Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 77/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 30. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 77/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. september 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 11. september 2014 fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 30. júlí 2014 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og var hún kærð með kæru, dags. 19. september 2014, og þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.  

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 12. september 2013. Vinnumálastofnun bárust þær upplýsingar frá B í júlí 2014 að kærandi hafi hafnað atvinnutilboði hjá fyrirtækinu. Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegri afstöðu kæranda til þessa með bréfi, dags. 17. júlí 2014. Kærandi gerði grein fyrir afstöðu sinni í bréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 2. september 2014. Þar kom fram að kærandi hafi þegar skilað inn vottorði til stofnunarinnar þess efnis að hún geti ekki unnið þau störf sem þarf að standa eða labba mikið. Jafnframt skilaði kærandi inn læknisvottorði, dags. 2. september 2014, þar sem fram kemur að hún geti ekki stundað vinnu sem krefst mikils álags á hægri fót.

Þann 1. febrúar 2013 barst Vinnumálastofnun læknisvottorð vegna kæranda, dags. 11. janúar 2013, þar sem fram kemur að það sé viðbúið að hún hafi eymsl í fæti við álag a.m.k. næsta hálfa árið. Þann 26. september 2013 barst stofnuninni sjúkradagpeningavottorð, dags. 13. ágúst 2013, þar sem fram kemur að kærandi hafi farið í aðgerð á fæti þann 30. maí 2013 og gera megi ráð fyrir óvinnufærni við líkamlega krefjandi vinnu í fjóra til sex mánuði frá aðgerð. Síðasta læknisvottorð sem stofnuninni barst vegna kæranda fyrir þann tíma er umrætt atvinnutilboð barst er dagsett 10. september 2013. Kemur þar fram að fótur kæranda sé nú gróinn og hún geti byrjað að vinna aftur. Ekki er tekið fram að um skerta vinnufærni sé að ræða hjá kæranda.  

Vinnumálastofnun tók þá ákvörðun á fundi sínum 11. september 2014, vegna höfnunar kæranda á starfi hjá B, að skýringar hennar væru ekki gildar og skyldi því fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði frá 30. júlí 2014 skv. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

Þann 12. september 2014 barst Vinnumálastofnun beiðni um rökstuðning frá kæranda vegna ofangreindrar ákvörðunar. Í kjölfarið var ákveðið að fara yfir mál hennar að nýju hjá stofnuninni. Rökstuðningur var veittur með bréfi, dags. 22. september 2014. Í því kemur fram að með tilliti til læknisvottorðs, dags. 2. september 2014, hafi sú ákvörðun verið tekin að meta skýringar kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði gildar. Hins vegar bæri að líta til þess að samkvæmt læknisvottorði sem hafi legið fyrir hjá stofnuninni, dags. 10. september 2013, hafi kærandi verið orðin vinnufær og þar með hafi ekkert gefið stofnuninni til kynna að um skerta vinnufærni væri að ræða hjá kæranda. Vegna ofangreindra sjónarmiða var sú ákvörðun tekin að fella skyldi niður bótarétt kæranda í tvo mánuði frá og með 30. júlí 2014 á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 í stað 57. gr. sömu laga.

Þann 19. september 2014 var ákvörðun Vinnumálastofnunar um biðtíma kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Af hálfu kæranda er farið fram á að Vinnumálastofnun leiðrétti ákvörðun sína varðandi biðtímann. Kærandi heldur því fram að Vinnumálastofnun hafi átt að vita að hún hafi ekki verið vinnufær til að starfa sem þjónn. Inni hjá Vinnumálastofnun sé vinnufærnivottorð þar sem fram komi að hún geti ekki unnið vinnu þar sem hún þurfi að standa eða labba mikið. Jafnframt segir hún vottorð bæklunarlæknis liggja fyrir. Kveðst hún hafa tjáð sig um það strax í atvinnuviðtalinu að hún geti ekki unnið sem þjónn vegna fyrri veikinda.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. október 2014, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistrygginga.

Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli Vinnumálastofnun meta hvort ákvörðun atvinnuleitanda um höfnun á starfi eða atvinnuviðtali hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra fjölskyldumeðlima. Sé því ljóst að atvinnuleitanda sé eingöngu heimilt að hafna starfi án þess að þurfa að sæta viðurlögum, ef höfnunin var réttlætanleg á grundvelli þeirra ástæðna sem taldar séu upp í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með lögum um atvinnuleysistryggingar segi að gera megi ráð fyrir að sjaldan reyni á þessa undanþágu enda ekki gert ráð fyrir að hinum tryggða verði boðin störf sem hann sé ekki fær um að sinna enda hafi hann tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar. Komi upplýsingar um skerta vinnufærni fyrst upp þegar starf sé boðið atvinnuleitanda, kunni að koma til viðurlaga 59. gr. frumvarpsins þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína. Mikilvægt skilyrði þess að unnt sé að aðstoða hinn tryggða við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum sé að nauðsynlegar upplýsingar um hann liggi fyrir. Það geti því reynst þýðingarmikið að upplýsingar liggi fyrir þegar í upphafi um að umsækjendur geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna heilsufarsástæðna. Skorti nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni umsækjanda geti það því haft neikvæð áhrif á árangur þeirra úrræða sem viðkomandi standa til boða enda hafi miðlun í störf og úrræði stofnunarinnar verið byggt á ófullnægjandi upplýsingum.

Skýrt sé af gögnum í máli kæranda að hún lagði ekki fram læknisvottorð um skerta vinnufærni fyrr en eftir að henni hafi verið boðið starf sem þjónn á B. Það sé eindregin afstaða Vinnumálastofnunar, meðal annars í ljósi ofangreindra ummæla í greinargerð með lögum nr. 54/2006, að upplýsingar um heilsu atvinnuleitanda sem kunna að hafa áhrif á getu þeirra til að sinna almennum störfum á vinnumarkaði verði að hafa borist stofnuninni áður en starfstilboðum eða vinnumarkaðsúrræðum er hafnað hjá stofnuninni.

Óumdeilt sé að kærandi lagði ekki fram læknisvottorð um skerta vinnufærni í upphafi umsóknar um atvinnuleysisbætur frá september 2013. Verði ekki séð að kærandi hafi, fyrir umrædda höfnun á atvinnutilboði, tjáð stofnuninni frá skertri vinnufærni eða gert fyrirvara í umsókn um atvinnuleysistryggingar síðan vottorð, dags. 10. september 2013, barst. Í því vottorði sé tekið fram að fótur kæranda sé nú gróinn og hún geti byrjað að vinna aftur og hafi Vinnumálastofnun tekið mið af þeim upplýsingum. Ekki sé tekið fram í umræddu vottorði að um skerta vinnufærni sé að ræða hjá kæranda.

Vinnumálastofnun telji að kærandi eigi að sæta tveggja mánaða viðurlagatíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þótt ástæður kæranda fyrir höfnun í starfsviðtali séu studdar læknisvottorði verði ekki séð að skýringar hennar geti talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þar sem upplýsingar um skerta vinnufærni kæranda komu fram í kjölfar þess að henni hafi verið boðið starf.

2. Niðurstaða

 Mál þetta lýtur að því hvort kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en lagagreinin er svohljóðandi:

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Óumdeilt er að kærandi lét hjá líða að veita Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar um skerta vinnufærni þar til eftir að henni var boðið starf sem þjónn á B. Kærandi lagði hvorki fram læknisvottorð um skerta vinnufærni né gerði fyrirvara í umsókn um atvinnuleysistryggingar síðan vottorð, dags. 10. september 2013, barst. Í því vottorði er tekið fram að fótur kæranda sé nú gróinn og hún geti byrjað að vinna aftur og hefur Vinnumálastofnun tekið mið af þeim upplýsingum. Ekki er tekið fram í umræddu vottorði að um skerta vinnufærni sé að ræða hjá kæranda.   

Þá ber einnig að líta til 4. mgr. 57. gr. sömu laga en þar kemur eftirfarandi fram:

Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að gera megi ráð fyrir að sjaldan reyni á þessa undanþágu enda sé ekki gert ráð fyrir að hinum tryggða verði boðin störf sem hann sé ekki fær um að sinna enda hafi hann tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar. Komi upplýsingar um skerta vinnufærni fyrst upp þegar að starf sé boðið atvinnuleitanda kunni að koma til viðurlaga skv. 59. gr. frumvarpsins þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína. Mikilvægt skilyrði þess að unnt sé að aðstoða hinn tryggða við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum sé að nauðsynlegar upplýsingar um hann liggi fyrir. Það geti því reynst þýðingarmikið að upplýsingar liggi fyrir þegar í upphafi um að umsækjendur geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna heilsufarsástæðna. Skorti upplýsingar um vinnufærni umsækjenda geti það haft neikvæð áhrif á árangur þeirra úrræða sem viðkomandi standa til boða enda hefur miðlun í störf og úrræði stofnunarinnar verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum.

Jafnframt ber að nefna það að í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur meðal annars fram að í umsókn um atvinnuleysisbætur skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.

Af ofangreindu leiðir að upplýsingar um heilsu atvinnuleitanda sem kunna að hafa áhrif á getu þeirra til að sinna almennum störfum á vinnumarkaði verða að hafa borist Vinnumálastofnun áður en starfstilboðum eða vinnumarkaðsúrræðum er hafnað hjá stofnuninni. Sökum þess að upplýsingar um skerta vinnufærni kæranda bárust ekki stofnuninni fyrr en eftir höfnun atvinnutilboðs er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að Vinnumálastofnun bar að láta kæranda sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fortakslaust en í því felst að hvorki Vinnumálastofnun né úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða getur tekið ákvörðun um vægari viðurlög í máli kæranda en ákvæðið felur í sér. 

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest. 

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. september 2014 í máli A, um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði, er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta