Mál nr. 61/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 61/2024
Mánudaginn 29. apríl 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 5. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. desember 2023, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 20. nóvember 2023. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. desember 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hjá fyrrum vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun eftir að kærandi sendi skýringar 29. desember 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 8. janúar 2024, var fyrri ákvörðun staðfest með þeim rökum að sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dagsettu þann sama dag, var kæranda veittur rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 6. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 14. mars 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 1. apríl 2024 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. apríl 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar um biðtíma til atvinnuleysisbóta verði felld úr gildi og að skýringar hennar á starfslokum verði teknar gildar. Hún hafi krafist rökstuðnings frá Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 29. desember 2023, en henni hafi ekki verið veittur annar rökstuðningur en sá að fyrri ákvörðun stofnunarinnar væri staðfest. Kærandi hafi útskýrt fyrir Vinnumálastofnun að hún hefði ekki getað bætt úr meintum ávirðingum. Hún hefði engan veginn getað borið ábyrgð á því sem hafi átt sér stað þegar hún hafi ekki verið á vinnustaðnum. Vinnumálastofnun hafi ekki kannað það og geti því ekki tekið þessa ákvörðun.
Í athugasemdum kæranda, dags. 1. apríl 2024, er vísað til þess að engar haldbærar skýringar séu á þeirri afstöðu Vinnumálastofnunar að ekki sé þörf á frekari rannsókn í máli hennar og að uppsagnarbréf B nægi. Fyrst svo sé ítreki kærandi það sem hún hafi áður sagt og vilji bæta við upplýsingum um hvernig hafi verið staðið að málum hjá B.
Kærandi hafi ekki getað bætt úr „brotum í starfi“ sem hún hafi ekki borið ábyrgð á. Hjá B, starfi yfir 100 manns í aðhlynningu. Það sé með ólíkindum að fjórir til fimm starfsmenn sem hún hafi lítið sem ekkert unnið með geti kvartað yfir henni fyrir tilhæfulaus brot í starfi. Ekkert mark hafi verið tekið á útskýringum hennar, enda hafi ásakanirnar komið frá þeim sem séu „stærra númer“ hjá deildarstjóranum en hún. Ekkert hafi verið rætt við þá starfsmenn sem hún hafi alla jafna unnið með þessa 15 mánuði. Þeir hefðu borið henni aðra sögu. „Samskiptaörðugleikarnir“ hafi verið þeir að hún hafi svarað fyrir sig þegar þessir starfsmenn hafi verið með tilhæfulausar ásakanir. Það hafi ekki fallið í góðan jarðveg.
Kærandi hafi alltaf mætt á réttum tíma, hafi tekið mjög fáa veikindadaga (einungis tvívegis vegna flensu) og hafi eingöngu einu sinni beðið um leyfi til að fara til tannlæknis á vinnutíma. Hún hafi því talið sig fyrirmyndar starfsmann. Eftir á að hyggja telji kærandi að uppsögnin hafi verið ólögmæt en hún hafi mátt sín lítils gagnvart þessum yfirmönnum og henni hafi ekki liðið vel.
Kærandi hafi verið boðuð á fund 5. júní 2023 og henni boðið að hafa trúnaðarmann með sér. Hún hafi haft samband við Eflingu og þeir hafi sent trúnaðarmann á fundinn. Sá trúnaðarmaður hafi verið af erlendu bergi brotinn og hafi ekki alveg skilið það sem fram hafi farið á fundinum. Á fundinum hafi verið tveir deildarstjórar, mannauðsstjóri, trúnaðarmaður hjá B, og trúnaðarmaður hjá Eflingu. Þegar kærandi hafi mætt á fundinn hafi trúnaðarmaður B sagt að trúnaðarmaðurinn frá Eflingu gæti alveg sleppt því að sitja fundinn þar sem trúnaðarmaður frá B væri mætt. Kæranda hafi fundist það furðuleg uppástunga og hafi fundist eðlilegt að trúnaðarmaður frá Eflingu sæti fundinn sem hlutlaus aðili. „Atvikin“ sem hafi verið talin upp hafi verið með ólíkindum og beinlínis röng.
Nauðsynlegar aðgerðir af hálfu kæranda hafi átt að felast í því að koma fram við íbúa og samstarfsfólk af virðingu í tali og verki. Einnig að sinna skyldum sínum á vaktinni þannig að frammistaða væri í samræmi við verklag. Kærandi hafi farið eftir þessu í einu og öllu en hafi samt sem áður fengið uppsagnarbréf 31. ágúst 2023. Ástæða uppsagnarinnar hafi verið „áframhaldandi samskiptaerfiðleikar“ án þess þó að þess hafi verið getið hvaða erfiðleikar það væru. Engin atvik hafi verið tilgreind í þessari ákvörðun. Vinnumálastofnun hafi því engar sannanir fyrir því að hún beri ábyrgð á uppsögninni.
Kærandi sé ósátt við að sæta biðtíma og óski eftir að þeirri ákvörðun verði hnekkt.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 20. nóvember 2023. Þann 7. desember 2023 hafi Vinnumálastofnun óskað eftir staðfestingu á starfstímabili, auk frekari skýringa á starfslokum hennar frá fyrrum vinnuveitanda en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kæranda verið sagt upp starfi. Hún hafi verið upplýst um að ef hún hefði leitað til stéttarfélags, yfirmanns eða vinnueftirlitsins með umkvörtunarefni fyrir starfslok væri óskað eftir staðfestingu þess efnis. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að ef ástæða starfsloka væri eigin uppsögn eða annað sem rekja mætti til eigin sakar gæti hún þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga, sbr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Þann 8. desember hafi borist staðfesting á starfstímabili, auk skýringa á ástæðum þess að henni hafi verið sagt upp störfum. Kærandi hafi greint frá því að hafa verið sagt upp vegna kvartana samstarfsmanna. Meðal gagna í máli þessu sé uppsagnarbréf frá B þar sem fram komi að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu við aðhlynningu en verið sagt upp störfum vegna erfiðleika í samskiptum við samstarfsfólk og íbúa.
Með erindi, dags. 19. desember 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 80%. Með vísan til starfsloka hennar hjá B væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Þann 29. desember 2023 hafi kærandi óskað eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar um biðtíma og að endurumfjöllun færi fram á máli hennar. Þann 8. janúar 2024 hafi Vinnumálastofnun sent kæranda frekari rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar, auk niðurstöðu endurumfjöllunar í máli hennar. Fyrri ákvörðun hafi verið staðfest þar sem það hafi verið mat stofnunarinnar að hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist.
Framangreind ákvörðun Vinnumálastofnunar um biðtíma hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 5. febrúar 2024. Í kæru veiti kærandi efnislega sömu skýringar og hún hafi veitt Vinnumálastofnun á ástæðum uppsagnar.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.
Í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi orðrétt:
„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“
Fyrir liggi að kæranda hafi verið sagt upp störfum hjá B og að ástæða uppsagnar hennar hafi verið áframhaldandi erfiðleikar í samskiptum við samstarfsfólk og íbúa. Fram komi í uppsagnarbréfi að uppsögn komi í kjölfar áminningar, bæði hafi farið fram formleg og óformleg samtöl og að um munnlegar og skriflegar áminningar hafi verið að ræða. Við mat á þeim aðstæðum þar sem atvinnuleitandi missi starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur beri sök á hafi Vinnumálastofnun meðal annars horft til þess hvort viðkomandi hafi gert sér grein fyrir því að hegðun hans gæti leitt til uppsagnar. Að mati Vinnumálastofnunar hefði kæranda mátt vera ljóst í kjölfar áminningar að óbreytt hegðun kynni að leiða til uppsagnar hennar. Kærandi hafi þannig sjálf átt sök á uppsögn sinni hjá fyrirtækinu, svo jafna megi við það að hún hafi sjálf sagt starfi sínu þar lausu.
Því komi til álita hvort skýringar kæranda vegna starfsloka séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Orðalagið „gildar ástæður“ í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik hafi verið talin falla þar undir. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi til að mynda í fyrri úrskurðum sínum talið að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið sé hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að með ákvæðinu sé verið að undirstrika það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess að um matskennda ákvörðun sé að ræða sé Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls, sem fyrir henni liggi, falli að umræddri reglu. Vinnumálastofnun beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Þær skýringar sem kærandi hafi veitt stofnuninni sem varði ástæður uppsagnar lúti að því að hún hafi orðið fyrir einelti og að hún væri gerð ábyrg fyrir málum sem henni væri ómögulegt að bæta úr eða hafa áhrif á. Kærandi segi að rannsókn Vinnumálastofnunar á ástæðum uppsagnar sé áfátt en afstaða stofnunarinnar til þess sé skýlaust sú að frekari rannsóknar í máli hennar sé ekki þörf þar sem engu sé við að bæta þau gögn sem liggi fyrir. Uppsagnarbréf B sé afdráttarlaust um ástæðu uppsagnar kæranda.
Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:
„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“
Óumdeilt er að kæranda var sagt upp störfum hjá B en ágreiningur málsins lýtur að því hvort hún hafi sjálf átt sök á uppsögninni. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða.
Fyrir liggur að kærandi starfaði hjá B við aðhlynningu. Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar um ástæðu uppsagnarinnar greinir kærandi frá fimm kvörtunum á hendur henni frá fimm mismunandi aðilum. Þá tekur hún fram að hún hafi átt góð samskipti við annað starfsfólk, utan þá starfsmenn sem hafi kvartað undan henni. Kærandi telji að það sé ekki hægt að finna neitt að vinnu hennar og að henni hafi verið sagt upp störfum vegna ástæðna sem hún hafi ekki átt sök á. Þá greinir hún frá því að hún hafi bæði fengið munnlegar og skriflegar áminningar. Í staðfestingu B á uppsögn kæranda kemur fram að ástæða uppsagnar kæranda séu áframhaldandi erfiðleikar í samskiptum við samstarfsfólk og íbúa. Þá kemur fram að kærandi hafi farið í áminningarferli á B sem feli í sér óformleg samtöl, munnlega og skriflega áminningu. Nauðsynlegar úrbætur hafi ekki átt sér stað.
Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir til þess að fimm kvartanir frá fimm mismunandi aðilum voru lagðar fram vegna kæranda meðan hún starfaði við aðhlynningu hjá B. Fyrir liggur að hún var áminnt munnlega og skriflega í starfi án þess að úrbætur hafi átt sér stað. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi misst starf sitt af ástæðu sem hún átti sjálf sök á. Að því virtu átti kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. desember 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir