Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 6/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 6/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun samþykkti umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur  og greiddi henni bætur frá umsóknardegi þann 31. júlí 2014. Stofnunin féllst hins vegar ekki á að greiða bætur aftur í tímann. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 2. janúar 2015. Kærandi krefst þess að fá greiddar bætur fyrir tímabilið frá 20. júní til 20. ágúst 2014. Vinnumálastofnun telur að kærandi eigi aðeins rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga frá 31. júlí 2014.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 31. júlí 2014. Afgreiðslu umsóknar hennar var fyrst frestað, sbr. bréf dags. 27. ágúst 2014. Þá var umsókninni synjað á fundi þann 18. september 2014. Frekari upplýsingar bárust frá kæranda þann 15. september 2014 og móður hennar þann 10. desember 2014. Umsókn kæranda var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar þann 18. desember 2014 og í kjölfarið voru henni greiddar atvinnuleysisbætur frá 31. júlí 2014.

Í kæru segir kærandi að efni kærunnar sé höfnun á bótarétti kæranda sumarið 2014, sem hafi verið á þeim forsendum að hún væri að sækja um bætur milli anna í skólanum, en svo hafi ekki verið. Kærandi hafi verið í vinnu frá útskrift vorið 2013 til sumars 2014. Hún vilji fá bætur fyrir tímabilið 20. júní til 20. ágúst 2014.

Sumarið 2014 hafi kærandi sótt um atvinnuleysisbætur því hún hafi misst vinnu sína í B, þar sem hún hafði starfa frá nóvember 2013. Þar áður hafi hún starfað um stutt skeið hjá C og sumarið 2013 hjá D, eða frá því hún hafi lokið stúdentsprófi þá um vorið. Málsatvik hafi verið þannig að hún hafi beðið um sumarfrí í starfi sínu hjá B, sem hún hafi átt rétt á, og viku launalaust umfram það en hafi verið neitað um að fá frí. Rekur kærandi samskipti sín við yfirmenn sína hjá B og kemur fram að kærandi hafi að lokum ákveðið að taka umrætt sumarfrí. Á endanum hafi það farið þannig að kærandi hafi enga sumarvinnu  fengið og því hafi hún sótt seint um atvinnuleysisbætur og þá aftur í tímann. VR hafi sagt kæranda að sækja um bætur þar sem hún ætti fullan rétt á þeim og hafi talið það lítið mál að fá bætur greiddar aftur í tíman.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. mars 2015, segir að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Þar sem Vinnumálastofnun hafi nú þegar metið skýringar kæranda gildar vegna náms hennar, þ.e. að kærandi hafi ekki verið námsmaður á milli anna, varði mál þetta þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða kæranda atvinnuleysistryggingar frá umsóknardegi en ekki afturvirkt.

Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum.

Eðli máls samkvæmt sé það grundvallarskilyrði til þess að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt til Vinnumálastofnunar. Ljóst sé af gögnum málsins að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 31. júlí 2014. Stofnunin hafi því ekki getað vitað að hún væri án atvinnu fyrr en á þeim tíma. Eigi kærandi því rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga frá og með 31. júlí 2014.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. mars 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kröfu kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 20. júní 2014 til 20. ágúst 2014 en hún sótti fyrst um atvinnuleysisbætur þann 31. júlí 2014.

Í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

„Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögum þessum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun hafi tekið við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttaki umsókn um atvinnuleysisbætur.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur með umsókn, dags. 31. júlí 2014. Kærandi á því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi getur ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta afturvirkt þrátt fyrir að hún hafi verið atvinnulaus frá 20. júní til 31. júlí 2014. Eru ákvæði 1. mgr. 9. gr.  og 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar fortakslaus að þessu leyti.

Samkvæmt framansögðu er hin kærða ákvörðun staðfest.


Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar, þess efnis að synja A um afturvirka greiðslu atvinnuleysisbóta, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta