Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 130/2013

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 20. júní 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 130/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 23. september 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið staðinn að því að vinna hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 3. nóvember 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 2. maí 2012.

Vinnumálastofnun bárust þær upplýsingar frá aðilum vinnumarkaðarins að kærandi hafi verið við störf hjá B 19. júní 2013 sem verkamaður. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun 20. júní 2013 og tilkynnti að hann hefði hafið störf 14. júní 2013 og var hann afskráður frá og með þeim degi. Kæranda var sent erindi 15. ágúst þar sem honum var tilkynnt að samkvæmt gögnum frá aðilum vinnumarkaðarins hafi hann verið við störf hjá fyrirtækinu B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það fyrirfram til stofnunarinnar. Óskað var skýringa sem skyldu berast bréfleiðis til Vinnumálastofnunar eða með tölvupósti. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun símleiðis 20. ágúst 2013 þar sem hann greindi frá því að hann hefði ekki tíma til að senda skriflegar skýringar og hafi honum því verið boðið að færa fram skýringar sínar munnlega. Skýringar kæranda voru á þá leið að hann hafi gleymt að tilkynna strax um vinnu sína. Hann hafi gert það deginum eftir að eftirlitsfulltrúar hafi komið á vinnustaðinn. Skýringarnar voru skráðar í samskiptasögu kæranda.

Í kæru kæranda kemur fram að hann hafi fengið vinnuna 14. júní 2013 en ekki hringt fyrr en 19. júní 2013 eða fimm dögum seinna, einfaldlega vegna þess að hann hafi gleymt að hringja. Maðurinn sem hann hafi talað við hafi sagst „ætla að redda þessu“ og kærandi hafi beðist afsökunar á því að hafa ekki hringt fyrr. Eitthvað virðist hafa farið úrskeiðis, þar sem hann sé nú kominn á svartan lista hjá Vinnumálastofnun. Hann hafi aðeins fengið 46.739 kr. 1. júlí og hann eigi erfitt með að skilja hver ástæðan fyrir því sé.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. janúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Vinnumálastofnun greinir frá því að mál þetta varði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til  stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.

Með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað telst til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Fyrir liggi að kærandi hafi verið við störf fyrir B 19. júní 2013 þegar aðilar vinnumarkaðarins hafi hitt hann fyrir á vinnustað. Kærandi hafi haft samband 20. júní við Vinnumálastofnun til þess að tilkynna um að hann hafi hafið störf 14. júní 2013 og hafi kærandi verið afskráður frá þeim degi.

Kærandi hafi ekki tilkynnt fyrirfram um breytingar á högum sínum til Vinnumálastofnunar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt. Enda geti tilkynning sem berist stofnuninni eftir að aðili hafi verið staðinn að því að sinna ótilkynntri vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur ekki leyst viðkomandi aðila undan þeim viðurlögum sem hann skuli sæta samkvæmt skýru orðalagi laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 11. febrúar 2014. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Fyrri málsliðurinn á við í máli þessu.

Aðilar vinnumarkaðarins komu að kæranda við störf hjá B 19. júní 2013 samhliða töku atvinnuleysisbóta og án þess að hann hefði tilkynnt um vinnuna til Vinnumálastofnunar. Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun símleiðis 20. júní 2013 að hann hefði hafið störf 14. júní 2013 en hefði gleymt að tilkynna stofnuninni um það.  

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða um tekjur. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð


Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. september 2013 í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

  Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta