Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 22/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 16. febrúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 22/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, var skráður í vinnumarkaðsúrræði á tímabilinu 11. júní til 10. september 2010. Í því fólst að gerður var þríhliða starfsþjálfunarsamningur milli kæranda, B ehf. og Vinnumálastofnunar. Að liðnum samningnum hlaut kærandi launað starf hjá B ehf. og lauk starfi hans þar þann 31. október 2010. Þann 8. nóvember 2010 hafði kærandi samband við Vinnumálastofnun og tilkynnti um launaða starfið og var í kjölfarið afskráður hjá stofnuninni og honum leiðbeint um að leggja inn nýja umsókn. Það gerði hann og var skráður að nýju þann 8. nóvember 2010. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. nóvember til 8. nóvember 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 2. febrúar 2009. Eins og fram hefur komið var hann skráður í vinnumarkaðsúrræði á tímabilinu 11. júní til 10. september 2010. Um var að ræða þríhliða starfsþjálfunarsamning milli kæranda, B ehf. og Vinnumálastofnunar. Að liðnum samningnum hlaut kærandi launað starf hjá B ehf. og lauk starfi hans þar þann 31. október 2010. Þann 8. nóvember 2010 hafði kærandi samband við Vinnumálastofnun og tilkynnti um launaða starfið og var í kjölfarið afskráður hjá stofnuninni og honum leiðbeint um að leggja inn nýja umsókn. Það gerði hann og var skráður að nýju þann 8. nóvember 2010. Þann 10. desember 2010 barst Vinnumálastofnun tölvupóstur frá kæranda þar sem hann skýrði frá því að hann hefði staðið í þeirri trú að hann yrði sjálfkrafa skráður aftur á atvinnuleysisskrá þegar starfi hans hjá B ehf. lyki og óskaði hann eftir leiðréttingu á málinu vegna misskilnings hans. Kærandi kveðst hafa rangtúlkað reglur um vinnumarkaðsúrræði og talið sig vera skráðan atvinnulausan þann tíma sem hann hafi unnið hjá B ehf. Kærandi tekur fram að Vinnumálastofnun hafi ekki gert mistök í máli þessu.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 23. júní 2011, er vísað í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiða kæranda ekki atvinnuleysistryggingar fyrir tímabilið 1. nóvember til 8. nóvember 2010 þar sem hann hafi ekki verið skráður atvinnulaus hjá stofnuninni þann tíma. Stofnunin bendir einnig á að eðli málsins samkvæmt sé það grundvallarskilyrði til að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga að hinn tryggði sæki um slíkt til Vinnumálastofnunar og styðjist sú skipan við þau rök að það sé á valdi atvinnuleitenda að sækja um atvinnuleysisbætur og að umsókn þeirra leggi grunninn að afgreiðslu hvers máls.

Kærandi hafi undirritað starfsþjálfunarsamning hjá Vinnumálastofnun og hafi starfstími kæranda hjá fyrirtækinu B ehf. varað samkvæmt samningi frá 11. júní til 11. september 2010. Hafi kærandi staðfest atvinnuleit á meðan starfsþjálfunarsamningur hafi verið í gildi. Eftir að samningi hafi lokið hafi kæranda boðist áframhaldandi störf hjá fyrirtækinu. Hafi kærandi starfað þar til 31. október 2010 samkvæmt fyrirliggjandi vinnuveitendavottorði. Hefði kærandi átt að vera afskráður af atvinnuleysisskrá það tímabil enda hafi hann ekki uppfyllt hin almennu skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á þeim tíma. Kærandi hafi engu að síður haldið áfram að staðfesta atvinnuleit sína á heimasíðu stofnunarinnar og hafi Vinnumálastofnun ekki verið ljóst að kærandi hefði haldið áfram störfum hjá fyrirtækinu. Kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun fyrst þann 8. nóvember 2010 að hann hefði haldið áfram störfum frá 11. september til 31. október 2010 hjá B ehf. Hafi kærandi verið afskráður hjá stofnuninni það tímabil og honum bent á að sækja um greiðslur atvinnuleysistryggingar á ný. Kærandi hafi skráð sig aftur atvinnulausan hjá stofnuninni sam dag, þ.e. 8. nóvember 2010. Samkvæmt skýru orðalagi 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu atvinnuleysistryggingar greiddar frá og með þeim degi er Vinnumálastofnun tekur við umsókn um atvinnuleysisbætur og eigi kærandi því rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga frá og með 8. nóvember 2010.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. júní 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. júní 2011. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur þegar þeir verða atvinnulausir. Í lagagreininni er gerð nánari grein fyrir umsóknum um atvinnuleysisbætur, þ.e. hvernig þeim skuli háttað, hvað þeim skuli fylgja og hvað skuli koma þar fram. Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 2. febrúar 2009. Hann gerði þríhliða starfsþjálfunarsamning við Vinnumálastofnun og B ehf. fyrir tímabilið 11. júní til 10. september 2010. Kærandi staðfesti atvinnuleit sína þann tíma sem starfsþjálfunarsamningurinn var í gildi. Kæranda bauðst áframhaldandi starf hjá fyrirtækinu eftir að samningnum lauk. Hann starfaði þar til 31. október 2010 samkvæmt fyrirliggjandi vinnuveitendavottorði. Það tímabil hefði hann átt að vera afskráður af atvinnuleysisskrá enda uppfyllti hann þá ekki almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Hann hélt þó áfram að skrá sig og hefur komið fram af hans hálfu að hann hafi talið sig eiga að gera það. Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun fyrst þann 8. nóvember 2010 að hann hefði haldið áfram störfum til 31. október 2010 hjá B ehf. Kærandi var afskráður fyrir framangreint tímabil. Hann skráði sig aftur atvinnulausan 8. nóvember 2010 og krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir 1. nóvember til 8. nóvember 2010.

Skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur er að fyrir liggi umsókn kæranda þar að lútandi skv. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Eins og rakið hefur verið lá ekki fyrir umsókn frá kæranda fyrr en 8. nóvember 2010. Þykir því nauðsyn bera til að staðfesta hina kærðu ákvörðun þess efnis að hann eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá 1. nóvember til 7. nóvember 2010.

 

Úrskurðarorð

Kærandi, A, á ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu frá 1. nóvember til 7. nóvember 2010.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta