Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 78/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 30. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 78/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 19. maí 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 13. maí 2014 fjallað um fjarveru hennar í atvinnuviðtali. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 2. maí 2014 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Með bréfi, dags. 26. júní 2014, mótmælti kærandi niðurstöðunni, lagði fram læknisvottorð og óskaði eftir endurskoðun ákvörðunarinnar. Málið var endurupptekið en með bréfi, dags. 9. júlí 2014, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og var hún kærð með erindi til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. september 2014, og þess krafist að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 23. september 2013. Með tölvupósti til Vinnumálastofnunar þann 26. mars 2014 gerði kærandi athugasemd við að hún væri boðuð í viðtal á B vegna þess að hún væri menntuð C. Auk þess væri hún í D. Með tölvupósti Vinnumálastofnunar þann 27. mars 2014 var kæranda greint frá því að hún gæti tekið D á kvöldin og að það þurfi að vera mjög gild ástæða fyrir því að hafna starfi. Sama dag greindi kærandi frá því í tölvupósti að hún hefði hafnað starfinu vegna þess að á B sé einungis flotað steingólf og það sé ekki vegur fyrir nokkurn mann að standa á svona gólfi í sjö klukkustundir á dag.

 Með bréfi, dags. 28. mars 2014, greindi Vinnumálastofnun frá því að borist hefðu upplýsingar um að kærandi hefði hafnað atvinnutilboði og óskað var eftir skriflegum skýringum á höfnuninni. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. maí 2014, var kæranda tilkynnt um að fjallað hefði verið um höfnum hennar á atvinnuviðtali á fundi þann 29. apríl 2014. Þá segir að þar sem afstaða kæranda hefði ekki legið fyrir hafi bótaréttur kæranda verið felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2014, var kæranda tilkynnt um að málið hefði aftur verið tekið fyrir á fundi þann 13. maí 2014. Í bréfinu segir að það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á höfnun á atvinnutilboði teldust ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og því væri fyrri ákvörðun staðfest.

 Þann 26. júní 2014 barst skýringabréf og beiðni um endurskoðun frá kæranda. Einnig lagði kærandi fram læknisvottorð E, dags. 4. júní 2014. Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi verið atvinnulaus C tvo síðastliðna vetur en hafi verið að vinna við X síðastliðið sumar og starfi við það í dag. Henni hafi aðeins borist eitt atvinnuviðtal í gegnum Vinnumálastofnun og það hafi verið á litlu B við það að vinna í eldhúsi og við þrif á gólfum sem hafi öll verið flotuð steingólf. Kærandi hafi strax tilkynnt að vegna líkamlegrar heilsu gæti hún ekki unnið við þessar aðstæður en samt hafi verið ákveðið að hún fengi ekki bætur. Kæranda hafi fundist að hún væri ekki tekin trúanleg og því hafi hún leitað til heimilislæknis sem hafi umsvifalaust séð það í læknaskýrslum að hún hafi margoft komið á læknastöð, til sjúkraþjálfara, göngugreinis og í nudd vegna slæmsku í baki og fótum. Hann votti það að kærandi geti ekki unnið við svona aðstæður. Í framangreindu læknisvottorði E kemur fram að kærandi sé með króníska verki í tábergi og iljum sem valdi því að hún eigi erfitt með að standa til lengri tíma. Hún hafi leitað sér hjálpar á Heilsugæslu Hlíða, hitt bæklunarlækni og farið í göngugreiningu. Af því megi leiða að hún eigi erfitt með að vinna vinnu sem krefjist þess að staðið sé til langs tíma. Málið var endurupptekið en með bréfi, dags. 9. júlí 2014, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 9. október 2014, kemur fram að mál þetta varði 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi jafnt við um þann sem hafni starfi og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum bjóðist eða sinni ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist óreiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laganna.

 Í greinargerð sem hafi fylgt frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hin tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

 Líta beri til tölvupóstsamskipta kæranda við Vinnumálastofnun, sbr. færslu í samskiptasögu, dags. 26. mars 2014, þar sem kærandi furði sig á því hvers vegna henni sé boðið starf þegar stofnunin viti að hún sé í D á grundvelli námssamnings. Kærandi spyrji í kjölfarið hvort hún geti ekki hafnað vinnunni ef hún henti henni ekki. Kærandi nefni ekki líkamlega heilsu sem mögulega ástæðu höfnunar á starfi á þeim tímapunkti. Þann 27. mars 2014 sé kæranda svarað á þá leið að einstaklingur sé ekki undanþeginn atvinnuleit meðan á náminu standi á grundvelli slíks námssamnings. Einnig sé tekið fram að ástæður kæranda fyrir því að hafna starfi þurfi að vera gildar. Þann 27. mars 2014 kveðjist kærandi hafa hafnað umræddu starfi sökum þess að hún hafi ekki treyst sér til að standa lengi á steingólfi. Hún segi það ekki vera fyrir nokkurn mann.

 Ljóst sé að kærandi hafi ekki verið tilbúin til að taka starfi hjá B Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 26. júní 2014, segi kærandi að hún hafi ekki getað þegið starfið vegna líkamlegrar heilsu. Einnig hafi kærandi lagt fram læknisvottorð, dags. 4. júní, þar sem fram komi að hún eigi erfitt með að vinna vinnu sem krefjist þess að staðið sé til langs tíma. Vinnumálastofnun hafi hins vegar ekki haft undir höndum neinar upplýsingar um heilsufarsástand kæranda er stofnunin hafi miðlað henni í starf hjá fyrirtækinu og samkvæmt upplýsingum frá atvinnurekanda hafi kærandi ekki komið til greina í starfið sökum þess að hún væri í D fram til 2. júní 2014.

 Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á höfnun á starfi geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Því hafi kærandi hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laganna og beri að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. október 2014, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi, dags. 22. október 2014, þar sem fram kemur að það skjóti skökku við að segja að kærandi hafi hafnað starfinu því samkvæmt einu skjali í gögnunum stendur að hún komi ekki til greina í starfið. Að vísu segi líka að það sé vegna þess að hún sé í D en varla geti ábyrgðin legið í orðalagi hjá þessum tiltekna vinnuveitanda. Hún viti ekki hvers vegna vinnuveitandinn ákveði að hafa það ástæðuna þegar niðurstöðurnar eru sendar til baka til Vinnumálastofnunar. Í viðtalinu hafi hún sagt skýrt við eigendur að hún mætti taka skólann á kvöldin. Hún hafi útskýrt fyrir þeim í viðtalinu að heilsufar hennar í baki og fótum væri þannig að hún myndi ekki geta unnið í sex klukkustundir á dag á gólfinu sem þær byðu upp á. Þær hafi tekið undir það með henni að gólfið væri „drep“.

 Sá starfsmaður sem hafi tekið símann hafi aldrei nefnt að hún skyldi koma strax með læknisvottorð um heilsufar hennar í baki og fótum. Það sé einfalt svar við því hvers vegna Vinnumálastofnun hafi ekki undir höndum neinar upplýsingar um heilsufarsástand kæranda. Heilsufar hennar sé með ágætum til þess að stunda þau störf sem hún sé menntuð til, að C.

 Kærandi veltir fyrir sér á hvaða forsendum Vinnumálastofnun taki ekki mark á vottorði læknis. Það sé enginn að segja að ákvörðun stofnunarinnar hafi verið röng á þeim tíma miðað við að það hafi ekki legið fyrir læknisvottorð. Hún hafi beðið um endurupptöku á þeim forsendum að þá hefði vottorð legið fyrir. 

2. Niðurstaða

Um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnutilboði er fjallað í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Í 1. mgr. 57. gr. laganna hljóðar svo:

 „Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.

 Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

 „Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

 Óumdeilt er í máli þessu að kærandi hafnaði starfi hjá B. Ágreiningur málsins lýtur hins vegar að því á hvort ákvörðun kæranda um að hafna starfinu hafi verið réttlætanleg, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi byggir á því að hún hafi ekki þegið starfið vegna líkamlegrar heilsu. Af greinargerð Vinnumálastofnunar má ráða að stofnunin telji þá skýringu ótrúverðuga.  

 Þegar kærandi hafði upphaflega samband við Vinnumálastofnun vegna starfsins, sbr. tölvupóst þann 26. mars 2014, gerði kærandi athugasemd við að starfið væri ekki í samræmi við menntun hennar og auk þess væri hún í D. Þá kemur fram í tölvupósti frá atvinnurekanda til Vinnumálastofnunar þann 11. apríl 2014 að kærandi komi ekki til greina í starfið þar sem hún sé í D fram til 2. júní. Kærandi minntist ekki á líkamlega heilsu sína fyrr en eftir að Vinnumálastofnun hafði upplýst hana um að það þyrfti að vera mjög gild ástæða fyrir því að hafna starfinu og gefið til kynna að D og menntun kæranda væru ekki nægjanlega gildar ástæður. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að ráða megi af framangreindu að D og sú staðreynd að starfið var ekki í samræmi við menntun kæranda hafi verið meginástæður þess að kæranda hafnaði starfinu.

 Úrskurðarnefndin vefengir hins vegar ekki það sem fram kemur í læknisvottorð E, dags. 4. júní 2014, þ.e. að kærandi eigi erfitt með að vinna vinnu sem krefjist þess að hún standi til langs tíma. Líkamleg heilsa kærandi hafi því mögulega átt þátt í því að kærandi hafnaði starfinu. Það hefur hins vegar ekki áhrif á viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar. Kærandi lét hjá líða að tilkynna stofnuninni um það hvernig heilsufari hennar væri háttað þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur, en það bar henni að gera skv. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar látið er hjá líða að veita upplýsingar eða látið hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna skal sá, sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. laganna eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr.

 Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun staðfest.


 Úr­skurðar­orð

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. júlí 2014 í máli A, um að staðfesta fyrri viðurlagaákvörðun stofnunarinnar, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta