Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 10/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hinn 30. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 10/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. janúar 2015, tilkynnti Vinnumálstofnun kæranda, A, þá ákvörðun sína að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysistryggingar á grundvelli 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem minna en 24 mánuðir voru liðnir frá því að fyrra bótatímabili lauk. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 19. janúar 2015. Af kæru má ráða að kærandi telur að hann hafi áunnið sér rétt til nýs bótatímabils þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur þann 2. desember 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 2. desember 2014.

Kærandi hafði áður verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun og samkvæmt gögnum málsins fékk hann greiddar atvinnuleysisbætur árin 2008 til 2013 með hléum. Þegar kærandi var afskráður í mars 2013 hafði hann nýtt 39,48 mánuði af bótatímabili sínu. Á þeim tíma taldist kærandi því eiga 8,52 mánuði eftir af bótarétti sínum. Lögum um atvinnuleysistryggingar hefur verið breytt síðan þá, og nú síðast með breytingalögum nr. 125/2014 þar sem lögum um atvinnuleysistryggingar var breytt á þann veg að bótatímabil atvinnuleysistrygginga er nú 30 mánuðir, í stað 36 mánaða samkvæmt fyrri breytingu, og tók sú breyting gildi þann 1. janúar 2015.

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju í desember 2014 hafði hann ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils, sbr. 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem ekki voru liðnir 24 mánuðir frá því að hann fékk síðast greiddar bætur. Fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur þar til bótarétti hans var lokið í mars 2013. Með bréfi, dags. 7. janúar 2015, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun stofnunarinnar að hafna umsókn hans um atvinnuleysistryggingar á grundvelli 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem minna en 24 mánuðir voru liðnir frá því fyrra bótatímabili lauk.

Í kæru segir kærandi að kröfur hans séu að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá 1. desember 2014. Hann telur að brotið hafi verið á rétti sínum miðað við áunnin réttindi í starfi á undanförnum tveimur árum tæpum.

Kærandi segist vera ósáttur við niðurstöðu Vinnumálastofnunar þar sem hann hafi ávallt verið mjög virkur í atvinnuleit og hafi verið tilbúinn að starfa við það sem til félli. Hann hafi ekki alltaf sótt um atvinnuleysisbætur þó það hafi stundum átt við, heldur tekið á sig launaleysið sjálfur og reynt að leysa úr sínum málum með virkri atvinnuleit. Einnig megi geta þess að hann hafi fengið að gjalda fyrir hrunið, að sumu leyti, þar sem hann hafi starfað sem smiður og sá markaður hafi að miklu leyti hrunið. Hafi hann tvisvar sinnum misst vinnuna síðan 2012 vegna verkefnaskorts hjá vinnuveitanda sínum í byggingariðnaði. Einnig megi geta þess að í apríl 2014 hafi kærandi þurft að leggjast inn á spítala vegna sykursýki. Hafi hann í kjölfarið verið óvinnufær með öllu á tímabili og virðist sem það eigi að „standa honum fyrir þrifum gagnvart Vinnumálastofnun“.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. mars 2015, segir að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Í VI. kafla laganna sé fjallað um það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Komi fram í 29. gr. laganna að atvinnuleitandi geti í mesta lagi átt rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga í samfellt 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Í 30. og 31. gr. laganna sé fjallað um þau tilvik sem leiði til þess að bótatímabil endurnýist. Annars vegar endurnýjun á tímabili eftir að atvinnuleitandi hafi fullnýtt bótarétt sinn og hins vegar endurnýjun á bótatímabili áður en fyrra tímabili ljúki að fullu.

 Þar sem kærandi teljist hafa fullnýtt bótarétt sinn þegar hann hafi þegið síðast greiðslur atvinnuleysistrygginga í mars 2013 komi ákvæði 30. gr. laganna einungis til álita í máli þessu. Í ákvæðinu sé fjallað um þau tilvik sem nýtt tímabil skv. 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Samkvæmt ákvæðinu sé það skilyrði fyrir því að nýtt bótatímabil geti hafist að liðnir séu 24 mánuðir frá því að hann hafi síðast fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi síðast þegið greiðslur atvinnuleysisbóta til 6. mars 2013 og hafi því ekki verið liðnir 24 mánuðir þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju þann 2. desember 2014. Af þeirri ástæðu hafi umsókn kæranda verið hafnað á grundvelli 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. mars 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust úrskurðarnefndinni.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að bótatímabili kæranda og því hvort hann hafi fullnýtt það eða ekki. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá desember 2008 til 6. mars 2013. Þá hafði kærandi nýtt 39,48 mánuði á bótatímabili sínu í apríl 2013 samkvæmt greiðsluseðli frá Vinnumálastofnun til kæranda. Þá er ljóst af gögnum málsins að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 2. desember 2014.

Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það hversu lengi atvinnuleysisbætur eru greiddar og hljóðaði ákvæðið svo á árinu 2014:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum getur átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögum þessum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög skv. XI. kafla standa yfir. Hið sama á við um þann tíma þegar greiddar eru hlutfallslegar atvinnuleysisbætur, sbr. 17. eða 22. gr., og um þann tíma er tilfallandi veikindi standa yfir skv. 5. mgr. 14. gr.

Í 30. gr. laganna er fjallað um endurnýjun tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar og hljóðaði ákvæðið svo á árinu 2014:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur samtals í þrjú ár skv. 29. gr. getur áunnið sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins að nýju að liðnum 24 mánuðum enda hafi hann starfað á vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk og misst starf sitt af gildum ástæðum. Hefst þá nýtt tímabil skv. 29. gr. en að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistrygginga hins tryggða eftir því sem við getur átt.

Samkvæmt ákvæði X til bráðabirgða var tímabil það sem fjallað er um í framangreindum ákvæðum framlengt um tólf mánuði fyrir tryggða samkvæmt lögunum og sem fengu í fyrsta skipti greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 1. mars 2008 eða síðar. Ákvæði X til bráðabirgða féll úr gildi 31. desember 2012.

Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 2. desember 2014 síðast voru ekki liðnir 24 mánuðir frá því hann þáði síðast greiðslur atvinnuleysisbóta 6. mars 2013, en það er skilyrði skv. 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafði því fullnýtt bótarétt sinn skv. 29. gr. sömu laga. Ákvæði X til bráðabirgða var úr gildi fallið þegar kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 2. desember 2014, eins og áður hefur komið fram.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar samþykkt.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. janúar 2015 í máli A um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur á grundvelli 30. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta