Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 480/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 480/2022

Fimmtudaginn 15. desember 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. september 2022, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. september 2022, um að synja umsókn fyrirtækisins um nýsköpunarstyrk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 5. september 2022, sótti kærandi um nýsköpunarstyrk hjá Vinnumálastofnun. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 13. september 2022, með vísan til þess að verkefnið væri ekki talið líklegt til að veita atvinnuleitanda framtíðarstarf. Kærandi fór fram á endurupptöku málsins en með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2022, var þeirri beiðni synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. september 2022. Með bréfi, dags. 28. september 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Þann 12. október 2022 var Vinnumálastofnun veittur frestur til 28. október 2022 til að skila greinargerð. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 25. október 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. október 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 15. nóvember 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun samdægurs. Þá bárust frekari athugasemdir frá kæranda 16. og 19. nóvember 2022. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 5. desember 2022, var óskað eftir frekari upplýsingum frá Vinnumálastofnun um þá styrki sem fyrirtækið hafði fengið á grundvelli bráðabirgðaákvæða með reglugerð nr. 918/2020. Svar barst 7. desember 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að A hafi áður fengið samþykkta nýsköpunarstyrki án athugasemda, en hafi ekki náð að nýta nema hluta af þeim. Rök Vinnumálastofnunar, sem hafi verið sett fram í bréfi 13. september 2022, séu þau að verkefnið sé ekki talið líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, þ.e. að ólíklegt sé að nýr samningur veiti atvinnuleitendum áframhaldandi ráðningu eftir að gildistíma nýsköpunarstyrks ljúki. Vinnumálastofnun vísi í sem rök að fyrirtækið hafi nýtt fimm nýsköpunarstyrki en að þessir styrkir hafi ekki leitt til áframhaldandi ráðningar eftir að gildistíma nýsköpunarstyrksins hafi lokið. Í bréfinu frá Vinnumálastofnun frá 13. september standi:

„Samkvæmt upplýsingum á umsókn fyrirtækisins um nýsköpunarstyrk dags. 5. september s.l. starfa í dag einungis þrír starfsmenn hjá fyrirtækinu þrátt fyrir framangreint og hafa þeir starfsmenn sem gerðir voru samningar vegna ekki fengið áframhaldandi ráðningu hjá fyrirtækinu eftir að gildistími ráðningastyrkja var útrunninn.“

Fyrirtækið hafi andmælt þessu og talið að um ófullnægjandi og rangar upplýsingar væri að ræða. Fyrirtækið hafi bent á að samkvæmt samtali við starfsmann Vinnumálastofnunar skrái Vinnumálastofnun ekki hjá sér ástæður þess að ekki sé um áframhaldandi ráðningu að ræða hjá starfsmanni. Þannig geti ástæðurnar ekki verið á valdi fyrirtækisins en samkvæmt rökstuðningi Vinnumálastofnunar myndi Vinnumálastofnun engu að síður hafna umsókn um nýsköpunarstyrk.

Samkvæmt Vinnumálastofnun virðist bara fjöldi samþykktra styrkja/starfsmanna skipta máli. Ef starfsmaður sem dæmi mæti í einn dag eða örfáa daga en hætti svo að mæta án skýringa, eins og eigi við um hluta þeirra starfsamanna sem fyrirtækið hafi ráðið með ráðningarstyrk, geti fyrirtækið samkvæmt rökstuðningi Vinnumálastofnunar í framhaldinu átt það á hættu að verða refsað fyrir það í formi þess að umsókn um nýsköpunarstyrk verði hafnað. Fyrirtækið telji að augljóslega sé hér verið að taka íþyngjandi ákvörðun á grundvelli ófullnægjandi og rangra upplýsinga.

Þeir fimm starfsmenn sem hafi verið ráðnir á nýsköpunarstyrk til fyrirtækisins hafi hætt að mæta til vinnu og því ekki klárað reynslutíma. Tveimur hafi verið boðin áframhaldandi ráðning en þeir hafi einnig fengið atvinnutilboð frá öðru fyrirtæki og valið það. Í bréfi Vinnumálastofnunar frá 13. september standi: „það mat stofnunarinnar að ólíklegt sé að nýr samningur veiti atvinnuleitendum áframhaldandi ráðningu eftir að gildistíma nýsköpunarstyrks lýkur.“ Það sé ekki rétt að viðkomandi hafi ekki fengið áframhaldandi ráðningu hjá fyrirtækinu, þ.e. að viðkomandi hafi viljað fá áframhaldandi ráðningu eftir lok reynslutíma en ekki fengið eins og Vinnumálastofnun haldi fram eða gefi í skyn. Þetta séu því klárlega efnislega rangar og ófullnægjandi fullyrðingar.

Vinnumálastofnun hafi verið bent á þetta, en í úrskurði, dagsettum 26. september 2022, hafi stofnunin engu að síður kosið að halda því fram að ákvörðunin frá 13. september hafi ekki verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum. Vinnumálastofnun hafi kosið að tjá sig ekki efnislega um ábendinguna varðandi hvaða upplýsingar hafi verið ófullnægjandi og rangar og vísað bæði í svarbréf, dagsett 26. september 2022, og í tölvupóst sama dag þar sem ábendingu um hvað hafi verið ófullnægjandi og bent á að það væri hægt að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Vinnumálastofnun skrifi einnig í bréfinu, dagsettu 13. september,: „Í ljósi þess að Vinnumálastofnun hefur þegar gert fjölda samninga um styrk vegna starfa atvinnuleitenda hjá fyrirtækinu sem ekki hafa leitt til áframhaldandi ráðningar.“ Fyrirtækið hafi nýtt svokallaða „Hefjum störf“ ráðningarstyrki. Fyrirtækið hafi ráðið fólk sem enginn annar hafi viljað ráða rétt áður en „Hefjum störf“ hafi runnið út undir lok síðasta árs. Færa megi rök fyrir því að þessi hópur hefði verið atvinnulaus fram á þetta ár ef það hefði ekki verið ráðið af fyrirtækinu, enda hafi mun lægri ráðningarstyrkur verið í boði fyrir þennan hóp eftir áramót. Til að eiga rétt á „Hefjum störf“ ráðningarstyrk hafi atvinnuleitandi þurft að hafa verið atvinnulaus í lengri tíma, þ.e. í meira en ár. Um sé að ræða „erfiðustu“ skjólstæðinga Vinnumálastofnunar. Fyrirtækið líti svo á að það hafi verið mistök að nýta þennan „Hefjum störf“ ráðningarstyrk og að hátt hlutfall þessara ráðninga hafi skapað meiri vandamál en verið að gagni. Sem dæmi hafi fyrirtækið þurft að leita til lögreglunnar til að fá verðmætum tölvubúnaði skilað og fyrirtækið hafi einnig orðið fórnarlamb fjársvika. Í báðum tilvikum séu gerendur fólk sem hafi verið ráðið með þessum hætti. Ef fyrirtækið gæti tekið þá ákvörðun aftur hefði það sleppt því að ráða fólk í gegnum „Hefjum störf“. Fyrirtækið telji að „Hefjum störf“ sé mjög frábrugðið nýsköpunarstyrk. Í fyrsta lagi varðandi eðli starfs. Nýsköpunarstyrkur sé sérstaklega fyrir störf í vöruþróun og nýsköpun. „Hefjum störf“ sé fyrir almenna starfsmenn. Í öðru lagi skilyrði fyrir styrk. Fólk þurfi að hafa verið atvinnulaust í að minnsta kosti ár til að eiga rétt á „Hefjum störf“. Fyrir nýsköpunarstyrk nægi að viðkomandi sé nýkominn á atvinnuleysisskrá, þ.e. gæti til dæmis hafa verið atvinnulaus í einn dag. Í þriðja lagi varðandi ráðningartímabil. „Hefjum störf“ hafi gilt í hálft ár en nýsköpunarstyrkur geti gilt í heilt ár, þ.e. eftir hálft ár sé hægt að sækja um framlengingu og framlenging sé veitt ef starfsmaðurinn hafi unnið að nýsköpun. Nýsköpunarstyrkur veiti þannig starfsmanni tækifæri til að setja sig betur inn í krefjandi og flókin viðfangsefni sem nýsköpun sé yfirleitt.

Fyrirtækið hafi trúað því að allir verðskulduðu annað tækifæri og nýtt „Hefjum störf“ meira en það hefði gert ef það gæti farið aftur í tímann og tekið þá ákvörðun aftur. Fyrirtækið telji hins vegar að það hvort fyrirtæki hafi nýtt „Hefjum störf“ eða ekki ætti ekki að hafa áhrif á möguleika viðkomandi fyrirtækis til að fá ráðningarstyrk sem sé í grundvallaratriðum frábrugðinn „Hefjum störf“, þ.e. bæði hverjir uppfylli skilyrði ráðningarstyrksins og einnig starfssvið. Þá bendi kærandi á að hvergi í upplýsingum um „Hefjum störf“ komi fram að það að fyrirtæki ráði starfsmenn í gegnum þann ráðningarstyrk geti haft neikvæð áhrif á möguleika fyrirtækisins til að ráða starfsmann í framtíðinni með nýsköpunarstyrk. Kærandi telji því að málflutningur Vinnumálastofnunar eigi ekki rétt á sér þar sem við afgreiðslu á nýsköpunarstyrk sé horft til allt annars ráðningarstyrks sem gjörólíkur hópur skjólstæðinga Vinnumálastofnunar eigi rétt á og snerti ólík störf.

Fram hafi komið að fyrirtækið muni ráða fleiri starfsmenn en þá þrjá sem Vinnumálastofnun vísar í. Það hafi komið fram í samtali fulltrúa fyrirtækisins við starfsmann Vinnumálastofnunar. Fyrirtækið sé með fjárhagsáætlun sem geri ráð fyrir fleiri ráðningum. Fyrirtækið hafi gert athugasemd við að svarbréfið frá 26. september hafi ekki fjallað efnislega um neitt af framangreindum atriðum, jafnvel þó að fyrirtækið hafi bent á nákvæmlega þessi atriði þegar það hafi óskað eftir endurupptöku á þeirri ákvörðun sem hafi verið sett fram 13. september.

Fyrirtækið geri því athugasemd við eftirfarandi fjögur atriði. Í fyrsta lagi hafi verið horft fram hjá því að fyrirtækið hafi sannarlega boðið þeim tveimur starfsmönnum sem hafi verið ráðnir með nýsköpunarstyrk og hafi ekki látið sig hverfa áframhaldandi starf. Fullyrðing um hið gagnstæða sé því röng. Í öðru lagi vinnuaðferðir Vinnumálastofnunar þar sem eingöngu sé unnið með tölur á blaði og samkvæmt samtali við starfsmann Vinnumálastofnunar sé ástæða þess að starfsmaður hætti störfum ekki skráð. Fyrirtæki sem sé óheppið með starfsmenn, þ.e. allir starfsmenn hverfi eða hætti einn góðan veðurdag jafnvel þó að fyrirtækið hafi staðið sig vel og uppfyllt allar sínar skyldur í hvívetna, sé samkvæmt rökum Vinnumálastofnunar í þeirri stöðu að geta ekki fengið nýsköpunarstyrk. Því séu þær upplýsingar sem Vinnumálastofnun safni ófullnægjandi og í kjölfarið rangar ályktanir vegna skorts á upplýsingum. Í þriðja lagi að ólíkum ráðningarstyrkjum sé blandað saman, þ.e. átaksverkefni sem hafi haft það að markmiði að vinna á langtímaatvinnuleysi sé blandað saman við gjörólíka ráðningarstyrki, sem eingöngu nýsköpunarfyrirtæki eigi aðgang að, þar sem ráða megi fólk sem hafi verið jafnvel bara einn dag á atvinnuleysisskrá. Fyrirtækjum hafi á engum tímapunkti verið tilkynnt í tengslum við „Hefjum störf“ að það að nýta þess háttar styrk gæti haft neikvæð áhrif á styrk á borð við nýsköpunarstyrk. Hér sé því um ófullnægjandi upplýsingar að ræða, þ.e. gagnsæi skorti varðandi áhrif þess að nýta „Hefjum störf“. Einnig rangar upplýsingar, þ.e. það verði að teljast mjög hæpið að tengja með þessum hætti saman gjörólíka ráðningarstyrki. Í fjórða lagi vinnubrögð Vinnumálastofnunar þar sem þrátt fyrir að vera bent á framangreinda þætti geri stofnunin enga tilraun til þess að færa rök fyrir því að ekki hafi verið um ófullnægjandi og rangar upplýsingar að ræða. Í svarbréfi frá 26. september sé engin tilraun gerð til þess að mótmæla eða færa fram gagnrök fyrir því að svo hafi verið. Vinnumálastofnun biðji fyrirtækið ítrekað um að senda kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Fyrirtækið telji að Vinnumálastofnun brjóti þar gegn reglum um meðalhóf opinberra aðila, þ.e. neyði sprotafyrirtæki til að fara kæruleiðina sem verði að teljast íþyngjandi, án þess að gera neina tilraun til þess að rökstyðja að ekki hafi verið um rangar og ófullnægjandi upplýsingar að ræða.

Kærandi óski þess að úrskurðarnefndin úrskurði um framangreinda þætti. Einkum og sér í lagi að Vinnumálastofnun beri að skrá ástæður þess að starfsmaður hætti störfum. Annars sé hætta á að fyrirtæki verði fyrir barðinu á svipuðum hlutum og kærandi vegna einskærrar óheppni með starfsmenn. Að Vinnumálastofnun beri að samþykkja umsókn fyrirtækisins um nýsköpunarstyrk, enda séu þær fullyrðingar sem séu settar fram í bréfinu frá 13. september bæði rangar og ófullnægjandi eins og að framan greini. Að Vinnumálastofnun sé ekki heimilt að láta fyrirtæki gjalda fyrir þátttöku í átaksverkefni á borð við „Hefjum störf“ með þeim hætti sem Vinnumálastofnun virðist vilja gera, þ.e. að slíkt hafi afleiðingar á möguleika fyrirtækja til að fá allt aðra tegund ráðningarstyrks sem snerti allt annan hóp skjólstæðinga Vinnumálastofnunar, snerti annars konar störf og hafi aðra lengd. Einnig ef Vinnumálastofnun ætli að láta fyrirtæki gjalda fyrir þátttöku í átaksverkefni á borð við „Hefjum störf“ að það komi skýrt fram að þátttakan geti skert möguleika fyrirtækis á því að fá annars konar ráðningarstyrk, þ.e. nýsköpunarstyrk. Þannig sé gagnsæi tryggt. Að Vinnumálastofnun beri að svara erindum efnislega. Í svarbréfi frá 26. september og meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum sé engin tilraun gerð af hálfu Vinnumálastofnunar til að svara efnislega rökstuðningi um að um rangar og ófullnægjandi upplýsingar hafi verið að ræða. Kærandi telji að þar sé meðalhófs ekki gætt. Það sé íþyngjandi fyrir fyrirtæki að þurfa að leita réttar síns hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, bæði sé talsverð vinna fólgin í því að semja erindi og einnig sé ljóst að það tefji afgreiðslu umsóknar.

Í því samhengi megi geta þess að umsóknin um nýsköpunarstyrk hafi verið send inn 5. september. Samkvæmt Vinnumálastofnun gildi samþykkt umsókn um nýsköpunarstyrk í fjóra mánuði, þ.e. ráða megi starfsmann innan fjögurra mánaða eftir að umsókn hafi verið samþykkt. Ef lengri tími líði þurfi að sækja aftur um. Málsmeðferðartími sem sé lengri en mánuður fyrir umsókn sem gildi í fjóra mánuði eftir að hún sé samþykkt teljist væntanlega nokkuð vel í lagt.

Í stuttu máli snúist málið um það hvort Vinnumálastofnun geti trassað að skrá hjá sér ástæður þess að atvinnuleitandi sem sé ráðinn með ráðningarstyrk hættir störfum. Að jafnvel þó að fyrirtæki vilji sannarlega ráða starfsmann áfram, en það sé ekki hægt vegna ástæðna sem séu ekki á valdi fyrirtækisins (starfsmaður hætti að mæta eða velji aðra vinnu), megi telja fyrirtækinu það til vansa og nýta sem rök fyrir því að hafna umsókn um ráðningarstyrk eingöngu á grundvelli talna. Í þessu máli hafi fyrirtækið ráðið fimm manns á nýsköpunarstyrk. Þrír hafi hætt að mæta, sumir eftir mjög skamman starfstíma. Tveimur hafi verið boðin áframhaldandi vinna en þeir hafi verið með góð ráðningartilboð og valið að fara frekar þangað. Kærandi velti því upp hvort þetta teljist vera slæm frammistaða hjá fyrirtækinu sem réttlæti höfnun á umsókn um nýsköpunarstyrk. Einnig hvort það sé leyfilegt að horfa til ráðningarstyrks sem hafi verið átaksverkefni fyrir þá sem hafi verið lengi atvinnulausir og hafi í eðli sínu verið gjörólíkur nýsköpunarstyrk hvað varði hver sér ráðinn, lengd og starfshlutverk þegar ákvörðun um alls óskyldan ráðningarstyrk, þ.e. nýsköpunarstyrk, sé tekin.

Ef Vinnumálastofnun vilji horfa til slíks (sem athugasemd sé gerð við), sé spurning hvort það ætti þá ekki að upplýsa fyrirtæki um að þau séu að taka áhættu varðandi til dæmis nýsköpunarstyrk ef þau taki þátt í „Hefjum störf“. Einnig hvort Vinnumálastofnun sé að uppfylla skyldur um meðalhóf með því að neita að tjá sig efnislega um þær athugasemdir og rök sem sett séu fram fyrir því að ákvörðun hafi stuðst við rangar og ófullkomnar upplýsingar og biðja fyrirtæki að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála en slíkt ferli sé íþyngjandi fyrir fyrirtæki.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar kemur fram að fyrirtækið hafi ýmislegt við svar stofnunarinnar að athuga. Varðandi tilvísun Vinnumálastofnunar til þeirra styrkja sem fyrirtækið hafi fengið sé bent á að í mörgum tilfellum hafi umræddir starfsmenn hætt strax. Í einhverjum tilfellum hafi fólk hætt að mæta, til dæmis eftir fyrsta daginn. Önnur ástæða sé sú að fyrirtækið sé með verkstjórnunarhugbúnað (Asana) og tímaskráningu (Everhour). Talsverður fjöldi skrái ekki vinnustundir sínar. Til að eiga rétt á ráðningarstyrk samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar hafi fólk þurft að hafa verið á atvinnuleysisskrá í ár. Vinnumálastofnun hafi beitt fólk nokkrum þrýstingi að taka störfum sem hafi verið í boði þar sem hægt sé að taka fólk af atvinnuleysisskrá ef það hafni vinnu. Reglur Vinnumálastofnunar hafi ekki verið settar af fyrirtækinu en ljóst sé að dæmi séu um að fólk hafi ekki verið að ráða sig til starfa af heilum hug. Allt séu þetta atriði sem fyrirtækið hafi ekki stjórn á og ætti ekki að gjalda fyrir.

Varðandi tilvísun Vinnumálastofnunar til þess að hjá fyrirtækinu starfi nú einungis þrír starfsmenn sé bent á að fyrirtækið sé með tvo stóra styrki. Um sé að ræða eina stærstu styrki sem í boði séu til rannsókna og þróunar. Það hafi orðið töf á afgreiðslu annars styrksins en þar sé gerð krafa um mótframlag. Fyrirtækið hafi nú leyst úr því og fengið veglegan styrk. Þessi töf hafi valdið tímabundnum samdrætti í starfsemi fyrirtækisins en sé nú yfirstaðin.

Ekki sé rétt að þeir starfsmenn sem hafi verið gerðir samningar vegna hafi ekki fengið áframhaldandi ráðningu hjá fyrirtækinu eftir að gildistími ráðningarstyrkja hafi verið útrunninn. Í dag sé fyrirtækið með starfsmann sem hafi upprunalega verið ráðinn með ráðningarstyrk. Einnig hafi aðrir starfsmenn verið ráðnir eftir að ráðningarstyrk hafi lokið. Fyrirtækið hafi átt í nokkrum erfiðleikum vegna skorts á hæfu tæknimenntuðu fólki á Íslandi en sem sprotafyrirtæki eigi það erfitt með að keppa við fyrirtæki á borð við Marel eða Össur eða jafnvel Reykjavíkurborg sem hafi ráðið til sín mikinn fjölda tæknifólks til að styðja framrás í stafrænni tækni. Fyrirtækið hafi gert sitt til að halda fólki eftir ráðningarstyrk en ef viðkomandi sé með tilboð frá aðilum á borð við þessa geti verið erfitt að keppa við þá.

Kærandi greinir frá ástæðum þess að þeir fimm starfsmenn sem hafi verið ráðnir á ráðningarstyrk vinni ekki lengur hjá fyrirtækinu. Í öllum tilvikum hafi fyrirtækið ekki átt þess kost að ráða viðkomandi áfram til starfa. Ljóst sé að röksemdafærsla Vinnumálastofnunar falli um sjálfa sig. Vinnumálastofnun hafi ekki sýnt fram á að fyrirtækið hafi ekki veitt einum einasta starfsmanni sem hafi verið ráðinn með nýsköpunarstyrk tækifæri til að vinna áfram hjá fyrirtækinu eftir að styrk hafi lokið.

Fyrirtækið telji að skráning og vinnubrögð stofnunarinnar séu ámælisverð. Þannig virðist Vinnumálastofnun ekki gera greinarmun á því hvort atvinnuleitandi taki starfstilboði vegna þess að viðkomandi upplifi sig „þvingaðan til þess“, mæti mögulega í einn dag og láti síðan ekki sjá sig aftur. Í skráningu Vinnumálastofnunar sé þetta skráð þannig að fyrirtæki hafi fengið ráðningarstyrk. Tímabil ráðningarsamningsins sé fært til bókar en ekki að bara einn dagur af þessu tímabili hafi verið raunverulegur starfstími viðkomandi. Þá virðist Vinnumálastofnun ekki skrá ástæður þess að atvinnuleitandi sem sé ráðinn með nýsköpunarstyrk sé ekki ráðinn áfram. Viðkomandi geti hætt eftir einn dag, hætt að mæta eða fengið gott starfstilboð annars staðar. Allt þetta sé samt skráð sem ráðningarstyrkur til fyrirtækisins, fullt tímabil ráðningarstyrksins skráð jafnvel þó að viðkomandi hafi til dæmis starfað í einn dag eða minna en mánuð. Það sé ekki skráð ef viðkomandi hætti að mæta og láti ekki sjá sig. Það sé ekki skráð ef viðkomandi fái annað starfstilboð sem geti verið draumastarf viðkomandi. Fyrirtækið telji að ófullnægjandi skráning Vinnumálastofnunar sé á ábyrgð stofnunarinnar en ekki fyrirtækisins. Þessi ófullnægjandi skráning leiði síðan til þess að Vinnumálastofnun sé með mjög ófullkomin gögn, gögn sem geri Vinnumálastofnun ókleift að taka upplýsta ákvörðun. Gögn sem ekki sé hægt að leggja til grundvallar fyrir því að synja umsókn fyrirtækisins um nýsköpunarstyrki.

Samkvæmt lögum eigi við lok gildistíma samnings hluteigandi fyrirtæki eða stofnun að veita Vinnumálastofnun umsögn um störf viðkomandi atvinnuleitanda hjá fyrirtækinu eða stofnuninni, eftir því sem við eigi. Vinnumálastofnun sé fullkunnugt um þau vandamál sem fyrirtækið hafi haft með tiltekinn starfsmann, þ.e. hann hafi horfið, síðan alveg hætt að mæta og ekki skilað ferðatölvu fyrirtækisins. Þetta sé allt saman kirfilega skráð í tölvupóstsamskiptum fyrirtækisins og Vinnumálastofnunar. Það sé fyrirtækinu hulin ráðgáta að stofnunin skoði ekki umsögn um starfsmanninn og leggi hana fram í svari sínu í málinu. Einnig sé hulin ráðgáta að þrátt fyrir þessi gögn sem Vinnumálastofnun sé sannarlega með í sínum fórum velji stofnunin að telja þann starfsmann sem dæmi um starfsmann sem hafi verið ráðinn með nýsköpunarstyrk og fyrirtækið hafi ekki veitt áframhaldandi ráðningu. Til þess að það sé hægt þurfi viðkomandi fyrst að klára ráðningartíma nýsköpunarstyrksins og til þess þurfi viðkomandi að mæta til vinnu. Sama gildi um annan starfsmann sem hafi hætt eftir stuttan starfstíma, minna en mánuð. Vinnumálastofnun sé með gögn þar um. Það sé óskiljanlegt hvers vegna Vinnumálastofnun líti fram hjá þeim gögnum. Þá sé Vinnumálastofnun fullkunnugt um að annar starfsmaður hafi hætt að mæta og að sá glími við andleg veikindi, þ.e. þunglyndi. Einnig sé Vinnumálastofnun fullkunnugt um að aðrir tveir starfsmenn hafi ráðið sig í önnur störf og hvorugur þeirra hafi klárað starfstíma nýsköpunarstyrksins. Fyrirtækið fari fram á að Vinnumálastofnun verði bent á að þessi gögn séu hjá stofnuninni, þ.e. umsagnir um störf viðkomandi, en af óútskýrðum ástæðum velji  stofnunin að líta fram hjá þeim.

Samkvæmt lögum verði verkefnið að vera líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Gera verði þá kröfu að stuðst sé við gögn við það mat. Samkvæmt svari Vinnumálastofnunar sé stofnunin ekki að nýta nema brotabrot af þeim gögnum sem hún hafi við ákvörðun ráðgjafa Vinnumálastofnunar um hvort líklegt sé að um framtíðarstarf verði að ræða. Vinnumálastofnun sé ekki að nýta gögn um raunverulegan starfstíma viðkomandi (bara tímabil ráðningarsamnings) sem geti verið einn dagur. Vinnumálastofnun sé ekki að nýta nein gögn um hvers vegna viðkomandi starfsmaður hafi lokið störfum, þ.e. hafi ekki klárað ráðningartímann. Vinnumálastofnun endurtaki aftur rangfærslur um að fyrirtækið hafi ekki ráðið neinn eftir að ráðningarstyrk hafi lokið. Kærandi ítreki að í dag starfi slíkur starfsmaður hjá fyrirtækinu og að fyrirtækið hafi veitt starfsmönnum áframhaldandi ráðningu eftir lok gildistíma ráðningarstyrks.

Kærandi tekur fram að þrátt fyrir að Vinnumálastofnun hafi sannarlega allar upplýsingar um það hvers vegna umræddir fimm einstaklingar hafi ekki verið framhaldsráðnir, sbr. tölvupósta og lög um að atvinnuranda beri að veita Vinnumálastofnun endurgjöf um hvernig til hafi tekist við að ráða starfsmann sem sé ráðinn með nýsköpunarstyrk, velji stofnunin að líta fram hjá þessum gögnum. Kærandi telji að úrskurðarnefndinni beri að hafna rökum Vinnumálastofnunar alfarið. Vinnumálastofnun hafi mun ítarlegri gögn í sínum höndum en lögð séu til grundvallar höfnun á umsókn um nýsköpunarstyrk. Vinnumálastofnun viti að fyrirtækið hafi sannarlega ekkert getað gert til að veita þeim fimm aðilum, sem hafi verið ráðnir með nýsköpunarstyrk, áframhaldandi ráðningu. Vinnumálastofnun kjósi að einskorða þau gögn sem lögð séu til grundvallar við fjölda samninga, óháð því hvort samningur hafi í raun gilt til dæmis í einn dag eða fáeina daga. Vinnumálastofnun hafi ekki sýnt fram á að nýr samningur veiti atvinnuleitendum ekki áframhaldandi ráðningu eftir lok gildistíma ráðningarstyrks. Í einu af þeim fimm dæmum sem Vinnumálastofnun nefni um nýsköpunarstyrk hafi fyrirtækið haft kost á því að veita áframhaldandi ráðningu (þrír hafi hætt mun fyrr og tveir hafi ekki heldur klárað tímabil ráðningarsamnings nýsköpunarstyrksins, þ.e. hafi ráðið sig annað fyrir lok tímabils nýsköpunarstyrksins). Kærandi hafni þeirri fullyrðingu Vinnumálastofnunar um að ekki sé fallist á að fyrirtæki geti endurtekið fengið nýsköpunarstyrk frá stofnuninni til að ráða starfsfólk sem síðan leiði ekki til áframhaldandi ráðningar. Fyrirtækið hafi ekki átt þess kost að ráða áfram einn einasta af þeim fimm aðilum sem hafi verið ráðnir með nýsköpunarstyrk og nafngreindir séu í svari Vinnumálastofnunar. Kærandi geri athugasemd við skýrleika svars Vinnumálastofnunar. Stofnunin sé ekki að nýta nema brotabrot af fyrirliggjandi gögnum og í svarinu sé það sama endurtekið aftur og aftur. Þá hafni Vinnumálastofnun því að hafa neitað að tjá sig efnislega um þær athugasemdir og rök sem kærandi hafi sett fram en kærandi telji að í svari stofnunarinnar sé einmitt það gert. Kærandi átti sig ekki á því hvernig hægt sé að neita að tjá sig um þær ástæður sem liggi að baki því að umræddir fimm einstaklingar hafi ekki verið ráðnir áfram og horfa fram hjá þeim gögnum sem stofnunin hafi og eigi einnig rétt á að afla.

Kærandi krefjist þess í fyrsta lagi að úrskurðað verði fyrirtækinu í vil þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki sýnt fram á að það sé rétt ákvörðun að hafna umsókn fyrirtækisins um nýsköpunarstyrk. Í öðru lagi að Vinnumálastofnun verði áminnt fyrir að horfa ítrekað fram hjá því að nýta þau gögn sem stofnunin hafi um ástæður þess að þeir fimm einstaklingar sem nafngreindir séu í svari stofnunarinnar hafi ekki klárað samning um nýsköpunarstyrk. Einnig að Vinnumálastofnun verði áminnt fyrir að halda því fram í svari sínu að stofnunin hafi neitað að tjá sig efnislega um þær athugasemdir og rök sem kærandi hafi sett fram. Í þriðja lagi að Vinnumálastofnun verði ráðlagt að bæta skráningar sínar varðandi umsagnir um störf atvinnuleitenda en kærandi hafi látið stofnuninni í té ítarlegar upplýsingar í gegnum tölvupóstsamskipti. Í fjórða lagi að Vinnumálastofnun verði ráðlagt að nýta öll gögn við úrvinnslu nýsköpunarstyrkja og bent á að það samrýmist ekki skyldum ríkisstofnana að nota ófullkomnari gögn en séu fyrir hendi við ákvarðanatöku. Að það séu ekki ásættanleg vinnubrögð að horfa bara á tölur, svo sem fjölda samninga og ráðningartíma samkvæmt ráðningarsamningi, en horfa fram hjá raunverulegum ráðningartíma. Samkvæmt röksemdafærslu Vinnumálastofnunar ætti fyrirtæki sem sé óheppið og ráði til sín fólk sem hætti að mæta eftir stuttan tíma að vera refsað fyrir slíkt með því að fá höfnun á umsókn um nýsköpunarstyrk. Augljóslega væri þar verið að refsa fyrirtækinu fyrir eitthvað sem það sannarlega hefði ekki stjórn á. Þess beri að geta að Vinnumálastofnun þrýsti á atvinnuleitendur að taka þeim störfum sem þeim sé boðið ella gæti viðkomandi misst rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Að mati fyrirtækisins ætti Vinnumálastofnun að líta í eigin barm og auka stuðning við atvinnuleitendur sem ráði sig til vinnu en þeir geti í sumum tilfellum átt við andleg veikindi að stríða. Kærandi upplifi að það sé verið að gera fyrirtækið ábyrgt fyrir atriðum sem það hafi enga stjórn á.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að B hafi í september 2021 óskað eftir nýsköpunarstyrk frá Vinnumálastofnun fyrir hönd A til að ráða atvinnuleitendur til starfa að þróun hugbúnaðarlausnar fyrirtækisins. Um sé að ræða nýsköpunarstyrk á grundvelli 10. gr. reglugerðar nr. 918/2020. Þann 21. september 2021 hafi kæranda borist erindi þess efnis að umsókn hans um nýsköpunarstyrk hefði verið samþykkt. Kærandi hafi verið upplýstur um að ljúka þyrfti ráðningu á næstu fjórum mánuðum. Tæplega ellefu mánuðum síðar hafi kærandi viljað ráða í umrætt starf. Kæranda hafi verið bent á að hann þyrfti að sækja aftur um nýsköpunarstyrk þar sem fjórir mánuðir hafi verið liðnir frá því að umsókn hans hafi verið samþykkt.

Þann 5. september 2022 hafi kærandi aftur sótt um nýsköpunarstyrk og með erindi, dags. 12. september 2022, hafi umsókn kæranda verið synjað á þeim grundvelli  að verkefnið væri ekki talið líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 918/2020. Í máli kæranda hafi legið fyrir að fyrirtækið A hefði þegar fengið samþykktar umsóknir um styrk á grundvelli reglugerðar nr. 918/2020 til að ráða atvinnuleitendur til starfa með styrk. Fyrirtækið hefði nýtt fimm nýsköpunarstyrki á grundvelli 10. gr. reglugerðarinnar, þrjá ráðningarstyrki, sbr. 9. gr. sömu reglugerðar og rúmlega 30 styrki á grundvelli bráðabirgðaákvæða með reglugerðinni. Samkvæmt upplýsingum í umsókn fyrirtækisins um nýsköpunarstyrk, dags. 5. september 2022, starfi í dag einungis þrír starfsmenn hjá fyrirtækinu, þrátt fyrir framangreint og þeir starfsmenn sem hafi verið gerðir samningar vegna hafi ekki fengið áframhaldandi ráðningu hjá fyrirtækinu eftir að gildistími ráðningastyrkja hafi verið útrunninn.

Í tölvupósti frá kæranda, dags. 13. september 2022, segi kærandi að það sé ekki rétt, þ.e. að fyrirtækið hafi nýtt fimm nýsköpunarstyrki á grundvelli 10. gr. reglugerðarinnar. Að sögn kæranda hafi fyrirtækið ekki náð að nýta nýsköpunarstyrki/ekki fengið að nýta þá þegar fyrirtækið hafi beðið um það. Kærandi hafi einungis fengið að nýta nýsköpunarstyrk í einn mánuð fyrir tiltekinn starfsmann.

Í svari stofnunarinnar til kæranda, dags. 15. september 2022, komi fram að A hafi síðustu tvö árin sótt um alls 14 stöðugildi fyrir nýsköpunarstyrki og þar af fengið 11 samþykkt. Þrjú stöðugildi hafi verið samþykkt þann 25. september 2022, þ.e. fyrir sérfræðing í þróun kennslubúnaðar, yfirmann viðskipta-og vöruþróunar, þróun á nýrri vöru í formi námsumsjónar og átta stöðugildi hafi verið samþykkt 21. september 2021. Þá segi einnig í tölvupósti til kæranda að líkt og fram hafi komið í svarbréfum til fyrirtækisins gildi samþykktar umsóknir í fjóra mánuði en jafnframt segi að stofnunin hafi í ákveðnum tilvikum verið sveigjanleg með þann tímaramma. Auk þess komi eftirfarandi fram:

„Nýtt hafa verið 5 stöðugildi af þessum 11. Sjá nöfn þeirra sem farið hafa á nýsköpunarstyrk hjá fyrirtækinu og tímabil samnings: C, D, E, F, G. Sótt hefur verið um 1 framlengingu á nýsköpunarstyrk v. D hér að ofan. Jákvætt svarbréf í tölvupósti dags. 12.08.22. þar sem stendur „Þar sem að lokadagur ráðningarsamnings er 4. Júlí þurfum við að fá nýjan ráðningarsamning svo hægt sé að ganga frá framlengingunni.“  Nýr ráðningarsamningur hefur ekki borist og því hefur nýsköpunarstyrkur ekki verið framlengdur í kerfinu.“

Jafnframt komi fram í tölvupóstinum til kæranda að fyrirtækið hefði að auki fengið ráðningarstyrki, bæði svokallaða almenna ráðningarstyrki og ,,Hefjum störf“ styrki sem fælu í sér hærri greiðslur. Þá hafi einnig verið áréttað að ekki væri hægt að færa einstaklinga á milli styrkjategunda, sér í lagi ekki þegar um væri að ræða ,,Hefjum störf“ ráðningarstyrki þar sem upphæð og skilyrði séu önnur en þegar um sé að ræða almenna ráðningarstyrki og nýsköpunarstyrki.

Í ljósi þess að Vinnumálastofnun hafi þegar gert fjölda samninga um styrk vegna starfa atvinnuleitenda hjá fyrirtækinu sem ekki hefðu leitt til áframhaldandi ráðningar hafi það verið mat stofnunarinnar að ólíklegt væri að nýr samningur myndi veita atvinnuleitendum áframhaldandi ráðningu eftir að gildistíma nýsköpunarstyrks lyki. Þar sem eitt af skilyrðum fyrir styrk samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar sé að verkefni sé líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf hafi umsókn A um nýsköpunarstyrk verið hafnað.

Í kjölfar höfnunar stofnunarinnar hafi nokkrir tölvupóstar borist frá B, fyrir hönd fyrirtækisins, þar sem meðal annars hafi verið óskað eftir því að málið yrði tekið fyrir að nýju og umsókn samþykkt. Mál fyrirtækisins hafi verið tekið fyrir að nýju þann 26. september 2022 með tilliti til síðari framkominna upplýsinga og beiðni fyrirtækisins. Það hafi verið niðurstaða stofnunarinnar að hafna beiðni fyrirtækisins um endurupptöku, enda hafi ekki verið séð að ákvörðun stofnunarinnar hefði verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Þá gildi lög nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir um vinnumiðlun og skipulag úrræða til að auka vinnufærni atvinnuleitanda. Mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna því að gera samning um nýsköpunarstyrk.

Í reglugerð nr. 918/2020 séu settar nánari reglur um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Reglugerðin sé sett samkvæmt heimild í 62. og 64. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og 5. mgr. 12. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir að fenginni umsögn stjórnar Vinnumálastofnunar.

Í 10. gr. reglugerðar nr. 918/2020 sé fjallað um vinnumarkaðsúrræðið ,,Nýsköpunarstyrkur til fyrirtækja og stofnana“. Um gerð samninga um styrk sé enn fremur fjallað í 15. gr. og 15. gr. a. reglugerðarinnar. Samkvæmt 10. gr. sé það meðal annars skilyrði fyrir greiðslu styrks til fyrirtækis að um sé að ræða nýja viðskiptahugmynd. Jafnframt sé það skilyrði að verkefnið verði talið líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og að ráðning atvinnuleitandans feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar.

Í úrræðinu felist að Vinnumálastofnun sé heimilt að gera sérstakan frumkvöðlasamning við fyrirtæki eða stofnun um ráðningu atvinnuleitanda, sem teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, til að vinna að nýrri viðskiptahugmynd fyrirtækisins eða stofnunarinnar í tengslum við nýsköpunarverkefni eða vöruþróunarverkefni, enda teljist ráðningin vinnumarkaðsúrræði samkvæmt b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skuli undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindi viðkomandi atvinnuleitandi sig til að sinna þeim verkefnum sem honum beri á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindi Vinnumálastofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt 2. mgr. til hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar. Þá skuldbindi hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Með undirritun sinni skuldbindi hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun sig jafnframt til að skila skýrslu um árangur og stöðu verkefnisins við lok gildistíma samningsins til Vinnumálastofnunar og þess aðila sem hafi vottað um nýnæmi verkefnisins við gerð samningsins, eftir því sem við eigi, sbr. 3. mgr. Við lok gildistíma samnings skuli hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun veita Vinnumálastofnun umsögn um störf viðkomandi atvinnuleitanda hjá fyrirtækinu eða stofnuninni, eftir því sem við eigi.

Þegar um sé að ræða samning samkvæmt 1. mgr. sé Vinnumálastofnun heimilt að stöðva greiðslur til hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar samkvæmt ákvæðinu ef ljóst þyki, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, að það nýsköpunar- eða vöruþróunarverkefni sem um ræði hverju sinni muni ekki skila þeim árangri sem vænst hafi verið við gerð samningsins.

Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir að þar til bær aðili, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, votti um nýnæmi þess verkefnis sem um ræði hverju sinni samkvæmt nánari reglum þar um. Við lok gildistíma samnings samkvæmt 1. mgr. skuli fyrirtækið eða stofnunin skila skýrslu um árangur og stöðu verkefnisins til Vinnumálastofnunar og þess aðila sem hafi vottað um nýnæmi verkefnisins við gerð samningsins, eftir því sem við eigi. Jafnframt sé það skilyrði að verkefnið verði talið líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, og að ráðning atvinnuleitandans feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar.

Fyrir liggi að fyrirtækið A hafi þegar fengið samþykktar umsóknir um styrk á grundvelli reglugerðar nr. 918/2020 til að ráða atvinnuleitendur til starfa með styrk. Fyrirtækið hafi nýtt fimm nýsköpunarstyrki á grundvelli 10. gr. reglugerðarinnar, þrjá ráðningarstyrki, sbr. 9. gr. og rúmlega 30 styrki á grundvelli bráðabirgðaákvæða með reglugerðinni. Samkvæmt upplýsingum á umsókn fyrirtækisins um nýsköpunarstyrk, dags. 5. september [2022], starfi í dag einungis þrír starfsmenn hjá fyrirtækinu, þrátt fyrir framangreint og þeir starfsmenn sem samningar hafi verið gerðir vegna hafi ekki fengið áframhaldandi ráðningu hjá fyrirtækinu eftir að gildistími ráðningastyrkja hafi verið útrunninn.

Í ljósi framangreindra skilyrða sé það afstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri umsókn kæranda um nýsköpunarstyrk á grundvelli 10. gr. reglugerðar nr. 918/2020 þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi haldi því fram að stofnunin líti ekki til ástæðna þess af hverju umræddir einstaklingar sem sótt hafi verið um styrki vegna hafi hætt störfum hjá fyrirtækinu og að stofnunin hafi ekki undir höndum neinar upplýsingar um það hvers vegna einstaklingarnir sem hafi verið ráðnir á ráðningarstyrk til fyrirtækisins hefðu ekki fengu áframhaldandi ráðningu, þ.e. hvort viðkomandi starfsmaður hafi hætt að mæta eða ráðið sig í starf hjá öðru fyrirtæki, þrátt fyrir að vera boðin áframhaldandi ráðning hjá A. Jafnframt komi fram í tölvupósti kæranda frá 19. september 2022:

„Í svarinu eru settar fram tölur, en það vantar 100% að greina frá því hvers vegna viðkomandi voru ekki ráðin áfram. Það er vægast sagt mjög hæpið að telja það rök fyrir því að hafna umsókn frá fyrirtæki ef að það réð áður starfsmann eða starfsmenn með Nýsköpunarstyrk, sem að hættu að mæta. Einnig ef það eiga að teljast rök fyrir því að hafna umsókn ef fyrirtæki sannarlega bauð starfsmanni eða starfsmönnum áframhaldandi vinnu, en starfsmaðurinn eða starfsmennirnir fengu önnur starfstilboð og völdu annan valkost. Í báðum tilvikum er mjög takmarkað sem fyrirtækið getur gert betur, en skv. svarinu frá ykkur þá lítið þið bara á þetta sem tölur frá blaði og horfið algjörlega framhjá málástæðum og teljið að það megi nota bæði sem rök fyrir því að hafna umsókn. Þær fullyrðingar og túlkanir sem eru settar fram í svarbréfinu eru því augljóslega efnislega rangar.“

Í ljósi þess að Vinnumálastofnun hafi þegar gert fjölda samninga um styrk vegna starfa atvinnuleitenda hjá fyrirtækinu sem ekki hafi leitt til áframhaldandi ráðningar sé það mat stofnunarinnar að ólíklegt sé að nýr samningur veiti atvinnuleitendum áframhaldandi ráðningu eftir að gildistíma nýsköpunarstyrks ljúki. Þar sem eitt af skilyrðum fyrir styrk samkvæmt 10. gr. reglugerðarinnar sé að verkefni sé líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf sé umsókn A um nýsköpunarstyrk því hafnað.

Vinnumálastofnun fallist ekki á að fyrirtæki geti endurtekið fengið nýsköpunarstyrk frá Vinnumálastofnun til að ráða starfsfólk sem síðan leiði ekki til áframhaldandi ráðningar, enda ljóst af gögnum málsins að skilyrði 10. gr. reglugerðar nr. 918/2020 séu ekki uppfyllt, þ.e. að verkefnið verði talið líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og að ráðning atvinnuleitandans feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar. Samningur um nýsköpunarstyrk í tilviki kæranda líkt og atvikum sé háttað í máli þessu væri í beinu ósamræmi við skilyrði og tilgang 10. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi byggi einnig á því að stofnunin hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Í máli þessu liggi fyrir að kærandi hafi ítrekað sótt um styrki hjá stofnuninni. Markmið nýsköpunarstyrkja á grundvelli reglugerðar nr. 918/2020 sé að verkefnið sem atvinnuleitendum sé falið hjá viðkomandi fyrirtæki verði talið líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, og að ráðning atvinnuleitandans feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar. Stofnunin hafni því alfarið að hafa neitað að tjá sig efnislega um þær athugasemdir og rök sem kærandi hafi sett fram. Stofnunin telji að kærandi hafi ekki sýnt fram á að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda hafi verið byggð á röngum og ófullnægjandi upplýsingum. Í því samhengi vísi stofnunin til gagna málsins. Sjónarmið og athugasemdir kæranda hafi legið til grundvallar þegar ákvörðun stofnunarinnar hafi verið tekin. Stofnunin telji ákvörðun sína samræmast meðalhófi, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati Vinnumálastofnunar geti meðalhófsreglan ekki vikið frá skýrum lögbundnum skilyrðum laga og reglugerða.

Með vísan til alls þess sem að framan greini telji Vinnumálastofnun að hafna beri kröfum kæranda. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið að hafna nýsköpunarstyrk til A á grundvelli 10. gr. reglugerðar nr. 918/2020.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um nýsköpunarstyrk samkvæmt reglugerð nr. 918/2020 um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði.

Kærandi hefur gert ýmsar athugasemdir við málsmeðferð Vinnumálastofnunar, farið fram á að stofnunin verði áminnt og að nefndin veiti stofnuninni ákveðnar ráðleggingar. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kemur fram að úrskurðarnefndin skuli kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Af framangreindu er ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti tiltekinnar ákvörðunar en ekki að áminna stofnanir eða veita ráðleggingar.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 62. gr. laga laganna er kveðið á um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. greiðast styrkir á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur.

Í 10. gr. reglugerðar nr. 918/2020 er kveðið á um nýsköpunarstyrki til fyrirtækja og stofnana. Samkvæmt ákvæðinu er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan frumkvöðlasamning við fyrirtæki eða stofnun um ráðningu atvinnuleitanda, sem tryggður er innan atvinnuleysistryggingakerfisins, til að vinna að nýrri viðskiptahugmynd fyrirtækisins eða stofnunarinnar í tengslum við nýsköpunarverkefni eða vöruþróunarverkefni, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eitt af þeim skilyrðum er að verkefnið verði talið líklegt til að veita atvinnuleitandanum framtíðarstarf, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, og að ráðning atvinnuleitandans feli í sér aukningu á starfsmannafjölda hlutaðeigandi fyrirtækis eða stofnunar.

Umsókn kæranda var synjað með vísan til þess að verkefnið væri ekki talið líklegt til að veita atvinnuleitanda framtíðarstarf. Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að fyrirtækið hafi þegar fengið samþykktar styrkumsóknir á grundvelli reglugerðar nr. 918/2020 til að ráða atvinnuleitendur til starfa, fimm nýsköpunarstyrki á grundvelli 10. gr. reglugerðarinnar, þrjá ráðningarstyrki á grundvelli 9. gr. og rúmlega 30 styrki á grundvelli bráðabirgðaákvæða með reglugerðinni. Þegar kærandi lagði inn nýja umsókn um nýsköpunarstyrk í september 2022 voru þrír starfsmenn starfandi hjá fyrirtækinu.

Kærandi hefur lagt áherslu á ástæðu þess að ekki hafi verið gerðir áframhaldandi ráðningarsamningar við þá atvinnuleitendur sem veittur var nýsköpunarstyrkur með.

Í svari Vinnumálastofnunar við beiðni úrskurðarnefndarinnar um frekari upplýsingar um þá styrki sem kærandi hafði fengið á grundvelli bráðabirgðaákvæða með reglugerð nr. 918/2020 kom fram að flestir samningar við fyrirtækið síðastliðin tvö ár hafi verið á grundvelli bráðabirgðaákvæðis IV. Í 1. mgr. ákvæðisins segir svo:

„Vinnumálastofnun er heimilt að gera samning við fyrirtæki um ráðningu atvinnuleitanda, sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, enda telst ráðningin vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Vinnumálastofnun, hlutaðeigandi fyrirtæki og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að gegna því starfi sem hann er ráðinn til að gegna á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindur Vinnumálastofnun sig með undirritun sinni til að greiða styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði skv. 2. mgr. til hlutaðeigandi fyrirtækis. Þá skuldbindur hlutaðeigandi fyrirtæki sig með undirritun sinni til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Markmiðið er að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að auka hæfni sína til þátttöku á vinnumarkaði.“

Ákvæðið var í gildi til 31. desember 2021 en sambærilegt ákvæði er að finna í 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020.

Líkt og að framan greinir er ráðherra fengin heimild samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 54/2006 til að setja nánari skilyrði fyrir greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga. Þar sem 10. gr. reglugerðar nr. 918/2020 felur einungis í sér heimild til greiðslu nýsköpunarstyrks til fyrirtækja en ekki skyldu telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá afstöðu Vinnumálastofnunar sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndin telur ljóst að Vinnumálastofnun hafi við mat á ákvörðun sinni litið heildstætt til allra styrkja sem fyrirtækið hafði þegið en ekki eingöngu þeirra fimm nýsköpunarstyrkja sem kærandi hafði áður fengið samþykkta. Úrskurðarnefndin telur að það mat Vinnumálastofnunar sé málefnalegt. Þá telur úrskurðarnefndin ekki ástæðu til að taka til umfjöllunar eða gera sérstaka athugasemd við málsmeðferð Vinnumálastofnunar vegna afgreiðslu á máli kæranda.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. september 2022, um að synja umsókn A, um nýsköpunarstyrk, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta