Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 39/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 39/2022

Fimmtudaginn 19. maí 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. janúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júní 2021, um gerð ráðningarsamnings á grundvelli reglugerðar nr. 918/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 18. nóvember 2020 og var umsóknin samþykkt 14. desember sama ár. Þann 24. maí 2021 tilkynnti kærandi Vinnumálastofnun að hann væri kominn með vinnu hjá B frá og með 3. maí og var hann þá afskráður af atvinnuleysisskrá frá og með þeim degi. Þann 27. maí 2021 barst Vinnumálastofnun umsókn um ráðningarstyrk frá B vegna ráðningar kæranda hjá fyrirtækinu. Þann 1. júní 2021 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði skráð samning um Hefjum störf – ráðningarstyrk vegna starfs hans hjá B. Tímabil samningsins væri frá 4. maí til 3. nóvember 2021. Kærandi var í samskiptum við starfsmenn Vinnumálastofnunar í júlí, október og nóvember 2021 vegna ráðningarstyrksins og kvaðst vera ósáttur við að fyrirtækið hefði fengið ráðningarstyrk eftir að hann hafði afskráð sig af atvinnuleysisskrá.  

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. janúar 2022. Með bréfi, dags. 24. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar. Sú beiðni var ítrekuð 30. mars 2022. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 12. apríl 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. apríl 2022. Athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hann hafi afskráð sig af atvinnuleysisskrá 3. maí 2021 eftir að hafa fundið vinnu hjá B, alveg óháð og án aðkomu Vinnumálastofnunar. Þann 1. júní 2021 hafi hann móttekið tölvupóst frá Vinnumálastofnun þar sem honum hafi verið tilkynnt að gerður hafi verið samningur í hans nafni og að honum forspurðum. Þar sem kærandi hafi verið búinn að afskrá sig hjá Vinnumálastofnun og hafi verið að einblína á nýja vinnu hafi hann ekki séð póstinn fyrr en þremur til fjórum vikum seinna. Strax þá hafi kærandi sent Vinnumálastofnun kröfu um útskýringu sem hafi svarað honum 13. júlí. Fyrir það hafi hann líka hringt en orðið lítt ágengt.

Kærandi krefjist þess að samningurinn verði felldur úr gildi þar sem svör Vinnumálastofnunar um gildistöku hans séu á reiki og samkvæmt þeim taki hann ýmist gildi 1. júní, 25. maí eða 4. maí en það kemur skýrt fram á heimasíðu Vinnumálastofnunar að ekki sé hægt að sækja um styrk eftir á. Ef þau rök dugi ekki til krefjist kærandi þess að hann verði felldur úr gildi vegna þess að tilkynningarskyldu atvinnuveitenda hafi ekki verið sinnt en á engum tíma í ráðningarferlinu hafi kæranda verið tjáð að þetta stæði til. Kærandi hafi sjálfur þurft að spyrja verslunarstjórann um þetta í júlí þegar hann hafi áttað sig á því hvernig málum væri háttað. Það gefi augaleið að fyrirtæki í einkarekstri og ríkisstofnun geti ekki gert með sér samning um einkaaðila að honum forspurðum, sérstaklega ef sá aðili sé sannanlega ekki skjólstæðingur stofnunarinnar þegar samningurinn taki gildi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 18. nóvember 2020. Kæranda hafi verið tilkynnt með erindi, dags. 14. desember, að umsókn hans um greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði verið samþykkt. Bótaréttur kæranda hafi verið metinn 86%.

Í mars 2021 hafi vinnumarkaðsátakið „Hefjum störf“ hafist. Markmiðið með átakinu hafi verið að skapa ný störf og auðvelda fyrirtækjum, félagasamtökum, sveitarfélögum og stofnunum að ráða atvinnuleitendur til starfa. Vinnumálastofnun hafi vakið athygli kæranda á átakinu. Af samskiptasögu kæranda megi sjá að hann hafi verið virkur í atvinnuleit á þessum tíma og sótt sjálfur um fjölmörg störf í gegnum „Mínar síður“ Vinnumálastofnunar.

Þann 24. maí 2021 hafi kærandi tilkynnt að hann væri kominn í vinnu frá og með 3. maí 2021 og hafi hann verið skráður af atvinnuleysisskrá frá þeim degi. Þann 27. maí hafi borist umsókn um ráðningarstyrk frá B vegna ráðningar kæranda hjá fyrirtækinu. Það starf sem um ræði hafi ekki verið auglýst með milligöngu Vinnumálastofnunar og kærandi hafi sjálfur sótt um starfið hjá fyrirtækinu. Stofnunin hafi talið að allir aðilar ráðningarsamnings væru upplýstir um styrkumsókn.

Þann 1. júní hafi kæranda verið tilkynnt á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar að stofnunin hefði skráð samning um ráðningarstyrk við B og kæranda. Í tilkynningu hafi komið fram að tímabil samnings væri frá 4. maí 2021 til 3. nóvember 2021 og að upphæð styrks, að viðbættu 11,5% framlagi í lífeyrissjóð, næmi allt að 527.211 kr. á mánuði. Athygli hafi verið vakin á því að sá tími sem atvinnuleitandi starfaði á ráðningarstyrk teldist ekki til ávinnslutímabils atvinnuleysisbóta. Á þeim tíma er um ræði hafi ekki verið gerð krafa um að aðilar undirrituðu eiginlegan samning, meðal annars vegna samkomutakmarkana og aðgerða vegna heimsfaraldurs. Enginn formlegur samningur um ráðningarstyrk hafi því verið undirritaður.

Þann 13. júlí hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun og lýst yfir óánægju með ráðningarstyrk í tengslum við starf sitt hjá B. Hann hafi tjáð stofnuninni að hann hefði ekki verið meðvitaður um styrksamning þegar hann hafi skrifað undir ráðningarsamning við fyrirtækið. Kærandi hafi sagt að hann hafi aldrei verið upplýstur um að starf hans væri hluti af átaki Vinnumálastofnunar þegar ráðning hafi átt sér stað. Kærandi hafi ekki viljað ræða málið við vinnuveitanda sinn af ótta við að missa starf sitt.

Kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur þann 17. janúar 2022. Samkvæmt uppsagnarbréfi hafi uppsagnarfresti kæranda lokið hjá fyrirtækinu 31. desember 2021. Ráðningarstyrkur hafi verið greiddur til fyrirtækisins fyrir tímabilið maí 2021 til loka október 2021.

Mál þetta varði ráðningarstyrk til B vegna ráðningar kæranda hjá fyrirtækinu. Kærandi geri kröfu um að samningur verði felldur úr gildi.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð er mælir fyrir um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku atvinnuleitanda í starfs- eða námstengdum vinnumarkaðsúrræðum, enda sé viðkomandi atvinnuleitandi tryggður samkvæmt lögunum þegar þátttaka í úrræði hefst.

Í reglugerð nr. 918/2020 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði sé mælt fyrir um styrki vegna þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum. Í ákvæði I til bráðabirgða með reglugerðinni, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 291/2021, sé fjallað um ráðningarstyrki í tengslum við átakið „Hefjum störf.“ Ákvæðið feli í sér að Vinnumálastofnun sé heimilt að gera samning við fyrirtæki um ráðningu atvinnuleitanda sem teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Vinnumálastofnun, fyrirtækið og atvinnuleitandinn skuli undirrita samning og með undirritun skuldbindi viðkomandi atvinnuleitandi sig til að sinna því starfi sem hann sé ráðinn til að gegna á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindi Vinnumálastofnun sig til að greiða styrk til fyrirtækisins samkvæmt ákvæðinu. Fyrirtækinu beri að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Skilyrði fyrir samning um styrk sé að ráðningarsamband komist á milli atvinnuleitanda og fyrirtækisins og heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks falli niður ef slit verði á ráðningarsambandi.

Gögn í máli kæranda bendi til þess að honum hafi fyrst verið ljóst að sótt hafi verið um ráðningarstyrk vegna ráðningar hans eftir að hann hóf störf hjá fyrirtækinu. Ekki verði fullyrt að ráðningarstyrkur hafi verið forsenda fyrir ákvörðun fyrirtækis um að ráða kæranda til starfa eða hvort af ráðningu hefði orðið, án tilkomu átaksins. Þó liggi fyrir að kæranda hafi verið send sérstök tilkynning um ráðningarstyrk vegna ráðningar hans þann 1. júní 2021. Það hafi verið gert til að tryggja að allir aðilar samnings væru meðvitaðir um styrkfyrirkomulag. Kæra til úrskurðarnefndar hafi ekki borist fyrr en 18. janúar 2022, eða rúmlega sjö mánuðum eftir að tilkynning hafi verið birt kæranda og eftir að gildistími styrksamningsins hafi verið útrunninn. Í ljósi 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála verði að ætla að kærufrestur sé liðinn.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála segi að öðru leyti, þegar ákvæði laganna tæmi, skuli fara um málsmeðferð hjá nefndinni samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum þeirra laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga sé að finna almenna kæruheimild þar sem aðila máls sé veitt heimild til að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Með ákvæðinu sé lögfest það meginskilyrði fyrir því að stjórnvöld leysi úr stjórnsýslumáli að aðili máls hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um málið. Aðili þurfi með öðrum orðum að hafa eitthvað raunhæft gildi af úrlausn ágreinings svo að hann hafi lögvarða hagsmuni af málskoti.

Í kæru til úrskurðarnefndar sé gerð krafa um að samningur um ráðningarstyrk til B vegna ráðningar kæranda hjá fyrirtækinu verði felldur úr gildi. Sá samningur sé þegar útrunninn og allar greiðslur hafi þegar verið inntar af hendi til fyrirtækisins á grundvelli samnings. Kærandi geri ekki kröfu um frekari réttindi sér til handa. Kröfur kæranda virðist því lúta að því að fyrrverandi atvinnurekandi hans endurgreiði styrk sem hafi verið greiddur til fyrirtækisins á grundvelli samnings. 

Samkvæmt ákvæði I til bráðabirgða með reglugerð nr. 918/2020 teljist sá tími sem ráðning atvinnuleitanda vari á grundvelli ráðningarsamnings hvorki til ávinnslutímabils atvinnuleitandans samkvæmt 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar né til þess tímabils sem heimilt sé að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur. Þegar kærandi hafi fyrst haft samband við Vinnumálastofnun vegna málsins hafi stofnunin kannað hvort samningur og vinnusaga hans hjá fyrirtækinu hefði áhrif á bótahlutfall, óháð framangreindum skilyrðum. Það hafi aftur verið gert þegar kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 17. janúar 2022. Við þá athugun hafi bæði verið kannað hvort starfstími á umræddu tímabili hefði áhrif á bótahlutfall kæranda, sbr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, eða hvort möguleiki væri á endurnýjun bótatímabils samkvæmt VI. kafla laganna. 

Þar sem kærandi hafi sótt aftur um greiðslur atvinnuleysisbóta í janúar 2022 geti starfstími hans ekki leitt til endurnýjunar bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, enda hafi hann ekki starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur þegar hann sótti um að nýju. Þá myndi endurmat á bótahlutfalli kæranda samkvæmt 38. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ekki leiða til betra bótahlutfalls í máli kæranda. Ástæðan fyrir því sé sú að ávinnsla bótaréttar kæranda byggi að mestum hluta á vinnusögu hans frá árunum 2016 og 2017. Endurmat á bótarétti kæranda, með tilliti til starfstíma hjá B, 15. gr. og 38. gr. laga um atvinnuleysistryggingar myndi með öðrum orðum leiða til lakari niðurstöðu en núverandi bótaréttur kæranda.

Í ljósi þess sem að framan greini telji Vinnumálastofnun að lögvarðir hagsmunir kæranda af því að fá úrlausn um efni þeirrar kröfu sem fram komi í kæru til nefndarinnar séu ekki til staðar, auk þess sem kærufrestur til að vísa kæruefni til nefndarinnar sé liðinn. 

Vinnumálastofnun veki athygli á því að kröfur í kærumáli þessu varði viðkomandi atvinnurekanda er gerður hafi verið samningur við sem kunni að hafa hagsmuni af úrlausn málsins. Líkt og áður segi hafi ráðningarstyrkur verið greiddur til fyrirtækisins á tímabilinu maí til loka október 2021. Í ljósi þess að kærandi geri kröfu um að samningur um styrk til fyrirtækisins verði felldur úr gildi telji Vinnumálastofnun rétt að B verði veitt færi á að koma að athugasemdum sínum áður en nefndin kveði upp úrskurð í málinu.  

Með vísan til alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að vísa beri máli þessu frá nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júní 2021, um gerð ráðningarsamnings vegna starfs kæranda hjá B.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. janúar 2022. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun var ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar svo sem bar að gera samkvæmt 2. Tölul. 2. Mgr. 20. Gr. stjórnsýslulaga. Að því virtu þykir afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr en liðnum kærufresti og verður henni því ekki vísað frá á þeim grundvelli að kærufrestur sé liðinn.

Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi ráðið sig til starfa hjá B án aðkomu Vinnumálastofnunar. Kærandi hefur farið fram á að samningurinn verði felldur úr gildi, annars vegar með vísan til þess að svör Vinnumálastofnunar um gildistöku samningsins séu á reiki og hins vegar með vísan til þess að tilkynningarskyldu atvinnuveitanda hafi ekki verið sinnt.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kemur fram að úrskurðarnefndin skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunni að rísa á grundvelli laganna. Þá segir í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Af framangreindu er ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti tiltekinnar ákvörðunar eða ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga nr. 54/2006. Þá er af framangreindu ljóst að aðili máls verður að hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn í kærumáli sínu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærumálsins er vísað til þess að kærandi hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur í janúar 2022 eftir að hann lauk störfum hjá B. Þá hafi verið kannað hvort framangreindur samningur og vinnusaga kæranda hjá fyrirtækinu hefði áhrif á bótahlutfall hans óháð því skilyrði sem fram komi í ákvæði I til bráðabirgða í reglugerð nr. 918/2020 um að sá tími sem ráðning atvinnuleitanda varir á grundvelli ráðningarsamnings teljist hvorki til ávinnslutímabils atvinnuleitandans samkvæmt 15. eða 19. gr. laga nr. 54/2006 né til þess tímabils sem heimilt sé að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur. Við þá athugun hafi komið í ljós að endurmat á bótahlutfalli kæranda myndi ekki leiða til betra bótahlutfalls þar sem ávinnsla bótaréttar byggði að mestum hluta á vinnusögu hans frá árunum 2016 og 2017. Sú afstaða fær stoð í gögnum málsins, sbr. ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. desember 2020 um 86% bótarétt kæranda og ákvörðun frá 16. febrúar 2022 um 86% bótarétt.

Í ljósi þessa og framangreinds hlutverks úrskurðarnefndarinnar er það mat nefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki til staðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta