Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 70/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. maí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 70/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 26. júní 2014, var kæranda A, tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja beiðni hans um endurupptöku máls hans samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 1. ágúst 2014. Kærandi krefst þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð og skýringar hans teknar gildar. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 27. október 2011.

Vinnumálastofnun bárust upplýsingar þess efnis að kærandi hefði verið erlendis á tímabilinu desember 2011 til febrúar 2012 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Óskað var skýringa kæranda með bréfi, dags. 22. janúar 2013, og í svari hans kvaðst hann ekki hafa verið erlendis á umræddum tíma. Hann væri jafnframt búinn að kæra stuld á vegabréfi sínu. Vinnumálastofnun mat skýringar kæranda ekki gildar og stöðvaði af þeim sökum greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með ákvörðun sinni frá 7. febrúar 2013. Honum var jafnframt tilkynnt að hann hefði af þessum sökum fengið ofgreiddar atvinnuleysibætur fyrir umrætt tímabil sem yrðu innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Mál kæranda var endurupptekið hjá Vinnumálastofnun 18. febrúar 2013 í kjölfar bréfs kæranda til stofnunarinnar 11. febrúar 2013. Með bréfi, dags. 18. febrúar 2013, var honum tilkynnt sú ákvörðun að fyrri ákvörðun hefði verið staðfest þar sem ný gögn hafi ekki þótt gefa tilefni til nýrrar ákvörðunar. Kærandi óskaði enn eftir endurupptöku á máli sínu með bréfi, dags. 15. júní 2014. Honum var tilkynnt með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. júní 2014, að ákveðið hefði verið að synja beiðni hans um endurupptöku.

 Eins og fram hefur komið tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú ákvörðun var tilkynnt honum með bréfi, dags. 7. febrúar 2013. Kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgera vegna þeirrar ákvörðun var því liðinn þegar kærandi sendi kæru sína vegna málsins. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar að staðfesta fyrri ákvörðun í máli kæranda, sem var tilkynnt honum með bréfi 18. febrúar 2013, var einnig liðinn. Kæra þessi snýst því um synjun Vinnumálastofnunar á endurupptöku ákvörðunar stofnunarinnar í máli kæranda sem honum var tilkynnt með bréfi, dags. 26. júní 2014.

Í kæru sinni krefst kærandi þess að framlagðar skýringar hans verði teknar gildar og telur hann að tollayfirvöld geti staðfest þær. Hann hafi ekki verið erlendis dagana 2. desember 2011 til 10. febrúar 2012. Hann kveðst þó í kærunni hafa verið erlendis dagana 10. febrúar til 17. febrúar 2012. Kærandi kveðst hafa staðfest vottorð vinnuveitenda um atvinnuþátttöku hans á síðustu árum og telur hann að það sýni fram á að hann hafi ávallt stundað vinnu og sé langt í frá að reyna að misnota atvinnuleysisbótakerfið.

Kærandi vekur einnig athygli á því að hann sé með skerta starfsorku samkvæmt læknisvottorði en hafi engu að síður alltaf stundað fulla vinnu og telji hann það einnig sýna að ekki sé um misnotkun á kerfinu að ræða.

Kærandi bendir á að sá aðili sem gefið hafi upplýsingar um ferðir hans úr landi á umræddum tíma hafi átt í útistöðum við kæranda vegna annarra mála. Kærandi telur það styðja það sem hann hafi haldið fram að þessi aðili hafi verið að hefna sín á honum með því að reyna að koma honum í vandræði hjá Vinnumálastofnun.

Í kærunni kemur fram að kærandi staðfesti að hann hafi verið erlendis dagana 10. til 17. febrúar 2012 en hann vill taka það fram að hann hafi ekki haft upplýsingar um að honum bæri að tilkynna það til Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. ágúst 2014, vísar Vinnumálastofnun til þess að í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé mælt fyrir um heimild stjórnvalda til að taka mál upp að nýju. Við meðferð á endurupptökubeiðni beri stjórnvaldi að kanna þær röksemdafærslur sem liggi að baki endurupptökubeiðni aðila og meta hvort skilyrði 1. mgr. 24 gr. stjórnsýslulaga séu uppfyllt. Í tilfelli kæranda neiti hann að hafa verið staddur erlendis á umræddu tímabili. Samkvæmt upplýsingum frá tollayfirvöldum hafi kærandi verið staddur erlendis tímabilið 2. desember 2011 til 10. febrúar 2012 og hafi kæranda ekki tekist að sýna fram á annað.

Endurupptökubeiðni kæranda hafi verið tekin fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 15. júní 2014. Hafi það verið mat Vinnumálastofnunar að engin ný gögn væru fram komin sem gætu haft þýðingu í máli kæranda og þar af leiðandi væru ekki veigamiklar ástæður til að taka málið fyrir að nýju. Hafi það verið niðurstaða Vinnumálastofnunar, sem tilkynnt hafi verið kæranda með bréfi, dags. 26. júní 2014, að endurupptökubeiðni væri synjað.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. ágúst 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. september 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Greiðslur atvinnuleysisbóta voru stöðvaðar til kæranda með ákvörðun Vinnumálastofnunar 7. febrúar 2013 þar sem kærandi þáði slíkar greiðslur án þess að eiga rétt á þeim vegna þess að hann var staddur erlendis dagana 2. desember 2011 til 10. febrúar 2012. Var honum enn fremur gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir sama tímabil að fjárhæð samtals 252.378 kr. með 15% álagi. Þessari ákvörðun Vinnumálastofnunar var ekki skotið til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 Kærandi hefur farið fram á endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga með tilliti til nýrra gagna. Í 24. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um endurupptöku máls og hljóðar 1. mgr. lagagreinarinnar svona:

 „Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

 Í athugasemdum við 24. gr. lagafrumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, segir meðal annars að skv. 2. tölul. 1. mgr. eigi aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talið sé að hafi réttlætt slíka ákvörðun, hafi breyst verulega sé eðlilegt að aðili eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunin niður eða milda hana. Ákvæði þetta hafi náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr. stjórnsýslulaga.

 Samkvæmt upplýsingum frá tollayfirvöldum var kærandi staddur erlendis 2. desember 2011 til 10. febrúar 2012. Kærandi hefur mótmælt því en segir þó í kæru að hann hafi verið erlendis dagana 10. febrúar til 17. febrúar 2012 og segir að sér hafi ekki verið kunnugt um að honum bæri að tilkynna slíkt. Ekki er að finna meðal gagna málsins nokkur gögn sem styðja þá staðhæfingu kæranda að hann hafi verið á landinu á tímabilinu 2. desember 2011 til 10. febrúar 2012. Í ljósi framanskráðs verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Hin kærða ákvörðun er því í ljósi framanskráðs og samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga staðfest.

  

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 26. júní 2014 er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta