Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 78/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 9. apríl 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 78/2013.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. apríl 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi 16. apríl 2012 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. Fyrir lá afstaða kæranda á því hvers vegna hún hætti námi. Með vísan til þess að kærandi hætti námi var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknarinnar 22. febrúar 2012, með vísan til 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með ódagsettu erindi, mótt. 10. maí 2012. Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 22. febrúar 2012. Með bréfum, dags. 21. mars 2012, óskaði Vinnumálastofnun annars vegar eftir skólavottorði þar sem ekki var ljóst hvort kærandi var enn í námi og hins vegar eftir skriflegri afstöðu hennar á ástæðum uppsagnar hjá B.

 

Með tölvupósti, dags. 26. mars 2012, bárust Vinnumálastofnun skriflegar skýringar á því hvers vegna kærandi hafði hætt námi sínu við skólann. Segir í tölvupósti kæranda: „Ég var aðgerðalaus og skráði mig í 3 áfanga haustið 2011, ég er ekki í skóla núna.“ Þann 27. mars 2012 barst skólavottorð frá C. Þar kemur fram að kærandi hafi síðast verið skráð í nám við skólann haustið 2011.

 

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 16. apríl 2012. Það var mat stofnunarinnar að skýringar kæranda á ástæðum námsloka teldust ekki gildar í skilningi 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og með bréfi, dags. 18. apríl 2012, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að samþykkja umsókn hennar um atvinnuleysisbætur en með vísan til þess að kærandi hafði hætt námi sínu var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir. Ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar var tekin á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Með tölvupósti, dags. 17. apríl 2012, óskaði kærandi eftir leiðréttingu á ákvörðun stofnunarinnar frá 16. apríl 2012. Segir í tölvupósti kæranda: „Þar sem ég gat ekki unnið skráði ég mig í fjarnám haustið 2011 sem hófst í september og lauk því í desember sama ár. Fannst ég ekki geta sinnt því sem skildi (sic) sökum þess að ég er ein með barnið.“

 

Á fundi Vinnumálastofnunar 30. apríl 2012 var mál kæranda tekið fyrir að nýju og fyrri ákvörðun staðfest og var kærandi upplýst um niðurstöðuna með bréfi stofnunarinnar, dags. 2. maí 2012.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, mótt. 10. maí 2012, kemur fram að hún sótti um atvinnuleysisbætur 22. febrúar 2012, sat svo skyldufundinn og staðfesti atvinnuleit.

 

Þegar líða tók að páskum fékk kærandi tölvupóst frá Vinnumálastofnun um að frestur yrði á greiðslu vegna þess að hún ætti eftir að skila inn pósti varðandi það af hverju hún hætti í vinnunni og staðfestingu frá skólanum um að hún stundaði ekki lengur nám. Kærandi gerði það sem hún var beðin um og sendi Vinnumálastofnun tölvupóst 26. mars fyrir hádegi. Kærandi hringdi 2. apríl og var þá tilkynnt að hún hefði ekki sent neitt skriflegt bréf og að Vinnumálastofnun hefði ekkert í höndunum frá henni. Kærandi kannaði málið betur þar sem þetta stæðist ekki og hringdi aftur í Vinnumálastofnun til þess að láta vita nákvæmlega hvenær hún hafi sent tölvupóstinn. Þá hafi hún verið beðin um að senda póstinn aftur sem hún gerði. Þegar Vinnumálastofnun hafi fundið eða fengið loks póstinn þá fékk kærandi þau skilaboð að máli hennar yrði ekki sinnt með neinum forgangi þrátt fyrir mistök stofnunarinnar.

 

Kærandi hringdi aftur eftir páska til að athuga með stöðu mála og þá kom í ljós að Vinnumálastofnun hafi gefið sér það að kærandi hefði hætt í vinnu sinni til að stunda nám og þar af leiðandi muni rétti hennar til atvinnuleysisbóta vera seinkað um tvo mánuði. Þetta sé sú útskýring sem kærandi hafi fengið í síma, en því miður eigi hún sér engan stað í raunveruleikanum og furðulegt að Vinnumálastofnun geti gefið sér og búið til ímynduð tilefni, ástæður og aðstæður í lífi annars fólks.

 

Sannleikurinn sé sá að kærandi eignaðist barn 2. desember 2010 og var í fæðingarorlofi þar til í byrjun júní 2011. Þegar því lauk reyndi kærandi af mætti að fá inni á ungbarnaleikskóla eða dagvistun fyrir barnið. Alls staðar hafi verið fullt og hafi kærandi þess vegna þurft að segja upp starfi sínu. Haustið 2011 hafi kærandi verið orðin aðgerðalaus, ein með barnið heima og ákveðið að taka þá eina önn í fjarnámi hjá Fjölbrautaskólanum við Ármúla til að hafa eitthvað fyrir stafni, auk þess eigi hún eftir að ljúka stúdentsprófi. Þetta þótti kæranda tilvalið og fékk hún fjárhagslega aðstoð til að láta af þessu verða. Þetta hafi verið þrír áfangar og kærandi lokið þeim í desember sama ár. Kærandi tók ákvörðun um að halda ekki áfram þar sem hún taldi þetta vera of mikið fyrir hana eina heima með barnið og fjármagn af skornum skammti. Kærandi sé búin að vera tekjulaus síðan í júní 2011 en hún hafi haft góða að sem hafi hjálpað henni mikið. Hennar síðasti valkostur var að sækja um atvinnuleysisbætur en ákvað að gera það 22. febrúar 2012 þar sem hún hafði fengið vistun fyrir barn sitt og verið tilbúin á vinnumarkaðinn aftur.

 

Þegar kærandi hafði útskýrt þetta fyrir nokkrum starfsmönnum Vinnumálastofnunar hafi hún loksins fengið sent bréf frá stofnuninni í pósti með nýrri útskýringu og ástæðu. Þá hafi ástæðan til seinkunar um tvo mánuði á greiðslu atvinnuleysisbóta verið sú að kærandi hafi hætt námi. Kærandi spyr hvernig sé hægt að hætta í námi sem maður er ekki í. Hún skráði sig í þrjá áfanga fyrir haustönn 2011 og lauk þeim. Hún hafi ekki skráð sig í neina áfanga fyrir vorið 2012 og geti þar af leiðandi ekki hætt í námi.

 

Kærandi telur sig hafa farið heiðarlega eftir öllum tilsettum reglum og farið eftir öllum settum fyrirmælum Vinnumálastofnunar. Þrátt fyrir það finnst kæranda að stofnunin hafi reynt að loka á sig og komast hjá því að kærandi geti sótt rétt sinn og þær atvinnuleysisbætur sem hún telur sig eiga fullan rétt á.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerð, dags. 19. júní 2012, kemur fram að í X. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé ákvæði er mæli fyrir um biðtíma sem hinn tryggði skuli sæta ef hann segir starfi upp án gildra ástæðna eða hættir námi án gildra ástæðna. Vísað er í 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og til athugasemda með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar. Þar sé vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins um hvaða ástæður geti talist gildar. Í greinargerð við 1. mgr. 54. gr. laganna segi að erfitt geti reynst að telja með tæmandi hætti hvaða aðstæður séu gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laganna. Lagareglan sé því matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnunin skuli líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ beri að túlka þröngt í þessu samhengi og þar af leiðandi falli færri tilvik en ella þar undir. Í dæmaskyni um gildar ástæður í skilningi laganna séu til dæmis nefnd þau tilvik þegar fjölskylda umsækjanda flytur búferlum vegna starfa maka eða vegna heilsufarsástæðna atvinnuleitanda.

 

Kærandi var skráð í nám við C á haustönn 2011. Í vottorði frá skólanum komi fram að kærandi hafi ekki verið í námi við C síðan á haustönn 2011. Í tölvupósti til Vinnumálastofnunar, dags. 17. apríl 2012, segi kærandi að henni hafi ekki fundist hún geta sinnt náminu sem skyldi sökum þess að hún hafi verið ein með barnið heima. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar komi fram að kærandi hafi tekið ákvörðun um að halda ekki áfram námi þar sem hún hafi talið vera of mikið fyrir sig að vera ein heima með barnið og sökum þess að fjármagn hafi verið af skornum skammti.

 

Það sé mat Vinnumálastofnunar að skortur á dagheimilisplássi eða barnapössun sé ekki gild ástæða fyrir úrsögn úr námi í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé enn fremur afstaða Vinnumálastofnunar að fjárhagsástæður teljist ekki gildar skýringar, sbr. niðurstöður úr fyrri úrskurðum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, í málum nr. 41/2010 og 79/2011.

 

Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Veiti lögin þeim því fjárhagslegt úrræði og beri því að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum eða hætti námi sínu um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að stunda nám. Í máli kæranda telur Vinnumálastofnun ljóst að með því að hætta námi sínu hafi kærandi tekið ákvörðun um að vera skráð atvinnulaus hjá stofnuninni í stað þess að halda áfram námi sínu.

 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. júlí 2012. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda, dags. 5. júlí 2012, þar sem kærandi bendir meðal annars á að hefði hún hætt í skóla til þess að fara á bætur hjá Vinnumálastofnun, eins og haldið hafi verið fram af hálfu stofnunarinnar, þá hefði kærandi sótt um þær 1. janúar 2012 en ekki beðið með það til 22. febrúar. Að fara á bætur hafi augljóslega verið síðasti kostur kæranda þar sem hún hefði getað óskað eftir bótum í júní 2011 þegar fæðingarorlofinu hennar lauk. Við það að fara á bætur sé maður að segja bless við stoltið sitt, en ekki af ánægju eins og Vinnumálastofnun hafi haldið fram.

 

Kærandi ítrekar að barnið hennar hafi ekki komist að hjá dagmömmu þar sem allar dagmömmur hafi verið uppbókaðar langt fram í tímann þar sem það hafi verið í sparnaðarskyni hjá Reykjavíkurborg að veita börnum fæddum árið 2010 ekki aðgang að leikskóla fyrr en í fyrsta lagi við 18 mánaða aldur, þar að leiðandi hafi öll pláss verið full hjá dagmömmum og þannig sé það enn.

 

Kærandi kveðst hafa sótt ítrekað um störf. Hún hafi að sjálfsögðu viljað fara aftur á vinnumarkaðinn enda ein með barnið. Kærandi hafi fengið aðstoð frá fjölskyldu sinni sem henni hafi ekki þótt þægilegt en það hafi verið það eina í stöðunni.

 

Kærandi ítrekar það sem áður kom fram í kæru sinni varðandi skólann, námið og vistun fyrir barn sitt.

 

Kærandi bendir á að hún hefði aldrei getað byrjað að vinna aftur hjá B. þar sem hún hafi ekki verið með dagvistun fyrir barnið og hún hefði aldrei getað farið í þessa þrjá áfanga ef hún hefði ekki fengið aðstoð heima fyrir.

 

Loks greinir kærandi frá því að Vinnumálastofnun loki enn á sig þrátt fyrir að þessari tveggja mánaða bið hafi lokið nú í byrjun júní.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. nóvember 2012, var kæranda tilkynnt, með vísan til 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, að afgreiðsla máls hennar myndi tefjast. Ástæða þeirrar tafar sé gríðarlegur fjöldi kærumála hjá nefndinni og að vonir standi til að ljúka máli hennar sem fyrst.

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 18. gr. laga nr. 134/2009, en hún var svohljóðandi þegar málsatvik áttu sér stað:

 

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.

 

Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að eðlilegra þyki að þeir sem hætta í námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Skipti þá ekki hvenær á námsönn hlutaðeigandi hætti námi. Gert sé ráð fyrir að vottorð frá hlutaðeigandi skóla um að hann hafi hætt námi fylgi umsókninni. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins. 

 


 

 

Í þeim athugasemdum segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Í þessu máli liggja fyrir upplýsingar um nám kæranda á haustönn 2011. Um ástæður þess að hún hélt náminu ekki áfram á vorönn 2012 segir svo í kæru: „Ég tók ákvörðun um að halda ekki áfram þar sem ég taldi þetta vera of mikið fyrir mig eina heima með barnið og fjármagn af skornum skammti.“

 

Þótt kærandi hafi fært ýmis rök fyrir þeirri ákvörðun sinni að hafa hætt námi í ársbyrjun 2012 þá haggar sá málflutningur ekki þeirri staðreynd að orðalagið gildar ástæður í 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hefur verið túlkað þröngt. Þannig hefur almenna viðmiðið verið það að fjárhagsástæður geta ekki réttlætt brotthvarf frá námi. Það sama á jafnan við ef atvinnuleitandi hættir námi vegna fjölskylduaðstæðna.

 

Með vísan til framangreinds og röksemda þeirra sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að ástæður þær, sem kærandi hefur fært fram fyrir því að hún hætti námi, séu ekki gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þessa verður hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. apríl 2012 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hennar í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta