Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 343/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 343/2020

Fimmtudaginn 22. október 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. júlí 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. júní 2020, um að synja umsókn hans um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 9. maí 2020, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. júní 2020, á þeirri forsendu að skilyrði um sóttkví væri ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. júlí 2020. Með bréfi, dags. 17. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 3. september 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. september 2020, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 15. september 2020. Fyrir mistök var úrskurðað í máli kæranda án tillits til þeirra athugasemda. Með erindi 15. október 2020 fór kærandi fram á að úrskurðað yrði að nýju þar sem ekki hafi verið farið yfir athugasemdir hans.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar vegna umsóknar hans um bætur í sóttkví verði hnekkt. Samkvæmt ákvörðun sóttvarnalæknis hafi kæranda verið gert að sæta sóttkví og einangrun vegna jákvæðrar skimunar á sýni sem hafi verið tekið þann 19. mars 2020. Sóttkví hafi staðið yfir á tímabilinu 20. mars til 11. apríl 2020. Þar sem kærandi sé sjálfstætt starfandi einyrki hafi hann sótt um greiðslur á þeim forsendum. Vinnumálastofnun hafi hafnað umsókninni á þeirri forsendu að hann hafi verið veikur og ætti því ekki rétt á bótum í sóttkví heldur ætti atvinnurekandi að greiða bætur í veikindum. Kærandi telji að um misskilning sé að ræða þar sem sjálfstæðir einyrkjar á eigin kennitölu eigi engan rétt hjá öðrum en sjálfum sér og geti ekki sótt sér bætur annað. Kærandi vísar til markmiða laga nr. 24/2020 og skilgreiningu hugtaka laganna. Með vísan til þess telji kærandi alveg skýrt að hann eigi rétt samkvæmt lögum nr. 24/2020, enda hafi hann ekki aðra valkosti.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar kemur fram að Covid teymi Landsspítalans hafi haft samband við kæranda eftir að sýni úr honum hafi greinst jákvætt og honum tjáð að hann ætti að sæta sóttkví og einangrun samkvæmt ákvörðun sóttvarnayfirvalda. Kærandi hafi því sætt sóttkví og einangrun til 11. apríl 2020. Það sé alveg ljóst samkvæmt sóttvarnalögum að ekki sé gerður greinarmunur á sóttkví og einangrun, þetta séu sóttvarnaráðstafanir sem séu settar til varnar útbreiðslu veirunnar og því bein fyrirmæli sem honum hafi borið að fara eftir. Það sé ekki gerður greinarmunur á því hvort viðkomandi sé sýktur eða veikur, það beri að framfylgja fyrirmælum. Samkvæmt frétt á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins varðandi lagasetningu um greiðslur í sóttkví sé ljóst að sjálfstætt starfandi eigi þennan rétt, hvort sem þeir séu í sóttkví eða einangrun. Það að þeir sem séu sýktir af veirunni eigi ekki rétt á greiðslum standist engan veginn það ákvæði sem hafi verið sett samkvæmt samkomulagi ASÍ og Samtaka atvinnurekanda um að ekki ætti að greiða þeim launamönnum bætur sem ættu rétt á veikindadögum frá sínum atvinnurekanda. Það sé alveg ljóst að sjálfstætt starfandi eigi engan slíkan rétt samkvæmt kjarasamningi og séu því tekjulausir á meðan sóttkví og einangrun vari. Það sé alveg skýrt samkvæmt reglugerð frá 26. mars 2020 hvaða fyrirmælum kæranda hafi verið gert að framfylgja og hver markmið þeirra hafi verið. Alltaf sé talað um sóttkví og einangrun saman en það séu opinberar sóttvarnaráðstafanir sem sé beitt til að draga úr útbreiðslu farsótta, hvort sem sé til eða frá Íslandi, innanlands eða til að varna útbreiðslu smita frá einstaklingum. Sóttkví sé beitt þegar einstaklingur hafi mögulega smitast af sjúkdómi en sé ekki með einkenni. Einangrun sé beitt þegar einstaklingur sé með smitandi sjúkdóm.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að með umsókn kæranda hafi fylgt yfirlýsing frá Embætti landlæknis um sóttkví til að sporna við útbreiðslu COVID-19, þ.e. vottorð frá Embætti landlæknis vottað af sóttvarnalækni. Á vottorðinu komi ekki fram á hvaða tímabili kærandi hafi verið í sóttkví. Í framhaldinu hafi verið óskað eftir frekari skýringum frá kæranda. Í svari kæranda komi fram að hann hafi verið í einangrun vegna COVID-19 sýkingar frá 19. mars til 11. apríl en ekki sóttkví, sbr. tölvupóstur frá kæranda frá 8. júní 2020. Auk þess hafi stofnunin óskað eftir skýringum frá Embætti landlæknis. Í skýringum þeirra, sbr. tölvupóstur frá 16. júní 2020, komi fram að kærandi hafi ekki verið skráður í sóttkví. Kærandi hafi því ekki sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Vinnumálastofnun greiði samkvæmt skráningu Embættis landlæknis vegna þeirra daga sem einstaklingur sæti sóttkví. Fljótlega eftir að skýringar hafi borist frá Embætti landlæknis hafi mál kæranda verið tekið fyrir. Það hafi verið niðurstaða stofnunarinnar að hafna umsókn kæranda með vísan til a. liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 24/2020, enda þurfi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur að hafa sætt sóttkví til að eiga rétt á greiðslum. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til a. liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 24/2020 sem fjalli um skilyrði fyrir greiðslum vegna launamanna. Með réttu hefði átt að vísa til sambærilegra skilyrða í a. lið 1. mgr. 7. gr. laganna sem fjalli um skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 24/2020 taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví. Mál þetta varði greiðslur í sóttkví og þá hvort skilyrði laga nr. 24/2020 séu uppfyllt í máli kæranda. Í 3. gr. laga nr. 24/2020 sé að finna skilgreiningu á hugtakinu sóttkví. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögunum komi fram að um sé að ræða aðgerð þar sem viðkomandi einstaklingur sætir ekki jafn ströngum fyrirmælum um að halda sig heima og innandyra og ef um einangrun væri að ræða, sbr. leiðbeiningar Embættis landslæknis fyrir almenning varðandi sóttkví í heimahúsi. Sóttkví sé því almennt beitt vegna þeirra sem hafi mögulega smitast af sjúkdómi en sýni ekki merki þess að vera sýktir.

Í 7. gr. laga nr. 24/2020 sé fjallað um skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í athugasemdum með 5. og 7. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 24/2020 sé áréttað að ekki sé gert ráð fyrir að um sé að ræða sóttkví í skilningi frumvarpsins ef sjálfstætt starfandi einstaklingur sætir sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þegar hann hafi smitast af COVID-19-sjúkdómnum og sé þar af leiðandi veikur í sóttkví. Lögin gildi um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem ekki sýni merki þess að vera sýktir en verði fyrir launatapi þar sem þeir sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Sóttkví sé einkum beitt í þeim tilgangi að hægja á útbreiðslu veirunnar, vernda viðkvæma hópa fyrir smiti og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið og innviði samfélagsins á meðan veiran gangi yfir, sbr. lög nr. 19/1997 um sóttvarnir. Sóttkví sé því beitt vegna þeirra sem hafa mögulega smitast af sjúkdómi en sýna ekki merki þess að vera sýktir. Sóttkví sé beitt þegar einstaklingur hafi mögulega smitast af sjúkdómi en sé einkennalaus. Einangrun sé beitt þegar einstaklingur er með smitandi sjúkdóm en staðfest sýking af COVID-19 falli þar undir, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 259/2020 um sóttkví og einangrun. Einstaklingar í einangrun vegna COVID-19 eigi því ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögunum. Samkvæmt skráningu Embættis landlæknis hafi kærandi ekki sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Samkvæmt þeim gögnum sem liggi til grundvallar umsókn kæranda hafi hann farið beint í einangrun eftir að hafa farið í sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu og greinst með jákvætt sýni.

Í ljósi fyrirliggjandi gagna sé það afstaða Vinnumálastofnunar að þar sem kærandi hafi ekki sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda séu skilyrði laga nr. 24/2020 ekki uppfyllt. Þá verði ekki fallist á að aðrar ástæður er kærandi hafi fært fram í máli sínu geti talist gildar í skilningi laga nr. 24/2020. Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna umsókn kæranda um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. 

Í 1. gr. laga nr. 24/2020 er kveðið á um gildissvið laganna. Þar segir að lögin taki til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafi launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu 1. febrúar 2020 til og með 30. apríl 2020. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fái ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna er um sóttkví að ræða þegar einstaklingi er gert að einangra sig eins og kostur er, einkum í heimahúsi, samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda þegar hann hafi mögulega smitast af sjúkdómi.

Í 7. gr. laga nr. 24/2020 er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslum til sjálfstætt starfandi einstaklinga. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða sjálfstætt starfandi einstaklingi launatap, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum. Skilyrði fyrir greiðslum eru að:

a. sjálfstætt starfandi einstaklingur, eða barn í hans forsjá undir 13 ára aldri eða barn undir 18 ára aldri sem þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hafi sætt sóttkví,

b. sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi ekki getað sinnt vinnu að öllu leyti eða hluta þaðan sem hann sætti sóttkví,

c. önnur atvik hafi ekki staðið í vegi fyrir því að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi getað unnið störf sín,

d. sjálfstætt starfandi einstaklingur sé með opinn rekstur auk þess að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda a.m.k. þrjá mánuði á undanfarandi fjórum mánuðum fyrir umsóknardag eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum ríkisskattstjóra.“

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna skal umsókn um greiðslu vera skrifleg og henni skulu fylgja  fullnægjandi gögn og upplýsingar að mati Vinnumálastofnunar svo að unnt sé að taka afstöðu til þess hvort skilyrði laganna fyrir greiðslu séu uppfyllt, þar með talið afrit af fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að viðkomandi skuli sæta sóttkví.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að til þess að öðlast rétt til greiðslna á grundvelli laga nr. 24/2020 þarf einstaklingur að hafa sætt sóttkví samkvæmt beinum fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Óumdeilt er að kærandi sætti ekki sóttkví heldur var hann í einangrun eftir að hafa greinst með Covid-19 veiruna. Að því virtu eru skilyrði laganna ekki uppfyllt. Hin kærða ákvörðun er staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. júní 2020, um að synja umsókn A, um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta