Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 173/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 173/2017

Fimmtudaginn 22. júní 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. maí 2017, kærir B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2017 og rökstuddri 6. febrúar 2017, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 21. desember 2016. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2017, var umsókn kæranda hafnað á þeirri forsendu að hann væri ekki með skráð lögheimili á Íslandi, sbr. c- liður 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 6. febrúar 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. maí 2017. Með bréfi, dags. 5. maí 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 24. maí 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. maí 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umsókn hans um atvinnuleysibætur verði samþykkt. Kærandi tekur fram að hann hafi flutt til Íslands í X 2015 og verið búsettur hérlendis frá þeim tíma, en láðst að færa lögheimili sitt. Að mati kæranda skorti synjun Vinnumálastofnunar lagastoð en höfnun á umsókn hans á grundvelli c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2000 verði ekki byggð á þeirri einu forsendu að skráning lögheimilis sé ekki á Íslandi. Kærandi bendir á að orðalag ákvæði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laganna gefi ekki til kynna að skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sé skráning lögheimilis á Íslandi. Hefði það verið vilji löggjafans þá hefði lagaákvæðið verið orðað með þeim hætti eða vísað til lögheimilisskráningar samhliða búsetu. Þá hefði löggjafinn einnig getað vísað til lögheimilisskráningar til leiðbeiningar við mat á því skilyrði að vera búsettur og staddur hér á landi en það hafi ekki verið gert. Tilvísun Vinnumálastofnunar til lögheimilisskráningar við mat á búsetu hér á landi sé ekki byggð á lögum og því ekki lögmæt forsenda fyrir höfnun á umsókn kæranda.

Kærandi vísar til þess að Vinnumálastofnun beri að meta skilyrði um búsetu hér á landi og hvort kærandi uppfylli það skilyrði. Kærandi hafi unnið á Íslandi og haft þar fasta búsetu þrátt fyrir að lögheimili hans hafi verið skráð annars staðar. Kærandi uppfylli þannig skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 og því beri að samþykkja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að í c-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Það sé því frumskilyrði fyrir því að eiga rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi sé búsettur á Íslandi. Vinnumálastofnun vísar til þess að Þjóðskrá Íslands annist almannaskráningu, sbr. 1. gr. laga nr. 54/1962. Skráning í opinberri grunnskrá ríkisins sé forsenda fyrir því að einstaklingur teljist búsettur á Íslandi. Lögheimilisskráning feli þannig í sér tiltekna tilhögun opinberrar skráningar á búsetu, þegar og ef slíkur réttur sé til staðar. Samkvæmt þeirri skráningu sé kærandi búsettur í öðru landi og kunni að eiga rétt til atvinnuleysistrygginga þar. Vinnumálastofnun telji ekki heimilt að virða að vettugi opinbera skráningu á heimilisfestu einstaklinga. Kærandi uppfylli ekki búsetuskilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 og því beri stofnuninni að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta á þeirri forsendu að hann væri ekki með skráð lögheimili á Íslandi, sbr. c- liður 13. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-liður ákvæðisins.

Í lögum nr. 21/1990 um lögheimili er meðal annars fjallað um hvar lögheimili manna skuli vera, hvenær mönnum sé skylt að skrá lögheimili sitt hér á landi og hvenær mönnum sé slíkt heimilt þrátt fyrir að vera það ekki skylt. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Þá segir í 2. mgr. 1. gr. að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Í 4. gr. laga nr. 21/1990 segir að ef vafi leiki á því hvar telja skuli að föst búseta manns standi, til dæmis vegna þess að hann hafi bækistöð í fleiri en einu sveitarfélagi, skal hann eiga lögheimili þar sem hann dvelst meiri hluta árs. Dveljist hann ekki meiri hluta árs í neinu sveitarfélagi skal hann eiga lögheimili þar sem hann stundar aðalatvinnu sína, enda hafi hann þar bækistöð. Það telst aðalatvinna í þessu sambandi sem gefur tvo þriðju hluta af árstekjum manns eða meira.

Þrátt fyrir að Vinnumálastofnun beri að styðjast við opinbera skráningu lögheimilis við mat á því hvort skilyrði c-liðar 13. gr. laga nr. 54/2006 sé uppfyllt er stofnunin ekki bundin af því hvar lögheimili kæranda er skráð þar sem lögheimilisskráning á Íslandi er ekki skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum. Kærandi er með lögheimili skráð erlendis og kann það að gefa ranga mynd af aðstæðum hans ef ljóst er að hann er í raun búsettur á Íslandi. Kærandi hefur lagt fram gögn um búsetu og hvar hann var staddur á þeim tíma er máli skiptir og bar Vinnumálastofnun að mati úrskurðarnefndirnar að meta þau gögn óháð skráningu lögheimilis.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Vinnumálastofnun beri að leggja mat á hvar kærandi er búsettur og hvort hann sé staddur hér á landi, sbr. c-liður 13. gr. laga nr. 54/2006. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2017, um að synja umsókn A, um atvinnuleysisbætur er felld úr gildi. Málinu er vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta