Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 61/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. apríl 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 61/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 5. febrúar 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 2. febrúar 2014 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. Umsóknin var samþykkt en með vísan til þess að kærandi hafi hætt námi sínu, væri réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá 17. janúar 2014. Vinnumálastofnun tók ákvörðun þessa á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006, og mat það svo að skýringar kæranda á ástæðum námsloka teldust ekki gildar í skilningi ákvæðisins. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 3 mars 2014. Kærandi óskar þess að skýringar hans verði metnar gildar og biðtími felldur niður. Vinnumálastofnun telur að staðfesta eigi hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 14. október 2013. Þann 9. janúar 2014 tjáði kærandi Vinnumálastofnun að hann væri skráður í 9 einingar í dagskóla við B. Var honum þá tjáð að ekki væri heimilt að stunda ofangreint nám samhliða atvinnuleysisbótum. Með tölvupósti frá kæranda, dags. 16. janúar 2014, fór hann fram á að bótaréttur sinn yrði endurreiknaður. Erindi kæranda var móttekið hjá Vinnumálastofnun 17. janúar 2014. Með bréfi, dags. 21. janúar s.á., var kæranda tilkynnt að afgreiðslu umsóknar hans hafi verið frestað og óskað hafi verið eftir staðfestu skólavottorði þar sem fram kæmi hvort hann væri enn í námi, námshlutfall og hvort námi hafi verið hætt eða því lokið með prófgráðu. Kom fram að umbeðin gögn þyrftu að berast stofnuninni innan 7 virkra daga frá dagsetningu bréfsins. Þann 23. janúar 2014 barst tölvupóstur frá kæranda ásamt vottorði frá B þar sem fram kom að kærandi hafi stundað nám við skólann frá 4. janúar 2014, en sagt sig úr námi 17. janúar 2014. Skýringar kæranda á því hvers vegna hann hafði hætt námi sínu hjá B voru þær að hann hafi vegna misskilnings haldið að hann mætti vera í tilteknu námi samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Kvaðst hann aðeins hafa mætt í skólann í einn eða tvo daga, en hætt að mæta eftir að honum hafi verið tjáð að nám hans væri ekki þess eðlis að stunda mætti það samhliða atvinnuleysisbótum í skjóli námssamnings.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið atvinnulaus frá því snemma í október 2013 og hafi verið orðinn „ansi leiður“. Því hafi hann ákveðið að skrá sig í nokkrar einingar í B sem hann hafi haldið að væri í samræmi við reglur Vinnumálastofnunar, en hann hafi aðeins kynnt sér lög um atvinnuleysistryggingar. Hann hafi eingöngu haft í huga að skrá sig í það nám sem heimilt væri samkvæmt áðurnefndum lögum. Þá hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun 8. janúar 2014 og hafi honum verið tjáð að hann þyrfti að undirrita námssamning sem fyrst og hafi hann spurt hvort það væri í lagi að hann kæmi 9. janúar 2014 og hafi það verið í lagi. Hann hafi síðan mætt þann dag eftir skóla og þá hafi honum verið tjáð að hann mætti ekki vera í dagskóla og yrði að skrá sig úr námi til þess að eiga áfram rétt á atvinnuleysisbótum.

Kæranda þyki það ósanngjarnt að þurfa sæta tveggja mánaða biðtíma vegna þessa misskilnings hjá sér. Það sé varla hægt að segja að hann hafi byrjað í nokkru námi þar sem hann hafi í raun einungis verið einn dag í skólanum og hafi sagt sig úr námi eins og honum hafi verið ráðlagt af Vinnumálastofnun. Hann ítrekar að hann hafi ekki ætlað að sækja nám sem væri óheimilt samhliða greiðslu bóta. Óskar kærandi eftir því að tillit verði tekið til þessara skýringa og honum verði ekki gert að sæta biðtíma.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. ágúst 2014, segir að til umfjöllunar sé hvort ástæður kæranda fyrir því að hætta námi sínu við B séu gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum við greinina í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að eðlilegt sé að þeir sem hætti námi án þess að hafa til þess gildar ástæður sæti samskonar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna sbr. 54. gr. frumvarpsins. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið skýrt þröngt sem þýði í raun og veru að fá tilvik falli þar undir.

Fram kemur að kærandi hafi verið skráður í nám hjá B og samkvæmt vottorði frá skólanum hafi hann verið skráður í nám á vorönn 2014 en sagt sig úr námi 17. janúar 2014. Kærandi hafi fært fram þær skýringar að hann hafi ekki vitað að hann mætti ekki vera í dagskóla samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta, en í kjölfar þess að honum hafi verið tjáð það af Vinnumálastofnun 9. janúar 2014 hafi kærandi ákveðið að skrá sig úr skólanum til að missa ekki rétt sinn til atvinnuleysisbóta.

Vinnumálastofnun tekur fram að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir eru og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Beri því að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum eða hætti námi að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að stunda nám eða gegna launuðu starfi. Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og hafi kæranda því borið sæta biðtíma í tvo mánuði samkvæmt 1. mgr. 55. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. ágúst 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. ágúst 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Vinnumálastofnun byggir mál þetta á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.

 

Ákvæði 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fjallar um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum, rétt eins og 54. gr. sömu laga. Nánar tiltekið er gildissvið þessara tveggja lagaákvæða afmarkað við þá sem sækja um atvinnuleysisbætur og þurfa að sæta biðtíma eftir greiðslu bóta vegna ástæðna sem raktar eru í ákvæðunum. Ákvæði um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum eiga þannig eingöngu við um þá sem ekki hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur en hafa sótt um þær.

Í máli þessu eru málsatvik þau að kærandi var þegar skráður á atvinnuleysisbætur þegar hann skráði sig í 9 eininga nám í dagskóla við framhaldsskóla í byrjun janúar 2014. Af þessu leiðir að 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar átti ekki við um aðstöðu kæranda enda var þegar búið að samþykkja umsókn hans um atvinnuleysisbætur frá 13. október 2013.

Standi vilji til þess að beita kæranda viðurlögum ber að beita þeim ákvæðum sem fram koma í XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, þ.e. í viðurlagakafla laganna. Í þessu tilviki hefði því komið til álita að beita 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr.

Óumdeilt er í málinu að kærandi gerði mistök með skráningu sinni í námið. Hann hafði hins vegar frumkvæði að því að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa skráningu og hann skráði sig úr náminu um leið og hann vissi að það samrýmdist ekki skyldum hans sem atvinnuleitandi í atvinnuleysistryggingakerfinu. Ekki verður því séð að ákvæði 59. gr. eigi við um kæranda.

Með vísan til þess sem hér að framan greinir, er óumflýjanlegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

Úrskurðarorð


Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 5. febrúar 2014 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er felld úr gildi.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta