Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 228/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 228/2023

Fimmtudaginn 29. júní 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. apríl 2023, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. desember 2022 og var umsóknin samþykkt 5. janúar 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. apríl 2023, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar í ljósi þess að hún hefði ekki tilkynnt stofnuninni um veikindi barna.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. maí 2023. Með bréfi, dags. 9. maí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 8. júní 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir endurskoðun á ákvörðun um tveggja mánaða viðurlög fyrir að mæta ekki í viðtal á þjónustuskrifstofu þann 4. apríl 2023. Þann 3. apríl 2023 hafi tvíburar kæranda, fæddir X, veikst af rótarveiru og allt það kvöld og um nóttina hafi þeir fengið alvarleg uppköst og niðurgang. Þar sem kærandi hafi verið á íslenskunámskeiði frá febrúarmánuði hafi hún beðið vinkonu sína um að passa börnin 4. apríl 2023 frá klukkan 9 til 14. Kærandi hafi ætlað að fara í viðtalið á þjónustuskrifstofunni 4. apríl 2023 klukkan 13 en börnunum hafi farið að líða miklu verr. Kærandi hafi þurft að þvo börnin og íbúðina af ælu og gefa börnunum lyf. Vinkona kæranda hafi ekki ráðið við tvö veik börn ein. Vegna þessa hafi kærandi alveg gleymt að huga að tímanum og hafi misst af fundinum. Meðan á taugaveikluninni hafi staðið hafi kærandi fengið ofnæmi og rótarveiru. Þá hafi elsti sonurinn, fæddur X, líka veikst af rótraveiru. Þau hafi öll verið veik til 11. apríl. Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi valdið kæranda mikilli streitu og örvæntingu. Í kjölfarið hafi kærandi átt við alvarleg heilsufarsvandamál að stríða og leitað læknishjálpar. Frá 15. apríl hafi kærandi verið í veikindaleyfi og í læknismeðferð. Kærandi sjái ekki mögulega leið út úr þessari stöðu. Kærandi þurfi að velja á milli þess að borga leigu og kaupa mat fyrir börnin sín þrjú og það sé ómögulegt að gera.

Kærandi tekur fram að hún hafi komið til Íslands árið 2013 og hafi verið stöðugt að vinna hörðum höndum frá þeim tíma. Kærandi geri sitt besta til að fá nýja vinnu. Hún sé að læra íslensku og að fara á vinnufundi. Kærandi hafi verið í nokkrum störfum síðastliðið ár en nú finni hún enga vinnu. Kærandi sé í algjörri örvæntingu því þau geti ekki verið án atvinnuleysisbóta. Kærandi óski eftir skilningi á aðstæðum hennar sem og að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta til Vinnumálastofnunar með umsókn, dags. 1. desember 2022. Með erindi, dags. 5. janúar 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Þann 3. apríl 2023 hafi kærandi verið boðuð til fundar á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar í Reykjavík. Umræddur fundur hafi átt að fara fram daginn eftir, eða þann 4. apríl 2023 klukkan 13:00. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll bæri að boða án ástæðulausrar tafar. Kæranda hafi jafnframt verið tjáð að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar yrðu stöðvaðar. Boðunin hafi verið send á uppgefið netfang kæranda, með tilkynningu á ,,Mínum síðum“ og með smáskilaboðum í farsíma klukkan 10:48 þann 3. apríl 2023. Kærandi hafi hvorki mætt til umrædds fundar né boðað forföll.

Með erindi, dags. 11. apríl 2023, hafi verið óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á ástæðum þess að hún hafi ekki mætt til boðaðs fundar. Áréttað hafi verið að hefði kærandi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum án gildra ástæðna gæti hún þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta. Skýringar kæranda hafi borist Vinnumálastofnun þann 14. apríl 2023. Kærandi hafi tekið fram að hún hefði ekki mætt til fundar þar sem hún hefði einfaldlega steingleymt því. Barn kæranda hefði verið veikt þann 4. apríl og hún farið með það til læknis. Kærandi hafi afhent stofnuninni læknisvottorð, útgefið 11. apríl 2023, þar sem fram komi að kærandi hafi verið með öllu óvinnufær á tímabilinu 3. apríl til 11. apríl 2023 vegna veikinda barns. Þá hafi kærandi sagst vera á íslenskunámskeiði á vegum stofnunarinnar og hafi mætt á námskeiðið alla daga, þrátt fyrir veikindi barnsins.

Með erindi, dags. 18. apríl 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að bótaréttur hennar skyldi felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hefði ekki tilkynnt stofnuninni tafarlaust um óvinnufærni sökum veikinda barns.

Þann 19. apríl 2023 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda. Kærandi hafi óskað þess að stofnunin myndi endurskoða fyrri ákvörðun sína um viðurlög. Kærandi hafi sagt að börn hennar tvö hefðu veikst af rótarveiru þann 3. apríl. Hún hafi pantað tíma hjá vinkonu sinni til að sjá um börnin þann 4. apríl en þegar hún hafi verið á leið á boðaðan fund hafi heilsa barna hennar versnað. Hún hafi þurft að annast börn sín í veikindum þeirra og af þeirri ástæðu hafi hún gleymt boðuðum fundi og misst af honum. Að auki hafi hún sjálf veikst af rótarveiru og fengið ofnæmi. Kærandi og börn hennar hefðu verið veik til 11. apríl 2023. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi komið til Íslands árið 2013 og allan þann tíma unnið hörðum höndum. Hún geri sitt besta til að finna vinnu, hún læri íslensku og fari á vinnufundi. Kærandi hafi sagst vera í örvæntingu því hún gæti ekki verið án atvinnuleysisbóta. Með þessum tölvupósti hafi áðurnefnt læknisvottorð, útgefið 11. apríl 2023, fylgt með, auk ljósmynda af ofnæmi kæranda.

Í kjölfarið hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju. Með erindi, dags. 24. apríl 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að það væri mat stofnunarinnar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hennar, dags. 18. apríl 2023, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist í máli hennar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt til fundar þann 4. apríl 2023. Með boðun, dags. 3. apríl 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að skyldumæting væri til umrædds fundar og að öll forföll þyrfti að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Kærandi hafi veitt þær skýringar að hún hefði ekki mætt sökum veikinda barna hennar. Fyrir liggi læknisvottorð, útgefið 11. apríl 2023, þar sem fram komi að kærandi hafi verið með öllu óvinnufær á tímabilinu 3. apríl til 11. apríl 2023 vegna veikinda barns.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. apríl 2023, hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum í tvö mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hún hafi ekki tilkynnt stofnuninni um veikindi sín án ástæðulausrar tafar. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé rík áhersla lögð á upplýsingaskyldu atvinnuleitanda gagnvart Vinnumálastofnun. Þannig sé meðal annars í 3. mgr. 9. gr. laganna kveðið á um að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Upplýsingaskylda atvinnuleitanda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknarferlis um atvinnuleysisbætur. Við upphaf umsóknar séu margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur kynnt atvinnuleitendum, þar á meðal um upplýsingaskyldu. Í lok umsóknarferlis staðfesti allir atvinnuleitendur að þeir hafi kynnt sér þau atriði.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitendum að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum þeirra að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. 14. gr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segi í 5. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Að mati Vinnumálastofnunar gildi slíkt hið sama um þá einstaklinga sem séu óvinnufærir vegna veikinda þeirra barna sem þeir beri umönnunarskyldu gagnvart.

Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um óvinnufærni sína fyrr en rúmlega viku eftir að þau hafi hafist og ekki fyrr en stofnunin hafi leitað eftir skýringum á ástæðum þess að hún hafi ekki sinnt skyldu sinni til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræði á vegum stofnunarinnar. Slíkt uppfylli að mati stofnunarinnar ekki áskilnað 2. mgr. og 5. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun þyki rétt að árétta í þessu samhengi að tilkynningu um veikindi þurfi ekki að fylgja læknisvottorð nema stofnunin óski sérstaklega eftir því, sbr. lokamálslið 5. mgr. 14. gr. laganna. Fullnægjandi tilkynning í skilningi 2. mgr. 14. gr. geti því verið til að mynda tölvupóstur eða símhringing til stofnunarinnar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi beri að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 skal sá sem telst tryggður á grundvelli laganna upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segir meðal annars í 5. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar. Jafnframt skuli hann skila inn læknisvottorði innan viku frá lokum veikindanna, óski Vinnumálastofnun eftir því.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mætti ekki á boðaðan fund hjá Vinnumálastofnunar vegna veikinda barna hennar. Þá liggur fyrir að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um óvinnufærni sína vegna veikinda barnanna fyrr en rúmlega viku eftir að veikindin hófust og ekki fyrr en stofnunin hafði leitað eftir skýringum á því hvers vegna hún hafi ekki mætt til boðaðs fundar hjá stofnuninni.

Í ljósi upplýsingaskyldu 3. mgr. 9. gr., 2. og 5. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hún tilkynnti stofnuninni ekki strax um óvinnufærni sína vegna veikinda barna. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um viðurlög við slíku broti. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 18. apríl 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta