Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 465/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 465/2021

Fimmtudaginn 16. desember 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. ágúst 2021, um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 2. apríl 2020 og var umsóknin samþykkt 2. júlí 2020. Þann 21. júlí 2021 bárust Vinnumálastofnun upplýsingar um að kærandi hefði hafnað starfi hjá B sem smiður vegna bakveikinda. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. ágúst 2021, var óskað eftir að kærandi legði fram vottorð um vinnufærni. Læknisvottorð barst 13. ágúst 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi lagði fram nýtt læknisvottorð 31. ágúst 2021 og var mál hans því tekið til endurumfjöllunar. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. september 2021, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun stofnunarinnar skyldi standa.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. september 2021. Með bréfi, dags. 9. september 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 23. september 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. september 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann skilji ekki ákvörðun Vinnumálastofnunar en samkvæmt læknisvottorði sem hann hafi lagt fram hafi hann verið veikur áður. Þá hafi kærandi sent Vinnumálstofnun bréf frá lækninum sínum vegna vinnu sem honum hafi verið boðin, en hafi ekki hentað baki hans. Kærandi óski því eftir endurskoðun ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 10. maí 2021 hafi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B sem smiður vegna bakveikinda. Í skýringum atvinnurekanda komi fram að kærandi telji launakröfur óraunhæfar og að hann sé slæmur í baki og geti ekki lyft þungu. Kærandi hafði ekki lagt fram vottorð vegna skertrar vinnufærni þegar honum hafi verið boðið starf hjá B. Þann 13. ágúst 2021 hafi borist læknisvottorð, dags. 21. júlí 2021, frá kæranda þar sem fram komi að hann sé með „Asthmatic bronchitis nos, J45.9 Lumbago acuta, M54.5“. Auk þess komi fram í skilaboðum frá kæranda: „Lumbago acuta“ eru greiningar er buinn að vera illt í bakid nokrar árs eftir slys og nú er ég með meir verk að ég þarf sjúkraþálfun er með votord fyrir það lika“. Þann 26. ágúst 2021 hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar frá og með 26. ágúst 2021 í tvo mánuði sem annars hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Þann 31. ágúst 2021 hafi borist annað læknisvottorð frá kæranda, dags. 31. ágúst 2021. Í vottorðinu segi: „Það vottast hér með að viðkomandi var á stofu þann 21. júlí með bakverki var sendur í sneiðmynd sem sýndi smá slit í baki. Þannig var þetta greint meira sem tognun í baki. Hann átti erfitt með að setjast og standa upp. Hann var óvinnufær á þessum tímapunkti og einhverja daga.“ Mál kæranda hafi verið tekið til endurumfjöllunar þann 7. september 2021. Það hafi verið mat stofnunarinnar að seinna vottorð breytti ekki fyrri ákvörðun stofnunarinnar frá 26. ágúst 2021 og með bréfi, dags. 7. september 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að ákvörðun Vinnumálastofnunar skyldi standa.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og hafi misst fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé lögð rík áhersla á upplýsingaskyldu atvinnuleitenda gagnvart stofnuninni. Í 3. mgr. 9. gr. sé mælt fyrir um upplýsingaskylduna og í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu atvinnuleitenda. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Upplýsingaskylda atvinnuleitenda sé ítrekuð á öllum stigum umsókna þeirra um atvinnuleysisbætur. Þegar rafrænni umsókn um greiðslu atvinnuleysisbóta sé skilað séu umsækjendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar með talið upplýsingar um persónulega hagi og vinnufærni. Þá þurfi umsækjendur að staðfesta í lok umsóknarferlisins að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi og skyldur umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Kæranda beri að tilkynna til stofnunarinnar um allar breytingar sem verði á högum hans, þar með talið veikindi. Upplýsingar um tilkynningarskyldu atvinnuleitenda sé einnig að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað starfi hjá B sem smiður. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda sé hann með skerta starfsgetu og því ófær um að vinna umrætt starf. Kærandi kveðist ekki getað unnið umrætt starf vegna bakveikinda. Af upplýsingum kæranda megi ráða að um sé að ræða viðvarandi skerta vinnufærni sem kæranda hafi borið að upplýsa stofnunina um þá þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni og óskað eftir að stofnunin miðlaði honum í störf í samræmi við umsókn sína eða eftir atvikum hafi kæranda borið að tilkynna stofnuninni þegar breytingar hafi orðið á vinnufærni hans. Þvert á skýringar kæranda hafi hann tilgreint í umsókn sinni að hann væri fær til flestra almennra starfa og tilgreint óskastörfin „Trésmiður, almennur starfsmaður á stofnun eða læknastofu og starfsmaður við gæslu skólabarna“.

Rík skylda hvíli á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi brugðist þeirri skyldu sinni með því að hafa ekki, á því tímabili þegar hann hafi verið skráður í atvinnuleit hjá stofnuninni, veitt nauðsynlegar upplýsingar um hagi sína og vinnufærni. Það hafi leitt til þess að hann hafi hafnað starfi sem stofnunin hafi mátt telja, með hliðsjón af upplýsingum kæranda, hann hæfan til að gegna.

Það sé afstaða Vinnumálastofnunar, í ljósi skýrra ummæla kæranda, að hann sé ekki fær til flestra almennra starfa og hafi látið hjá líða að veita stofnuninni réttar og nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína sem nauðsynlegar hafi verið stofnuninni. Með vísan til framangreinds sé það mat stofnunarinnar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laganna, enda hafi hann látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar vegna umsóknar sinnar, sbr. ákvæði 14. gr. laganna.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í umsókn um atvinnuleysisbætur skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. skal hinn tryggði upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Þá segir í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., án ástæðulausrar tafar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun tilgreindi kærandi í umsókn um atvinnuleysisbætur að hann væri almennt vinnufær. Eftir að kærandi hafnaði starfi sem smiður lagði hann fram læknisvottorð um skerta vinnufærni. Af vottorðinu sem Vinnumálastofnun barst 31. ágúst 2021, dagsettu þann sama dag, má ráða að kærandi hafi verið með skerta vinnufærni í nokkra daga frá 21. júlí 2021.

Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að þegar umsækjendur um atvinnuleysisbætur sæki um greiðslur bóta með rafrænni umsókn sé þeim kynnt margvísleg atriði er varða réttindi og skyldur, þar með talið upplýsingar um persónulega hagi og vinnufærni. Umsækjendur þurfi í lok umsóknarferlis að staðfesta að þeir hafi kynnt sér reglur um réttindi sín og skyldur.

Í tölvupósti Vinnumálastofnunar 19. apríl 2020 var kæranda bent á að upplýsa þyrfti um allar breytingar sem yrðu á högum hans, þar með talið veikindi. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin að kærandi hefði mátt vita, eða að minnsta kosti haft tilefni til þess að afla sér frekari upplýsinga um skyldur sínar, að honum bæri að tilkynna Vinnumálastofnun sérstaklega um skerta vinnufærni sína.

Í ljósi framangreindrar upplýsingaskyldu verður fallist á með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum gagnvart stofnuninni er hann greindi ekki frá skertri vinnufærni sinni. Að því virtu bar Vinnumálastofnun að láta kæranda sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. ágúst 2021, um að fella niður bótarétt A, í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta