Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 298/2020 - Úrskurður

.

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 298/2020

Fimmtudaginn 1. október 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 15. júní 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. júní 2020, um 37% bótarétt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 8. apríl 2020. Með ákvörðun, dags. 4. júní 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og bótaréttur metinn 37%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júní 2020. Með bréfi, dags. 23. júní 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 12. ágúst 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. ágúst 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi rekið litla heildsölu í nokkur ár og verið að byggja það fyrirtæki upp. Vegna Covid-19 faraldursins hafi reksturinn fallið sjálfkrafa í dvala, án nokkurrar innkomu, og því hafi hann þurft að sækja um atvinnuleysisbætur. Ekki sé víst hvort eða hvenær reksturinn fari aftur í gang en þangað til sé nauðsynlegt fyrir kæranda að leita leiða til að finna aðra vinnu. Kærandi óski eftir að ákvarðað bótahlutfall verði endurskoðað og að hann fái fullar atvinnuleysisbætur frá og með 1. júlí 2020 þangað til honum takist að finna vinnu.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Kærandi hafi starfað við eigin rekstur á heildsölu áður en hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga og sé því sjálfstætt starfandi í skilningi b-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006.

Útreikningur bótaréttar sjálfstætt starfandi einstaklinga fari eftir 19. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun beri að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá því endurgjaldi sem viðkomandi reikni sér vegna vinnu sinnar. Ef reiknað endurgjald atvinnuleitanda nái ekki lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra ákvarðist bótaréttur af hlutfalli reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið af og viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Sjálfstætt starfandi einstaklingur geti því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef reiknað endurgjald sé lægra en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Bótaréttur kæranda byggi á vinnu hans sem sjálfsætt starfandi einstaklingur, sbr. b-liður 3. gr. laga nr. 54/2006. Starf kæranda falli undir tekjuflokk B9 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Flokkurinn taki til starfa einstaklinga við iðnaðar- og iðjurekstur, hvers konar verslun og viðskipti, veitingastarfsemi, útgerð og fiskvinnslu, framleiðslu landbúnaðarvara sem og verktakastarfsemi og þjónustu, sem ekki heyri undir aðra tekjuflokka. Viðmiðunartekjur Ríkisskattstjóra fyrir tekjuflokk B9 vegna ársins 2020 séu 465.000 kr. á mánuði en 446.000 kr. fyrir árið 2019. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðslukrá Ríkisskattstjóra hafi mánaðarlaun kæranda á tímabilinu maí 2017 til febrúar 2020 numið 150.000 kr. eða 32 til 38% af viðmiðunartekjum Ríkisskattstjóra. Á tólf mánaða tímabili hafi hæsta mögulega hlutfall launa kæranda numið 37% af viðmiðunartekjum Ríkisskattstjóra og því reiknist bótahlutfall hans 37%.

Með hliðsjón af ofangreindum sjónarmiðum sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að tryggingarhlutfall kæranda sé rétt reiknað 37%. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 37% bótarétt kæranda.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. b-lið 3. gr. laganna.

Óumdeilt er að kærandi var sjálfstætt starfandi áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur. Í IV. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. telst sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Í 2. mgr. 19. gr. segir svo um útreikning bótaréttar:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.“

Samkvæmt framangreindu ber Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá þeim launum sem viðkomandi reiknar sér vegna vinnu sinnar. Ef reiknað endurgjald atvinnuleitanda nær ekki lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra ákvarðast bótaréttur af hlutfalli reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur getur því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef reiknað endurgjald er lægra en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein.

Starf kæranda fellur undir tekjuflokk B9 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Viðmiðunartekjur Ríkisskattstjóra fyrir tekjuflokk B9 vegna ársins 2019 voru 446.000 kr. á mánuði en eru 465.000 kr. á mánuði vegna ársins 2020. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum greiddi kærandi mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem nam lægri fjárhæð en sú viðmiðunarfjárhæð. Tryggingahlutfall kæranda ákvarðast því af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar. Samkvæmt skýru ákvæði 19. gr. laga nr. 54/2006 ber að byggja útreikning á bótarétti á þeim mismuni. Hæsta mögulega hlutfall reiknaðs endurgjalds kæranda og viðmiðunarfjárhæðar Ríkisskattstjóra nemur 37% á ávinnslutímabili. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 37% bótarétt kæranda staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 4. júní 2020, um 37% bótarétt A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta