Mál nr. 65/2012.
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. apríl 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 65/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. janúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að ekki liggi fyrir upplýsingar hjá Vinnumálastofnun þess efnis að kæranda hafi verið gefnar rangar upplýsingar, í desemberlok 2010, um hvernig lög og reglur um flutning réttar til greiðslu atvinnuleysistrygginga á milli Norðurlanda hljóði og verði því ekki fallist á að stofnunin hafi af þeim sökum valdið honum tjóni sem Vinnumálastofnun beri að bæta með einhverjum hætti. Vinnumálastofnun vísar til 1. mgr. 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, varðandi mál kæranda. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 4. apríl 2012. Kærandi telur sig hafa fengið ranga og ófullnægjandi ráðgjöf hjá Vinnumálastofnun á Selfossi og gerir þær kröfur að hann fái greiddar atvinnuleysisbætur afturvirkt frá þeim degi sem hann leitaði fyrst til stofnunarinnar. Hann krefst þess enn fremur að fá greiddar skaðabætur. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið að hafna kröfu kæranda um afturvirkar greiðslur atvinnuleysistrygginga og um greiðslu skaðabóta.
Kærandi flutti til Íslands eftir að hafa starfað í Noregi í 16 ár. Hann leitaði bæði til Vinnumálastofnunar á Selfossi og NAV í Noregi (Vinnumálastofnun þar í landi) og aflaði sér upplýsinga um lög og reglur varðandi flutning réttar til greiðslu atvinnuleysisbóta á milli Norðurlanda. Í kjölfarið sótti hann um útgáfu E-301 vottorðs í Noregi og fékk þær upplýsingar þar að afgreiðsla á máli hans myndi taka um 19 vikur. Kærandi leitaði til Vinnumálastofnunar á Selfossi upphaflega í desemberlok 2010 til þess að kanna rétt sinn á Íslandi. Kærandi kveður forstöðumann Vinnumálastofnunar á Suðurlandi, Auði Guðmundsdóttur, hafa tekið á móti honum. Hún hafi sagt honum að hann ætti að koma með E-301 vottorðið og muni hann þá fara beint á atvinnuleysisskrá með bótarétti. Það gæti einnig verið að hann slyppi við biðtímann í átta vikur þó hann hefði sagt upp vinnu sinni í Noregi. Kærandi kveðst hafa farið eftir þessum upplýsingum og hafi hann afsalað sér um leið rétti sínum til atvinnuleysisbóta í Noregi. Til þess að fá þær á meðan hann leitaði að vinnu á Íslandi hefði hann þurft að vera skráður atvinnulaus í fjórar vikur í Noregi áður en hann gæti sótt um E-303 skjalið sem veitti honum norskar atvinnuleysisbætur á Íslandi. Kærandi tekur fram að eftir að hann hafi talað við forstöðumann Vinnumálastofnunar á Selfossi hafi hann afsalað sér réttindum sínum í Noregi og atvinnuleysisbótum í fjóra mánuði og hefði því orðið af um það bil 1.200.000 íslenskum krónum.
Kærandi flutti til Íslands 26. janúar 2011 og kom á skrifstofu Vinnumálastofnunar í byrjun febrúar 2011 til þess að skrá sig atvinnulausan en þá hafi honum verið tjáð að hann gæti ekki skráð sig á atvinnuleysisskrá fyrr en E-301 skjalið kæmi frá Noregi. Kærandi gerir grein fyrir því að hann hafi misst af ýmiss konar réttindum sem eru tryggð þeim sem eru skráðir á atvinnuleysisskrá. Til dæmis hafi honum boðist vinna sem tengist sérþekkingu hans en hann hafi ekki fengið vinnuna vegna þess að um hafi verið að ræða átaksverkefni og hann var ekki á atvinnuleysisskrá. Kærandi kveðst hafa óskað eftir afturvirkri staðfestingu á atvinnuleysi sínu, en hann hafi þurft á slíkri staðfestingu að halda til að stöðva greiðslur af námsláni sem hann væri með í Noregi. Loks hafi hann séð áhugavert námskeið um markaðsfræði þar sem Vinnumálastofnun gæfi atvinnulausum námsstyrk til þess að taka námskeiðið. Hann hafi ekki átt rétt á þessum námsstyrk þar sem hann var ekki á atvinnuleysisskrá.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 10. ágúst 2011. Hafði hann þá starfað í meira en einn mánuð á íslenskum vinnumarkaði og honum hafði þá borist E-301 vottorð frá Noregi. Umsókn hans var samþykkt.
Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur afturvirkt og skaðabætur í fyrsta lagi vegna þekkingarleysis starfsmanna Vinnumálastofnunar á réttindum þeirra sem flytja heim eftir margra ára dvöl erlendis. Í öðru lagi vegna þess að vegna rangrar ráðgjafar hafi hann misst réttindi sín í sambandi við atvinnuleysisbætur í Noregi og í þriðja lagi vegna þeirra örðugleika og minnkaðra lífsgæða vegna afborgana af lánum sem hann hefði ekki þurft að greiða af á meðan hann hefði verið atvinnulaus. Kærandi tekur sem dæmi að með því að fylgja ráðgjöfinni sem hann hafi fengið hjá Vinnumálastofnun á Selfossi hafi hann afsalað sér réttindum í Noregi og atvinnuleysisbótum upp á um það bil 1.200.000 íslenskar krónur.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 11. júní 2012, kemur fram að málið varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna beiðni kæranda um afturvirkar greiðslur atvinnuleysistryggingar og þá ákvörðun stofnunarinnar að hafna erindi kæranda um greiðslu skaðabóta.
Hvað varði kröfu kæranda um greiðslu skaðabóta fyrir það tjón sem kærandi hafi orðið fyrir vegna meintrar rangrar upplýsingagjafar af hálfu starfsfólks Vinnumálastofnunar, er bent á að það liggi ekki fyrir upplýsingar hjá stofnuninni um að rangar upplýsingar hafi verið gefnar kæranda. Enn fremur skuli á það bent að lög um atvinnuleysistryggingar kveði ekki á um það að ákvörðun skaðabóta falli undir valdsvið stofnunarinnar. Verði því ekki fjallað frekar um þann þátt kærunnar í greinargerðinni.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna greiðslu afturvirkra atvinnuleysisbóta sé byggð á 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem í gildi hafi verið þegar kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga. Af lagaákvæðinu leiði að með umsókn um greiðslur atvinnuleysistryggingar þurfi að fylgja E-301 vottorð ætli umsækjandi að nýta sér áunninn rétt í Noregi á Íslandi. Enn fremur þurfi umsækjandi að meginreglu að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. mánuð.
Þegar kærandi hafi leitað til Vinnumálastofnunar í janúar 2011 hafi hann ekki haft undir höndum tilskilið E-301 vottorð né hafði hann starfað á innlendum vinnumarkaði í einn mánuð í samræmi við 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi það ekki verið fyrr en í ágúst 2011 sem stofnuninni hafi fyrst verið heimilt að samþykkja greiðslur atvinnuleysisbóta.
Vinnumálastofnun geti ekki fallist á með kæranda að honum skuli greiddar afturvirkar atvinnuleysisbætur þar sem ekki liggi fyrir upplýsingar hjá stofnuninni um að honum hafi verið gefnar rangar upplýsingar á sínum tíma um flutning réttar til atvinnuleysisbóta á milli Norðurlanda af hálfu Vinnumálastofnunar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 27. júní 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Kærandi telur að á sér hafi verið brotið af starfsmönnum Vinnumálastofnunar á Selfossi og hafi honum meðal annars verið synjað um að skrá sig á atvinnuleysisskrá í janúar 2011. Kærandi krefst afturvirkra atvinnuleysisbóta og skaðabóta.
Í 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um ávinnslutímabil í öðru aðildarríki. Greinin er svohljóðandi:
„Þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur hefur starfað á innlendum vinnumarkaði [a.m.k. síðasta mánuðinn]1) á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að taka tillit til starfstímabila hans sem launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. a- og b-lið 3. gr., í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum á ávinnslutímabilinu við mat á atvinnuleysistryggingu hans enda hafi störf hans í því ríki veitt honum rétt samkvæmt lögum þess um atvinnuleysistryggingar.
Umsækjandi skal láta tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil í öðru aðildarríki fylgja með umsókn um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr.
Þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur, sem flytur til Íslands frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi eða Svíþjóð, hefur starfað hér á landi á síðastliðnum fimm árum frá móttökudegi umsóknar í þeim mæli að hann hefði talist tryggður samkvæmt lögum þessum þarf ekki að uppfylla það skilyrði 1. mgr. að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði [a.m.k. síðasta mánuðinn]2) á ávinnslutímabili svo að heimilt sé að taka tillit til starfstímabila hans í þessum ríkjum. Hið sama á við um þá sem flytja til Íslands frá framangreindum ríkjum og hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur hér á landi á næstliðnum fimm árum frá móttökudegi umsóknar hjá Vinnumálastofnun.“
Samkvæmt 1. mgr. framangreindrar lagagreinar þarf umsækjandi um atvinnuleysisbætur að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn. Til þess að sækja um atvinnuleysisbætur á grundvelli lagagreinarinnar þarf að leggja fram E-301 vottorð ef umsækjandi vill nýta sér áunnin réttindi erlendis. Kærandi í máli þessu aflaði sér upplýsinga um réttindi sín í tengslum við flutninga frá Noregi til Íslands. Hann sótti um E-301 vottorð í Noregi og fékk þar þær upplýsingar að afgreiðsla á máli hans myndi taka um 19 vikur. Við komu sína til Vinnumálastofnunar í janúar 2011 hafði kærandi ekki undir höndum umrætt
E-301 vottorð og hann hafði heldur ekki starfað á innlendum vinnumarkað í einn mánuð skv. 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Vinnumálastofnun stóð því frammi fyrir því að synja kæranda um að skrá sig á atvinnuleysisskrá við komu hans til Íslands. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerð telur, með vísan til framangreinds og gagna málsins, að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun um synjun á greiðslu afturvirkra atvinnuleysisbóta og greiðslu skaðabóta.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. janúar 2012 í máli A er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir,
formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir Helgi Áss Grétarsson