Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 89/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 89/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 19. september 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann hafi verið að B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, samtals að fjárhæð 1.668.283 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. nóvember 2014, sem barst nefndinni 17. nóvember 2014. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 22. mars 2012. Með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. júlí 2014, í máli nr. 122/2013 var ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli kæranda vísað aftur til nýrrar afgreiðslu hjá stofnuninni. Í niðurstöðu kærunefndarinnar í máli nr. 122/2013 er gerð athugasemd við að Vinnumálastofnun hafi ekki veitt kæranda færi á að tjá sig um þá vinnu sem hann innti af hendi á árinu 2012. Eingöngu hafi verið vísað til ársins 2013 þegar Vinnumálastofnun leitaði fyrst eftir afstöðu kæranda. Af þeim sökum var það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa máli til meðferðar hjá Vinnumálastofnun á ný.  

Vinnumálastofnun sendi kæranda erindi, dags. 20. ágúst 2014, þar sem honum var tilkynnt að stofnunin hefði á fundi sínum þann 14. ágúst 2014 fjallað um vinnu hans sem B. Óskað var eftir skýringum frá kæranda. Þann 1. október 2014 tilkynnti kærandi með tölvupósti að hann hafi sent umboðsmanni Alþingis kvörtun vegna vinnubragða og stjórnsýsluhátta Vinnumálastofnunar. Á meðan að kvörtunin væri til úrvinnslu hjá umboðsmanni taldi hann ekki rétt að svara frekar tölvupóstum frá stofnuninni.

Með bréfi, dags. 19. október 2014, var kæranda tilkynnt viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar. Þar sem það var mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafði verið við vinnu á sama tíma og hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta var sú ákvörðun tekin að kæranda skyldi gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sökum þess að hann hafði ekki tilkynnt stofnuninni um starf sitt. Þá var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 1.668.283 kr. með 15% álagi.

Kærandi greinir frá því í kæru að Vinnumálastofnun hafi aftur tekið upp mál hans og úrskurðað á ný, án faglegra samskipta og lögbundins andmælaréttar. Kærandi gerir þær kröfur í kæru að honum verði greiddar allar þær réttmætu atvinnuleysisbætur sem hann eigi rétt á og hann hafi ekki fengið, fram til 1. apríl 2014, uppreiknað með vísitölu neysluverðs og dráttarvöxtum. Kærandi krefst þess að Vinnumálastofnun verði gert að endurgreiða að fullu, með vöxtum og verðtryggingu, þær innborganir sem gerðar hafi verið vegna undirritaðs til Lífeyrissjóðs VR, Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og RSK, og sem Vinnumálastofnun hafi fengið án nokkurra samskipta við hann bakfærðar/endurgreiddar, löngu áður en úrskurður í máli nr. 122/2013 hafi legið fyrir. Þá krefst hann greiðslu á þeim mikla kostnaði og fjárhagsskaða sem hann hafi orðið fyrir í þessu ferli, samkvæmt úrskurði dómkvadds matsaðila, og að Vinnumálastofnun og/eða viðkomandi starfsmenn fái opinbera áminningu fyrir ófaglega og lélega stjórnsýslu í þessu máli.

Kærandi greinir frá því í kæru að þann 31. ágúst 2014 hafi hann sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna stjórnsýsluframferðis Vinnumálastofnunar enda hafi hann ekkert heyrt frá Vinnumálastofnun í rúmar fimm vikur, frá áðurnefndri ógildingu. Þann 1. september 2014 kl. 8:13 hafi hann fengið framsendan tölvupóst, án efnisupplýsinga eða innihaldstexta frá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar. Þessi tölvupóstur hafði verið sendur til Greiðslustofu frá [email protected] kl. 8:00 eða 13 mínútum áður. Með þessum tölvupósti hafi verið viðhengi eða bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 20. ágúst 2014, og stílað á C, en með kennitölu hans. Í bréfinu, sem aldrei hafði borist honum sem formlegt bréf, hafi honum verið gefinn sjö daga frestur til athugasemda. Sá frestur hafi verið liðinn þegar tölvupóstur Vinnumálastofnunar barst til hans þann 1. september 2014.

Kærandi greinir frá því að hann hafi áframsent tölvupóstinn frá Vinnumálastofnun til baka með afriti til umboðsmanns Alþingis. Hann hafi ekki fengið nein viðbrögð frá Vinnumálastofnun við umræddum tölvupósti.

Þann 24. september 2014 hafi hann fengið bréf frá umboðsmanni Alþingis þar sem fram komi að gert sé ráð fyrir að kæruleiðir innan stjórnsýslunnar séu fullnýttar áður en kvörtun er tekin til meðferðar hjá umboðsmanni. Á grundvelli þessa hafi kærandi ákveðið að kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Kærandi tekur fram að kæran byggi fyrst og fremst á því að andmælaréttur hans hafi ekki verið virtur þar sem bréf Vinnumálastofnunar hafi ekki borist honum fyrr en eftir að sjö daga uppgefinn svarfrestur hafi verið liðinn. Að lokum greinir kærandi frá því að hann hafi áður, mánaðarlega og í fyrri málsmeðferð, svarað Vinnumálastofnun og gert grein fyrir því að hann hafi haft tilfallandi tekjur við starf hjá einkahlutafélagi sem tók að sér verkefni við fólksflutninga. Upplýsingum um það og launagreiðandann hafi á engan hátt verið haldið leyndum í samskiptum við Vinnumálastofnun.  

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. janúar 2015, bendir Vinnumálastofnun á að með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 122/2013 hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli kæranda verið vísað aftur til nýrrar afgreiðslu. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið byggð á því að Vinnumálastofnun hafi ekki veitt kæranda nægt færi á andmælum áður en ákvörðun hafi verið tekin í máli hans.

Í ágúst 2014 hafi Vinnumálastofnun tekið mál kæranda fyrir að nýju og hafi óskað eftir afstöðu kæranda í samræmi við úrskurð kærunefndarinnar. Hafi kærandi kosið að svara stofnuninni ekki og hafi ákvörðun stofnunarinnar því verið byggð á fyrirliggjandi upplýsingum.

Í kæru til nefndarinnar segi kærandi að andmælaréttur hans hafi ekki verið virtur. Það sé rangt sem fram komi í málatilbúnaði kæranda. Kæranda hafi verið veitt tækifæri til þess að koma að andmælum sínum áður en ákvörðun hafi verið tekin í máli hans. Kærandi hafi ákveðið að gera það ekki. Ekki verði á það fallist að val kæranda sjálfs um að láta hjá líða að svara erindum stofnunarinnar skuli leiða til ógildingar á ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun hafi þegar lýst afstöðu sinni til málsins í umsögn til úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 122/2013. Telji stofnunin ekki þörf á að bæta miklu við þá umsögn. Samkvæmt opinberum gögnum hafi kærandi verið við störf sem B á árunum 2012 og 2013 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun hafi ekki borist tilkynning áður en kærandi hóf störf. Þær athugasemdir sem birtast nú í kæru til nefndarinnar hafi að mati Vinnumálastofnunar ekki áhrif á niðurstöðu í máli kæranda. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar skuli kærandi sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins.

Þá beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, samtals að fjárhæð 1.668.283 kr. með 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. janúar 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. febrúar 2015. Athugasemdir bárust með bréfi, dags. 3. febrúar 2015, þar sem fram kemur að í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 16. janúar 2015, sé stofnunin að svara erindi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 18. nóvember 2014 þar sem óskað hafi verið svara fyrir 2. desember 2014, einum og hálfum mánuði of seint.

Það sé alrangt og erfitt að finna réttlæti fyrir því sem fram komi í 1. mgr. á blaðsíðu 2 í greinargerð Vinnumálastofnunar um að kæranda hafi verið veittur sjö daga frestur til að koma að athugasemdum með bréfi, dags. 20. ágúst 2014. Vinnumálastofnun hafi ekki sent kæranda umrætt bréf fyrr en með tölvupósti þann 1. september 2014 og þá sem skýringarlaust viðhengi. Sé hér því um að ræða hreina og klára lygi og vanvirðingu við kæranda, andmælarétti hans og vandaðri stjórnsýslu.

Kærandi hafi gert fulla og rökstudda grein fyrir því, með viðeigandi gögnum, að bréf Vinnumálastofnunar, dags. 20. ágúst 2014, hafi aldrei verið sent honum. Þann 1. september 2014, eftir að uppgefinn svarfrestur í nefndu bréfi hafi verið liðinn, hafi kærandi fengið textalausan tölvupóst frá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar þar sem bréf, dags. 20. ágúst 2014, frá Vinnumálastofnun til kæranda hafi fylgt með sem viðhengi og hafi þá birst kæranda í fyrsta sinn. Umræddum tölvupósti Greiðslustofu hafi verið svarað samdægurs til Greiðslustofu og með afriti til umboðsmanns Alþingis. Í tölvupóstinum hafi kærandi gert grein fyrir því að þar sem að hann hafi engin viðbrögð fengið frá Vinnumálastofnun í rúmlega 30 daga frá því að ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið felld úr gildi af úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar, hafi hann sent kvörtunarerindi til umboðsmanns Alþingis í lok ágúst. Í tölvupóstinum komi einnig skýrt fram að á meðan erindið væri hjá umboðsmanni Alþingis hafi kærandi ekki talið rétt að svara tölvupósti Vinnumálastofnunar frekar.

Hvernig Vinnumálastofnun geti reiknað með að kærandi svari bréfi sem hann hafi ekki fengið sé torskilið. Þess utan hafi kærandi ekki orðið var við að Vinnumálastofnun hafi virt eðlilega andmælafresti sem stofnuninni hafa verið gefnir í öllu þessu máli frá byrjun.

Eftir uppástungu um sérstakt námskeið, fjárhagslega styrkt af Vinnumálastofnun, hafi kærandi fengið tilfallandi vinnu hjá D sem hafi gert meðal annars sérstakan samning við B. Um hafi verið að ræða tímabundna og tilfallandi vinnu kæranda sem hann hafi reglulega tilkynnt til Vinnumálastofnunar og annarra viðkomandi aðila. Ekki hafi verið um verktakavinnu kæranda að ræða. Vinnumálastofnun hafi aldrei gert kröfu um skilgreiningu á því um hvaða eða hvers eðlis vinnan væri, heldur hafi samþykkt undantekningarlaust innkomnar tilkynningar um tilfallandi eftirágreiddar tekjur sem kærandi hafi haft af hinni tilfallandi vinnu.

Með rökstuðningi kæranda og viðeigandi fylgiskjölum með kærunni í máli þessu komi skýrt fram að eðlilegur andmælaréttur kæranda hafi ekki verið virtur. Hér hafi því verið endurtekning á broti Vinnumálastofnunar á kæranda. Auk fjárhagstjóns telji kærandi sig nú hafa orðið fyrir endurteknu áreiti og beinu einelti vegna óvandaðra vinnubragða og stjórnsýslu Vinnumálastofnunar.

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. júlí 2015, þar sem ákveðið var að fresta ákvörðun í málinu og afla frekari gagna. Óskað var eftir afstöðu kæranda til þeirra upplýsinga sem Vinnumálastofnun aflaði frá Vegagerðinni um leigubílaakstur hans á árinu 2012.

Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 6. júlí 2015, þar sem fram kemur að ekki sé gert ráð fyrir því í skráningu upplýsinga hjá Vinnumálastofnun að tilgreint sé fyrir hvaða starf/störf tilfallandi tekjur til skjólstæðinga þeirra hafa verið greiddar. Aldrei hafi kæranda borist ósk um það frá Vinnumálastofnun að gerð væri grein fyrir því fyrir hvaða eða hvers konar vinnu hinar tilfallandi tekjur hafi verið greiddar. Kærandi hafi ítrekað gert grein fyrir því að hafa haft tilfallandi tekjur og jafnframt tilkynnt það reglulega til Vinnumálastofnunar. Greiðandi tilfallandi teknanna til kæranda hafi verið D vegna vinnuframlags við B.

Afstaða kæranda til upplýsinga sem Vinnumálastofnun hafi aflað hjá E um B kæranda sé ljós og hafi áður verið sett fram. Framlagðar upplýsingar í málflutningi Vinnumálastofnunar séu ónákvæmar, óábyrgar og ranglega túlkaðar. En aðalatriðið sé að kærandi eigi enga persónulega aðkomu að skráningu og/eða breytingum á þeim upplýsingum sem fram komi í gagnagrunni E. Þær upplýsingar komi frá skráningu B hjá F og séu gerðar af viðkomandi leyfishafa. Kærandi eigi enga aðkomu að þessari gagnasafnsskráningu og eins og fram komi í staðfestingu frá F séu auk þess sem engar upplýsingar séu skráðar í ofangreindan gagnagrunn um það hvort umrædd B hafi verið notuð af afleysingarmanni. Þar sem Vinnumálastofnun hafi reglulega verið tilkynnt um tilfallandi tekjur kæranda eigi vangaveltur og óáreiðanlegar upplýsingar úr gagnagrunni E ekki við.  

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þá segir í 35. gr. a:

Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.

Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.

Kærandi telur að andmælaréttur hans hafi ekki verið virtur í málinu. Vinnumálastofnun tók, í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 122/2013, mál kæranda fyrir að nýju. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2014, sem kærandi fékk sent í tölvupósti 1. september 2014, óskaði Vinnumálastofnun eftir afstöðu kæranda á vinnu hans sem B á nánar tilgreindu tímabili. Í umræddum tölvupósti var fyrrnefnt bréf sent sem viðhengi, en annars enginn texti og ekkert efni. Verða þessi vinnubrögð hjá Vinnumálastofnun að teljast óvönduð. Þrátt fyrir það er ljóst að kæranda barst umrætt bréf í tölvupósti og hann hefur því haft tækifæri til þess að koma fram afstöðu sinni í málinu hvað varðar vinnu hans sem B. Í svari kæranda við áðurnefndum tölvupósti kemur fram að hann hafi sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis og á meðan sú kvörtun sé til úrvinnslu hjá umboðsmanni telji hann ekki rétt að svara frekar tölvupósti Vinnumálastofnunar. Hin kærða ákvörðun var svo tekin 19. september 2014 eða 18 dögum eftir að kærandi fékk tækifæri til þess að koma fram sjónarmiðum sínum og nýta andmælarétt sinn í málinu, sem hann kaus að gera ekki. Er það því mat úrskurðarnefndarinnar að andmælaréttur kæranda hafi verið virtur í máli þessu.

Samkvæmt gögnum málsins, sbr. meðal annars upplýsingar frá kæranda sjálfum, starfaði hann sem B á tímabilinu 2. júní 2012 til 9. júní 2013. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða telur því ljóst að kærandi hafi verið starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða töku atvinnuleysisbóta.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um þessa vinnu sína. Atvinnuleitendum sem þiggja atvinnuleysisbætur ber að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er jafnframt kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða um tekjur. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber því kæranda einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar auk 15% álags samtals að fjárhæð 1.668.283 kr.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 19. september 2014 í máli A þess efnis að synja skuli kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta og hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest. Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 1.668.283 kr.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta