Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 479/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 479/2020

Þriðjudaginn 19. janúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. október 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. maí 2020, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. maí 2018, var bótaréttur kæranda felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar vegna fjarveru hans á boðað námskeið á vegum stofnunarinnar. Í maí 2020, þegar bótaréttur kæranda var fullnýttur, fór hann fram á að fá greidda tvo mánuði til viðbótar með vísan til þess að hann hafi ekki haft vitneskju um skerðingu bótaréttar. Með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 26. maí 2020, var þeirri beiðni hafnað og hefur stofnunin vísað til þess að í því fælist synjun á beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 28. maí 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. október 2020. Með bréfi, dags. 5. október 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 27. nóvember 2020 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. desember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 3. desember 2020 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. desember 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið boðaður á námskeið af hálfu Vinnumálastofnunar árið 2018. Kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun að hann gæti ekki sótt námskeiðið vegna tiltekinna aðstæðna en stofnunin hafi ákveðið að skerða bætur hans um tvo mánuði. Kærandi hafi aldrei verið látinn vita af þeirri lokaniðurstöðu, annars hefði hann kært þá ákvörðun. Þegar kærandi hafi óskað eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun hafi hann mætt skætingi, ruddaskap og óvirðingu af hálfu starfsmanna. Kærandi hafi þá leitað til umboðsmanns Alþingis, enda hafi hann hvorki fengið neina leiðsögn né upplýsingar um kæruferlið hjá Vinnumálastofnun. Kærandi bendi á að hann hafi verið fjarverandi frá námskeiðinu þar sem hann hafi þurft að fara í aðra ríkisstofnun að skrifa undir pappíra og í viðtal hjá félagsráðgjafa en ekki vegna leti eða af öðrum ástæðum.

Í athugasemdum vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar tekur kærandi fram að hann hafi fengið tilkynningu um boð á námskeið en aldrei verið tjáð að um skyldumætingu væri að ræða. Kærandi hafi fengið fyrstu tilkynninguna frá Vinnumálastofnun og gert grein fyrir fjarveru sinni. Hins vegar hafi hann ekki fengið tölvupóst um að Vinnumálastofnun hefði tekið afstöðu gegn útskýringu hans og þess vegna hafi hann ekki kært á þeim tíma. Í því samhengi bendi kærandi á mál sitt frá árinu 2019 vegna boðunar í atvinnuviðtal og samskiptavandamáls en það sé um margt líkt. Því ætti að taka til greina kröfu kæranda um að fá þessa tvo mánuði greidda.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi síðast sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í janúar 2018 og umsókn hafi verið samþykkt þann 19. janúar 20[18]. Þann 28. maí 2018 hafi kæranda verið gert að sæta biðtíma á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en kærandi hafi ekki mætt á námskeið á vegum stofnunarinnar sem hafi farið fram dagana 9. til 13. apríl 2018. Kæranda hafi verið birt ákvörðun með rafrænum hætti á mínum síðum stofnunarinnar og verið send tilkynning á tölvupósti sama dag. Skýringar kæranda hafi legið fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin í máli hans.

Í maí 2020 hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun þar sem hann hafi séð á greiðsluseðlum stofnunarinnar að bótaréttur hans væri fullnýttur. Kærandi hafi verið upplýstur um að hann hafi átt rétt á 36 mánaða bótatímabili en að ekki hafi verið greiddir tveir mánuðir af bótatímabilinu vegna viðurlaga í maí til júlí 2018. Kærandi hafi þá fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 34 mánuði af 36 mánaða bótatímabili. Með erindi, dags. 25. maí 2020, hafi kærandi krafist þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur í tvo mánuði til viðbótar. Kröfu kæranda hafi verið hafnað. Í kjölfarið hafi kærandi leitað til umboðsmanns Alþingis sem hafi lokið máli hans með ábendingu til Vinnumálastofnunar. Umboðsmaður hafi gert athugasemdir við þær leiðbeiningar sem kæranda hafi verið veittar við afgreiðslu á erindi hans í maí 2020. Þá hafi umboðsmaður talið að í tölvupóstsamskiptum á milli kæranda og fulltrúa stofnunarinnar, dags. 26. maí 2020, fælist stjórnvaldsákvörðun um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Vinnumálastofnun tekur fram að málið varði í grunninn þá ákvörðun stofnunarinnar að láta kæranda sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga í maí 2018. Ákvörðun um viðurlög hafi verið tekin á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er því liðinn, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Kærandi telji meðal annars að Vinnumálastofnun hafi ekki birt ákvörðun stofnunarinnar frá maí 2018 með sannanlegum hætti. Rétt sé að Vinnumálastofnun hafi tilkynnt kæranda um ákvörðun stofnunarinnar með erindi, dags. 28. maí 20[18]. Í ákvörðun stofnunarinnar hafi kærandi verið upplýstur um rétt sinn til að óska eftir endurupptöku, rétt sinn til að óska eftir rökstuðningi á ákvörðun stofnunarinnar og heimild sinni til að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá hafi kærandi verið upplýstur um þriggja mánaða kærufrest til nefndarinnar. Ákvörðun hafi verið birt kæranda með rafrænum hætti á mínum síðum stofnunarinnar og honum hafi einnig verið send tilkynning í tölvupósti sama dag.  Vinnumálastofnun bendi einnig á að kæranda hafi einnig verið sent erindi, dags. 9. maí 2018, þar sem óskað hafi verið eftir skriflegri afstöðu hans til málsins. Athygli hafi verið vakin á því að sá sem hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum án gildra ástæðna gæti þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga samkvæmt 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það erindi hafi verið birt kæranda með rafrænum hætti á mínum síðum stofnunarinnar. Þá hafi einnig verið send tilkynning á tölvupóstfang hans sama dag. Kærandi hafi svarað erindi Vinnumálastofnunar frá uppgefnu netfangi þann 10. maí 2018 og komið skýringum sínum að í málinu. Netfangið sé það sama og kærandi hafi gefið upp þegar hann hafi óskað eftir rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun í umsókn um greiðslur atvinnuleysistrygginga.

Í 9. gr. laga nr. 54/2006 sé fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur. Þar segi í 7. mgr. ákvæðisins að þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljist upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti samkvæmt lögunum. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur í janúar 2018 hafi hann sjálfur óskað eftir rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun. Kærandi hafi verið upplýstur um það í umsóknarferlinu að ákvarðanir stofnunarinnar myndu birtast á mínum síðum stofnunarinnar og að hann fengi tilkynningar á tölvupósti. Líkt og áður segi hafi ákvörðun verið birt kæranda með rafrænum hætti á mínum síðum stofnunarinnar og þá hafi honum einnig verið send tilkynning á tölvupósti. Vinnumálastofnun hafni því þeim fullyrðingum kæranda er varði birtingu á ákvörðun stofnunarinnar, enda liggi fyrir að ákvörðun hafi verið birt kæranda í samræmi við óskir hans um rafræn samskipti við stofnunina. 

Eftir standi þó höfnun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um endurupptöku. Fyrir liggi að kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun í maí 2020 og óskað eftir því að bótatímabil hans yrði lengt því sem næmi þeim biðtíma sem honum hafi verið gert að sæta. Honum hafi verið bent á að kanna eldri samskipti við stofnunina og honum tjáð að þriggja mánaða frestur til að kæra ákvörðun væri liðinn. Vinnumálastofnun telji að með ofangreindum samskiptum við kæranda hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun um að hafna beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans. Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fjallað um endurupptöku máls. Þar segi að stjórnvald geti tekið mál til meðferðar á ný ef ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Þá segi að eftir að þrír mánuðir séu liðnir frá því að aðila hafi verið tilkynnt um ákvörðun eða aðila hafi verið eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun hafi verið byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár sé liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Þegar kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun hafi verið meira en ár liðið frá því að honum hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Ekki verði séð að veigameiri ástæður, en almennt eigi við um sambærilegar ákvarðanir stofnunarinnar í málum atvinnuleitenda, réttlæti sérstaka meðferð á máli kæranda. Þegar hafi verið fjallað um birtingu á ákvörðun til kæranda. Þar að auki bendi stofnunin á að við afgreiðslu á málinu hafi verið óskað eftir afstöðu og athugasemdum kæranda. Kærandi hafi svarað þeirri beiðni og skilað skýringum til stofnunarinnar. Þær skýringar sem kærandi hafi nú fært fram fyrir úrskurðarnefnd og til Vinnumálastofnunar í þeirri viðleitni að fá mál sitt tekið fyrir að nýju séu samhljóma þeim skýringum sem hafi borist stofnuninni árið 2018 og stofnunin hafi þegar metið ófullnægjandi, enda hafi kærandi aldrei tilkynnt um fjarveru sína á umrætt námskeið. Ný gögn bendi því ekki til þess að upprunaleg ákvörðun í máli kæranda hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá hafi atvik í máli kæranda ekki breyst  frá því að ákvörðun hafi verið tekin. Skilyrði fyrir endurupptöku í máli kæranda séu því ekki uppfyllt.

Ávirðingum kæranda um „ruddaskap, skæting og óvirðingu“ starfsfólks Vinnumálastofnunar í sinn garð sé vísað á bug. Fullyrðingar kæranda eigi sér enga stoð í gögnum máls eða samskiptum milli kæranda og fulltrúa stofnunarinnar. Með vísan til ofangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna beri kröfum kæranda í málinu.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. maí 2020, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 28. maí 2018 um tveggja mánaða niðurfellingu bótaréttar.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. október 2020. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun var ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar svo sem bar að gera samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Að því virtu þykir afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr en liðnum kærufresti og verður hún því tekin til efnismeðferðar með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds.

Ljóst er að meira en ár var liðið frá því að kæranda var tilkynnt um tveggja mánaða niðurfellingu bótaréttar þegar beiðni um endurupptöku málsins barst Vinnumálastofnun. Kemur því til skoðunar hvort veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins.

Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi verið boðaður á námskeið af hálfu Vinnumálastofnunar en ekki verið tjáð að skyldumæting væri á námskeiðið. Þá hafi hann ekki fengið tilkynningu um ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. maí 2018.

Í fyrirliggjandi samskiptasögu á milli kæranda og Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi var þann 26. mars 2018 boðaður á námskeið sem haldið var dagana 9., 11. og 13. apríl það ár. Þann 6. apríl 2018 fékk kærandi senda áminningu um námskeiðið og tekið fram að um skyldumætingu væri að ræða. Kæranda mátti því vera ljóst að honum bæri skylda til þess að mæta á boðað námskeið. Hvað varðar athugasemd kæranda um að tilkynning ákvörðunar frá 28. maí 2018 hafi ekki borist tekur úrskurðarnefndin fram að í gögnum málsins liggur fyrir staðfesting þess efnis að kærandi óskaði eftir því að vera í rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnunar þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur í janúar 2018. Þá var hann upplýstur um að í því fælist að ákvarðanir Vinnumálastofnunar yrðu birtar á „mínum síðum“ stofnunarinnar og að tilkynningar um þær yrðu sendar með tölvupósti. Fyrir liggur að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. maí 2018 var birt á „mínum síðum“ kæranda og tilkynning send á skráð netfang hans um að skilaboð biðu á vefsvæðinu. Úrskurðarnefndin telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við birtingu ákvörðunar um tveggja mánaða niðurfellingu bótaréttar.

Að framangreindu virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki séu fyrir hendi veigamiklar ástæður sem mæla með endurupptöku ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 28. maí 2018. Synjun Vinnumálastofnunar á beiðni kæranda um endurupptöku málsins er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. maí 2020, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta