Mál nr. 539/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 539/2024
Föstudaginn 3. janúar 2025
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur, Ari Karlsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 22. október 2024, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 11. september 2024, um að synja umsókn hennar um fjárhagsaðstoð.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 28. ágúst 2024, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. ágúst 2024. Umsókn kæranda var synjað 6. september 2024 og staðfesti áfrýjunarnefnd velferðarráðs þá niðurstöðu með ákvörðun, dags. 11. september 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. október 2024. Með bréfi, dags. 31. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 15. nóvember 2024 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. nóvember 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er greint frá því að barnabarn kæranda hafi fengið stöðu flóttamanns árið 2022 og í kjölfarið hafi foreldrum hans einnig verið veitt alþjóðleg vernd og heimild til að koma til landsins. Þau hafi sótt um leyfi fyrir hin börnin sín, sem jafnframt hafi verið veitt alþjóðleg vernd, sem og fyrir kæranda sem hafi verið veitt leyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar vegna stöðu sonar hennar sem flóttamanns. Þau hafi öll verið saman á ferð á C en þegar þau hafi reynt að komast út af svæðinu hafi syni kæranda verið meinað að yfirgefa C. Það hafi því aðeins verið kærandi, móðir barnabarns hennar og systkini hans sem hafi fyrst komið til landsins. Nú sé sonur kæranda kominn til þeirra líka. Á þeim tíma hafi tengdadóttir kæranda einnig reynt að sækja um aðstoð fyrir hana, enda sé hún algjörlega ófær um að sjá um sig sjálf, hvað þá afla sér tekna. Henni hafi þá verið meinað um það en þau hafi þó aldrei fengið neina formlega ákvörðun í hendur. Það hafi þó verið skýrt með því að sonur kæranda, sem hafi þá verið fastur á C, ætti að sjá fyrir henni.
Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð hafi verið synjað á grundvelli 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg um framfærsluskyldu. Ekki hafi verið óskað eftir frekari rökstuðningi frá áfrýjunarnefnd velferðarráðs, enda liggi kæranda á að fá niðurstöðunni snúið og félagsþjónustan hafi gert henni grein fyrir furðulegri túlkun borgarinnar á 2. gr. Þegar óskað hafi verið eftir skýringum hafi félagsráðgjafi tjáð syni kæranda að það væri vegna þess að hann bæri ábyrgð á að framfæra hana. Samkvæmt íslenskum lögum sé hins vegar ljóst að sonur kæranda sé ekki framfærsluskyldur gagnvart henni, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Ákvæði 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé svohljóðandi:
„Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. hjúskaparlög nr. 31/1993 og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Fólk sem er í skráðri sambúð í þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.“
Ljóst sé að þetta ákvæði eigi ekki að neinu leyti við í málinu, enda sé kjarni rökstuðningsins sem henni hafi verið tjáð sá að sonur kæranda sé [ekki] framfærsluskyldur gagnvart henni. Hann sé augljóslega hvorki maki kæranda né barn yngra en 18 ára. Ljóst sé að engin lagaskylda hvíli á syni kæranda til að framfæra hana. Reykjavíkurborg hafi ekki nokkra heimild til að víkja frá lagaskyldu samkvæmt 12. gr. laga nr. 40/1991 til að veita aðstoð á grundvelli skilyrða samkvæmt útlendingalögum.
Auk þess sé ljóst að í tilfelli kæranda hafi forsendur veitingar verið mjög sérstakar. Þar sem sonur kæranda hafi komið til landsins á eftir henni og þeim hafi verið úthlutað dvalarleyfi á sama tíma liggi fyrir að þau hafi aldrei verið krafin um að sýna fram á getu til framfærslu, þó slíkt sé almennt skilyrði þess að dvalarleyfi sé veitt fyrir foreldra eldri en 67 ára. Eflaust skrifist það á þær aðstæður sem hafi verið, og séu enn, fyrir hendi á C.
Kærandi telji að Reykjavíkurborg hafi verið með öllu óheimilt að synja umsókn hennar á þessum grundvelli, enda sé skylda borgarinnar skýr, sbr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 12. gr. laga nr. 40/1991. Þar að auki sé ekki nokkur leið að túlka 2. gr. reglna borgarinnar um fjárhagsaðstoð með þeim hætti sem hér sé gert.
Kærandi fari fram á að úrskurðarnefndin felli hina kærðu ákvörðun úr gildi og gefi Reykjavíkurborg fyrirmæli um að veita kæranda fjárhagsaðstoð vegna þess tímabils sem sótt hafi verið um, líkt og borginni beri að gera í samræmi við lög. Rétt sé að taka fram að þegar sonur kæranda hugðist sækja um fyrir næsta tímabil hafi honum verið ráðið frá því og tjáð að það myndi eingöngu leiða til synjunar sem gæti haft neikvæð áhrif á stöðu hennar síðar meir, því ef það væru margar synjanir væru auknar líkur á að síðari umsóknum yrði synjað. Ljóst sé að slík framkvæmd sé ekki heldur í samræmi við lög.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gömul kona frá D sem sé bundin við hjólastól vegna heilablóðfalls, myelodysplasiu og mjaðmabrots. Kærandi hafi fengið samþykkt tímabundið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar þar sem atvinnuþátttaka sé ekki heimil. Dvalarleyfi kæranda gildi frá 22. maí 2024 til 8. mars [2025].
Kærandi hafi ekki getað sýnt fram á með fullnægjandi hætti að framfærsla hennar væri örugg samkvæmt skilyrðum laga. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafi kæranda verið veitt dvalarleyfi án þess að hafa sýnt fram á fullnægjandi framfærslu vegna sérstakra ástæðna, en með umsókn hafi fylgt staðfest yfirlýsing frá syni kæranda þess efnis að hann myndi tryggja framfærslu móður sinnar. Aðstæður kæranda sem og sonar hennar séu óbreyttar frá því að dvalarleyfi hafi verið veitt grundvelli framangreindra upplýsinga og ekki hafi orðið breytingar á högum þeirra sem leiði til þess að ekki ætti að vera hægt að tryggja framfærslu kæranda, sbr. framangreind yfirlýsing frá syni kæranda.
Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. ágúst 2024 með umsókn, dags. 28. ágúst 2024. Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu hafi verið synjað með bréfi, dags. 6. september 2024. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 11. september 2024 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:
„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á Suðurmiðstöð Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. ágúst 2024 til 31. ágúst 2024, skv. 2. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. útlendingalög nr. 80/2016.“
Kærandi hafi nú skotið ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 24. febrúar 2021 og á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021. Umræddar reglur séu settar á grundvelli 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð til framfærslu frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglnanna komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. og III. kafla reglnanna. Um fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu ef hann geti ekki framfleytt sér. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.
Núgildandi ákvæði 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fjalli um framfærsluskyldu og sé svohljóðandi:
„Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. hjúskaparlög nr. 31/1993 og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Fólk sem er í skráðri sambúð í þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.“
Þá komi meðal annars fram í 2. mgr. 8. gr. framangreindra reglna að umsækjanda beri að leggja fram dvalarleyfi í þeim tilfellum sem það eigi við. Í tilfelli kæranda sé um að ræða tímabundið dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar samkvæmt 72. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og það gildi frá 22. maí 2024 til 8. mars [2025]. Í 1. mgr. 72. gr. komi fram að heimilt sé að veita útlendingi sem eigi barn hér á landi dvalarleyfi í þeim tilvikum sem greini í 2.-4. mgr. Í fyrrgreindri 1. mgr. 72. gr. komi fram að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga.
Ákvæði 55. gr. laga um útlendinga sé svohljóðandi:
„55. gr. Grunnskilyrði dvalarleyfis.
Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI.–IX. kafla samkvæmt umsókn uppfylli hann eftirtalin grunnskilyrði:
- framfærsla hans skv. 56. gr. og sjúkratrygging sé örugg,
- skilyrði fyrir dvalarleyfi sem fram koma í lögum þessum,
- hann samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda,
- ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara.
Tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skal vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um skilyrði skv. a–d-lið 1. mgr.“
Í 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga séu talin upp þau skilyrði sem þurfi að vera uppfyllt þegar dvalarleyfi sé veitt meðal annars á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 72. gr. laga um útlendinga. Í a. lið 1. mgr. 55. gr. sé tekið fram að framfærsla útlendings sem sæki um dvalarleyfi samkvæmt 56. gr. og sjúkratrygging þurfi að vera örugg. Ákvæði 56. gr. laga um útlendinga sé svohljóðandi:
„56. gr. Trygg framfærsla útlendings sem sækir um dvalarleyfi.
Útlendingur sem er eldri en 18 ára og sækir um dvalarleyfi skal sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dveljast hér á landi.
[Sýna þarf fram á framfærslu í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og unnt er að umbreyta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands.] 1)
Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt þessu ákvæði.
Ráðherra er heimilt, í samráði við ráðherra sem fer með félagsmál, að setja í reglugerð nánari ákvæði um kröfu um trygga framfærslu, þ.m.t. um hvað telst trygg framfærsla, hvernig framfærslu skuli háttað og í hvaða tilvikum heimilt er að víkja frá þeim kröfum.“
Í 1. mgr. 56. gr. komi fram að útlendingur sem sé eldri en 18 ára og sæki um dvalarleyfi skuli sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sæki um að dveljast hér á landi. Samkvæmt 3. mgr. 56. gr. laganna teljast greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar sveitarfélags ekki til tryggrar framfærslu. Þá sé tekið fram í 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga að þegar útlendingi sem sé 67 ára eða eldri sé veitt dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi sé heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur ef barn hans sýni fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi.
Samkvæmt framansögðu sé eitt af grunnskilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfa að umsækjandi um dvalarleyfi geti sýnt fram á að framfærsla umsækjanda samkvæmt 56. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 sé örugg, sbr. 55. gr. sömu laga. Í þessu máli hafi kærandi ekki getað sýnt fram á með fullnægjandi hætti að framfærsla sín væri örugg samkvæmt skilyrðum laga. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafi kæranda verið veitt dvalarleyfi án þess að hafa sýnt fram á fullnægjandi framfærslu vegna sérstakra ástæðna en með umsókn hafi fylgt staðfest yfirlýsing frá syni kæranda þess efnis að hann myndi tryggja framfærslu móður sinnar. Við veitingu dvalarleyfis kæranda hafi Útlendingastofnun því litið til 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga og veitt undanþágu frá skilyrði laga um trygga framfærslu á grundvelli þess að sonur kærandi sýndi fram á það að hann gæti tryggt framfærslu kæranda. Aðstæður kæranda sem og sonar hennar séu óbreyttar frá því að dvalarleyfi hafi verið veitt grundvelli framangreindra upplýsinga og ekki hafi orðið breytingar á högum þeirra sem leiða til þess að ekki ætti að vera hægt að tryggja framfærslu kæranda, sbr. framangreind yfirlýsing frá syni kæranda.
Með hliðsjón af framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs því talið að synja bæri kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 31. ágúst 2024 á grundvelli 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. lög nr. 80/2016 um útlendinga og staðfest synjun starfsmanna suðurmiðstöðvar Reykjavíkurborgar á fjárhagsaðstoð fyrir áðurgreint tímabil.
Með vísan til alls framangreinds verði að telja að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. og III. kafla reglnanna, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991 eða ákvæðum útlendingalaga nr. 80/2016.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. til 31. ágúst 2024.
Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.
Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.
Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um lagagrundvöll fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í 2. gr. reglnanna kemur einnig fram sama grundvallarregla og í 19. gr. laga nr. 40/1991 að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.
Fyrir liggur að kæranda var synjað um fjárhagsaðstoð á grundvelli framangreindrar 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð og laga nr. 80/2016 um útlendinga, en kærandi er með tímabundið dvalarleyfi hér á landi. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að eitt af grunnskilyrðum slíks dvalarleyfis sé að vera með örugga framfærslu, sbr. 55. gr. laga nr. 80/2016. Útlendingastofnun hafi veitt kæranda dvalarleyfi án þess að sýnt hafi verið fram á fullnægjandi framfærslu vegna sérstakra ástæðna en með umsókn hafi fylgt staðfest yfirlýsing frá syni kæranda þess efnis að hann myndi tryggja framfærslu móður sinnar. Við veitingu dvalarleyfis kæranda hafi Útlendingastofnun því litið til 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga og veitt undanþágu frá skilyrði laga um trygga framfærslu á grundvelli þess að sonur kærandi sýndi fram á það að hann gæti tryggt framfærslu kæranda. Aðstæður kæranda sem og sonar hennar væru óbreyttar frá því að dvalarleyfi hafi verið veitt grundvelli framangreindra upplýsinga og ekki hafi orðið breytingar á högum þeirra sem leiða til þess að ekki ætti að vera hægt að tryggja framfærslu kæranda, sbr. framangreind yfirlýsing frá syni kæranda.
Í 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð er fjallað um umsóknir um fjárhagsaðstoð og fylgigögn. Þar segir í 3. mgr. að umsækjanda um fjárhagsaðstoð beri að leggja fram dvalarleyfi í þeim tilfellum sem það eigi við en í reglunum er ekki að finna ákvæði um hvaða áhrif tímabundið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar getur haft á mat sveitarfélagsins á framfærslumöguleikum viðkomandi. Af framangreindu og gögnum málsins er ljóst að Reykjavíkurborg synjaði umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð eingöngu á grundvelli eðlis dvalarleyfis hennar án þess að nokkurt mat hafi farið fram á aðstæðum eða möguleikum til framfærslu. Þrátt fyrir að sonur kæranda hafi fyrir Útlendingastofnun lagt fram yfirlýsingu um að hann myndi tryggja framfærslu kæranda getur Reykjavíkurborg ekki vikið sér undan lögbundinni skyldu að leggja einstaklingsbundið mat á aðstæður kæranda, enda útilokar slík yfirlýsing ekki þörf hennar á fjárhagsaðstoð til framfærslu. Til að slíkt mat geti farið fram ber Reykjavíkurborg að afla viðeigandi og nauðsynlegra upplýsinga um kæranda, eftir atvikum með atbeina hennar varðandi aðstæður þess sem gefur slíka yfirlýsingu út og raunverulega framfærslugetu viðkomandi. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 11. september 2024, um að synja umsókn A, um fjárhagsaðstoð, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir