Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 24/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 16. febrúar 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 24/2011.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að umsókn kæranda, A, um atvinnuleysisbætur var hafnað á fundi Vinnumálastofnunar þann 28. janúar 2011. Ástæðan var sú að vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 19. gr., sbr. 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi krefst þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við bótarétt sinn. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 12. mars 2010 en umsókn hans var hafnað á þeim grundvelli að vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt framlögðum gögnum nægði ekki til þess að mynda lágmarks bótarétt, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi skilaði þann 23. júní 2010 inn afriti af landbúnaðarskýrslu, vegna B, sem var fylgiskjal með skattframtali árið 2009. Í kjölfarið var umsókn kæranda tekin aftur fyrir á fundi hjá Vinnumálastofnun þann 30. ágúst 2010. Umsókninni var aftur hafnað þar sem kærandi náði ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. b-lið 3. gr. laganna. Kæranda var leiðbeint um að skila afriti af skattaskýrslu en ekki landbúnaðarskýrslu síðasta tekjuárs til Vinnumálastofnunar svo unnt væri að endurmeta rétt hans til atvinnuleysistrygginga. Svör bárust frá kæranda 30. desember 2010. Málið var í kjölfarið endurupptekið og var á fundi stofnunarinnar þann 28. janúar 2011 ákveðið að hafna umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysistrygginga í þriðja sinn þar sem hann hafði ekki staðið skila á tryggingagjaldi líkt og mælt er fyrir um í 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi kveður launagreiðanda sinn, B, hafa rekið búið á jörð þeirra hjóna síðan það hafi verið stofnað árið 1990 og greitt tryggingagjald og laun hans. Það hafi skilað landbúnaðarframtali vegna rekstrarársins 2009 þann 7. júní 2010 og hafi það verið hluti af framtali kæranda og maka hans vegna þess að félagsbúið hafi ekki verið sjálfstæður skattaðili. Hann kunni ekki að skýra ástæðu þess. Ríkisskattstjóri hafi ekki lokið athugun sinni á skýrslunni fyrr en þann 29. desember 2010 sem jafnframt hafi verið leiðrétting á álagningu, sama dag hafi verið sent inn afrit af framtalinu til Vinnumálastofnunar sem hafi hafnað því þann 28. janúar 2011. Samkvæmt vottorði vinnuveitenda, B, dags. 15. mars 2010, lét kærandi af störfum þann 28. febrúar 2010 vegna þess að fyrirtækið hætti.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 8. júlí 2011, kemur fram að skv. b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist sjálfstætt starfandi einstaklingur að fullu tryggður eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um greiðslur atvinnuleysistrygginga til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Í 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um ávinnslutímabil sjálfstætt starfandi einstaklinga. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiði staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi einu sinni á ári, ársmaður í skilningi laga um tekjuskatt, sem sé að meðaltali lægra en 25% af viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði á síðasta tekjuári áður en hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga til Vinnumálastofnunar teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum. Til þess að reikna tryggingahlutfall sjálfstætt starfandi einstaklings sem greiði staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi einu sinni á ári skuli finna mánaðarlegar meðaltekjur hins tryggða í formi reiknaðs endurgjalds yfir síðasta tekjuár áður en hann sæki um atvinnuleysistryggingar til stofnunarinnar. Teljist hinn sjálfstætt starfandi að fullu tryggður samkvæmt lögunum hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á síðasta tekjuári sem nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði og tryggingagjald. Hafi hinn sjálfstætt starfandi greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á sama tímabili sem séu lægri en viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði skuli tryggingahlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið af viðmiðunarfjárhæð.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar segir einnig að af fyrirliggjandi gögnum megi sjá að reiknað endurgjald kæranda fyrir árið 2009 nemi 1.044.000 kr. Það geri 87.000 kr. á mánuði í staðgreiðslu fyrir reiknað endurgjald. Samkvæmt flokkakerfi lágmarksviðmiðunarfjárhæðar fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald falli kærandi í flokk G3. Þar sé mælt fyrir um að lágmarksviðmiðunarfjárhæðin fyrir þann flokk skuli vera 204.000 kr. í mánaðarlaun. Af þessu sé ljóst að kærandi eigi 42% bótarétt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Í IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þar sé gert að skilyrði að sjálfstætt starfandi einstaklingur hafi stöðvað rekstur með tilkynningu þess efni til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra. Þegar metið sé hvort starfsemi hafi verið stöðvuð skuli líta til hreyfinga í virðisaukaskattskrá ríkisskattstjóra. Tilkynning um stöðvun rekstrar skuli enn fremur fela í sér yfirlýsingu um að öll starfsemi hafi verið stöðvuð og ástæður þess. Einnig skuli sjálfstætt starfandi skila inn öðrum viðeigandi gögnum er staðfesti stöðvun rekstrar. Kærandi hafi ekki tilkynnt um stöðvun rekstrar til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra.

Í bráðabirgðaákvæði VI með lögum um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að nægilegt sé að tilkynnt hafi verið um verulegan samdrátt í rekstri sem leiði til tímabundins atvinnuleysis fyrir hinn sjálfstætt starfandi einstakling. Sjálfstætt starfandi einstaklingur eigi rétt á að fá greiddar atvinnuleysistryggingar í þrjá mánuði á grundvelli þessa ákvæðis. Það sé þó gert að skilyrði að gerð sé grein fyrir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi mánaðarlega. Þar sem kærandi sé ársmaður í skilningi laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, geti fyrrgreint bráðabirgðaákvæði ekki átt við um aðstæður kæranda.

Kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á þeim tíma er umsókn hans hafi verið tekin til meðferðar hjá Vinnumálastofnun enda hafi hann ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds vegna tekna ársins 2009. Við rannsókn málsins hafi enn fremur komið í ljós að kærandi sé með opinn rekstur á eigin kennitölu og uppfylli þar af leiðandi ekki skilyrði 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 3. gr. laganna. Einnig hafi komið fram að bráðabirgðaákvæði VI gat ekki átt við um aðstæður kæranda þar sem hann er ársmaður í skilningi laga nr. 90/2003 en þar sé gert að skilyrði að hinn sjálfstætt starfandi standi mánaðarlega skil á staðgreiðslu reiknaðs endurgjalds.

 

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. júlí 2011, og var honum veittur frestur til 9. ágúst 2011 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi starfaði við búskap. Hann sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta þann 28. janúar 2011 en var hafnað eins og fram hefur komið. Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þegar þeir verða atvinnulausir skv. 1. gr., sbr. b-lið 3. gr. laganna. Í IV. kafla laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 18. gr. laganna telst sjálfstætt starfandi einstaklingur tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Í 1. mgr. 19. gr. laganna segir að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemi að lágmarki viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

Kærandi reiknaði sér endurgjald fyrir árið 2009 sem leiddi til þess að hann hefði getað átt 42% bótarétt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum. Í IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er gert að skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga að þeir hafi stöðvað rekstur með tilkynningu þess efni til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra. Þetta gerði kærandi ekki. Þá uppfyllti kærandi heldur ekki skilyrði bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar þess efnis að tilkynna um verulegan samdrátt í rekstri, en á grundvelli þess ákvæðis getur sjálfstætt starfandi einstaklingur rétt á að fá greiddar atvinnuleysistryggingar í þrjá mánuði.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og rökstuðnings Vinnumálastofnunar er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að synja A um atvinnuleysisbætur er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta