem þiggi atvinnuleysisbætur að tilkynna fyrir fram um utanlandsferðir sínar sé fortakslaus, enda sé um að ræða upplýsingar um atvik sem hafi bein áhrif á rétt atvinnuleitanda til greiðslu atvinnuleysisbóta. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í ljósi þess að kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um ferð sína erlendis hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 22. apríl 2023 til 13. júlí 2023, samtals að fjárhæð 313.406 kr. Ofgreiddar atvinnuleysisbætur beri að innheimta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Ljóst sé að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslu atvinnuleysisbóta á þeim tíma er hann hafi verið erlendis, sbr. c. lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Honum beri því að endurgreiða þá fjárhæð sem hann hafi fengið greidda á umræddu tímabili.

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum og Creditinfo sé kærandi eini eigandi félagsins F og aðalstarfsemi þess sé […]. Fyrir liggi að kærandi sé samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá félagsins skráður eigandi 100% hlutafjár félagsins, stofnandi þess, stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi.

Helstu skýringar kæranda séu þær að hann hafi ekki starfað hjá félaginu á þeim tíma sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Ástæðu þess hafi kærandi ekki tilgreint nánar en sagt aðaltekjur félagsins vera tilkomnar vegna Xstarfa eiginkonu sinnar og að þær tekjur sem skráðar séu á hann mánaðarlega séu tilkomnar vegna vinnu á öðrum tímabilum en launagreiðslurnar eigi við um. Þeir sem hafi verið á launagreiðendaskrá á viðkomandi tímabilum séu samkvæmt skýringum kæranda eiginkona hans og sonur.

Að mati Vinnumálastofnunar samrýmist það hvorki gildissviði né markmiði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. og 2. gr., að eigandi, stofnandi, stjórnarformaður, prókúruhafi og framkvæmdastjóri tiltekins félags, sem sé í fullum rekstri, þiggi atvinnuleysisbætur. Hvort þá heldur þegar umrætt félag sé með starfsmenn í vinnu. Eðli máls samkvæmt geti einstaklingur, sem sé með fólk í vinnu og fari með stjórn félags ekki talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Eigandi fyrirtækis sem ráði starfsfólk til starfa til að sinna rekstri þess, í stað þess að sinna slíkum störfum sjálfur, geti ekki talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að mati Vinnumálastofnunar. Í þessu samhengi skipti ekki máli að mati Vinnumálstofnunar hvort umrætt félag hafi skilað hagnaði.

Auk þess sem að framan greini bendi skráning kæranda í fyrirtækjaskrá og launagreiðslur honum til handa að kærandi starfi hjá umræddu félagi. Það leiði jafnframt af stöðu kæranda innan félagsins sem framkvæmdastjóri, eigandi og prókúruhafi að hann starfi hjá fyrirtækinu og annist rekstur þess.

Í a. lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 1. mgr. 14. gr. laganna komi fram að í virkri atvinnuleit felist meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi og vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða, sbr. c. til f. liði 1. mgr. 14. gr. Þá sé í g. lið 14. gr. kveðið á um að skilyrði fyrir virkri atvinnuleit sé jafnframt að viðkomandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Samkvæmt kæranda hafi hann ekki starfað hjá F. Kærandi hafi því sjálfur ákveðið að greiða sér laun til málamynda á grundvelli starfa sem hafi verið innt af hendi á eldri tímabilum. Það sé mat Vinnumálastofnunar að slíkt geti ekki samræmst markmiði laga um atvinnuleysistryggingar né ákvæði 14. gr. laganna um virka atvinnuleit.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslu atvinnuleysistrygginga þann tíma sem fyrirtæki í hans eigu hafi verið í rekstri. Í því samhengi vísi Vinnumálstofnun til 1., 2. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. júní til 31. október 2022. 

Heildarskuld kæranda standi í 2.429.454 kr. og þar af sé 15% álag að fjárhæð 316.885 kr. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til skuldamyndunar. Í þessu samhengi vísi Vinnumálastofnun einkum til þess að það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki fært rök fyrir því að fella skuli niður álag á skuld hans. Almenn fyrirspurn eiginkonu kæranda í ágúst 2022 um frítekjumark atvinnuleysistrygginga, breyti ekki þeirri niðurstöðu, enda hafi Vinnumálastofnun ekki verið tilkynnt um rekstur og eignarhald F.

Í kæru séu jafnframt gerðar athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar. Gerðar séu athugasemdir við það að Vinnumálstofnun hafi tekið ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar á þeirri staðreynd einni að kærandi væri eigandi 100% hlutafjár félagsins F, án þess að kanna frekar hvort hann starfaði hjá félaginu. Með vísan til þess sem að framan hafi verið rakið sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi starfi að rekstri eigin fyrirtækis. Vinnumálstofnun hafni því að mál hans hafi ekki verið nægilega upplýst áður en ákvörðun stofnunarinnar hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá telji kærandi að andmælaréttur hans samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið virtur og vísi til þess að hann hafi ekki fengið tækifæri til þess að bera fram andmæli sín áður en ákvörðun hafi verið tekin í máli hans. Í þessu samhengi vísi Vinnumálstofnun til þess að kæranda hafi verið sent erindi, dags. 5. júní 2023, vegna ótilkynntrar ferðar erlendis og 25. júlí 2023 vegna stöðu hans sem eiganda F þar sem honum hafi sérstaklega verið gefinn kostur á að bera fram andmæli sín. Kæranda hafi í umræddu erindi verið greint frá þeim viðurlögum sem hann mögulega kynni að sæta og að hann kynni að þurfa að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í ljósi framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi sannarlega fengið tækifæri til þess að koma að andmælum sínum.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnun að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 1. ágúst 2022 til 30. júní 2023, sbr. 1., 2. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, auk álags, samtals 2.429.454 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Í svari Vinnumálastofnunar við erindi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2023, kom fram að umsókn kæranda hefði verið samþykkt sem blönduð, þ.e. kærandi hefði bæði verið launþegi og sjálfstætt starfandi. Bótaréttur hefði reiknast 41,36% vegna sjálfstætt starfandi og 58,64% vegna launaþegastarfa.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu er annars vegar kærð ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2023, um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna ótilkynntrar dvalar erlendis og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 22. apríl 2023 til 31. maí 2023. Hins vegar er kærð sú ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. ágúst 2023, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá 1. júlí 2023 og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. ágúst 2022 til 30. júní 2023 með vísan til þess að hann hefði ekki verið í virkri atvinnuleit á þeim tíma vegna aðkomu að rekstri fyrirtækis í hans eigu. Verður fyrst vikið að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júní 2023.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæðið ber meðal annars að túlka með hliðsjón af ákvæði c. liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 þar sem fram kemur að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur, með skráð lögheimili og staddur hér á landi.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi staddur erlendis á tímabilinu 22. apríl 2023 til 31. maí 2023 en tilkynnti Vinnumálastofnun ekki fyrir fram um ferð sína. Kærandi hefur viðurkennt að hafa láðst að tilkynna stofnuninni um utanför sína en telur að slík vanræksla geti ekki, með vísan til meðalhófs og reglunnar um að leggja beri einstaklingsbundið mat á aðstæður hverju sinni, haft þær afleiðingar að svipta hann atvinnuleysisbótum fyrir fyrrgreint tímabil. Þá hefur kærandi einnig vísað til þess að vegna nútíma samskiptamiðla og hraðari samgangna nú til dags geti ekki staðist að skýra orðin „staddur hér á landi“ í c. lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 svo bókstaflega að tryggður einstaklingur megi ekki „bregða sér af bæ“. Kærandi telji í ljósi meðalhófs að ekki sé næg lagaheimild til slíkrar „fortakslausrar átthagabindingar“.

Úrskurðarnefndin fellst ekki á framangreind rök kæranda, enda ljóst af ákvæði c. liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 að skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta er að viðkomandi sé staddur hér á landi. Í því samhengi skipta nútíma samskiptamiðlar eða góðar samgöngur ekki máli. Varðandi vanrækslu kæranda um tilkynningu utanlandsferðarinnar skal bent á að þann 10. mars 2022 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði móttekið umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Kæranda var meðal annars greint frá því að tilkynna þyrfti Vinnumálastofnun fyrir fram um ferðir til útlanda á „Mínum síðum“ og skila inn afriti af farseðli/brottfararspjaldi væri óskað eftir því. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita af tilkynningarskyldu vegna ferða erlendis, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér upplýsinga um hvort slík skylda væri fyrir hendi.

Með hliðsjón af framangreindu verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hann tilkynnti ekki fyrir fram um ferð sína erlendis. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um beitingu viðurlaga við slíku broti og er þar ekki um að ræða matskennt fyrirmæli.

Með framangreindri ákvörðun Vinnumálastofnunar voru einnig innheimtar ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins sem kærandi var erlendis. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi var erlendis á tímabilinu 22. apríl 2023 til 31. maí 2023 uppfyllti hann ekki skilyrði c. liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera staddur hér á landi. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um ferð sína til útlanda og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2023, um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 22. apríl 2023 til 31. maí 2023, staðfest.

Kemur þá til skoðunar ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. ágúst 2023, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá 1. júlí 2023 og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. ágúst 2022 til 30. júní 2023 með vísan til þess að hann hefði ekki verið í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006, á þeim tíma vegna aðkomu kæranda að rekstri fyrirtækis í hans eigu.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Sama skilyrði á við um sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. 1. mgr. 18. gr. laganna. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. ágúst 2023 var vísað til þess að kærandi væri skráður 100% eigandi, framkvæmdastjóri, stofnandi og prókúruhafi hjá F. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hefði kærandi verið með starfsfólk á launaskrá hjá félaginu á sama tíma og hann hefði þegið greiðslur atvinnuleysisbóta á tímabilinu ágúst 2022 til júní 2023. Þá er vísað til þess að kærandi hefði verið á launaskrá fyrirtækisins frá ágúst 2022 að telja án þess að fyrir lægi tilkynning af hans hálfu um þá vinnu. Þar sem kærandi hefði starfað við rekstur eigin fyrirtækis samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta taldi Vinnumálastofnun hann ekki uppfylla skilyrði 14. gr. laga nr. 54/2006 á sama tímabili og krafðist endurgreiðslu allra greiddra atvinnuleysisbóta tímabilsins.

Af lagaáskilnaði 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar leiðir að lagaákvæði sem mæla fyrir tiltekin skilyrði sem þarf að uppfylla til að eiga rétt á bótum frá hinu opinbera verða að vera skýr og ótvíræð þannig að auðvelt sé fyrir einstaklinga að átta sig á réttarstöðu sinni. Jafnframt verða ákvarðanir stjórnvalda að eiga sér stoð í lögum og ef um íþyngjandi ákvörðun er að ræða verður að gera strangari kröfur til skýrleika þeirrar lagaheimildar sem hún byggist á. Túlka verður 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 í ljósi þessara lagasjónarmiða. Af texta ákvæðisins og lögskýringargögnum verður ekki ráðið að það eitt að eiga hlut í einkahlutafélagi eða koma að rekstri slíks félags með einhverjum hætti valdi því að viðkomandi teljist sjálfkrafa ekki virkur í atvinnuleit í skilningi ákvæðisins og eigi þar með ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Úrskurðarnefndin telur að í slíkum tilvikum verði að fara fram atviksbundið og heildstætt mat hverju sinni, þ.e. að meta þurfi hlutverk viðkomandi í rekstrinum og umfang rekstursins.

Með vísan til framangreinds getur úrskurðarnefndin því ekki fallist á að Vinnumálastofnun hafi verið heimilt að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á þeim grundvelli að kærandi væri skráður 100% eigandi, framkvæmdastjóri, stofnandi og prókúruhafi hjá félaginu F. Gátu þær aðstæður enda ekki einar og sér leitt til þeirrar niðurstöðu að kærandi hefði ekki verið í virkri atvinnuleit í skilningi 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar stofnuninni að leggja atviksbundið og heildstætt mat á störf kæranda fyrir félagið, svo sem hvaða verk hann hefði innt af hendi og hvert væri umfang þeirra. Er þá sérstaklega haft í huga að fyrir lágu upplýsingar frá bókahaldsþjónustu E um að tekjur félagsins hafi að mestu leyti stafað frá Xþjónustu eiginkonu kæranda og að þær tekjur hafi að jafnaði verið 75-90% af tekjum félagsins síðustu ár. Verður ekki séð að stofnunin hafi með rökstuddum hætti lagt mat á þær upplýsingar.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá 1. júlí 2023 og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. ágúst 2022 til 30. júní 2023 er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. júní 2023, í máli A, er staðfest. Ákvörðun stofnunarinnar, dags. 4. ágúst 2023, í máli kæranda er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta