Mál nr. 46/2012.
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 14. maí 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 46/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 29. febrúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé hún í skuld vegna tekjuskerðingar á tímabilinu 1. nóvember 2009 til 30. apríl 2010. Skuldin innheimtist skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kærandi var ekki lengur skráð atvinnuleitandi. Samkvæmt innheimtubréfinu er höfuðstóll skuldarinnar 204.037 kr. ásamt 15% álagi 30.606 kr. eða samtals 234.643 kr. Eftirstöðvar skuldar kæranda við Vinnumálastofnun eru þó lægri, eða 160.381 kr. eins og síðar verður rakið. Þess er farið á leit að skuldin verði greidd innan 14 daga frá dagsetningu innheimtubréfsins. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 13. mars 2010, sem barst úrskurðarnefndinni 13. mars 2012. Vinnumálastofnun telur að kæranda beri að endurgreiða útistandandi skuld við stofnunina.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 6. ágúst 2009 og fékk greiddar bætur til 29. september 2009 í samræmi við rétt sinn en hún reiknaðist með 31% bótarétt. Kærandi var afskráð 30. september 2009 en sótti um að nýju 5. nóvember 2009 og reiknaðist þá með 51% bótarétt.
Vinnumálastofnun barst tilkynning um tilfallandi tekjur frá kæranda þar sem hún áætlaði að hún væri með 50.000 kr. í tekjur frá B. í nóvember og desember 2009. Ekki bárust stofnuninni frekari tilkynningar um tilfallandi tekjur frá kæranda.
Við samkeyrslu við gagnagrunna Ríkisskattstjóra sem gerð var í maí 2010 kom í ljós að kærandi fékk greidd laun frá B. að fjárhæð 54.406 kr. í nóvember 2009, 57.068 kr. í desember, 57.068 kr. í janúar 2010, 53.983 kr. í febrúar, 53.983 kr. í mars og 55.061 kr. í apríl. Þar sem tekjurnar voru innan frítekjumarka skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kom ekki til skerðingar á greiðslum atvinnuleysisbóta. Í kjölfar samkeyrslunnar var haft samband við atvinnurekanda kæranda í því skyni að afla upplýsinga um störf hennar fyrir fyrirtækið. Fram kom að kærandi var í 30% hlutastarfi á tímabilinu 1. nóvember 2009 til 30. apríl 2010. Var skráning kæranda því lagfærð afturvirkt og hún skráð í 30% hlutastarf á framangreindu tímabili. Vegna þessa myndaðist skuld kæranda í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Kærandi var afskráð af atvinnuleysisskrá 6. maí 2010.
Í kjölfar endurskoðunar Vinnumálastofnunar á skuldastöðu kæranda var hið 15% álag sem lagt var á skuld kæranda fellt niður í nóvember 2012. Þá var í desember 2012 niðurfelldur sá hluti skuldar kæranda sem átti rót sína að rekja til greiðsluársins 2009, eða fjárhæð 43.656 kr. Niðurfellingin var gerð í samræmi við þá heimild sem fékkst í desember 2012 frá Ríkisendurskoðun til að afskrifa allar kröfur sem stofnast höfðu á árinu 2009 vegna þeirra er fengu greiddar atvinnuleysisbætur samhliða hlutastarfi, óháð því hvort tilurð þeirra mætti rekja til sakar atvinnuleitandans. Kæranda var tilkynnt um niðurfellinguna 7. janúar 2013.
Kærandi óskar eftir því að skuld hennar við Vinnumálastofnun verði felld niður eða lækkuð töluvert. Hún bendir á að á kynningarfundi sem hún hafi sótt hjá Vinnumálastofnun hafi komið fram að gert væri ráð fyrir ákveðnu frítekjumarki, þ.e. að miðað væri við að hinn tryggði gæti haft tekjur sem því næmi án þess að komi til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Á umræddu tímabili hafi hún haft tekjur hjá B. að jafnaði á mánuði að fjárhæð 43.519 kr.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 26. mars 2013, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefjast endurkröfu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum til kæranda sem fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. nóvember 2009 til 30. apríl 2010. Kærandi hafi þegið jöfn laun frá B. á tímabilinu 1. nóvember 2009 til 30. apríl 2010. Það sé mat Vinnumálastofnunar að jafnar tekjur frá sama launagreiðanda í tvo mánuði eða fleiri geti ekki talist til tilfallandi vinnu í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og hafi umrætt starf kæranda því verið hlutastarf. Það hafi enn fremur fengist staðfest af B. að kærandi hafi verið í 30% hlutastarfi hjá fyrirtækinu.
Meginreglan um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna sé í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Mánaðarlegar tekjur kæranda hafi numið lægri fjárhæð en frítekjumarkið skv. 4. mgr. 36. gr. laganna, sbr. reglugerð nr. 1219/2008, og því hafi ekki komið til skerðingar á atvinnuleysisbótum kæranda. Þar sem skráning kæranda í hlutastarf hafi verið leiðrétt afturvirkt hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar og skv. 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal starfshlutfall atvinnuleitanda koma til frádráttar á tryggingarhlutfalli hans.
Í samræmi við 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi kæranda borið að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Fram hefur komið að í nóvember 2012 hafi verið tekin ákvörðun um að fella niður álag á skuld kæranda. Eftir þá niðurfellingu nam skuld kæranda 204.037 kr. Í desember 2012 var sá hluti skuldar kæranda við Vinnumálstofnun sem átti rót að rekja til ársins 2009, að fjárhæð 43.656 kr., felldur niður í samræmi við heimild Ríkisendurskoðunar sem fékkst til að afskrifa skuldir þeirra atvinnuleitenda sem höfðu gegnt hlutastarfi samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Heimild Ríkisendurskoðunar til niðurfellingar á skuldum atvinnuleitenda í þeim tilvikum er tilurð skuldarinnar mátti rekja til sakar atvinnuleitandans hafi aðeins náð til ársins 2009. En þar sem kæranda hafi láðst að tilkynna Vinnumálastofnun um hlutastarf sitt hjá B. fyrir tímabilið 1. nóvember 2009 til 30. apríl 2010 sé litið svo á að tilurð skuldar hennar við stofnunina megi rekja til vanrækslu hennar á skyldum sínum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Hafi af þeim sökum sá hluti skuldarinnar sem rekja megi til ársins 2010 ekki verið niðurfelldur.
Fram kemur að kæranda hafi verið tilkynnt um niðurfellingu skuldar hennar við stofnunina að fjárhæð 43.656 kr. með bréfi, dags. 7. janúar 2013. Eftirstöðvar skuldar kæranda nemi nú 160.381 kr.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. apríl 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 16. apríl 2013. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma og hún þáði greiðslur frá B. Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um frádrátt atvinnuleysisbóta vegna tekna þar sem segir:
„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 5. nóvember 2009 og reiknaðist með 51% bótarétt. Hún var í 30% hlutastarfi á tímabilinu 1. nóvember 2009 til 30. apríl 2010 og fékk greiddar mánaðarlega á bilinu 53.983 kr. til 57.068 kr. Skráning kæranda var lagfærð afturvirkt og myndaðist við það skuld hjá kæranda að fjárhæð 234.643 kr. Með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, var skorað á kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur ásamt 15% álagi sem henni bæri að endurgreiða á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfar kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða var skuldastaða kæranda endurskoðuð hjá Vinnumálastofnun og var hið 15% álag sem lagt hafði verið á skuld kæranda fellt niður í nóvember 2012. Í desember 2012 var niðurfelldur sá hluti skuldar kæranda sem átti rót sína að tekja til greiðsluársins 2009, að fjárhæð 43.656 kr. Niðurfellingin var gerð í samræmi við þá heimild sem fékkst í desember 2012 frá Ríkisendurskoðun til að afskrifa allar kröfur sem stofnast höfðu á árinu 2009 vegna þeirra sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur samhliða hlutastarfi, óháð því hvort tilurð þeirra mætti rekja til sakar atvinnuleitandans. Eftirstöðvar skuldar kæranda nema því 160.381 kr.
Kæranda láðist að tilkynna hlutastarf sitt hjá B. fyrir tímabilið 1. nóvember 2009 til 30. apríl 2010 og ber henni að endurgreiða skuld sína, með vísan til þess sem að framan er rakið, að fjárhæð 160.381 kr., skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að A beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 160.381 kr., er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir,
formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir Helgi Áss Grétarsson