Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 28/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hinn 30. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 28/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. október 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 68.916 kr. með 15% álagi.

Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun í kjölfar nýrra gagna. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2014, tilkynnti Vinnumálstofnun kæranda að það hafi verið mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun, enda hafi sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn í málinu hafi borist. Með tölvupósti til Vinnumálastofnunar þann 20. október 2014 óskaði kærandi eftir rökstuðningi stofnunarinnar og var rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 17. nóvember 2014. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 16. mars 2015. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 30. október 2013 og reiknaðist með 100% bótarétt. Með bréfi, dags. 8. september 2014, var kæranda tilkynnt að við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur kæranda í júní 2014. Í bréfinu var óskað eftir skriflegum skýringum á ótilkynntum tekjum. Þann 15. september 2014 barst tölvupóstur frá kæranda og launaseðill vegna júní 2014. Í bréfinu greinir kærandi frá því að hann hafi staðfest atvinnuleit sína með hefðbundnum hætti í júní 2014. Þann 24. júní 2014 hafi honum síðan borist símhringing þar sem honum hafi boðist vinna samdægurs við B. Hafi kærandi unnið í sex daga hjá fyrirtækinu C í júní. Kærandi greindi frá því að hann hafi sent Vinnumálastofnun tölvupóst þar sem hann óskaði eftir því að fá skattkort sitt sent til skrifstofu C. Hann hafi talið að þar með væri málinu lokið af sinni hálfu enda hafi hann ekki staðfest atvinnuleit sína síðan.

Með bréfi, dags. 15. október 2014, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þann 20. október 2014 barst Vinnumálastofnun erindi frá kæranda þar sem hann kveðst hafa skráð sig rafrænt hjá stofnuninni í atvinnuleit þann 20. júní. Eftir það hafi hann fengið boð um starf hjá C hann hefði tök á að mæta samdægurs sem hann og gerði. Þá greinir hann frá því að þá hafi ekki verið mögulegt að afturkalla rafrænu skráninguna, enda hafi hann haft fullan rétt á að skrá sig í atvinnuleit og þiggja bætur fyrir hluta mánaðarins og það jafnvel þótt hann hefði vitneskju um að hann myndi starfa síðustu sex daga mánaðarins. Hann hafi talið eðlilegt að það yrði leiðrétt ef hann fengi ofgreitt og hafi það nú verið gert. Hann kvað ekkert í samskiptum sínum við Vinnumálastofnun gefa tilefni til að telja að hann hafi gefið vísvitandi rangar upplýsingar eða látið vísvitandi hjá líða að tilkynna breyttar forsendur enda hafi hann haft samband við Vinnumálastofnun með tölvupósti í byrjun júlí og tilkynnt um breytingar á högum sínum með því að fara fram á að skattkort sitt yrði sent til C. Fór kærandi fram á niðurfellingu viðurlagaákvörðunar skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og rökstuðningi stofnunarinnar fyrir ákvörðuninni ef ekki kæmi til niðurfellingar.

Í kjölfarið, þann 6. nóvember 2014, var mál kæranda tekið fyrir að nýju hjá stofnuninni. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2014, var kæranda tilkynnt um ákvörðunina. Þá var kæranda sendur rökstuðningur stofnunarinnar með bréfi, dags. 17. nóvember 2014.

Þann 18. nóvember 2014 barst stofnuninni erindi frá kæranda þar sem hann óskaði eftir rökstuðningi stofnunarinnar á ákvörðun í máli sínu. Með bréfi, dags. 9. desember 2014, vísaði Vinnumálastofnun til rökstuðnings síns frá 17. nóvember 2014. 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 15. mars 2015, að það hafi ekki verið ákvörðun stofnunarinnar að stöðvar greiðslur til hans í október heldur hafi það verið hans ákvörðun að skrá sig ekki rafrænt í atvinnuleit eftir að hann hafi fengið tímabundna vertíðarvinnu síðustu dagana í júní. Á þeim tímapunkti hafi hann ekki lengur uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar og hafi því ekki lengur átt rétt á bótum, enda hafi hann ekki farið fram á það. Í rökstuðningi Vinnumálastofnunar hafi stofnunin hvergi minnst á það heldur sé látið að því liggja að hann hafi þegið bætur þar til það hafi verið stöðvað af Vinnumálastofnun í október. Hið sanna sé að hann hafi ekki þegið bætur og hafi ekki farið fram á það eftir að hann hafi hafið störf hjá C.

Vinnureglur Vinnumálastofnunar séu þær að skráningu til atvinnuleysisbóta lýkur 25. hvers mánaðar. Í júnímánuði hafi hann skráð sig í atvinnuleit fyrir þann tíma, enda í fullum rétti þar sem á þeim tíma hafi ekki legið fyrir hvort eða hvenær hann fengi atvinnu hjá C. Það sé því alrangt að vísa í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og halda því fram að hann hafi vísvitandi gefið rangar upplýsingar sem hafi leitt til þess að hann taldist ranglega tryggður. Hið rétta sé að eftir að hann hafi hafið störf síðustu dagana í júní hafi hann hvorki talist ranglega eða réttilega tryggður enda hafi hann hvorki fengið eða farið fram á bætur á því tímabili sem hann starfaði hjá C. Það fái því engan veginn staðist að vísa í 60. gr. og úrskurða viðurlög á grundvelli hennar.

Kærandi tekur fram að með því að hafa hafið störf og ekki skráð sig í atvinnuleit hafi hann talið ljóst að hann væri ekki lengur tryggður á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Því fái hann ekki séð að 3. mgr. 9. gr. eða 35. gr. laganna eigi við um þá sem bæði samkvæmt skilningi Vinnumálastofnunar og laganna sjálfra teljist ekki tryggðir.

Kærandi bendir á að árið 2005 hafi hann misst atvinnu sína og þegið bætur um nokkurra mánaða skeið. Þá hafi það verið vinnuregla hjá Vinnumálastofnun að þeir sem fari fram á bætur mættu á skrifstofu stofnunarinnar og létu stimpla í þar til gerða bók að þeir væru í atvinnuleit og færu fram á bætur. Það hafi einnig verið vinnuregla hjá þeim og þeirra skilningur á lögunum að ef einhver mætti ekki til stimplunar, hvort sem um var að ræða dauðsfall hans sjálfs, yfirsjón eða það að hann væri ekki lengur í virkri atvinnuleit þá taldist hann þar með ekki í virkri atvinnuleit og hafi fyrirgert rétti sínum til bóta. Árið 2006 hafi hann fengið vinnu hjá D og í samræmi við vinnureglur Vinnumálastofnunar hafi hann ekki mætt framar til stimplunar. Þetta hafi haft fyrirsjáanleg og fyrirætluð áhrif, bótagreiðslur til hans hafi hætt að berast. Engar fyrirspurnir eða bréf sem hótuðu viðurlögum fyrir eitt eða neitt hafi borist honum í kjölfarið. Honum vitanlega séu lög um atvinnuleysistryggingar gild lög og hafa ekki breyst í millitíðinni þannig að það sama hafi átt að gilda í dag. Því hafi hann talið málunum einnig lokið 2014 þegar hann hafi haft sama háttinn á.

Kærandi heldur fram að Vinnumálastofnun líti þannig á að ef maður skráir sig ekki í virkri atvinnuleit sé maður ekki tryggður lögum samkvæmt. Hann hljóti því að geta litið eins á málið, þ.e. að með því að hafa ekki skráð sig í atvinnuleit eða að hafa ekki farið með öðrum hætti fram á bætur sé hann ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, njóti engra réttinda og beri engar skyldur gagnvart þeim. Það sé ein meginregla í vinnurétti að njóti maður réttar samkvæmt ákveðnum lögum beri maður einnig skyldur samkvæmt þeim. Það gildi einnig í hina áttina að njóti maður ekki réttar samkvæmt þeim beri maður ekki skyldur samkvæmt þeim heldur. Ekkert í samskiptum hans við Vinnumálastofnun hafi gefið tilefni til þess að frekara samband sem hafi krafist formlegra slita hafi komist á. Enda hafi ekkert vafist fyrir þeim að stoppa greiðslur án frekari útskýringa af hans hendi eða þeirri. Engrar uppsagnar hafi verið krafist af hvorugs hálfu til þess, enda ekki nauðsynlegt.

Alþingi hafi sett lög um atvinnuleysistryggingar í þeim tilgangi að þeir sem hafi misst atvinnu sína eftir áratuga störf á íslenskum vinnumarkaði njóti þess með þeim hætti að fótunum sé ekki algerlega kippt undan þeim með einu pennastriki eða uppsagnarbréfi. Vinnumálastofnun sé þeirra tæki til þess að framfylgja því. Vinnumálastofnun til fulltingis sé settur þessi varnagli á, að séu menn að reyna að misnota lögin sé þeim refsað með 60. gr. laganna. Ekkert gefi til kynna að vilji löggjafans sé sá að Vinnumálastofnun túlki lögin þröngt eða með íþyngjandi hætti til þess að firra sig ábyrgð eða greiðslum til handa þeim sem lögin taka yfir og séu ekki að reyna að misnota þau. Það sé því eðlileg ályktun að á meðan ekki sé reynt að leyna eða gefa rangar upplýsingar sé ekki tilefni til þess fyrir Vinnumálastofnun að beita hörðum viðurlögum.

Eftir að kærandi hafi hafið störf hjá C hafi hann sent skýr skilaboð. Hann hafi ekki skráð sig í atvinnuleit eða farið fram á greiðslur með öðrum hætti. Jafnframt hafi hann sent tölvupóst um að skattkort hans yrði sent á skrifstofu C. Þetta hafi ávallt dugað Vinnumálastofnun til þess að stoppa frekari greiðslur samkvæmt þeirra eigin vinnureglum, enda hafi skilaboðin skilist vel. Greiðslur hafi stöðvast eins og til var ætlast. Ef þessar upplýsingar hafi ekki dugað hafi þeim verið í lófa lagið að fara fram á frekari upplýsingar en það hafi ekki verið gert. Ekki sé kveðið á um í lögunum hvernig þeir sem tryggðir séu samkvæmt þeim eigi að tilkynna breytingar enda hefði það í sjálfu sér engu breytt þar sem samkvæmt framangreindu hafi hann ekki verið tryggður samkvæmt lögunum.

Kærandi fari fram á að úrskurðarnefnd taki tillit til alls þessa og felli niður ákvörðun Vinnumálastofnunar um viðurlög.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. apríl 2015, segir að mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar þar sem kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Kæranda hafi einnig verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laganna.

Bent er á að annar málsliður 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Fram komi í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði þar sem þessi skylda sé ítrekuð. Þannig segi í 3. mgr. 9. gr. laganna að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysistryggingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um tekjur sem hann fái fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir eða ef atvinnuleit sé hætt.

Vinnumálastofnun bendir á að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið í ljós að kærandi hafi haft tekjur frá C í júní samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga og án þess að hafa gert Vinnumálastofnun grein fyrir tekjum sínum. Í skýringarbréfi hans til stofnunarinnar, dags. 15. september 2014, segi að honum hafi boðist vinna þann 24. júní 2014 við B ef hann gæti mætt samdægurs sem hann og gerði. Í framhaldinu hafi hann sent Vinnumálastofnun tölvupóst þar sem hann hafi beðið um að skattkort sitt yrði sent til skrifstofu C. Þar með hafi hann talið málinu lokið af sinni hálfu og að stofnunin hafi verið meðvituð um breytta hagi hans enda hafi hann ekki skráð sig í atvinnuleit síðan.

Kemur fram að Vinnumálastofnun fallist ekki á að beiðni um að fá skattkort sent megi jafna við tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Rík skylda hvíli á þeim sem njóta greiðslna atvinnuleysistrygginga að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geta ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Samkvæmt ofangreindu hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 68.916 kr. með 15% álagi sem honum beri að endurgreiða, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. apríl 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. maí 2015. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingarsem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þá segir í 35. gr. a:

Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.

Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.

Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi hjá C. í júní 2014. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða telur því ljóst að kærandi hafi verið starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða töku atvinnuleysisbóta.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um þessa vinnu sína. Atvinnuleitendum sem þiggja atvinnuleysisbætur ber að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er jafnframt kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki hægt að líta svo á að beiðni kæranda um að skattkort hans yrði sent á skrifstofu C geti talist tilkynning um vinnu hans hjá fyrirtækinu.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða um tekjur. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber því kæranda einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar auk 15% álags eða samtals 68.916 kr.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. nóvember 2014, í máli A, þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar til hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og hann skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi, samtals að fjárhæð 68.916 kr., er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta