Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 12/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. maí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 12/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau, eins og fram kemur í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, A, dags. 20. maí 2014, að við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá, sem gerð var skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, kom í ljós að kærandi var skráð í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Greiðslum atvinnuleysisbóta til kæranda var því hætt með vísan til 52. gr. laganna. Það var jafnframt mat stofnunarinnar að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2014 að fjárhæð 500.238 kr. með 15% álagi inniföldu, að fjárhæð samtals 575.274 kr. sem henni bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 29. janúar 2015. Vinnumálastofnun telur að úrskurðarnefndinni beri ekki að taka stjórnsýslukæru þessa til efnismeðferðar heldur að vísa beri henni frá þar sem þriggja mánaða kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst.

Í kæru kæranda kemur fram að hún óskar þess að hluti af endurgreiðslukröfunni verði felldur niður miðað við það að hún hafi aðeins tekið 12 ECTS-einingar á umræddum þremur mánuðum. Hún hafi talið sér óhætt að vera í svo fáum einingum og hafi hún haldið að hún þyrfti að vera í fullu námi til þess að missa bæturnar.

Hin kærða ákvörðun kemur fram í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 20. maí 2014. Í bréfi þessu var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og tekið fram að kærufrestur sé þrír mánuðir frá dagsetningu tilkynningar um ákvörðun. Enn fremur var kæranda tilkynnt hvert beina skyldi kærunni og hvernig mætti nálgast kærueyðublöð. Kæra kæranda barst úrskurðarnefndinni 29. janúar 2015.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. mars 2015, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 3. apríl 2015. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra kæranda, dags. 29. janúar 2015, barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann sama dag. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og sú ákvörðun að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram í bréfi stofnunarinnar, dags. 20. maí 2014, rúmum átta mánuðum áður en kæran barst úrskurðarnefndinni.

Með vísan til framanritaðs barst kæran að liðnum kærufresti.

Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta