Mál nr. 314/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 314/2023
Fimmtudaginn 24. ágúst 2023
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 21. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júní 2023, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar á bið.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 14. maí 2023. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 1. júní 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt en með vísan til þess að hún ætti ótekinn biðtíma frá fyrri umsókn yrðu bætur ekki greiddar fyrr en sá tími væri liðinn.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. júní 2023. Með bréfi, dags. 23. júní 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 12. júlí 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júlí 2023. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hafa fengið viðurlög á árinu 2022 fyrir að neita atvinnuviðtali hjá óviðeigandi vinnuveitanda. Þá hafi kæranda verið bent á að annað hvort finna vinnu sem fyrst eða sækja um fjárhagsaðstoð. Með tímanum hafi kærandi loksins fundið starf sem hentaði hennar starfsreynslu. Hins vegar hafi kærandi aldrei fengið að vita að hún þyrfti að sitja uppi með refsingu ef hún myndi missa vinnuna. Ef Vinnumálastofnun hefði varað kæranda við þessu hefði hún aldrei hafið starf fyrir lok refsingarinnar. Þetta sé mikið fjárhagslegt tjón fyrir kæranda og sé að valda henni miklum kvíða. Kærandi hafi átt erfitt með að sofa eftir þessar fréttir. Kærandi þurfi hjálp frá Vinnumálastofnun þótt hún vilji það í raun ekki. Þessi refsing hjálpi kæranda ekki að komast aftur í vinnu.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að upphaf máls kæranda megi rekja til þess að þann 27. apríl 2022 hafi henni verið gert að sæta viðurlögum í þrjá mánuði vegna höfnunar á atvinnutilboði frá B ehf. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga. Þann 5. júlí 2022 hafi kærandi verið afskráð af atvinnuleysisbótum þar sem hún hafi hafið störf. Kærandi hafi sótt að nýju um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn til Vinnumálastofnunar, dags. 14. maí 2023. Með erindi, dags. 1. júní 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Með vísan til ótekins biðtíma kæranda, sem henni hafi verið gert að sæta með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 27. apríl 2022, yrðu bætur til hennar hins vegar ekki greiddar fyrr en að 0,86 mánuði liðnum.
Þann 16. júní 2023 hafi Vinnumálastofnun borist erindi frá kæranda þar sem hún hafi óskað þess að stofnunin myndi endurskoða mál hennar vegna eftirstöðva viðurlaga. Kærandi hafi sagt að það að missa starf sitt væri nógu mikil refsing. Henni væri hins vegar gert að sæta eftirstöðva viðurlaga, sem byggð væru á misskilningi. Hún hefði haldið að það að komast aftur í vinnu væri gott, en með þessum hætti væri henni refsað fyrir að taka starfi.
Í kjölfar þess að Vinnumálastofnun hafi borist framangreint erindi frá kæranda hafi mál hennar verið tekið fyrir að nýju. Með erindi, dags. 20. júní 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að það væri niðurstaða stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hennar, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist.
Með erindi, dags. 20. júní 2023, hafi kærandi komið að frekari skýringum og óskað þess að mál hennar yrði skoðað aftur. Kærandi hafi greint frá því að ári áður hefði hún verið beitt viðurlögum því hún hafi hafnað atvinnuviðtali. Kærandi hafi sagt að umræddur atvinnurekandi væri óviðeigandi. Með tímanum hafi hún loksins fundið starf sem hæfði hennar starfsreynslu. Hún hafi hins vegar aldrei fengið að vita að henni yrði gert að sæta eftirstöðvum viðurlaga sinna ef hún myndi missa vinnu sína aftur. Hefði Vinnumálastofnun varað hana við þessu hefði hún aldrei hafið störf fyrr en viðurlögum hennar væri lokið. Þetta hafi valdið henni fjárhagslegu tjóni, kvíða og erfiðleikum við svefn.
Með erindi, dags. 22. júní 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að mál hennar hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Það væri hins vegar mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hennar, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist.
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júní 2023, hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 21. júní 2023. Vinnumálastofnun hafi ekki verið kunnugt um að mál kæranda væri komið til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni þegar ákvörðun stofnunarinnar, dags. 22. júní 2023, hafi verið tekin. Rökstuðningur kæranda sé efnislega samhljóða þeim skýringum sem hún hafi veitt Vinnumálastofnun.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta eftirstöðvum viðurlaga þegar hún hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta að nýju þann 14. maí 2023.
Eins og að framan hafi verið rakið hafi kæranda með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 27. apríl 2022, verið gert að sæta viðurlögum í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga, sökum þess að hún hafi hafnað atvinnutilboði. Kærandi hafi síðar verið afskráð í kerfum stofnunarinnar þann 5. júlí þar sem hún hafi hafið störf að nýju.
Í 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlaga. Ákvæði 1. mgr. 61. gr. sé svohljóðandi:
„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“
Kæranda hafi með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 30. júní 2021, verið gert að sæta viðurlögum í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar kærandi hafi verið beitt viðurlögum með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 27. apríl 2022, á grundvelli sama ákvæðis hafi verið um að ræða önnur viðurlög kæranda á sama tímabili samkvæmt 29. gr. laganna. Því hafi komið til ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga hennar, sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga. Kæranda hafi því verið gert að sæta viðurlögum í þrjá mánuði.
Í [5.] mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Í 30. og 31. gr. laganna sé kveðið á um þau tvö tilvik sem leiði til þess að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist. Í tilviki kæranda komi einkum ákvæði 31. gr. laganna til álita en þar sé kveðið á um hvernig nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Ákvæði 31. gr. sé svohljóðandi:
„Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“
Þegar kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 14. maí 2023, hafi hún aðeins unnið á innlendum vinnumarkaði í tæplega 11 mánuði frá því að hún hafi síðast þegið greiðslu atvinnuleysisbóta. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. Af því leiði jafnframt að kærandi uppfylli ekki skilyrði [5.] mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um niðurfellingu ítrekunaráhrifa fyrri viðurlaga hennar samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis. Kæranda hafi því borið að sæta eftirstöðvum viðurlaga þegar hún hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 14. maí 2023.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og að eftirstöðvar biðtíma hennar skuli halda áfram að líða frá síðasta umsóknardegi, dags. 14. maí 2023.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júní 2023, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á bið.
Með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. apríl 2022 var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hún hefði hafnað atvinnutilboði. Kærandi var afskráð af atvinnuleysisskrá 5. júlí 2022 eða áður en þriggja mánaða viðurlagatíma lauk. Kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 14. maí 2023. Umsókn kæranda var samþykkt 1. júní 2023 en tekið var fram að bætur yrðu ekki greiddar fyrr en ótekinn biðtími frá fyrri umsókn væri liðinn.
Í 5. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Í 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þá segir í 31. gr. laga nr. 54/2006 að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.
Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki, þegar umsókn hennar barst Vinnumálastofnun þann 14. maí 2023, starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006 og því hélt allur ótekinn biðtími vegna eldri viðurlaga áfram að líða þegar hún skráði sig atvinnulausa að nýju 14. maí 2023.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júní 2023, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til A, á bið, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir