Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 126/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 17. febrúar 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 126/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 5. júlí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 30. júní 2010 hafnað umsókn hennar um atvinnuleysisbætur með vísan til c-liðar 3. gr. og 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysisbætur, nr. 54/2006, þar sem hún væri í námi og væri skráð í nám á næstu önn. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 19. júlí 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 26. maí 2010, en þá var hún skráð í 6 eininga nám. Í kæru kæranda kemur fram að hún hafi lokið lokaritgerð í meistaranámi og varið hana 11. júní 2010, en hún eigi eftir eina ritgerð sem sé 6 ECTS einingar og sé það 5% af meistaranáminu. Kærandi kveðst ekki vera skráð í nám haustið 2010 þar sem hún hyggist ljúka því sem eftir sé af náminu sumarið 2010. Kærandi kveðst vera virk í atvinnuleit og segir að ein ritgerð upp á 6 ECTS einingar hafi ekki áhrif á atvinnu eða atvinnuleit.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 10. nóvember 2010, kemur fram að með lögum nr. 134/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi réttur námsmanna til atvinnuleysistrygginga verið þrengdur að verulegu leyti. Í athugasemdum með 5. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 134/2009 segi meðal annars að það þyki ekki samrýmast markmiðum laganna að námsmenn teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í námsleyfum hlutaðeigandi skóla enda sé kerfinu ætlað að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Komi skýrt fram að námsmenn teljist ekki tryggðir í námsleyfum skóla. Sé tekið dæmi um slík námsleyfi, svo sem jólaleyfi, páskaleyfi og sumarleyfi.

Fram kemur að það sé ljóst að kærandi hafi verið skráð í meistaranám við Háskólann í B-borg á vorönn 2010. Þá liggi fyrir að kærandi hafi verið skráð í 6 einingar sem hún hygðist ljúka í ágúst 2010. Samkvæmt ákvæði 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist námsmaður ekki tryggður samkvæmt lögunum hafi hann verið skráður í skóla á einni námsönn og sé jafnframt skráður í nám á næstu námsönn á eftir. Það fag er kærandi eigi eftir að ljúka sé liður í því að ljúka meistaranámi hennar. Telji stofnunin engan vafa leika á því að kærandi teljist námsmaður í skilningi c-liðar 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt skýru orðalagi 5. mgr. 14. gr. laganna teljist kærandi því ekki tryggð á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar þann tíma sem námsleyfi hennar vari. Vinnumálastofnun hafi því borið að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. nóvember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. nóvember 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, teljist ekki tryggður á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Sú undantekning er þó sett frá þessari meginreglu í 2. mgr. 52. gr. laganna að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið teljist ekki námshæft hjá LÍN.

Samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna telst nám vera lánshæft ef það er skipulagt af skóla sem fullt nám, 60 ECTS-einingar (ECTS stendur fyrir „European Credit Transfer and Accumulation System“) á hverju skólaári eða a.m.k. 30 ECTS-einingar á hverju misseri í þeim tilvikum þegar námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Í gögnum máls þessa kemur fram hjá kæranda að hún hafði þegið námslán frá lánasjóðnum á meðan á námi hennar stóð. Því liggur fyrir staðfesting á því að nám kæranda var lánshæft nám.

Það er því ekki hægt að komast að þeirri niðurstöðu að tilvik kæranda geti fallið undir undantekningarregluna í 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi lauk háskólanámi sínu í októbermánuði 2010 og á þeim tímapunkti gat hún átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta eftir reglum atvinnuleysistryggingasjóðs að öðru leyti. Umsókn kæranda er dagsett þann 26. maí 2010 og afgreiða verður umsókn hennar miðað við aðstæður á þeim tímapunkti.

Ekki verður hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun og ítreka að með því er staðfest að á þeim tímapunkti þegar kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta átti hún ekki rétt til slíkra bóta.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 30. júní 2010 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta