Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Úrskurður - Mál nr. 85/2021

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 85/2021

Fimmtudaginn 8. apríl 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2020, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur væri synjað með vísan til þess að hann hefði ekki heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana, sbr. d-lið 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þá var kæranda tilkynnt að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 18. maí til 31. ágúst 2020, samtals að fjárhæð 989.590 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. febrúar 2021. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. febrúar 2021, var óskað eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun um með hvaða hætti og hvenær kæranda hafi verið birt hin kærða ákvörðun. Þá var óskað eftir afriti af öllum gögnum málsins. Svar barst frá Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 5. mars 2021, og var það sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að honum hafi  verið gert að greiða til baka atvinnuleysisbætur þar sem hann hafi ekki haft heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana. Ef kærandi hefði verið upplýstur um að hann ætti ekki bótarétt hefði hann leitað til félagsþjónustunnar. Kærandi telji að hann eigi ekki að gjalda fyrir mistök Vinnumálastofnunar. Sem stjórnvaldi beri stofnuninni að upplýsa kæranda um hans lagalegu réttindi. Það geti hreinlega ekki verið á ábyrgð kæranda, enda hvernig hafi hann átt að vita betur en stofnunin um að ekki væri bótaréttur fyrir hendi þegar honum hafi verið sagt upp starfi og í kjölfarið greiddar út bætur. Kærandi hefði átt rétt hjá félagsþjónustunni svo að réttast hefði verið fyrir starfsmann Vinnumálastofnunar að vísa honum þangað. Í stað þess hafi kærandi verið gerður ábyrgur fyrir því að greiða til baka 989.590 kr. sem hann hafi engin tök á, enda enn atvinnulaus. Kærandi muni ekki geta endurgreitt fjárhæðina, enda með fjölskyldu til að hugsa um. Kærandi óski því eftir að meint skuld verði felld niður eða til vara að félagsþjónustunni verði gert að greiða skuldina sem annars hefði greitt honum framfærslu þennan tíma. Vissulega sé þriggja mánaða kærufrestur útrunninn en kærandi hafi ekki fengið tilkynninguna í hendur fyrr en í lok janúar 2021 og því verið grandlaus um meinta kröfu á hendur sér.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 31. ágúst 2020 um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. ágúst 2020, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 12. febrúar 2021. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi ekki fengið tilkynningu um ákvörðunina fyrr en í lok janúar 2021. Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið birt kæranda með tölvupósti á uppgefið netfang hans 31. ágúst 2020 og á „Mínum síðum“. Á þeim tíma hafi kærandi verið skráður atvinnulaus.

Af gögnum málsins er ljóst að kæranda var birt hin kærða ákvörðun með fullnægjandi hætti þann 31. ágúst 2020. Þá er ljóst að kæranda var leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta