Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 194/2020 - Úrskurður

.

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 194/2020

Fimmtudaginn 27. ágúst 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. apríl 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. apríl 2020, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 9. janúar 2019. Með bréfi, dags. 27. febrúar 2020, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnuninni hefðu borist upplýsingar um að hann hefði verið staddur erlendis frá nóvember 2019 til janúar 2020 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að skila inn skýringum og farseðlum. Skýringar bárust frá kæranda 3. mars 2020 þar sem hann kvaðst ekki hafa verið staddur erlendis á umræddu tímabili. Farseðlar vegna dvalar erlendis á tímabilinu 10. til 26. janúar 2020 ásamt skýringum um að kærandi hefði verið erlendis frá 22. nóvember til 12. desember 2019 og í febrúar 2020 bárust síðan 2. apríl 2020. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. apríl 2020, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi var einnig krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 102.573 kr., að meðtöldu 15% álagi, fyrir tímabilið 10. til 26. janúar 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 21. apríl 2020. Með bréfi, dags. 28. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. júní 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júní 2020, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að rangar upplýsingar og tungumálaörðugleikar hafi leitt til þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hafi stöðvast. Kærandi óski eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði ákvörðun Vinnumálastofnunar og ef mögulegt sé að fá fund til þess að koma í veg fyrir samskiptavandamál. Ef kærandi fái ekki ákvörðun fljótt þurfi hann að yfirgefa Ísland og reyna að finna vinnu erlendis. 

Kærandi tekur fram að hann hafi farið til síns heimalands í aðkallandi augnaðgerðir í desember 2019 og janúar 2020. Vinnumálastofnun hafi haft samband við kæranda og óskað eftir skýringum og flugmiðum vegna þess að rökstuddur grunur væri um ótilkynnta dvöl erlendis frá nóvember 2019 til janúar 2020. Kærandi hafi ekki skilið skjölin frá Vinnumálastofnun þar sem enska sé ekki fyrsta tungumálið hans og hann hafi ekki mikinn orðaforða á íslensku. Kæranda skildist að Vinnumálastofnun hafi sagt að hann hefði verið erlendis frá nóvember til janúar sem sé ekki rétt. Kærandi hafi ekki verið þrjá mánuði úr landi. Kærandi hafi skýrt þetta fyrir ráðgjafa Vinnumálastofnunar sem hafi sagt honum að senda bankayfirlit sem myndi sanna að hann hefði ekki verið úr landi í þrjá mánuði. Kærandi hafi síðan fengið bréf frá Vinnumálastofnun 4. mars 2020 þar sem fram hafi komið að rökstuddur grunur væri um þrjár ferðir til útlanda, án tilkynningar til Vinnumálastofnunar. Þá hafi kærandi skilið hvað Vinnumálastofnun væri að óska eftir og í kjölfarið sent umbeðnar upplýsingar. Vinnumálastofnun hafi síðan reiknað út hvað kærandi þyrfti að endurgreiða og stöðvað greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

Kærandi bendir á að vefsíða Vinnumálastofnunar þýði ekki færslur frá stofnuninni yfir á ensku sem komi í veg fyrir að kærandi geti skilið upplýsingarnar. Án þess að fá ráðgjöf sé mjög erfitt fyrir kæranda að fara eftir lögum. Kærandi skilji að hann eigi sök á því að hafa ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um ferðirnar en hann hafi einfaldlega gleymt því. Kærandi óskar eftir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá og með dagsetningu hinnar kærðu ákvörðunar. Kærandi hafi ekki vísvitandi veitt rangar upplýsingar eða vísvitandi ekki gert grein fyrir ferðum sínum til útlanda.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að stofnuninni hafi borist ábendingar um að kærandi hefði verið staddur erlendis á tímabilinu nóvember 2019 til janúar 2020, á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Kærandi hafi veitt þær upplýsingar að hann hefði ekki verið erlendis á umræddu tímabili og að hann teldi fyrirspurn Vinnumálastofnunar vera byggða á misskilningi eða villu. Kærandi hafi sent frekari athugasemdir til stofnunarinnar og vísað til þess að hann hafi ekki verið erlendis með orðunum:  „I wasnt out of the country from nov to january.“ Þá hafi kærandi einnig sent bankayfirlit um debetkortafærslur frá nóvember 2019 til febrúar 2020. Færslur á bankayfirliti kæranda hafi borið með sér að kærandi hafi verið staddur á Íslandi á ofangreindu tímabili en færsla frá 22. nóvember 2019 til fyrirtækis sem sinni fólksflutningum til Keflavíkurflugvallar hafi gefið til kynna að kærandi hafi farið af landi brott. Síðar hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda með farseðlum vegna ferða hans erlendis frá 10. janúar til 26. janúar 2020. Þá hafi kærandi upplýst að hann hefði verið erlendis frá 22. nóvember til 12. desember 2019 og í febrúar 2020.

Með erindi, dags 17. apríl, hafi kæranda verið birt ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva greiðslur og að hann skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það hafi verið niðurstaða Vinnumálastofnun að kærandi hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar sem leiddu til þess að hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að eiga rétt til þeirra. Enn fremur hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skyldi endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 10. janúar til 26. janúar 2020, að viðbættu 15% álagi, í samræmi við 2. mgr. 39. gr. fyrrgreindra laga, alls 102.573 kr.

Vinnumálastofnun vísar til þess að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrenginum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Í 13. gr. laganna séu talin upp almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í c-lið ákvæðisins segi meðal annars að það sé skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Á vef Vinnumálastofnunar komi þessar upplýsingar fram undir liðnum „réttindi og skyldur- upplýsingaskylda.“ Þar segi: „Ekki er heimilt að dvelja erlendis á sama tíma og umsækjandi þiggur atvinnuleysisbætur nema hafa sótt um U2-vottorð.“ Einnig sé vakin athygli á þessu í umsóknarferli á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar. Þá sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjanda í 2. mgr. 14. gr. sömu laga. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytignar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur.“

Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 segi að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefi stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta.

Þegar óskað hafi verið eftir skýringum frá kæranda vegna máls þessa hafi hann neitað að hafa verið staddur erlendis og sent stofnuninni reikningsyfirlit sitt. Þrátt fyrir að hafa ítrekað staðhæft við Vinnumálastofnun að hann hafi ekki dvalið erlendis á umræddu tímabili þá viðurkenni kærandi að lokum að hafa dvalið erlendis. Í kæru sinni til úrskurðarnefndar velferðarmála beri kærandi fyrir sig að tungumálakunnátta hans hafi valdið misskilningi. Í ljósi afgerandi svara kæranda við fyrirspurnum stofnunarinnar verði ekki fallist á að kærandi hafi verið í vafa um hvaða spurningum hafi verið beint til hans. Vinnumálastofnun telji að framkoma kæranda við meðferð máls hans bendi eindregið til þess að kærandi hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar til stofnunarinnar svo að hann teldist ranglega tryggður á meðan hann hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að hann eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 12 mánuði. Þá beri kæranda einnig að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann hafi verið staddur erlendis.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 10. til 26. janúar 2020, að fjárhæð 102.573 kr. með 15% álagi.

Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að honum beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma sem hann hafi verið staddur erlendis.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna. Fyrst verður vikið að þeim þætti málsins er lýtur að ákvörðun um stöðvun greiðslna.

Ákvæði 60. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Samkvæmt framangreindu er það skilyrði fyrir beitingu viðurlaga á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 að atvinnuleitandi hafi aflað sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti. Ákvæðið áskilur því tiltekna huglæga afstöðu viðkomandi. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að stofnunin telji framkomu kæranda við meðferð máls hans benda eindregið til þess að kærandi hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar til stofnunarinnar svo að hann teldist ranglega tryggður á meðan hann hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki séð að Vinnumálastofnun hafi kannað huglæga afstöðu kæranda áður en ákvörðun um beitingu viðurlaga var tekin. Að því virtu er það niðurstaða nefndarinnar að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en Vinnumálastofnun tók hina kærðu ákvörðun, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því verður ekki hjá því komist að fella þann þátt hinnar kærðu ákvörðunar úr gildi og vísa til baka til mats á því hvort kærandi hafi aflað sér atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti.

Mál þetta lýtur einnig að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur fyrir tímabilið er hann var erlendis. Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Þegar kærandi var erlendis á tímabilinu 10. til 26. janúar 2020 uppfyllti hann ekki skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um að vera búsettur og staddur hér á landi. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Líkt og áður greinir tilkynnti kærandi ekki Vinnumálastofnun fyrir fram um ferð sína erlendis og er því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar um innheimtu ofgreiddra bóta staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. apríl 2020, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til handa A, er felld úr gildi. Ákvörðun stofnunarinnar um innheimtu ofgreiddra bóta vegna tímabilsins 10. til 26. janúar 2020 er staðfest. 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta