Mál nr. 64/2014
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 9. apríl 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 64/2014.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 21. mars 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 20. mars 2014 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. Umsóknin var samþykkt en með vísan til starfsloka kæranda hjá B hafi réttur hans til atvinnuleysisbóta verið felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Vinnumálastofnun tók ákvörðun þessa á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og mat það svo að skýringar kæranda á ástæðum starfsloka teldust ekki gildar í skilningi ákvæðisins. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 7. júlí 2014. Kærandi óskar þess að skýringar hans verði metnar gildar og biðtími felldur niður. Vinnumálastofnun telur að ný gögn sem fylgdu með kæru gefi fullt tilefni til að taka mál kæranda fyrir að nýju hjá stofnuninni, en telur sig ekki geta aðhafst frekar á meðan mál kæranda sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 3. febrúar 2014. Umsókn kæranda fylgdi vinnuveitendavottorð frá B en samkvæmt því starfaði kærandi hjá fyrirtækinu frá 9. júní 2012 til 31. janúar 2014 sem verkamaður í C. Kemur fram á vottorðinu að ástæða starfsloka hafi verið sú að kæranda hafi verið sagt upp störfum. Þann 26. febrúar var kæranda tilkynnt með bréfi að umsókn hans hefði verið frestað og óskað var eftir skýringum kæranda á uppsögn hans. Tekið var fram að skýringar yrðu að berast stofnuninni innan 7 virkra daga. Samdægurs var óskað eftir skýringum frá B á uppsögn kæranda. Þær upplýsingar bárust frá fyrirtækinu í tölvupósti 26. febrúar 2014 að kærandi hafi ekki staðið sig í starfi vegna mikillar fjarveru úr vinnu.
Með kæru fylgdu myndir af magaspeglun sem kærandi undirgekkst í D ásamt skýringum varðandi ástand kæranda á D-sku. Þá fylgdi læknisvottorð frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem kemur fram að kærandi hafi greinst með magabólgur í áðurnefndri magaspeglun.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 6. ágúst 2014, kemur fram að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta lúti að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laganna.
Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi um 1. mgr. 54. gr. að erfitt geti reynst að telja upp endanlega þau tilvik sem gætu fallið undir greinina og sé því lagareglan matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggi falli að umræddri reglu. Skuli stofnunin því líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ beri að skýra þröngt í þessu samhengi og þar af leiði að færri tilvik en ella falli þar undir.
Af vinnuveitandavottorði, dags. 17. febrúar 2014, sé ljóst að kæranda hafi verið sagt upp störfum og lúti ágreiningurinn að því hvort kærandi eigi sök á uppsögn sinni í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Að sögn B hafi kærandi ekki staðið sig í starfi sökum þess hversu mikið hann hafi verið frá vinnu. Í skýringarbréfi kæranda segi hann ástæðu þess vera magasjúkdóm og hann hafi verið nokkuð frá vinnu vegna þess, en sagðist hafa grun um að verkstjóri hans hafi verið á móti sér. Í vinnufærnisvottorði, dags. 5. mars 2014, sem kærandi hafi skilað inn til Vinnumálastofnunar 7. mars 2013 komi fram að kærandi sé fullfær til vinnu og taki engin lyf að staðaldri. Þann 10. mars 2014 barst skýringarbréf frá kæranda er varðaði afstöðu hans til uppsagnarinnar hjá B. Í bréfi kæranda kvaðst hann hafa verið nokkuð frá vinnu vegna magasjúkdóms. Sagðist hann einnig hafa grun um að verkstjórinn hafi verið á móti sér.
Fram kemur að Vinnumálastofnun sé falið að meta hverju sinni hvort kærandi hafi verið valdur að eigin uppsögn. Það sé mat stofnunarinnar að fyrirliggjandi gögn á þeim tíma er kærð ákvörðun hafi verið tekin hafi bent til þess að kærandi hafi verið fullfær til vinnu á því tímabili er hann starfaði hjá B. Með slæmri mætingu hafi hann því orðið valdur að uppsögn sinni í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi átt sök á uppsögn sinni í skilningi 54. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og þurfi að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna.
Þó telji Vinnumálastofnun að ný gögn varðandi magasjúkdóm kæranda er fylgt hafi með kæru gefi fullt tilefni til að taka mál kæranda fyrir að nýju hjá stofnuninni, en telur sig ekki geta aðhafst frekar á meðan mál kæranda sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum.
Í bréfi frá kæranda sem barst úrskurðarnefndinni 6. nóvember 2014 kemur fram að honum hafi verið sagt upp sökum of margra veikindadaga. Hann hafi sagt að hann væri veikur og sé oft með magaverki en íslenskir læknar hafi ekki haft útskýringar á veikindum hans. Hann hafi þurft að eyða miklum fjármunum og tíma í lækniskostnað. Þá rekur kærandi að yfirmaður hans hafi kallað til lækna til þess að kanna hvað amaði að kæranda en þeir hafi ekkert fundið. Í framhaldi af því hafi yfirmaður hans sagt hann vera lygara og hann hafi verið rekinn. Þá hafi kærandi ákveðið að fara til D til að leita læknishjálpar og farið þar í magaspeglun þar sem komið hafi í ljós að hann væri með magabólgur og að læknirinn sem hafi meðhöndlað hann hafi sagt að það kæmi ekki á óvart að kærandi hafi verið mikið frá vinnu vegna þessara magaverkja.
2. Niðurstaða
Eftir að hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin 20. mars 2014 lagði kærandi fram frekari gögn varðandi magasjúkdóm sinn, eins og rakið hefur verið. Ekki hefur verið tekin afstaða til þessara nýju gagna. Það er því mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að meta verði að nýju hvort kærandi geti talist hafa átt sjálfur sök á uppsögn sinni. Þar sem Vinnumálastofnun hefur ekki tekið afstöðu til þessara gagna verður að vísa málinu aftur til efnislegrar umfjöllunar hjá stofnuninni.
Ber því að fella úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði og skal Vinnumálastofnun fjalla um mál kæranda að nýju.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 20. mars 2014 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er felld úr gildi og er málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson