Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 421/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 421/2017

Fimmtudaginn 22. febrúar 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. nóvember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2017, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á tímabilinu febrúar til maí 2017. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í ágúst 2017 kom í ljós að kærandi hafði fengið greiðslu frá fyrrverandi vinnuveitanda sínum í maí 2017, samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta, án þess að tilkynna um greiðsluna til stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 14. ágúst 2017, óskaði Vinnumálastofnun eftir skriflegum skýringum kæranda vegna ótilkynntra tekna. Skýringar bárust ekki frá kæranda og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 11. september 2017, var bótaréttur hans felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 39. gr. laganna að fjárhæð 68.010 kr. að meðtöldu 15% álagi. Kærandi sendi athugasemdir vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar þann 11. september 2017 þar sem fram kom að um væri að ræða orlofsgreiðslu frá fyrrverandi vinnuveitanda. Þá barst Vinnumálastofnun launaseðill frá B ehf. þann 13. september 2017. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju í október og með erindi, dags 6. október 2017, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði fellt úr gildi ákvörðun sína um viðurlög en að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. nóvember 2017. Með bréfi, dags. 21. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 15. desember 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. desember 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að greiðslan frá fyrrverandi vinnuveitanda hans hafi verið orlofsgreiðsla vegna ársins 2016. Kærandi telur að um brot á jafnræði sé ræða þar sem einstaklingur sem verði atvinnulaus á öðrum árstíma verði ekki fyrir skerðingu. Kærandi bendir á að hann hafi tekið út sitt orlof í september og október en hann hefði getað beðið fyrrverandi atvinnurekendur um greiðslu á þeim tíma og þannig komist hjá skerðingu.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fengið greitt ótekið orlof frá fyrrum vinnuveitanda sínum á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta. Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um frádrátt vegna tekna. Þar segi að Vinnumálastofnun beri að skerða atvinnuleysisbætur hafi atvinnuleitandi tekjur frá öðrum aðilum. Það eigi meðal annars við um tekjur fyrir tilfallandi vinnu, fjármagnstekjur og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kunni að fá frá öðrum aðilum. Vinnumálastofnun skuli eingöngu taka tillit til þeirra tekna sem atvinnuleitandi hafi haft á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma á grundvelli laganna. Óumdeilt sé að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í maí 2017. Á sama tíma hafi hann fengið greitt orlof að fjárhæð 258.855 kr. og því beri Vinnumálastofnun að skerða greiðslur fyrir þann mánuð. Samkvæmt skýrri reglu 36. gr. laganna beri stofnuninni að skerða atvinnuleysisbætur kæranda um helming þeirra tekna sem séu umfram frítekjumarki samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins. 258.855 kr. að frádregnu frítekjumarki (63.476) sé 195.379 kr. Helmingur þeirrar upphæðar sé 97.690 kr. Skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda sé því 97.690 kr. Skuld kæranda nemi 59.139 kr. eða 68.010 kr. með 15% álagi, eftir að búið sé að leiðrétta greiðslur til lífeyrissjóðs og staðgreiðslu til ríkisskattsstjóra.

Endurgreiðsluskylda kæranda grundvallist á ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 en samkvæmt því sé stofnuninni skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta ef þær hafi verið of- eða vangreiddar. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi því ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 68.010 kr. vegna orlofsgreiðslna sem hann fékk frá fyrrverandi vinnuveitanda.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.

Í 51. gr. laganna er fjallað um greiðslur sem eru ósamrýmanlegar atvinnuleysisbótum. Þar segir í 4. mgr. ákvæðisins:

„Hver sá sem hefur fengið greitt ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um. Við umsókn um atvinnuleysisbætur skal hinn tryggði taka fram hvenær hann ætlar að taka út orlof sitt fyrir lok næsta orlofstímabils.“

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Ákvæði þetta fjallar um þær greiðslur sem atvinnuleitandi kann að eiga rétt á samkvæmt öðrum lögum og eru ætlaðar honum til framfærslu við tilteknar aðstæður. Verður því að teljast eðlilegt að litið verði á þær sem ósamrýmanlegar atvinnuleysisbótum sem ætlað er sama hlutverk enda verður að ætla að atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrðið um virka atvinnuleit á þeim tíma sem hann á rétt á þeim greiðslum sem taldar eru upp í 1.–3. mgr. ákvæðisins. […]

Lagt er til að atvinnuleitandi teljist ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins þann tíma er nemur þeim orlofsdögum sem hann hafði ekki nýtt sér þegar hann hætti störfum hjá fyrri vinnuveitanda og hann því fengið greidda út við starfslokin. Þó er gert ráð fyrir að umsækjandi geti tilgreint á umsókn um atvinnuleysisbætur hvenær hann ætli að taka út orlof sitt á orlofstímanum og er miðað við að hann hafi tekið út orlofið fyrir lok næsta orlofstímabils eða 15. september ár hvert, sbr. lög nr. 30/1987, um orlof. Kemur orlofsgreiðslan þá til frádráttar fyrir þann tíma sem hinn tryggði ætlaði í orlof samkvæmt umsókninni en ekki þegar í upphafi tímabilsins.“

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 3. febrúar 2017 og lagði meðal annars fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda í samræmi við ákvæði 16. gr. laga nr. 54/2006. Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi starfað hjá tilgreindu fyrirtæki á tímabilinu 1. nóvember 2015 til 31. desember 2016. Þá kemur fram að kærandi hafi ekki átt ótekið orlof við starfslok né fengið greiðslur vegna starfsloka. Ljóst er að þær upplýsingar eru ekki réttar, sbr. launaseðill frá fyrirtækinu fyrir tímabilið 1. maí til 31. maí 2017 um orlof vegna starfsloka. Vinnumálastofnun gat því ekki óskað eftir upplýsingum frá kæranda um hvenær hann hygðist taka út orlof sitt.

Það leiðir af 4. mgr. 51. gr. laga nr. 54/2006 að taka verður afstöðu til þess fyrir hvaða tímabil orlofslaun eða greiðslur vegna starfsloka sem kærandi fékk frá fyrrverandi vinnuveitanda eiga við um. Í því samhengi verður að horfa til þess fyrirkomulags sem þessum greiðslum er búið í orlofslögum og eðlis þeirra. Í 1. gr. orlofslaga nr. 30/1987 er kveðið á um að allir þeir, sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, eigi rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt reglum laganna. Tekið er fram í 2. mgr. 3. gr. laganna að orlofsárið, þ.e. sá tími sem unnið er til orlofslauna, sé frá 1. maí til 30. apríl. Í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur fram sú meginregla að orlof skuli veitt í einu lagi á tímabilinu 2. maí til 15. september en atvinnurekandi ákveður í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt, sbr. upphafsmálslið 5. gr. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. á launþegi rétt til orlofslauna í samræmi við áunninn orlofsrétt á síðasta orlofsári. Launþega skal greidd orlofslaun í samræmi við reiknireglu 2. mgr. 7. gr. næsta virkan dag fyrir töku orlofs, sbr. 3. mgr. 7. gr. Í 8. gr. kemur fram að ljúki ráðningasamningi launþega og vinnuveitanda skuli vinnuveitandi við lok ráðningartímans greiða launþeganum öll áunnin orlofslaun hans.

Samkvæmt framangreindu er meginreglan sú að orlofslaun samkvæmt orlofslögum eru greidd í tvenns konar tilvikum, annars vegar við upphaf orlofstöku og hins vegar við starfslok. Tímasetning og eðli útgreiðslu áunninna orlofslauna sem vinnuveitandi greiðir út við starfslok launþega samkvæmt 8. gr. laga nr. 30/1987 byggist ekki á því að viðtakandinn fari þegar við útgreiðsluna í orlof. Meginregla orlofslaganna er að orlof skuli veitt í einu lagi á tímabilinu frá 2. maí til 15. september en heimildir eru einnig í lögum og kjarasamningum til að taka orlof á öðrum tíma, ýmist að ósk vinnuveitanda eða launþega. Slit á ráðningarsamningi launþega og vinnuveitanda eru hins vegar ekki bundin við sambærileg tímamörk. Í tilviki kæranda fékk hann útgreidd áunnin orlofslaun í maí 2017 í kjölfar starfsloka 31. desember 2016.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Með vísan til alls framangreinds þykir ekki nægilega sýnt fram á að uppgjör fyrrverandi vinnuveitanda kæranda á orlofsgreiðslum hans vegna starfsloka séu greiðslur fyrir sama tímabil og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Breytir engu í þessu sambandi þótt á launaseðli kæranda komi fram tímabilið 1. til 31. maí 2017 sem tímabil orlofsuppgjörsins, enda verður greiðslutímabil ekki talið vera það tímabil sem greiðslurnar áttu við um í hans tilviki. Verður því ekki séð að kærandi hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á né að hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á því tímabili sem endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar lýtur að. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. október 2017, um að krefja A, um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð 68.010 kr. er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta