Mál nr. 384/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 384/2024
Fimmtudaginn 3. október 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 21. ágúst 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2024, var kæranda tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Í kjölfar skýringa kæranda var mál hans tekið fyrir að nýju og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. apríl 2024, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun væri staðfest þar sem hún hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir ný gögn í málinu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. ágúst 2024. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. ágúst 2024, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Svar barst ekki. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. september 2024, var óskað eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Umbeðin gögn bárust 24. september 2024.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hann hafi þegið atvinnuleysisbætur frá janúar til mars 2024 en hafi verið synjað um áframhaldandi bætur þar sem hann hafi ferðast til Þýskalands þegar hann hafi verið boðaður í viðtal og ekki látið vita með nægum fyrirvara. Ástæða þess að kærandi hafi farið til Þýskalands sé sú að hann hafi einnig verið að sækja um vinnur þar og hafi verið boðaður í atvinnuviðtal hjá tilteknum samtökum. Ferðin út hafi verið skyndiákvörðun en kærandi hafi samt sent inn U2 vottorð þrátt fyrir að hafa vitað að hann þyrfti að vera á landinu til að fá það samþykkt. Í kjölfarið hafi umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur verið synjað og hann látinn sæta tveggja mánaða viðurlögum. Kærandi hafi ekkert út á þá ákvörðun að setja og taki fulla ábyrgð á því að hafa ekki látið vita með nægum fyrirvara. Aftur á móti sé kærandi nú í þeirri stöðu að þurfa aftur að sækja um bætur og hafi þá verið tjáð að ef sú umsókn yrði samþykkt væri biðtíminn ekki enn búinn.
Kærandi hafi staðið í þeirri trú að biðtíminn yrði talinn frá 27. mars 2024 og að það þýddi að hann gæti sótt aftur um bætur 27. maí 2024 hið fyrsta. Enn fremur hafi kærandi litið svo á að fyrst að umsókn hans hafi verið synjað væri hann ekki lengur með stöðu umsækjenda og þyrfti því ekki að staðfesta atvinnuleit. Kærandi hafi fengið skilaboð 4. maí 2024 um að hann hefði verið afskráður sem umsækjandi sem hann hafi ekki velt fyrir sér. Nú skilji kærandi að óháð umsókninni hafi hann þurft að staðfesta atvinnuleit sem hann hafi ekki gert. Eins og fyrr segi hafi kærandi tekið fulla ábyrgð á þessari stöðu sem hann hafi komið sér í og hafi lifað á sparifé sínu í apríl og maí í stað bóta. Nú sé það gengið til þurrðar og kærandi sjái ekki fram á að geta borgað leigu og reikninga í september. Kærandi óski þess að litið verði svo á að hann hafi tekið út viðurlögin frá 27. mars til 27. maí þannig að þau hafi ekki áhrif á núverandi umsókn. Kærandi geti komið með gögn sem staðfesti að hann hafi verið í atvinnuleit í apríl og maí, sé þess krafist.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2024, um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 27. mars 2024, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 21. ágúst 2024. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Kæranda var veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Svar barst ekki. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í því sambandi er meðal annars haft í huga að gögn málsins benda ekki til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið efnislega röng. Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir